Nóvemberdagbók 2009

 

Forsíða

Um okkur

Mín síða

Myndirnar okkar

Hafðu samband

Gestabókin okkar

 

29. nóvember 2009

Fyrsti sunnudagur í aðventu

Úti er enn allt í óreiðu, sólhlífarnar og stiginn á sínum stað og enn er ekki búið að borga reikninginn úr eldiviðarstaflanum. En inni ... inni er allt ó svo dásamlegt! Inni er fyrsti sunnudagur í aðventu með fallegasta aðventukransi í heimi, eplaskífum og heitu kaffi, jólaseríu, Håkan Hellström og þremur litlum og hamingjusömum jólaenglum. Og svo snjóar! Að vísu bara hér á heimasíðunni en vetrarbylur er jólaþemað á Okkar síðu í ár. Mannlegi aðventukransinn er á sínum stað (það verða bara tveir að deila einu kerti næstu árin ... nema við bætum við barni!) og aðventukransaalbúmið líka:

Aðventukrans og fyrsti sunnudagur í aðventu 2009

Ég óska ykkur af öllu hjarta gleðilegrar, hamingjuríkrar, hátíðlegrar og kærleiksfullrar aðventu.

 

27. nóvember 2009

Sex mánuðir með Baldri Tuma

Hann er sex mánaða í dag litli stúfurinn okkar! Ég er einhvern veginn alls ekki að meðtaka það að fyrsta árið sé hálfnað! Finnst hann enn svo glænýr. Það er auðvitað ekki vinnandi vegur að lýsa með orðum hvað hann er æðislegur og hvað við elskum hann mikið svo ég læt sex litla mola nægja, einn fyrir hvern mánuð í selskap þessa litla ljóss:

* Ég skildi ekki alveg af hverju hann varð alltaf svona kátur þegar ég klæddi hann úr bolum og samfellum, hann fór alltaf að hlæja hástöfum. Eftir smá tíma fattaði ég að hann er svona hræðilega kitlinn! Hann þarf að vera í mjög vondu skapi til að maður fái ekki klingjandi hlátrasköll frá honum ef maður kitlar hann í hálskot eða handakrika!

* Hann er með krúttlegustu táfýlu í heimi!

* Hann heyrir afburðavel! Hræðilegust finnst honum hljóðin úr bréfpokum sem krumpaðir eru saman, skemmtilegast finnst honum að hlusta á söng. Áðan hlustuðum við saman á Håkan Hellström syngja Gläns över sjö och strand og ég sá næstum hvernig hann sperrti eyrun alvarlegur á svip. Sjálf var ég næstum farin að skæla, bæði út af Håkan og yfir litla tónlistarunnandanum!

* Það er fátt betra en að sökkva nebbanum í mjúka mallakútinn hans og kyssa og knúsa!

* Hann er orðinn ótrúlega leiður á að vera lítill! Nú langar hann voðalega, voðalega mikið að læra að skríða og æfir sig bakibrotnu, rekur nebbann ofan í gólfið og lyfir litla bleiubossanum til að mjaka sér áfram. Tekur ekkert mark á mömmu sinni sem segir að best sé að læra að sitja almennilega fyrst!

Ég er svo heppin að fá að vera mamma hans.

 

24. nóvember 2009

Að elska óreiðuna

Stundum finnst mér líf mitt ein allsherjar óreiða, fullt af einhverri óviðráðanlegri hringavitleysu, klaufagangi og rugli. Eins og það að Einar fari óvart með úlpuna hans Huga með sér í vinnuna að morgni og barnið standi uppi yfirhafnarlaust fimm mínútum áður en það á að vera mætt í skólann! Eins og að við Einar höfum keypt okkur 12 manna matarstell án þess að hugsa út í að við höfum hvergi pláss fyrir það og stöndum því í selflutningum á herlegheitunum í milli eldhússbekkja, eldhússborðs og borðstofuborðs, allt eftir hvar okkur vantar pláss! Eins og að ég fái hótunar sms frá símafyrirtækinu um að þeir séu um það bil að fara að loka áskriftinni minni vegna ógreidds reiknings. Reiknings sem við héldum að við hefðum borgað en fannst svo óvænt í óopnuðu umslagi úti í bílskúr innan um eldiviðinn! Eins og að garðhúsgögnin séu enn úti í garði þótt aðventan sé um það bil að ganga í garð, sólbekkur, sólhlífar og allt! Í ofan á lag er stigi reistur upp við eplatré rétt eins og við höfum öll verið úti að njóta sumarblíðunnar og tína ávexti og bara rétt stokkið inn að fá okkur vatnssopa en gleymt okkur - í þrjá mánuði! GAAAAAAA!!! Stundum finnst mér ég svo óendanlega léleg í að halda heimilinu og lífi okkar saman að mig langar að breiða bara lak yfir hausinn á mér og rykfalla svo þannig um aldur og ævi.

En stundum tekst mér að fagna allri þessari óreiðu. Minna sjálfa mig á að ef lífið væri ekki einmitt svona þá væri það ekki lífið mitt. Og lífið mitt er þrátt fyrir óreiðuna bæði gott og fallegt. Ef við værum svona fólk sem gleymdum aldrei að senda börnin með leikfimidótið í skólann eða værum alltaf búin að sækja um fæðingarorlof á réttum tíma þá værum við ekki við. Og ef við værum ekki við þá myndum við kannski ekki búa til svona fyndna brandara saman, aldrei hafa bíókvöld á náttfötunum með sængur uppi í sófa og popp í skálum, færum engar ferðir í Hammarskog með kaffi á brúsa eða tækjum skyndiákvarðanir um að byggja hús uppi í tré. Og ef við værum ekki við með bæði kostum og göllum þá gæti ég ekki birt svona fín albúm:

Krútt og keisarar

Það er eins gott að læra bara að elska óreiðuna.

 

10. nóvember 2009

Eins og þið sjáið á sérdeilis vel við að birta nóvembermyndina einmitt núna þar sem mamman er að lesa fyrir systkinin fyrir framan arineldinn „í dag“! Þetta er eina innimyndin í allra seríunni (að vísu er janúarmyndina hálfgerð innimynd en einhvern veginn upplifi ég hana aldrei sem slíka enda standa litlu stjärngossarnir í dyragættinni og eru að koma að utan) og ég tel það til marks um að Elsu Beskow hafi þótt rétt að maður héldi sig innandyra í þessum dimma, blauta og gráa mánuði. Ég er henni hjartanlega sammála!

 

Forsíða      Um okkur      Mín síða      Myndirnar okkar      Hafðu samband      Gestabókin okkar