Nóvemberdagbók 2003

Forsíða

Um okkur

Mín síða

Myndirnar okkar

Hafðu samband

Gestabókin okkar

 

30. nóvember 2003

Fyrsti sunnudagur í aðventu!!

Nú hefur loksins verið gefið út formlegt leyfi til að hlakka til jólanna!!! Því fögnum við á Bárugötunni með nýju og jólalegu útliti á heimsíðunni okkar! Við vorum hvort eð er alveg búin að fá gjörsamlega nóg af því gamla! Ég er líka búin að uppfæra einhverjar upplýsingar á síðunni sem ber heitið Um okkur! Þar var margt orðið ansi úrelt! Ég dreif mig líka loksins í að bæta við nokkrum linkum á síðuna mína, en það hefur staðið til lengi. Það er ótrúlega skemmtilegt að fylgjast með þeim Björgu læknanema og Stínu nýtrúlofuðu (Til hamingju!!!) sem blogga af miklu kappi hvor úr sínum heimshlutanum. Ég kíki á þær á hverjum degi! Hvet ykkur til að gera slíkt hið sama!

En það er ekki bara skreytt á síðunni því í gær sátum við Einar við langt fram á nótt við að föndra hinn hefðbundna aðventukrans heimilisins. Kransagerðin tókst óvenjuvel því Einar fann upp nýja aðferð við að hnýta grenið í sem er miklu betri en sú gamla. Já, framan af leit þetta allt svo dásamlega vel út! En það runnu á okkur tvær grímur þegar setja átti kertin á sinn stað. Ég hafði nefninlega asnast til að kaupa einhver ilmkerti og það var alveg ógeðslega vond svona Old Spice lykt af þeim! Eftir klukkutíma vorum við Einar bæði komin með dúndrandi hausverk af lyktinni sem fyllti vit okkar. Við ákváðum að lofta vel út yfir nóttina og vonuðumst til að lyktin myndi hreinlega veðrast í burtu. En ó, nei! Í morgun var hausverkurinn orðinn enn verri og ástandið þannig að enginn treysti sér lengur til að sitja við borðstofuborðið á hverju kransinn góði stóð! Við María drifum okkur því út í blómabúð við fyrsta hanagal og keyptum ný, algjörlega lyktarlaus kerti! Þau eru líka miklu fínni á kransinum en hin! Það verða því væntanlega einhverjir fjórir rosalega óheppnir sem fá ilmkerti með raksápulykt frá okkur í jólagjöf!!! Myndir af þessu kransaævintýri hér!

Í dag stendur svo jafnvel til að hefja piparkökubakstur með mömmu á Bakkastöðum. Það er ekkert verra að drífa í bakstrinum núna og svo má alveg gefa sér góðan tíma til skreytinga síðar meir. Það hefur skapast ákveðin hefði í kringum piparkökuskreytingarnar hjá okkur mömmu, Ella og Unni sem einu sinni bjó í kjallaranum í Granaskjóli en þar bjuggum við líka einu sinni!!! Við höfum ætíð lagt mikinn metnað í skreytingarnar og látum okkur alls ekki nægja að búa til jólatré og stjörnur! Nei, við snúum kökunum á haus og hlið og reynum að sjá eitthvað allt annað út úr forminu en ætlast er til. Eitt árið voru skötuhjúin Ólafur og Dorrit vinsælust og einu sinni var aðalmálið að sjá Osama bin Laden í hverju horni, við höfum gert Tarzan og bikiniskvísur að ógleymdum dónaköllunum! Já hjá okkur eru engin jól án þess að hafa a.m.k. nokkra berrassaða piparkökudrengi!!!

María tók daginn líka með trompi og var alveg ótrúlega dugleg að lesa! Hún er aðeins farin að spreyta sig á að stafa stutt og einföld orð og í morgun var eins og það rynni loks almennilega upp fyrir henni hvernig þetta virkaði! Í það minnsta las hún hér hvert orðið á fætur öðru! Og við vorum alveg einstaklega stoltir foreldrar! Hún er bara þriggja og hálfs árs!!! 

Vona að þið hafið það gott á þessum frábæra degi! (P.s. vill virkilega enginn deila því með mér hvað hann langar í í jólagjöf!?!)

