Nóvemberdagbók

                       2008

 

 

Forsíða

Um okkur

Mín síða

Myndirnar okkar

Hafðu samband

Gestabókin okkar

 

30. nóvember 2008

Fyrsti sunnudagur í aðventu

Tíu hlutir sem gera mig glaða í dag:

* Aðventukransinn nýföndraði og kertaljósið fyrsta

* Lúsíuljósin mín sem eru komin upp í stofunni

* Aðventustjörnurnar sem lýsa hér við hliðina á mér í kvistgluggunum

* Amaryllisar og hyacintur

* Eplaskífurnar sem Einar steikti í hádegismatinn

* Jólate með appelsínum, möndlum, kryddum og vanillu og appelsínuhunang frá Rådehults Bigård

* Jólagjafirnar sem ég er að prjóna

* Jólakanínurnar sem eru á gangi í snjónum hér fyrir ofan okkur

* Mannlegi aðventukransinn á forsíðunni

* Nýjar myndir:

Glimmer og snjór

Aðventukransinn 2008

Hvað gleður ykkur á þessum fyrsta sunnudegi í aðventu?

 

25. nóvember 2008

Kveðja úr snjóhúsinu

Hér í Svíþjóð hefur snjónum kyngt niður undanfarna daga. Og í morgun þegar ég fór í morgungönguna mína var allt ó svo fallegt. Ég veit ekki hvort það er nokkuð sem gerir mig eins hamingjusama og grenigreinar sem svigna undan mjallahvítum snjó! Snjórinn breytir umhverfinu umsvifalaust í ævintýraland og mér líður eins og ég sé persóna í einhverri dásamlegri sögu. Á hálfpartinn von á því á hverri stundu að fuglarnir fari að tala við mig eða að út úr skóginum þeysist álfadrottning á glitrandi sleða. En þótt fuglarnir haldi áfram að tísta og enginn komi út úr skóginum nema másandi hundur með eigandann í eftirdragi er ég samt svo glöð. Þegar ég kom heim úr morgungöngunni tók húsið mitt á móti mér í fullum vetrarskrúða:

Og þótt inni logaði enn glóð í arninum og þar væri því hlýtt og notalegt stóðst ég ekki mátið að taka nokkrar myndir af fuglunum mínum sem nörtuðu í hnetur og fræ í frostinu:


Lítill blåmes virðir krásirnar fyrir sér.


Nötväcka undirbýr flugtak.

Í einu orði sagt: dásamlegt!

 

20. nóvember 2008

Ófrásagnarverðir molar

Það er allt of langt síðan ég hef skrifað nokkuð hér. Eins og vanalega er það aðallega af því að ég hef ekki frá neinu að segja en ekki vegna skorts á umhyggju fyrir gestum síðunnar. Þegar lifað er fallega en smátt eins og hér á Konsulentvägen gerist kannski ekki svo margt frásagnarvert. En eitthvað verð ég að skrifa svo hér koma sundurlausir og sennilega fremur óspenanndi frásagnarmolar úr lífi mínu:

* Einn morguninn milli klukkan 7 og 10 reis hús hér við hliðina á okkur á Konsulentvägen! Hér þarf ekki að byggja hús með tilliti til jarðskjálfta, eldgosa, snjóflóða og hvers kyns óveðra svo einföld einingahús ráða ríkjum. Þetta tiltekna hús kom í sex bútum sem kubbað var saman á mettíma. Áður en síðasti kubburinn var settur sá ég beint inn í húsið og þótt þar væru að vísu engin gólfefni og ekki enn búið að veggfóðra voru bæði innstungur og slökkvarar á veggjum og ofnar undir gluggum! Dyrabjallan var líka á sínum stað fyrir utan útidyrnar! Að kvöldi sama dags loguðu ljós í öllum gluggum og mér skildist á eigandanum, nýja nágranna mínum, að eldhúsinnréttingin hefði líka verið sett upp þarna síðdegis. Að vísu er enginn fluttur inn enn en það styttist verulega!

