Nóvemberdagbók 2006

 

Forsíða

Um okkur

Mín síða

Myndirnar okkar

Hafðu samband

Gestabókin okkar

 

28. nóvember 2006

Herreybræður til hjálpar

Ég hef hingað til verið afskaplega stolt af dönskukunnáttu minni. Eftir dönskukennslu skólaáranna og nokkrar æfingarferðir til Kaupmannahafnar hafði ég byggt upp ágætan orðaforða og náð nokkuð góðum tökum á þeirri list að gleypa það marga stafi í hverju orði að ég hljómaði sæmilega sannfærandi. Eftir að við fluttum hingað til Svíþjóðar hefur dönskukunnáttan hins vegar bara verið uppspretta örvæntingar. Í fyrsta lagi vegna þess að ég finn að ágangur sænskunnar eyðir henni jafn og þétt, eins og hamslaus öldugangur mylji niður lítið sker. Dönsku orðin eru óðum að týnast og framburðurinn fíni er kominn á flot sem er ekki síst pirrandi vegna þess að þetta virðist gerast alveg óháð því hvort ég bæti mig sérstaklega í sænskunni eða ekki. Í staðinn fyrir að kunna eitt tungumál sæmilega kann ég nú tvö frekar illa! Í öðru lagi finnst mér oft eins og danskan sé meira til vandræða en hjálpar hér í Svíþjóð. Það er að sjálfsögðu ekki rétt, ég væri væntanlega mun verr stödd ef dönskunnar nyti ekki við. Það er samt staðreynd að dönskukunnáttan getur gert einföldustu hluti flókna í þessu samhengi. Það tók mig til dæmis áreiðanlega þrjá mánuði að hætta að bera fyrstu persónufornafnið „Jag“ fram „jæj“. En þrátt fyrir að ég sé loksins farin að muna að maður á að segja „jo“ þá eru ýmsilegt annað sem mér bara tekst ekki að afdanska! Ég á meðal annars í stökustu vandræðum með framburð á „mig“ og „dig“. Fyrst hélt ég að það væri rétt sænska að segja „mæj“ og  „dæj“ eins og á dönsku, svo var mér kennt að bera þetta rétt fram en síðan fór þetta allt í rugl og nú man ég aldrei hvað er sænska og hvað er danska. Sem betur fer fann ég nýlega skothelda lausn á vandanum:

Í viðlagi alþekkts sænsks lagatexta kemur orðið „mig“ fyrir í enda einnar ljóðlínu. Til þess að rímið gangi upp þarf að bera það fram „meij“ og þannig get ég ávallt rifjað upp réttan framburð! Snjallt ekki satt?! Það tekur hins vegar dálítinn tíma að syngja lagið í huganum áður en ég ber fram orðið og satt best að segja er ég farin að hafa af því nokkrar áhyggjur að einhvern tíma muni ég ruglast og í staðinn fyrir að svara spurningu bresta í söng:

Diggi-loo Diggi-ley,

alla tittar på mig ...

 

23. nóvember 2006

Örfáar myndir úr frostinu í síðustu viku.

 

20. nóvember 2006

Crocodile rock

Áður en við fluttum hafði ég gert mér einhverja mynd af Svíum sem agalega svona frjálslegu og liberal fólki. Sá fyrir mér einhverja svona hippastemmningu eins og ríkti í Tilsammans ... allir eiga að fá að vera eins og þeir eru, líkaminn er ekkert til að skammast sín fyrir, nekt er fullkomlega eðlilegur hlutur og þar fram eftir götunum. Hins vegar varð ég lítið vör við þessa „náttúrulegu“ stefnu eftir að við fluttum en upplifði í hennar stað alveg endalausan tepruskap. Þangað til áðan.

María og Hugi voru að horfa á barnatímann og Einar leit aðeins inn til þeirra í sjónvarpsherbergið og sá að þau voru bæði dálítið kindarleg á svip. Á upplýstum skjánum blasti við maður með risastóra mynd af typpi og pung. Maðurinn lýsti innviðum þessara líffæra fjálglega auk þess sem hann ræddi um það við börnin hvernig ungum mönnum liði þegar þeir fengju hár á punginn. Í kjölfarið fengu dömurnar svo sambærilegan snúning.

María og Hugi eru sex og fjögurra ára gömul. Klukkan var 17:30 og þátturinn hét Krókódíllinn!