 

28. nóvember 2003

Nú styttist óðum í að jólasveinarnir komi til byggða og ekki seinna vænna að fara að útbúa óskalista til að stinga að þeim! Mér finnst alltaf alveg rosalega gaman að setja saman óskalista jafnvel þó mitt fólk eigi aldrei í vandræðum með að finna eitthvað fallegt til að gefa mér og það sé því aldrei þörf fyrir svoleiðis plögg! En nýlega frétti ég að Faldafeykir (sem er algjörlega uppáhalds jólasveinninn minn!) væri orðinn nettengdur! Já það er ekki að spyrja að honum kallinum! Það væri því kannski ekki úr vegi að birta „brot af því besta“ hér! 

*Náttföt, náttföt og aftur náttföt!!!*

*Bettý eftir Arnald Indriðason (ég mun alveg tapa mér af sorg ef hún kemur hvergi upp úr pakka!), Lygasaga eftir Lindu Vilhjálmsdóttur, Hr. Alheimur eftir Hallgrím Helgason ... já og jólabækur bara almennt, finnst alltaf gaman að fá þær, líka þó mér finnist þær ekki allar jafnskemmtilegar! Alveg ótrúlegt hvað ég fæ sjaldan bækur í jólagjöf, svona miðað við mitt fag!!! Já og svo langar mig líka voðalega í Þórubækurnar sem voru endurútgefnar fyrir nokkrum árum!*

*Æ, svo er eitt sem mig langar hrikalega mikið í. Í gamla daga átti ég Barbie dúkkur sem voru í svona línu sem var kölluð The heart family!!! Þetta var ótrúlega væmin og hamingjusöm fjölskylda, mamman í hjartakjól, pabbinn með hjartabindi og börnin í fötum í stíl við foreldrana. Nema hvað, núna langar mig alveg hrikalega til að við María eigum svona mæðgnadress!!! Hægt að fá svo margt sætt í NoaNoa bæði á mömmur og dætur!!! Bara svona eins boli eða peysur ... þarf kannski ekkert að vera alklæðnaður!  Æ, svo get ég kannski bróderað í bindi hjá Einari og klætt Huga í stelpuföt og ... voilá, The heart family!!!*

*Svo fæ ég aldrei nóg af svona húsbúnaðardóti. Það á víst að heita sem svo að við Einar séum að safna glösum úr Tekk-húsinu ... eitthvað lítið gerst í því! Svo er ég alveg óð í svona marglita bolla og skálar úr Te & kaffi! Ég elska svona fallega myndaramma, púða og svoleiðis dótarí. Ég sá líka seríu í Habitat sem ég græt mig í svefn yfir! Þessi var með svona eins og stórum origami pappírsblómum utan um perurnar (ég held ég fari nú bara og kaupi mér hana svo ég geti skreytt með henni um jólin!)!*

*Og hvaða dömu langar ekki í pæjudót! Mig langar sko í pæjudót af öllum stærðum og gerðum! Eyrnalokkar, armbönd, snyrtidót ... you name it ... mér finnst það allt saman alveg æðislegt! Af einhverjum undarlegum ástæðum fæ ég heldur ekki nóg af töskum, þannig að mig langar líka í nýjar töskur!*

*Já og svo langar mig í alveg slatta af svona aðeins dýrari gjöfum, t.d. sjal sem þarf að panta frá útlöndum, skó sem ég þorði ekki einu sinni að kíkja á verðmiðann á, og ýmislegt fleira sem ég held að ég ræði nú bara við minn einkajólasvein!!!* 

Ég væri nú reynar alveg til í að segja ykkur öllum hvað ég er búin að ákveða í jólagjafir handa mínu fólki en æ, það væri þá alltaf örlítill möguleiki á að það kæmi þeim ekki á óvart!!!! Já það er alltaf svo voðalega gaman að velta þessu fyrir sér og mér þætti enn skemmtilegra að heyra hvað ykkur, lesendur góða, langar í í jólagjöf! Endilega notið kommentakerfið (sem mun reyndar pottþétt ekki þola álagið! Urr, heimska kommentakerfi!!!) hér að neðan! Meðan þið látið ykkur detta eitthvað fallegt í hug getið þið skoðað nokkrar nýjar myndir af Maríu!

