Nóvemberdagbók

                                                        2011

                   

Forsíða

Um okkur

Mín síða

Myndirnar okkar

Hafðu samband

Gestabókin okkar

 

Sunnudagurinn 27. nóvember 2011

Fyrsti sunnudagur í aðventu ...

og jólaútlit á síðunni! Ég ákvað að segja öllum snjókornum upp þetta árið. Ég held ég hafi aldrei sett upp jólasíðu án þess að fylla allt af snjó en í ár gat ég ekki hugsað mér það. Eftir að hafa upplifað frost og snjó í sex mánuði samfellt síðasta vetur er ég ótrúlega þakklát fyrir þetta milda haust og liggur ekkert á að sjá snjóinn, hvorki í garðinum mínum né hér á síðunni! Í staðinn fá rauðir fuglar, ber og kransar að halda uppi jólastemmningunni.

Ég ákvað líka að sleppa mannlega aðventukransinum á forsíðunni. Að vísu með mikilli eftirsjá. En það er alveg nógu mikið mál að þurfa að ná einni góðri mynd af fimm einstaklingum, sérstaklega þegar einn þeirra er tveggja ára og hefur lítinn áhuga á að sitja kyrr og brosa eftir pöntun. Að ætla að tvöfalda myndafjöldann plús að vera með kerti sem ekki má detta út úr mynd en ekki heldur kveikja í fólki er bara til að senda fólk á hæli! Ég vona að alls kyns stjörnur, piparkökur og pakkastaflar bæti forsíðuna upp!

Hvað heimiliskransinn varðar er hins vegar allt með hefðbundnu sniði, ójá. Í lífsins ólgusjó er alla vega gott að einhverjir siðir séu hafðir í heiðri ár eftir ár eftir ár ... eins og sá að við Einar sitjum með vökustaura aðfaranótt fyrsta sunnudags í aðventu, sötrum jólabjór og flækjum saman grenigreinum:

Aðventukrans og fyrsti sunnudagur í aðventu 2011

Megi þessi langa aðventa verða ljúf  ... og lengi að líða!

 

Sunnudagurinn 13. nóvember 2011

Haaaalelúja, halelújahalelúja ...

Svei mér þá ef ég er ekki bara búin að setja upp FrontPage 2003 í nýju tölvunni, hlaða síðunni af netinu yfir í forritið og uppfæra nýtt efni:

Haustið enn á ný

Allt sem gerðist í október

Tæknideild Okkar síðu vill færa Rósu Mundu og Sveini innilegar þakkir fyrir aðstoðina. Ef við fengjum einhverju um hlutina ráðið yrðu þau sæmd Fálkaorðu við fyrsta tækifæri! Fyrir utan að forritið þrjóskast við og vill endilega vera á sænsku hvað sem ég reyni að stilla það held ég að þetta sé allt saman klappað og klárt. Nú vonum við að þessum lágdeyðukafla í sögu síðunnar sé lokið og að hér verði uppfært nýtt efni oft á dag og kommentin og kveðjurnar sópast inn!

P.s. Bókmenntadeild Okkar síðu vill líka færa Hrefnu Sigurjónsdóttur kærar þakkir fyrir ljóðið um marglyttuna. Ef við fengjum einhverju um hlutina ráðið fengi hún Hin íslensku bókmenntaverðlaun við fyrsta tækifæri!

 

Forsíða     Um okkur     Mín síða     Myndirnar okkar     Hafðu samband     Gestabókin okkar