Öðruvísi október

Októbermánuður var öðruvísi en oft áður hjá mér. Ástæðan var sú að ég eyddi þremur vikum af honum í að klára fyrsta kaflann í ritgerðinni minni - loksins. Ég sat því flesta daga á heilsugæslunni hans Einars í lausu herbergi og reyndi að vinna. Fyrir vikið var myndavélin afskaplega lítið tekin upp, eiginlega ekkert. Þökk sé símanum mínum góða tók ég samt nokkrar myndir en þær eru vitanlega frá dálítið öðru sjónarhorni en ég er vön að birta hér. En það er annað hvort það eða ekkert albúm ... svo, gjöriði svo vel!

Miðvikudagar hafa verið ansi strembnir hjá okkur þetta haustið. Þá rétt ná María og Hugi að fá sér snarl eftir skóla áður en við rjúkum að sækja Baldur Tuma á leikskólann til að bruna niður í bæ svo Hugi komist í Michael Jackson dans á réttum tíma. Meðan hann er þar ráfum við hin um bæinn og tyllum okkur gjarnan á kaffihús í sömu byggingu og dansstúdíóið. Þegar Hugi er búinn þurfum við að fylla rúmlega hálftíma gat áður en María á að vera mætt í leiklist. Þegar búið er að skutla henni þangað komum við við í vinnunni hjá Einari til að sækja hann. Myndin er einmitt tekin í einu slíku stoppi. Svo höldum við heim og María hefur verið svo ótrúlega dugleg að hún hefur sjálf tekið strætó úr bænum þetta haust, bæði úr leiklistinni og svo í og úr kór á mánudögum. Já, símamyndirnar gefa svo sannarlega nýtt sjónarhorn á líf Konsulentanna, ef ekki væri fyrir þessa mynd af bræðrunum í læknisleik hefðuð þið aldrei fengið þetta „skemmtilega“ sýnishorn af hversdagsleika fimm manna fjölskyldu!

Ég hef sjálfsagt sagt það áður en heilsugæslan sem Einar byrjaði á um áramótin er sérstök barnaheilsugæsla. Þar starfa bæði heimilislæknar og barnalæknar, auk hjúkrunarfræðinga, sjúkraliða, sjúkraþjálfara, næringarfræðings og sálfræðings. Þar er líka afskaplega fín biðstofa fyrir krakka með þremur risastórum og flottum krítartöflum sem Baldri Tuma þykir gaman að lita á. Hér sjáið þið Hello Kitty með hatt! (Þessa mynd, eins og reyndar flestar af þessum símamyndum, er ég fyrir löngu búin að birta á Instagram (og kannski Facebook líka) svo margir hafa sennilega séð hana áður. En til að breyta aðeins til er ég með allar myndirnar óunnar hér, engir filterar eða svoleiðis fjör sem er auðvitað það skemmtilegasta við Instagram. Og á Instagram tímum er náttúrulega geðveikt flipp að birta óunnar myndir svo ég tel mig dálítinn brautryðjanda á þessu sviði!)

Á leið á leikskólann að morgni. Síðasta sumarblómið?

Á hverjum degi þurfum við að stoppa á brúnni til að skoða lækinn. Það er líka alltaf eitthvað nýtt þar, stundum er mikið vatn, stundum lítið og stundum er það frosið. Og í haust var á tímabili dansandi strá í læknum! (Hmm mér sýnist þessi mynd reyndar eitthvað instagrömmuð en ég fann ekki upphaflegu myndina.)

Ástæðan fyrir því að ég skrifaði ritgerðina á heilsugæslunni er sú að ég vinn svo margfalt betur þar enda ekkert sem glepur hugann nema eyrnaskoðunartækið og handsprittið ... og svo þessi kúkaskali sem ég eyddi reyndar töluverðum tíma í að skoða þegar einbeitinguna þvarr.

Við fengum viðarsendingu einn eftirmiðdaginn í október og við höfðum bara tvo tíma til að tæma kerruna og stafla í fína viðarskýlið okkar og það í þreifandi myrkri. Allt hafðist þetta þó með góðri samvinnu og okkur finnst mikið ríkidæmi í þessu. Viður í skýli er töluvert betra en peningur á bók segi ég!

Haustið var óvenjufallegt í ár, stóð endalaust lengi og bauð upp á nýja litadýrð á hverjum degi. Þessa mynd tók ég á leiðinni á heilsugæsluna einn morguninn.

Á heilsugæslunni eru hér og hvar kassar með verðlaunum fyrir dugleg börn. Í örvæntingu yfir ritgerðarskrifum ákvað ég einn daginn að ég fengi þennan dásamlega bleika humar þegar kaflanum væri lokið. Og nú gleður hann mig á skrifborðinu hér heima og minnir mig á afrekið. Um daginn sá ég svo túrkísbláan gúmmí-túnfisk í verðlaunakassanum og er búin að biðja Einar að taka hann frá fyrir mig og gefa mér þegar öðrum kafla er lokið. Nú er bara að bretta upp ermarnar!

         

Ég gat auðvitað ekki alveg látið hjá líða að instagramma smá í þessu albúmi. Þetta fallega tré er það fallegasta í Vänge, beint á móti leikskólanum hans Baldurs Tuma. Mér fannst ég ekki ná að fanga fegurð þess alveg nógu vel á gráum degi með símanum en Instagram kom til hjálpar! Já eða reyndar var það örugglega ekki Instagram heldur eitthvað annað myndvinnsluforrit sem ég er með í símanum.