 

18. nóvember 2006

Vika 46

Svíar eru mjög nákvæmir. Þeim nægir ekki að halda utan um hvaða vikudagur, mánaðardagur og mánuður er heldur eru þeir líka með á hreinu hvaða vika er. Núna er viku 46 um það bil að ljúka. Ég ætla að skrá hjá mér í dagbók næsta árs að vika 46 sé óhappavika. Vikan byrjaði á því að það komu mýs í heimsókn. Það var óskemmtilegt. Í gær kom mamma í heimsókn til okkar, það var vissulega mjög skemmtilegt. Minna skemmtilegt var þegar við vorum búin að sækja hana út á Arlandaflugvöll í gær og bíllinn startaði ekki! Það var líka mjög lítið skemmtilegt að þurfa að þvælast í svartamyrkri og grenjandi rigningu með lestum og strætóum heim frá Arlanda með þreytta krakka og ferðatösku í eftirdragi. Eins var takmarkað skemmtilegt að það skyldi þurfa að draga bílinn okkar á verkstæði í Märsta sem þýðir að þegar við vitjum bílsins þurfum við að leggja í töluvert ferðalag. Sömuleiðis er óskemmtilegt að að sjálfsögðu bilaði bíllinn rétt eftir að það lokaði á verkstæðinu. Þangað mætir enginn í vinnu fyrr en á mánudagsmorgun og því vitum við ekkert nánar um afdrif bílsins fyrr en þá. Andvarp!

Friggin vika 46!!!

 

15. nóvember 2006

Músablús

Sumsé ... í gærmorgun sat ég við borðstofuborðið að skoða efitirlætis síðurnar mínar á alheimsnetinu þegar ég rek augun í ponsulitla mýslu skjótast þvert yfir forstofuna. Eins og almennilegri dömu sæmir stökk ég að sjálfsögðu upp á stól! Þá mætti önnur mús á svæðið! Svo spígsporuðu þær dálítið um forstofuna og létu almennt eins og þær ættu heiminn, virtust bara í góðum fíling. Sama var ekki hægt að segja um mig hvar ég stóð uppi á stól og skrækti: Íííííííííííííííí! (Ég hef hingað til talið að það að stökkva upp á stól og skrækja ííííí væru lærð viðbrögð við húsamúsum en í gær komst ég að því að þetta gerist algjörlega ósjálfrátt!) Eitthvað virðast skrækirnir hafa lagst illa í mýslurnar því þær létu sig hverfa snarlega eftir að ég upphóf raust mína. Ég þorði hins vegar ekki niður af stólnum fyrr en eftir góða stund og þaut þá með tölvuna undir handleggnum upp á efri hæðina. Mér leið betur eftir að ég var búin að gramsa í fataherberginu uppi og vefja um mig rykfrakka sem ég fann þar og reima á mig gönguskóna hans Einars sem eru í stærð 43! Ég settist svo til öryggis upp á skrifborðið í þessari múnderingu og eyddi svo næsta klukkutíma eða svo í að láta Þórunni, Jódísi, Svanhildi, Ingu og Inga hughreysta mig í gegnum msn og Einar í gegnum símann! Með þessu fólki smíðaði ég áætlun sem ég framfylgdi svo: Fyrst greip ég spariskó úr fataskápnum mínum undir arminn og trampaði svo dálítið um í gönguskónum á efri hæðinni til að mýsnar vissu að ég væri að koma niður (til öryggis kallað ég líka einu sinni „Nú kem ég!“). Síðan trampaði ég niður stigann, greip töskuna mína í snarhasti og hljóp út! Einar var sem betur fer nokkuð laus við eftir hádegið þannig að ég gat sótt hann eftir stutt stopp í bænum þar sem ég sprangaði um á háhæluðum spariskóm (sem betur fer tapaði ég hvorki fyrirhyggjunni né dömuskapnum þótt hætta hafi steðjað að!) og keypti mér fagra hluti til að dempa hrollinn sem hríslaðist stöðugt um mig. Eftir að Einar og María höfðu verið sótt brunuðum við heim á Konsulentvägen en þá fannst að sjálfsögðu hvorki tangur né tetur af músunum!

Við Einar lögðumst í heilmikla rannsóknarvinnu og komumst að þeirri niðurstöðu að líklega hefðu mýsnar komist ofan í grunninn á húsinu og þaðan upp með rörum inn í sökkulinn á eldhúsinnréttingunni. Þaðan gætu þær svo smeygt sér undir allra neðstu skúffurnar og fram á gólf. Við áttuðum okkur líka á því að sennilega er um það bil vika frá því þær hreiðruðu um sig hér á Konsulentvägen 2 því undanfarnar nætur hef ég vaknað að minnsta kosti einu sinni á nóttu við skarkala og þrusk að neðan og hef meira að segja tvisvar sent Einar niður um niðdimma nótt í leit að innbrotsþjófum! Síðdegis í gær settum við því upp fjórar músagildrur, tvær niður í grunni og tvær undir eldhúsinnréttingunni. Í gærkvöldi þegar ég var nýbúin að slökkva á náttlampanum og leggja frá mér bókina byrjaði sama þrusk og ég hef heyrt að undanförnu ... og svo fylgdi hávær smellur!