Góða helgi!

 

27. nóvember 2003

Kaupa, kaupa, kaupa!!!

Ég er búin að vera alveg ótrúlega dugleg í búðunum í dag. Náði loks að kaupa jólaföt á Maríu en það hefur ekkert gengið hingað til. Í dag sá ég að það var bara greinilega ekki stemmning fyrir prinsessukjólum eins og mig langar í á hana hér í bænum og breytti um stefnu. Útkoman var samt mjög góð og María er hæstánægð með dressið, sérstaklega pilsið sem „stækkar“ þegar hún snýr sér í hringi í því! Ég keypti líka herrabuxur á Huga, pils á mig, jólapappír, merkispjöld og borða. Að ógleymdum aðventukransinum en grenið er komið í hús og okkur ekkert að vanbúnaði að skreyta á laugardaginn!

Þrátt fyrir þetta náði ég nú samt að vinna aðeins í ritgerðinni. Fyrsta lota er afstaðin þar sem Steingrímur er búinn (og jú, Berglind, ég er strax farin að sakna hans!) en svo líður að því að ég þurfi bara að fara að skrifa sjálfa ritgerðina. Ætla bara að gefa mér nokkra daga í að reyna að móta þetta í huganum og vinna að nokkrum hugtökum. Þegar þessi blessaða ritgerð verður svo búin bíður mín enn Morðsöguverkefnið sem ég þarf að gera til að útskrifast sem bókmenntafræðingur í febrúar!

Á morgun verður aftur skemmtilegur dagur því ég ætla að byrja daginn á að hitta Svanhildi og Ástþór Örn á kaffihúsi. Svo er aldrei að vita nema við vinkonurnar kíkjum aðeins í búðir saman! Ætli ég reyni nú ekki líka að læra dálítið. Vona að þið eigið skemmtilegan föstudag til frægðar framundan!

 

26. nóvember 2003

Búin með Steingrím!!!!!!!

Kláraði langt á undan áætlun í gærmorgun, það hefur greinilega gefið mér aukinn kraft að vita að ég ætti ekki nema nokkrar blaðsíður eftir! Nú styttist óðum í að ég þurfi bara að byrja að skrifa þessa blessuðu ritgerð. Reyndar finnst mér voða ómögulegt að vera ekki alveg komin með það á hreint hvað nákvæmlega ég ætla að skrifa og í hvaða röð. Hef aldrei lent í því áður að verkefnið hagi sér eins og amaba og ég geti lítið gert annað en að fylgjast með og sjá hvað gerist. En verkefnaskil eru 15. desember þannig að ég þarf að fara að negla þetta niður! Í gær var líka síðasti tíminn í Ævisögunum, við fengum góða gesti í heimsókn og fórum sjálf í skoðunarferð á handritadeildina. Síðan var haldið út að borða. Mér fannst nú hálfskrýtið að fara út að borða með fólki sem ég þekki mest lítið ... sérstaklega í ljósi þess að ég fer afskaplega sjaldan út að borða með mínum vinum og ættingjum. Þegar við bættist að hver nemandi átti að lesa upp eigin sjálfstjáningu má segja að mér hafi verið orðið hálfóglatt þegar lagt var af stað á veitingahúsið Ítalíu! En þetta fór allt vel fram og meira að segja sjálfstjáningarhlutinn blessaðist merkilega vel, ég gat í það minnsta ekki séð að minn þáttur í því hafi verið neitt verri en annarra ... reyndar svolítið ólíkur en það hlýtur nú að vera í lagi! Ég þurfti reyndar að yfirgefa samkunduna snemma því mín beið kóræfing. Og æ, mikið var notalegt að koma inn úr kuldanum í hlýja kirkjuna þar sem ég þekki hverni krók, kima og kjaft. Ekki verra að æfa jólalögin alla æfinguna! Jólatónleikarnir okkar verða 7. og 9. desember. Prógrammið er einstaklega ljúft og aðgengilegt, Elín Ósk Óskarsdóttir syngur einsöng með okkur og ég er alveg viss um að þetta verða ótrúlega hátíðlegir og notalegir tónleikar. Ef einhvern þarna úti langar að koma þá verð ég með miða á afslætti til sölu!

