Nóvemberdagbók 2004

Forsíða

Um okkur

Mín síða

Myndirnar okkar

Hafðu samband

Gestabókin okkar

 

22. nóvember 2004

Mér finnst svo fallegt ...

... þegar allar greinar eru þungar undan nýföllnum og tindrandi vetrarsnjó.

... þegar einhver biður um heilhveitibrauð í bakaríi.

... þegar Einar borðar banana.

... þegar nýfædd börn teygja sig í lausu lofti meðan þeim er lyft upp úr vöggum sínum.

... þegar mamma drekkur Trópí með röri.

... að heyra í kirkjuklukkum á stilltum sunnudagsmorgnum.

... þegar amma talar við sjálfa sig meðan hún sýslar í eldhúsinu og gamla gufan drunar inni í borðstofu.

... þegar fólk talar um veðrið.

... þegar María grætur af áhyggjum sem okkur hinum finnast fullkomlega fjarstæðukenndar.

... að drekka kaffi á myrkum vetrarmorgnum.

... þegar tunglið lafir rétt yfir fjöllunum í ljósaskiptunum yfir háveturinn.

... þegar ég sé að Einar er kominn með broshrukkur og ég ímynda mér að kannski hafi ég nógu oft komið honum til að hlæja til að hafa markað varanleg spor í honum.

... þegar Hugi segir „Ég fengi góða hugmynd ...“.

... þegar fólk er með hjólahjálma.

... að vakna á hverjum degi og eiga alla þessa dásemd fyrir höndum!

 

18. nóvember 2004

Þú ættir að vera í pólitík, Guðrún ...

... sagði skólabróðir minn við mig um daginn. Tilefnið var einstaklega diplómatísk aðferð mín (þó ég segi sjálf frá) við að leysa ósætti sem komið var upp í hópvinnuverkefni á öðru námskeiðinu mínu. Ég varð nú dálítið roggin með mig og hugsaði að sennilega væri þetta alveg rétt hjá honum, ég ætti einmitt að vera við stjórn þjóðarskútunnar og leyfa öðrum að njóta gífurlegra hæfileika minna í að leysa deilumál.

Þegar ég hugsa mig örlítið betur um er ég hins vegar sannfærð um að ég yrði hreint og beint hræðilegur skútustjóri! Ég er svo fáránlega mikil grenjuskjóða að það kemur algjörlega í veg fyrir glæsilegan frama í stjórnmálum. Ég grenja við öll möguleg tækifæri: þegar eitthvað sorglegt gerist, stundum þegar eitthvað einstaklega gleðilegt gerist en aðallega þegar ég er mjög reið!!! Ef ég er reið þá bara spýtast tárin án þess að ég fái rönd við reist! Þetta er hræðilegur ókostur því einhvern veginn vill það vera svo að þau skipti sem ég er virkilega reið eru einmitt þau skipti sem það kemur sér einstaklega illa að vera grenjuskjóða!

Það er því deginum ljósara að ég á ekkert erindi í stjórnmál. Stjórnmálamenn eru mjög oft reiðir. Þeir eru líka yfirleitt reiðir undir þannig kringumstæðum að það væri voða asnalegt að vera grenjandi. Ímyndið ykkur t.d. kosningafund í sjónvarpssal. Einhver andstæðingur minn í pólitíkinni myndi reita mig til réttlátrar reiði og þarna í beinni útsendingu myndu tárin byrja að renna niður kinnarnar og horið læki úr rauðu nefinu, niður á fínu draktina og silkiblússuna. Kannski ég fengi einhver samúðaratkvæði? Varla! Já eða reynið að sjá fyrir ykkur umræður á Alþingi þar sem ég stigi í pontu og þingheimur horfði í forundran á hvernig ég reyndi að halda uppi málefnalegum vörnum milli ákafra ekkasoganna. Ég sé fyrir mér frægar blaðaljósmyndir og daglegan Sigmund. Ég á líka auðvelt með að ímynda mér Áramótaskaupið og háorgandi Örn Árnason í kvenmannsfötum og með hárkollu að snýta sér meðan áramótakonfektið stendur í landsmönnum sem veltast um af hlátri. 

Nei, ég á nákvæmlega ekkert erindi í pólitík eða skútusiglingar!

p.s. Hér má finna nokkrar nýjar myndir af vetrardögum á Bárugötu.

 

8. nóvember 2004

Í fréttum er þetta helst ...

... að í gær voru frábærir tónleikar Mótettukórsins þar sem flutt voru Requiem eftir Fauré og Duruflé. Ég hef sjaldan séð jafnstappfulla kirkju og á þessum tónleikum. Klukkan átta, þegar dagskráin átti að hefjast, náði röðin í miðasöluna enn út að Leifi heppna! Um tónleikana er svo sem ekki mikið að segja enda eru flestir lesendur síðunnar annað hvort meðlimir í kórnum eða þá að þeir voru á tónleikunum í gær! Fullyrði þó að þetta hafi jaðrað við að vera himneskt, ekki síst þegar hinn ellefu ára gamli drengjasópran, Ísak Ríkharðsson, söng Pie Jesu. Ykkur sem af dásemdinni misstuð bendi ég á að aðeins eru þrjár vikur í jólatónleikaröðina en þar mun kórinn ásamt Ísaki láta ljós sitt skína á ný!

... að við Einar erum að fara til Svíþjóðar síðar í þessum mánuði. Fyrst förum við til Gautaborgar þar sem Einar ætlar að sitja sænskt læknaþing. Ég ætla hins vegar að stunda rannsóknir á verslunarháttum borgarinnar á meðan og troða í mig prinsessutertusneiðum! 

Ég sé mig í anda með grænt marsipan í munnvikunum, frostbitnar kinnar, marsipan rós í hárinu og fangið fullt af pokum með nýkeyptum varningi! Eftir þrjá slíka dásemdardaga ætlum við hjónaleysin að halda til Stokkhólms og eiga þar aðra þrjá ljúfa kærustuparadaga ... og borða prinsessutertur! Úff, hvað ég hlakka til!

... að ég á flottustu stígvél í heimi. Þetta eru þau:

... að það eru komnar inn nýjar myndir af Maríu í nýjum álfaprinsessukjól.

... að ég á að vera að læra en ekki standa í þessari heimasíðuvitleysu!

 

Forsíða      Um okkur      Mín síða      Myndirnar okkar       Hafðu samband      Gestabókin okkar