* Svíar borða kvöldmat fáránlega snemma! Af þessu leiðir að þeir fara líka að sofa fáránlega snemma! Barnatíminn byrjar klukkan sex hér eins og á Íslandi en ég komst sem sagt að því eftir margra mánaða dvöl í landinu að hann á að stytta börnunum stundir eftir kvöldmat og fram að háttatíma en ekki meðan foreldrarnir elda kvöldmatinn. Ég er nokkurn veginn búin að sætta mig við að svona sé þetta bara og ég muni aldrei ná að lifa eftir sænskri stundaskrá. En um daginn varð ég vitni að samtali sem mér fannst ganga út fyrir allan þjófabálk. Það var foreldrakaffi í skólanum klukkan 14 og þar sem við Hugi sátum og mauluðum smákökur og sötruðum kaffi og saft heyrði ég í einnu mömmunni og ömmunni ræða saman:
Mamman (með mæðutón): Jæja, maður verður að fara að drífa sig heim ef maður ætlar að ná að hafa mat á skikkanlegum tíma - alla vega fyrir fjögur.
Amman (með enn meiri mæðutón): Já, það má ekki vera seinna en hálffjögur.
Svo drifu þær sig heim til að elda matinn en smákökurnar stóðu í mér af undrun.

* Er maður ekki ansi illa haldinn ef mann er farið að dreyma martraðir um að leikfimidót barnanna gleymist heima?

* Hugi er ákaflega fylginn sér, annað verður seint sagt. Um daginn ákvað hann að skrifa handritið að Shrek, eða já, hann sem sagt notar sína nýju (en takmörkuðu) skriftarkunnáttu til að rekja söguna á blaði og teiknar viðeigandi myndir á hverja síðu. Við gerðum að sjálfsögðu aldrei ráð fyrir öðru en að hann myndi gefast upp á þessu fljótlega enda sagan löng og hann rakti hana mjög ítarlega. En nei. Hann er einmitt núna inni í herberginu sínu að vinna að blaðsíðu níutíu. Og rétt er að taka það fram að hann skrifar og teiknar á báðar hliðar blaðsins en númerar aðeins einu sinni. Hann er sem sagt búinn að fylla 180 síður á nokkrum vikum!

* Orkideurnar mínar eru samtals að koma með sex blómstöngla! Ég veit ekki hversu skynsamlegt það er hjá þeim að byrja á þessu svona á dimmasta árstímanum en ég vona heitt og innilega að allir nái að þroskast og bera blóm.

* Um daginn vorum við fjölskyldan að keyra eftir litlum skógarvegi eftir að það var orðið nánast aldimmt úti. Ég var í þungum þönkum og af einhverjum ástæðum fór ég að hugsa um öll elgjaviðvörunarskiltin hérna í kring. Svoleiðis skilti eru út um allt en maður sér samt aldrei neina elgi. Ég var sem sagt að velta því fyrir mér hvort það væri ekki í raun afskaplega ólíklegt að rekast á elgi á svona þéttbýlu svæði þegar ég sá skyndilega þrjá stóra elgi standa á veginum fyrir framan okkur! Þeir hlupu auðvitað strax í burtu, einn stökk langt inn í skóginn á hægri hönd en hinir tveir fóru í til vinstri. Þeir hafa sjálfsagt ekki viljað hlaupa langt í burtu frá þeim sem hafði horfið svo þeir staðnæmdust við skógarþykknið og í daufri skímunni gátum við séð þá tvístíga þar. Það var eins og tíminn stöðvaðist í nokkrar sekúndur meðan við fylgdumst með þessum skuggaverum feta sig áfram fullkomlega hljóðlaust. Að endingu bað ég Einar að keyra af stað, bæði af því að ég vildi að þeir myndu ná saman aftur og líka af því að allt í einu varð ég pínu hrædd um að þeir myndu verða reiðir og trampa upp á bílinn eða eitthvað svoleiðis! Örfáum augnablikum síðar sáum við líka þrjú skugga-dádýr krafsa í freðinn akur.

* Bráðum þarf ég að muna eftir því að birta lista hérna á síðunni yfir öll villtu dýrin sem ég hef séð hér í Svíþjóð! Og ég verð líka að muna eftir því einhvern tímann að sýna ykkur brot af því besta úr úrklippusafninu mínu!

* Hér eru örfáar hrekkjavökumyndir:

Hrekkjavaka 2008

Ég held ég segi þetta gott í bili. Annars endar bara með því að ég fer að tíunda matseðilinn hér á Konsulentvägen eða hversu oft ég hef sett í þvottavél að undanförnu!

 

 

Forsíða      Um okkur      Mín síða      Myndirnar okkar      Hafðu samband      Gestabókin okkar