Vikan hálfnuð og styttist allverulega í fyrsta sunnudag í aðventu! Ég er farin að huga að ofsafenginni kransagerð og ætla að kaupa einhver falleg kerti í dag! Úff, hvað ég er orðin spennt!

 

24. nóvember 2003

Hún Brynhildur vinkona mína á afmæli í dag ... til hamingju!!! Og til hennar ætla ég einmitt eftir smá stund og kyssa hana og knúsa í tilefni dagsins. Vona að hún verði með einhverja köku handa mér!!!!!!!!

Ég var annars hálffegin að fá bara mánudag aftur eftir annasama helgi. Við tók hin venjulega rútína, morgunkaffi, moggi og krossgáta hér heima áður en haldið er til ömmu að lesa Steingrím. Það var bara ágætt að fara aftur í sama gamla farið. Og ef allar áætlanir standast klára ég Steingrím á morgun!!! Já, það verður aldeilis gleðilegt! Reyndar á ég nóg eftir að lesa að ekki sé nú talað um að koma þessu blessaða verkefni á blað! En það verður alltént nokkuð notalegt að ljúka þessum viðamesta hluta í undirbúningi.

Elli bróðir kom frá London í nótt og færði mér tvær splunkunýjar peysur sem ég hafði beðið hann að fjárfesta í fyrir mína hönd. Ansi hreint þægilegt að eiga svona bransabróður sem hægt er að senda í verslunarleiðangra í útlöndum! Það er líka svo hentugt þegar annar kaupir fyrir mann því þá eru litlar líkur á að maður detti sjálfur í búðasukk og gleymi sér á Oxford Street (sem er nú raunar ekki minn uppáhaldsstaður í London, en þið vitið hvað ég meina!).

Leggst ekki ný vika annars vel í ykkur?

 

23. nóvember 2003

Næst síðasta helgi nóvembermánaðar að verða búin. Eftir viku er fyrsti sunnudagur í aðventu, hugsið ykkur! Þá verðum við Einar væntanlega búin að sitja við nóttina áður og föndra aðventukransinn okkar! Það er svona með því skemmtilegasta sem ég geri í jólaundirbúningnum! Ég var líka að spá í að skreyta heimasíðuna og setja í jólabúning á þeim degi! Úff, hvað ég hlakka til. Er búin að vera að viða að mér jólabakgrunnum í marga mánuði!!!

Kórdagur í gær. Byrjuðum á að vekja elskulegan kórstjóra klukkan hálfníu með lúðrablæstri og söng fyrir utan húsið hans. Stóðum þarna í myrkrinu með stjörnuljós og bauluðum afmælissönginn og Hver á sér fegra föðurland, heldur morgunrám!!! Æ, einhvern veginn finnst mér ákaflega ólíklegt að einhver eigi nokkurn tíman eftir að vekja mig þannig á mínum afmælisdegi! Veit varla hvort ég myndi vilja það! En þetta var í það minnsta skemmtilegt. Fengum svo sykursjokk í kjölfarið þegar okkur var boðið inn í heitt súkkulaði og köku!!! Afmælisveislan um kvöldið byrjaði svo á tónleikum þar sem við vorum í aðalhlutverki. Þaðan var haldið í veislu og við tóku endalaus ræðuhöld og söngatriði. Einu þeirra mun ég aldrei gleyma. Einhver svona Old boys hópur úr Karlakór Reykjavíkur söng tvö lög. Ég hef alltaf verið frekar veik fyrir karlakórum og þessir voru sko þeir glæsilegustu sem ég hef séð. Skilst að þetta séu menn sem eru búnir að vera í um 50 ár í kórnum!!! Þeir stóðu þarna svo tugum skipti í smóking og flestir með silfurhvítt hár og sungu á sinn áhrifamikla og karlakóríska hátt! Það hefur lengi verið á stefnuskrá minni að komast á tónleika hjá góðum karlakór og á harmonikkuball. Nokkuð ljóst að ég mun nýta fyrsta tækifæri til að efna það fyrrnefnda!

