Nú haustar að

Haustið kom eiginlega í ágúst þetta árið enda rigndi næstum allan mánuðinn og svo höfðum við nóg að gera við að sinna haustverkum eins og tína epli og plómur af trjánum í garðinum, taka upp kartöflur, gulrætur og lauk úr grænmetisbeðinu - og auðvitað búa til voðalega góðan mat úr þessu öllu saman!

Við byrjuðum mánuðinn á skógarferð. Fyrstu helgina í ágúst héldum við í Fiby urskog til að leita að bláberjum. Þar hafði allt verið krökkt af berjum þegar við áttum leið um ári áður svo okkur fannst nokkuð öruggt að fara þangað í berjaferð. Að vísu vorum við ekki alveg 100% viss um að það mætti tína ber þarna þar sem skógurinn er hálfpartinn friðlýstur en sáum samt ekkert sem bannaði það (það var bara bannað að tína sveppi og blóm). Þessi fallegu rauðu ber voru víða í skóginum en við létum þau nú alveg eiga sig enda eru þau áreiðanlega alveg baneitruð eða eitthvað.

Allir sólgnir í bláber og tilbúnir að kasta sér í lyngið og tína þar til skálar og dollur væru fullar!

Einar og María við nýfallið tré. Þar sem skógurinn er friðlýstur er ekkert grisjað og fallin tré fá að liggja áfram nema þau teppi stíginn. Þetta tré var einmitt þvert á gönguleiðinni svo það verður væntanlega flutt til í framtíðinni.

Þegar við komum loksins á bláberjasvæðið urðum við fyrir gríðarlegum vonbrigðum. Þar sem allt var krökkt af sætum og safaríkum berjum í fyrra voru nú bara ber á stangli og flest voðalega lítil og bragðvond. Við komumst svo að því eftir þessa misheppnuðu ferð að hér í Svíþjóð hefur berjaárið þótt einstaklega slæmt og það hefur ekki verið hægt að tína neitt að ráði nema alveg nyrst. Hér gengur hnípinn Einar með tóma dollu eftir geitahryggnum á leiðinni til baka.

  

Þetta var þó alls ekki tilgangslaus ferð því við sáum frosk í skóginum! Hann var alveg agnarlítill og stökk svo hratt yfir að það var erfitt að ná af honum mynd. Sú til vinstri er alveg úr fókus en formið á frosknum sést þó ágætlega. Ég bendi á að hann er að skríða í mosa þannig að þið áttið ykkur á því hvað hann var ponsulítill! Hægri myndin er í fókus og ef þið horfið vel sjáið þið hann þarna fyrir miðri mynd.

Mér finnast sveppir alveg stórkostlega fallegir og merkilegir! Við ráðgerðum að fara í sveppaferð nokkrum vikum eftir þessa misheppnuðu berjaferð (sveppaárið ku nefnilega hafa verið gott) en hættum snarlega við þegar allir fjölmiðlar tóku að keppast við að birta fréttir af konu sem hafði dáið á sjúkrahúsi í Gautaborg eftir að hafa borðað eitraðan svepp!

         

Byrjað að rigna og börnin á leið út í sjoppu í nammileiðangur. Þetta var 2. ágúst og það rigndi nánast á hverjum degi það sem eftir var mánaðarins.

Þann 2. ágúst fengum við líka góða gesti þegar Helga, Sigurjón og Sólrún sóttu okkur heim alla leið frá Belgíu! Þau litu hér við í eftirmiðdagskaffi í árlegri Svíþjóðarferð sinni og glöddu okkur mjög! Hér eru María og Sólrún „útilabba“ í rigningunni.

María setti á sig húfu (þótt eiginlega væri allt of heitt til að vera með höfuðbúnað) og þá vildi Sólrún auðvitað ekki vera minni kona og skellti því á sig þessari derhúfu af Huga! Því miður festust Helga og Sigurjón ekki á filmu í þetta skiptið en hver veit nema við náum eins og einni mynd af þeim þegar við hermum upp á þau kaffiboð í Brussel í fjarlægri framtíð!

