Októberbörn

Eins og við er að búast hefur ýmislegt á daga Bárugötufjölskyldunnar drifið að undanförnu. Hér kemur brot af því besta!

  

Einn sunnudaginn í október skelltum við okkur vestur á Stykkishólm til að heimsækja Ragnar Loga, Guðnýju og Jóhann Hrafn (eldri sonurinn á bænum, hann Elvar, var fjarri góðu gamni). Já og ekki má gleyma Tinna, litla naggrísinum þeirra. María hreinlega elskar hann út af lífinu og finnst mest spennandi í heimi að fá að gefa honum kálblöð eða gulrætur að narta í!

Tinni er eineygður eftir hetjulega baráttu við erfið veikindi!

Maríu og Huga finnst óskaplega gaman að leika við Jóhann! Það gekk þó illa að ná grísunum þremur saman á mynd þannig að allir væru almennilegir!

Nýlega rak mig í rogastans þegar ég sá að það var búið að hengja tilkynningu upp á hurðina inn í „svefnálmuna“ á Bárugötu. Hvað skyldi nú standa þarna?

Henni kippir í kynið, stúlkunni! Sjálf hef ég alltaf verið mikið fyrir reglur og hvers kyns samninga. Eins vil ég alltaf hafa fínt og snyrtilegt í kringum mig ... þó það takist ekki alltaf (en það eigum við María nú líka sameiginlegt!).

Þetta snyrtilega yfirvald missti nýlega þriðju barnatönnina ... löngu áður en það gerðist var þriðja fullorðinstönnin hins vegar komin upp á bak við! Alltaf jafnmikið að flýta sér að verða stór!

Á kvennafrídaginn skundaði öll fjölskyldan niður í bæ. Einar ákvað að leggja niður störf þó ekki sé hann kona þannig að hann gæti annast börn og bú meðan ég brýndi baráttuandann á fundinum!

Mannréttindafrömuðurinn María hafði ýmislegt við ójöfn launakjör kynjanna að athuga! Eigandi lítinn bróður veit hún að það er grundvallaratriði þegar um eitthvað órétti er að ræða að skiptast á! Fyrsta lausnin sem henni datt í hug var því að nú yrði skipt og um ótiltekinn tíma myndu karlmenn hafa lægri laun en konur. Eitthvað hefur henni þó fundist þetta óspennandi lausn hjá sjálfri sér því næst stakk hún upp á því að konur fengju að fara í sirkus í staðinn fyrir launin sem höfð hafa verið af þeim! Einhverjir hafa einmitt notað þetta sama hugtak,sirkus, yfir gjörninginn þann 24. október! Að lokum fannst henni sniðug lausn að konur fengju bara frí reglulega fyrst þær hefðu ekki betri laun! Það skyldi þó ekki hafa verið María Einarsdóttir sem stakk upp á að konur tækju sér frí frá störfum einn eftirmiðdag?!?

Hugi lét sér hins vegar fátt um finnast og var sáttur við sína SS-pylsu! Þegar tók að þrengja að flúðu börn og maður hins vegar heim á Bárugötu en húsfreyjan varð eftir í bænum og lýsti því yfir að hún þyrði, gæti og vildi!

Um kvöldið fóru grislingarnir í freyðibað. Heimilislæknirinn Einar harðbannar slíkt vanalega enda er víst stórvarasamt að stunda slík sápuböð! Undanþága fékkst þó í þetta skiptið enda átti froðan að vera sérhönnuð til að róa litla ærslabelgi fyrir svefninn!

Hugi fékk þá flugu í höfuðið að fyndið gæti verið að klessa froðunni í kringum munninn. Eitthvað fór þó öðruvísi en ætlað var og vandræðin undu hratt upp á sig þegar reynt var að þurrka sápulöðrið af munninum með enn sápulöðrugri höndum. Að endingu var æpt á aðstoð með orðunum: „Mamma, ég er með of mikið hroðubað hraman í mér“!

Ekkert benti til þess á þessum tímapunkti að þykkt löðrið væri farið að hafa tilætluð áhrif!

Yfir einhverju hefur daman augljóslega þurft að kvarta þegar þessi mynd var tekin!

María á kafi í froðu!