Börnin gistu hjá ömmu og þetta var því í fyrsta sinn í u.þ.b. tvö ár sem við Einar sváfum út! Fórum ekki á fætur fyrr en hálfellefu sem er náttúrulega hátíð miðað við hálfsjö-sjö stemmninguna! Vinnum núna að því hörðum höndum að taka til áður en villingarnir mæta á svæðið! Ég hlakka reyndar alveg ótrúlega til að hitta þau eftir svona langa fjarveru.

Góðan sunnudag og megi vikan bera verða ánægjuleg hjá öllum mínum lesendum nær og fjær!

 

21. nóvember 2003

Helgarfrííííí!

Já það er loksins kominn föstudagur enn á ný! Búinn að vera ansi notalegur hjá mér, byrjaði á að hitta Þórunni systur í morgunkaffi og rölta svo aðeins með henni um bæinn. Síðan fór ég í smá útréttingar og keypti meðal annars bæði afmælis- og jólagjöf handa Einari! Já hann verður þrítugur eftir nokkra daga, þessi elska. Mæli annars með því að fólk sem er enn í makaleit eða að plana barneignir hugi vel að því að ástvinirnir eigi ekki afmæli nálægt jólum, það er svo óskaplega dýrt!!! Einar á afmæli í byrjun desember, Hugi í byrjun janúar og ég í byrjun febrúar! Sérstaklega er ég illa sett með afmælisdag því í byrjun febrúar koma oftast stærstu visa-reikningarnir eftir jólin og ég hugsa því að allir sem gefi mér pakka geri það með hálfgert óbragð í munni!!! Og það er alveg á hreinu að ef við Einar eignumst fleiri börn þá verður stílað inn á júlí eða ágúst!!!

Í gær var æsispennandi spilakvöld hér á Bárugötu þegar hjónin Sigurður og Svanhildur komu í kvöldheimsókn með Trivialið undir hendinni. Það fer engum sögum af úrslitum en þið getið kíkt á örfáar myndir hér!Það liggur svo nóg fyrir um helgina, ég er að fara að hitta gamla 10. bekkinn minn í kvöld hjá Þóru Kristínu, kennslukonunni okkar! Þau svíkja nú aldrei 10.T partýin og óskandi að Baldur fyrrum eðlisfræðikennari og eiginmaður Þóru rifji upp gamla takta í túnfisksamlokugerð! Á morgun verður allt undirlagt af kórstarfsemi, æfingar og tónleikar og afmæli kórstjórans! Það ætti líka að vera skemmtilegt!

Góða helgi, gott fólk!

 

Enn 19. nóvember 2003

Vildi bara benda á að ég er búin að setja inn hvorki meira né minna en tvö ný albúm! Geri aðrir betur ... á einu kvöldi! Hér getið þið séð ýmsar myndir af heimilisfólkinu, teknar núna í nóvember. Og hér getið þið skoðað myndir af því þegar Lína Langsokkur kom í heimsókn til okkar á Bárugötuna!

 

19. nóvember 2003

Kominn miðvikudagur og vikan hálfnuð! Ég er farin að hlakka til helgarinnar en það verður reyndar svo mikið að gera að það er kvíðablandin tilhlökkun. Gamli tíundi bekkurinn minn ætlar að hittast á föstudagskvöldið ... orðið langt síðan við sáumst síðast og það verður án efa gaman að fá fréttir af fólkinu. Laugardagurinn er svo lagður undir kórstand ... æfingar, tónleikar og afmæli kórstjórans langt fram eftir nóttu! Það er því kannski bara ágætt að gera ráð fyrir að ég komist ekkert í lærdóminn þá helgina og vera því bara þeim mun duglegri á næstu dögum.

