Nóvemberdagbók 2005

Forsíða

Um okkur

Mín síða

Myndirnar okkar

Hafðu samband

Gestabókin okkar

 

27. nóvember 2005

Fyrsti sunnudagur í aðventu ...

með tilheyrandi breytingum á síðunni. Ég setti líka loksins inn nýjar myndir!

                   

                            Breytingar á barnaherbergi                         Aðventukransagerð 2005

Megi aðventan fylla vit ykkar greni- og mandarínuilmi, eyrun af fallegum jólalögum, hugann af væntanlegum jólagjöfum og hjartað af gleði!

 

24. nóvember 2005

Snertifletir

Sumarnótt eina fyrir allnokkrum árum stóð ég í leigubílaröðinni margfrægu. Fyrir aftan mig stóð bláókunnug stúlka sem virtist, miðað við hljóðin sem frá henni bárust, vera sárþjáð. Röðin þokaðist hægt áfram og eftir nokkrar mínútur þar sem ég hafði þagað og hún þjáðst sá ég mér ekki annað fært en að kanna hvað bjátaði á. Í ljós kom að stúlkan hafði í gleðivímu (og sennileg áfengisvímu líka!) ákveðið að fara í handahlaup á Austurvelli. Hún hafði hins vegar lent illa og og gat ekki stigið í stokkbólginn í fótinn. Þá sjaldan röðin hreyfðist hoppaði hún á öðrum fæti eitt skref áfram með tárin í augunum og þegar loksins var komið að mér að stíga upp í leigubíl kom ekki annað til greina en að hún kæmi upp í bílinn líka og saman brunuðum við beint á slysadeildina. Þar eyddum við því sem eftir var nætur. Eftir heillanga bið og stutta læknisskoðun studdi ég hana upp á næstu hæð og sat flötum beinum á sjúkrahússganginum meðan teknar voru röntgenmyndir af fætinum, beið með henni eftir að læknir skoðaði myndirnar og meðan hjúkrunarfræðingur bjó um ökklann í kjölfarið. Undir morgun, þegar sólin var löngu farin að flæða yfir borgina, stigum við saman upp í leigubíl sem ók okkur að fjölbýlishúsi í Hlíðunum og beið fyrir utan meðan ég studdi hana upp tröppurnar og fylgdi henni inn í íbúðina þar sem við kvöddumst. Þessa einu nótt vorum við tvær óaðskiljanlegir vinir og samherjar. Eftir að við skildumst þarna á stigaganginum hef ég hins vegar aldrei séð stúlkuna aftur og í dag man ég hvorki hvað hún heitir né hvernig hún lítur út.

Nokkrum árum áður hafði ég verið í sumarvinnu sem krafðist þess að við keyrðum tvö og tvö saman þvers og kruss um borgina á hverjum degi. Eitt hádegið lentum við í hörðum árekstri. Bíllinn hentist til á götunni og þegar hann stöðvaðist rauk vinnufélaginn sem setið hafði við stýrið út. Sjálf sat ég föst í framsætinu og gat ekki opnað hurðina farþegamegin. Eftir nokkur örvæntingarfull augnablik tókst mér að príla yfir í bílstjórasætið og komast út þeim megin. Þegar út var komið blöstu við mér tveir klesstir bílar, stuðari á götunni og glerbrot sem dreifðust út um allt. Einhverjir vegfarendur höfðu lagt bílum sínum upp á nærliggjandi gangstéttar til að kanna hvort þeir gætu hjálpað og á hinni akreininni silaðist umferðin áfram þar sem forvitnir bílstjórar vildu gjarnan fylgjast með sjónarspilinu. Mitt í allri ringulreiðinni stóðu hjónin sem verið höfðu um borð í bílnum sem við höfðum keyrt á og helltu sér öskureið yfir vinnufélga minn. Þar sem ég stóð ein á miðri götunni brast ég í grát. Einmitt þá renndi leigbíll upp að hlið minni og bílstjórinn skrúfaði niður rúðuna, teygði hönd sína út og greip þéttingsfast í mína. Þetta var dálítið feitlaginn eldri maður og meðan ég skalf og hágrét klappaði hann mér svo fallega á handarbakið, stappaði í mig stálinu og mælti huggunarorð þýðum rómi. Hann steig aldrei út úr bílnum og nokkrum augnablikum síðar ók hann af stað aftur. Ég vildi óska þess að ég gæti sagt honum núna að einmitt þarna þótti mér mest vænt um hann af öllum heiminum!