Í morgun var ljóst að ein mýsla lá í valnum. Ég veit eiginlega ekki hvort mér finnst ömurlegra, að það séu nagdýr að þvælast í ofnskúffunum mínum og narta í sófaáklæðið á næturnar eða að ég hafi nú á samviskunni að minnsta kosti eitt morð á lítilli músapísl sem var bara að leita í hlýjuna og huggulegheitin hér á Konsulentvägen! Í dag hljómar Saknarðarljóð Gínu mömmu stöðugt í eyrum mér:

Músaguð við hættum hlífi,

henni sé hún enn á lífi.

Græt ég litla Píla pína!

Sárt er að missa sína.

Allra vegna vona ég að hin mýslan hafi haft sig á brott strax í gær og vari nú alla vini sína við húsinu mínu, ég held að ég þoli ekki marga daga í viðbót með harm Gínu mömmu á samviskunni!

P.s. Það er auðvitað alveg bannað að segja fokk, sjitt og friggin á síðunni minni ... nema í algjörri neyð!

 

14. nóvember 2006

Sjitt fokk sjitt fokk sjitt fokk sjitt

Akkúrat núna er tvær mýs inni hjá mér!!!!!!!!!!!!!!!!!

Í hvaða friggin dýragarði bý ég eiginlega?????!!!!!!!!!!

 

7. nóvember 2006

Skrilljón milljónir

Ef ég ætti alveg óendanlegt magn af peningum, segjum svona skrilljón milljónir, þá myndi ég einna helst vilja nota þá í eftirfarandi:

*Kaupa einkaflugvél til að komast á allar kóræfingar og tónleika Mótettukórsins með einföldum hætti. Þessi ferðalög mætti svo að sjálfsögðu nýta enn betur með því að biðja alltaf einhvern einn af öllu því dásamlega fólki sem ég elska að hitta mig eftir æfingu og leyfa mér að gista hjá sér um nóttina. Þannig væri nægur tími til að skrafa og slúðra og hlæja saman á náttfötunum fyrir háttinn og svo flygi ég á vit morgunkaffisins á Konsulentvägen fyrir allar aldir daginn eftir.

*Borga einhverjum fyrir að skipta á rúminu mínu á hverjum degi. Mér finnst allra best að leggjast til hvílu í hreinu rúmi en nenni ekki sjálf að skipta um svona oft ... hvað þá að þvo rúmfötin.

*Ráða lítinn en vel valinn hóp tónlistarmanna til að vera í hljómsveit með mér. Þegar þörfin fyrir að syngja hinar ýmsu dægurflugur helltist yfir mig myndi ég hringja í bandið, klæða mig í einhverja glamúrös kjóla, fara í háhælaða skó og setja á mig rauðan varalit og svo myndum við syngja og spila inni í stofu eins lengi og ég nennti! Ég hefði að sjálfsögðu engan metnað fyrir tónleikahaldi enda hentar raddsvið mitt einstaklega illa til að koma dægurlögum til skila með sómasamlegum hætti svo ekki sé meira sagt! Nei, þetta væri eingöngu mér til skemmtunar og aðeins stundað meðan aðrir fjölskyldumeðlimir væru að heiman og öruggt að enginn óviðkomandi heyrði til!

*Stofna einhvers konar nafna-ráðgjafafyrirtæki sem myndi sérstaklega bjóða upp á þjónustu við að nefna gæludýr og götur. Ég læt mig oft dreyma um að eiga endalaust af dýrum sem ég gæti gefið einhver fín nöfn ... en hef auðvitað engan áhuga á að hugsa um þau og þyrfti því að fá tækifæri til að velja nöfn fyrir aðra. Mér finnst líka tilfinnanlega vanta einhver skemmtileg götunöfn í Reykjavíkurborg og víðar. Ef þið ímyndið ykkur til dæmis hverfi þar sem götunöfnin tengdust veðri (Þokugata, Logndrífustræti, Froststilluvegur, Uppstyttustígur ...) eða væru nefnd eftir þekktum persónum úr íslenskum bókmenntum (já ég veit að við erum með Íslendingasöguhverfi en Ástu Sólliljubraut og Lillu-Hegguhæðir hljóma bara svo frábærlega!) þá sjáið þið strax þörfina fyrir slíka starfsemi. Nú geri ég mér grein fyrir því að ég þarf ekki skrilljón milljónirnar til skrá kennitölu og hefja starfsemi en ég þyrfti þær hins vegar til að útbúa litla sæta skrifstofu prýdda hillum með möppum í öllum regnbogans litum, góðri kaffivél og einhverju ótrúlega krúttlegu skilti sem sveiflaðist í vindinum fyrir utan. Sennilega þyrfti ég líka að nota peningana í að múta fólki til að notfæra sér þjónustu mína!

*Sjá til þess að Einar gæti alltaf verið í fríi á föstudögum því það er svo óskaplega skemmtilegt þegar við eigum langa fjölskylduhelgi eins og meðal annars má sjá á þessum myndum hér:

Vetrarfrí

Hvað mynduð þið, kæru lesendur, gera við skrilljón milljónir?!

 

Forsíða      Um okkur      Mín síða      Myndirnar okkar       Hafðu samband      Gestabókin okkar