         

Og þessa mynd tók ég eitt hádegið þegar við Einar höfðum farið út að borða og vorum á hlaupum aftur á heilsugæsluna. Myndin var alveg misheppnuð, allt of dökk og gerði dásamlegu útsýninu af Járnbrúnni engan veginn góð skil. En með myndvinnsluforriti var hægt að endurskapa allt!

Svo kom næturfrostið ...

... og Baldur Tumi fékk hrím á vettlingana sína þegar hann stóð við handriðið á brúnni og skoðaði lækinn. Fína stráið okkar hætti líka að dansa einmitt þessa nótt.

Mér finnst svo dásamlegt að geta tekið því rólega á morgnana og þurfa ekki að hlaupa eldsnemma af stað með Baldur Tuma. Ég lét ekki einu sinni dýrmætu heilsugæsludagana eyðileggja morgunstundirnar fyrir mér. Ég nýt þess að drekka kaffi (gjarnan fyrir framan arineld), kíkja í blöðin og borða morgunmat meðan Baldur Tumi dundar sér við hliðina á mér, púslar eða teiknar. Nýjasta nýtt er að skrifa bókstafi og hann kann að skrifa B, T, E, H, I, G og V! Hann hefur líka búið til sitt eigið táknmál og finnst alveg jafnmikilvægt að kunn að „skrifa“ bókstafina með fingrunum og á blað!

Það er voðalega mikið af myndum frá heilsugæslunstöðinni í þessu albúmi! Kannski af því að ég vön að eyða þar löngum stundum að bíða eftir að Einar klári eitthvað. Áður kíkti ég í leiðinleg blöð á biðstofunni en núna tek ég myndir á símann! Hér höfðum við Baldur Tumi sótt Einar í vinnuna. Hann hafði þá átt síðustu kennslustundina með læknanemunum sínum sem höfðu bakað prinsessutertu og gefið honum blómvönd að skilnaði. Við mæðginin nutum góðs af meðan Einar kláraði síðustu færslurnar í sjúkraskrárnar.

Þessi mynd var tekin fyrir ömmu Imbu sem sendi Baldri Tuma svona fínan Rorri bíl (sem ég held að heiti Hvellur á íslensku). Hann hafði einmitt um morguninn verið að kvarta undan því við okkur pabba sinn að hann ætti engan slíkan bíl og seinna sama dag fékk hann hann sem sagt sendan frá ömmu sinni á Íslandi. Hann hafði aldrei talað um að eignast Rorri bíl áður þannig að þegar mamma sendi pakkann nokkrum dögum fyrr hafði engin slík ósk verið borin upp og bíllinn bara sendur út í bláinn. Það var því fyrir algjöra tilviljun að þetta kom svona út en nú heldur barnið auðvitað að hann þurfi ekki annað en að óska sér einhvers og þá sendi amma það frá Íslandi med det samme! Kannski svolítið eins og háaloftið virkar hjá okkur núna. Þar uppi er ýmislegt geymsludót, meðal annars gömul leikföng frá Maríu og Huga. Einar kemur stundum niður með eitthvað sem hann heldur að Baldur Tumi sé orðinn nógu stór til að hafa gaman af og fyrir vikið er hann farin að halda að háaloftið sé einhvers konar dótabúð. Að minnsta kosti stendur hann fyrir neðan stigann þegar Einar þarf að brölta þangað upp og hrópar „Mig langar í Blixten bíl!!!“

Og svo sendi ég loksins kaflann til leiðbeinandans og einmitt sama dag byrjuðu María og Hugi í haustleyfi. Einn daginn skruppum við í bæinn og hittum Einar á indverska staðnum okkar í hádeginu. Því miður komum við allt of sjaldan þangað núna því nýja vinnan hans Einars er í hinum enda bæjarins. Það er til marks um þetta að eigandinn spurði Einar þennan dag „Hvað heitirðu aftur?“ en hann hefur hingað til tekið á móti Einari með glaðlegu „Tjena, Einar!“ hrópi. Reyndar virðist nafnið hafa fest í sessi aftur. Eigandinn kom nefnilega í Vänge skola nokkrum dögum síðar til að kenna krökkunum krikket. Þar sem öllum þótti það ákaflega skemmtileg íþrótt skráðu flestir sig á lista yfir þá sem hefðu áhuga á að æfa íþróttina og þar átti að gefa upp nöfn foreldra. Þegar María skrifaði nafn pabba síns spurði maðurinn glaður „Kemur pabbi þinn stundum að borða á New India?“ Já það er gott að búa í litlu samfélagi!

Það er líka gott að sofa fram eftir og kúra saman í mömmurúmi í haustleyfi.

Og hér koma loksins einu myndirnar sem teknar voru á stóru myndavélina þennan mánuðinn. Þær voru teknar fyrir komandi handavinnualbúm (sem ég veit ekki hvenær verður tilbúið miðað við hvað allt gengur hægt hjá mér!) af nýju vesti sem ég prjónaði á Baldur Tuma. Hér er reyndar fína hálsfestin sem hann gerði sér á leikskólanum í fókus! Honum finnst hún æði og vill helst skarta henni alla daga ásamt litlu úri úr tré um úlnliðinn.

Sko, nú þegar ég er búin að vera með alls konar sniðugar myndir úr símanum finn ég að gallinn við flestar fínu uppstilltu myndirnar sem teknar eru á stóru vélina hér heima er að ég hef ekkert sérstakt að segja við þær annað en bara að benda á hvað barnið er fallegt!

Hugi elskar að fá almennilegan hótelmorgunverð um helgar og steikir sér gjarnan sjálfur beikon og spælir egg. Hér var hann búinn að forma andlit úr matnum og mig minnir að þetta hafi átt að vera vondi kallinn með slönguskeggið úr Pirates of the Caribbean myndunum!

Þetta er alla vega líkt honum!