Einn kaldan morgun veturinn áður hafði óvænt fallið niður tími í skólanum hjá mér. Í hálfgerðu reiðileysi bankaði ég upp á hjá ættingja sem bjó skammt frá. Fyrir var hins vegar í heimsókn ungur, verðandi rithöfundur. Rithöfundinum var mikið niðri fyrir og með þungum áhyggjutón í röddinni sagðist hann telja að óprúttinn bókmenntamaður væri að reyna að stela skáldverki sem hann hafði eytt mörgum mánuðum, ef ekki árum, í að skrifa og var nánast fullgert. Þarna yfir litlu borðstofuborði í Þingholtunum svifu ótti og örvænting og lúmsk og lævís svikin sem hugsanlega voru í bígerð hvíldu þungt á okkur öllum þremur. Þennan tíma þangað til næsta kennslustund átti að hefjast fann ég svo til með þessu unga skáldi og var svo bálreið út í bókmenntamanninn. Ég vonaði svo heitt og innilega að annað hvort tækist honum ekki að hrinda ætlunarverki sínu í framkvæmd eða hreinilega að grunur rithöfundarins verðandi reyndist á misskilningi byggður. Ég hef aldrei aftur talað við rithöfundinn og aldrei fengið fregnir af því hvernig málinu lyktaði. Ég veit ekki hvort sagan sem svo hætt var komin þennan vetrarmorgun er ein þeirra fjölmörgu sem síðan hafa verið gefnar út eftir rithöfundinn unga eða hvort hún stendur kannski uppi í hillu hjá mér með gullletruðu nafni þessa siðlausa bókmenntamanns á kilinum.

Einn eftirmiðdag um hávetur, nokkrum árum eftir að ég hitti rithöfundinn, var ég á leið heim úr vinnu með strætisvagni. Ég var nýsest inn og vagninn um það bil að fara að leggja af stað þegar kona kemur inn í hörmulegu ástandi. Í kringum annað auga hennar var þegar farinn að myndast óhugnalegur blámi, blóð rann úr munnviki hennar, á andlitinu voru nokkrir skurðir og á hendur hennar voru blóðrisa. Hún var skólaus og bara í hvítum sokkum sem þegar voru orðnir svartir af skít undir iljunum. Hún hafði ekkert meðferðis, hvorki yfirhöfn né veski, og gat því ekki borgað fyrir farið með vagninum. Góðhjartaður bílstjórinn hleypti henni þó inn og hún settist í sætið fyrir framan mig. Meðan bíllinn ók í áttina að miðborginni starði konan út um gluggann og grét hljóðlaust. Eftir nokkrar mínútur spurði ég hana hvort hún vildi ekki hringja úr símanum mínum í einhvern ættingja eða vin en hún sagðist myndu gera það seinna. Hún hélt áfram að horfa út um gluggann og gráta. Hún var svo umkomulaus þarna í slitnu, grænu vagnsætinu, dálítið ólöguleg í vextinum og á þessum skítugu sokkum, og mér fannst svo ótrúlega erfitt að geta ekkert gert fyrir hana. Eftir skamma stund lagði ég höndina á öxl hennar og þar hafði ég hana þangað til konan fór út fyrir framan Landspítalann. 

Er ekki undarlegt hvernig líf manns snertir líf annarra á hverjum degi með algjörlega ófyrirsjáanlegum hætti? Er ekki undarlegt hvernig líf annarra getur komið þannig við mann að það gleymist aldrei nokkurn tíma aftur, jafnvel þótt andlit, nöfn og tímasetningar séu löngu týnd? Er ekki undarlegt að sögur annarra skuli samtvinnast okkar eigin sögum án þess þó að við fáum nokkurn tíma að vita hvernig þær enda? Ein björt sumarnótt, eitt sólríkt hádegi, einn svartur morgunn, eitt grátt síðdegi ... og svo ekki meir!

 

11. nóvember 2005

Framhaldslíf

Hljómsveitin Pláhnetan átti ekki langa lífdaga, stjarna hennar bæði reis og hrapaði á árunum '93-'94. Lífsseigur hefur hins vegar verið ruglingur þessara tveggja orða „pláneta“ og „pláhneta“ allar götur síðan. Sjálf þarf ég alltaf að hugsa mig um í örlitla stund til að rifja upp hvort orðið sé það upprunalega sem notað er yfir einhverja hnetti úti í geimnum. Og ég er ekki ein um það. Í gær heyrði ég mann tala um pláhnetur í Ríkisútvarpinu ... hann var að tala um hnettina en ekki hljómsveitina.

Var ekki nóg að þeir færðu okkur skelfilega tónlist og hræðilegar myndir af sjálfum sér?! Þurfti í ofan á lag að innleiða þetta orðskrípi. Hvers eigum við að gjalda?!?

(Vinsamlegast hafið samband við mig ef þið viljið ganga til liðs við hin öflugu baráttusamtök Útrýmum Pláhnetunni. Leynilegir baráttufundir haldnir vikulega og jafnvel oftar ef þurfa þykir.)

 

Forsíða      Um okkur      Mín síða      Myndirnar okkar       Hafðu samband      Gestabókin okkar