Þessa litlu hvali heklaði ég handa stóru litlu börnunum mínum í sumar. Ég er mun ánægðari með þann dekkri sem María á en hann gerði ég seinna og ákvað þá bara að stilla augum og munni upp eins og mér fannst passa best og „strunta“ í uppskriftina. Huga hvalur heitir Snúlli en María er búin gleyma hvað sinn heitir! (Það er líka alveg leyfilegt að hafa takmarkaðan áhuga á hekluðum hvölum þegar maður er á níunda ári! Mig fer að vanta lítið barn á heimlið til að ég geti fengið löglega útrás fyrir öll þessi smábarnalegu sauma-, prjóna- og hekluverkefni!)

Anna Björg kom og heimsótti okkur í ágúst. Hún hjálpaði okkur meðal annars að tína epli og hér eru þær frænkurnar búnar að búa til voða krúttlegan eplafíl með stór eyru!

Við drifum hana líka með okkur á herragarðinn i kaffi og kökur sem var mjög notalegt þrátt fyrir rigninguna úti. Hins vegar er algjört hneyksli að ég skuli ekki eiga nema þessar tvær myndir af Önnu Björgu úr ferðinni sem þó varði í nokkra daga!

  

Fyrsti skóladagur Huga - Húrraaaaaa!!!

Lagt af stað með nýju skólatöskurnar á bakinu. Hugi á tígrisdýratösku og María mörgæsatösku.

Við foreldrarnir fengum að taka þátt í fyrstu samverustundinni í FA. Hér sjáið þið okkar mann fyrir miðri mynd og til vinstri standa svo kennararnir hans, fröken Karin og fröken Eddie. Hann lét svo sannarlega engan bilbug á sér finna, svaraði hátt og snjallt þegar hann var spurður hvað hann hefði gert í sumar „Jag har badat.“ Hann gaf sig líka fyrstur fram til að fara upp að töflunni og draga hring utan um nafnið sitt. Við foreldrarnir vorum auðvitað að springa úr stolti.

Eftir að við foreldrarnir höfðum verið gerð brottræk úr skólastofunni og ég var búin að skutla Einari í vinnuna stökk ég einn hring í skóginum mínum og hitti þennan sæta íkorna sem þið sjáið kannski (eða ekki!) fyrir miðri mynd. Ég held að ég sé búin að þróa með mér ofurnæmt eyra fyrir íkornahljóðum! Að minnsta kosti heyri ég yfirleitt í þeim áður en ég sé þá og get greint krafshljóðin þeirra frá öðru krafsi í skóginum.

         

Rútínan mín hefur breyst heilmikið eftir að Hugi byrjaði í Vänge skola. Í staðinn fyrir að fara í langa bíltúra inn í bæ á morgnana og í eftirmiðdaginn röltum við saman í skólann um áttaleytið og ég rölti svo aftur þangað seinni partinn til að sækja þau. Einn daginn í fyrstu vikunni stökk ég á peysunni til að ná í þau og að sjálfsögðu fór að rigna um leið og við lögðum af stað heim. Og það engin smá rigning. Við vorum öll gegnblaut eftir þennan rúmlega fimm mínútna göngutúr, þurftum að skipta um föt og þurrka hárið ... og svo kom auðvitað ekki annað til greina en að hita kakó eftir allt volkið!

25. ágúst og alveg kominn tími á að byrja að setja upp jólaskreytingar!

  

Við fengum heljarinnar plómuuppskeru í ár, svona miðað við undanfarin haust að minnsta kosti! Eftir langa íhugun ákváðum við að nota þær allar í eina risastóra og girnilega plómuböku. Í tilefni af þessu keypti ég mér nýtt bökuform með lausum botni sem ég er ótrúlega ánægð með. Finnst ykkur þetta ekki líta út alveg eins og á kaffihúsi eða í bakaríi? Að vísu finnst mér þessi kaka aðeins minna girnileg eftir að María spurði mig hvort þetta væru gervineglur sem við hefðum stráð ofan á hana!