Gærdagurinn var annars frekar strembinn. Byrjaði reyndar vel með smá lestri hjá ömmu, svo fór ég og keypti jólagjöf handa Maríu og endaði í kaffi og köku hjá Svanhildi og Ástþóri Erni. Það var sko ekkert að fyrri hluta dagsins! En það tók eitthvað að síga á ógæfuhliðina þegar ég mætti í skólann. Eins og lesendur mínir þekkja þá er ég í skólanum frá klukkan 15 til klukkan 19 á þriðjudögum. Þá hef ég vanalega rétt tíma til að hlaupa heim, gleypa í mig kvöldmat og ná í nóturnar áður en ég mæti á kóræfingu klukkan 20. Í gær dróst kennsla hins vegar úr hófi fram og þegar klukkuna vantaði tuttugu mínútur í átta ákvað ég að ég yrði að ganga út, þó enn væri fyrirlestur í gangi, og hlaupa beint á kóræfingu. Þá var s.s. búið að kenna í heila kennslustund aukalega sem mér finnst fullmikið af því góða þegar tekið er tillit til þess að við sitjum í fjórar kennslustundir samfleytt (með einu kannski svona 20-25 mínútna hléi inni á milli, sem raunar ætti að vera samtals 45 mínútur ef allt væri samvæmt bókinni!). Það gefur auga leið að fimmti klukkutíminn í fyrirlestrum getur af sér afskaplega lítið ... einbeitingin rýkur út í veður og vind eftir fyrstu tvo tímana hvort eð er!!! Ég get alla vega sagt að ég var ansi pirruð þegar ég lagði af stað upp í kirkju, matar- og nótnalaus! Hafði einmitt borðað óvenjulítið þennan dag og var því með galtóman maga! En á kóræfinguna fór ég þó ég væri bæði þreytt og örg. Það var svo til að kóróna daginn að ákveðið var að halda aðeins áfram eftir æfingu til að undirbúa lítið skemmtiatriði fyrir afmæli kórstjórans. Svo sem bara gaman að því en ég hefði hins vegar alveg verið til í að komast sem fyrst heim. Í staðinn var ég í kirkjunni til klukkan 23 og átti þá eftir að labba á Bárugötuna (af því að ég komst ekki heim í millitíðinni til að sækja bílinn)! En það var svo sem bara ágætt að ganga aðeins úr sér fýluna! Já þetta var ekki skemmtilegur dagur og þegar tekið er tillit til þess að ég þurfti í ofan á lag að hlusta á eitt dónalegt komment í minn garð í skólanum og annað á kóræfingu ... þá skilja menn vonandi hvers vegna ég var eiginlega alveg á suðupunkti þegar ég þrammaði heim! En nú er þetta um það bil að verða leiðinlegasta vefdagbók í heimi svo ég læt kannski staðar numið hér í kvarti og kveini. Ef einhver hefur í hyggju að skrifa komment um að misjafnt sé mannanna bölið og að börnin sem þræla í Nike verksmiðjunum í Asíu fyrir tvær krónur á dag myndu glöð vilja komast í skóla (hvað þá í fimm tíma samfleytt!), nú eða ef einhver vill benda mér á að hungruðu börnin í Bíafra fái ekki að borða svo mánuðum skiptir ... þá getur sá hinn sami alveg sleppt því. Ég veit upp á mig skömmina!

 

17. nóvember 2003

Mánudagur til mæðu ... og gleði!!!

Dagurinn byrjaði kannski ekkert allt of vel hjá mér. Drattaðist niður á Sóló til að læra en var ekki alveg með hugann við efnið. Held að það hafi nú aðallega verið vegna þess að ég var svo stressuð um að ég ætti að fara að skila þessu verkefni (sem ég er ekki enn byrjuð að skrifa!). Ég hef alveg verið að treysta á að það sé bara enginn af hinum sjö nemendum námskeiðisins að fara að skila þessu í bráð en þar sem ég komst ekki í síðasta tíma var ég svolítið farin að óttast að menn hefðu kannski tekið sér tak, kýlt á'ða um helgina og myndu skila fullbúnu á morgun og að ég yrði sú eina sem væri þarna eitthvað glötuð að biðja um frest. Já, það gekk alla vega ekki neitt voða vel að læra. Steingrímur orðinn utanríkisráðherra og viðskiptabönn og alþjóðasamþykktir alveg að fara með mig! (Verð reyndar að játa að það hafa sýnt sig ákveðnir kostir við að hafa þrælað sér í gegnum þetta helvíti ... sérstaklega var ég stolt í brúðkaupi pabba og Gittu þegar í ljós kom að ég gat talið upp alla forsætisráðherra Íslands fleiri áratugi aftur í tímann!!!) Þegar ég ákvað að halda heim á leið um sexleytið í kvöld hafði ég aðeins lagt um 20 blaðsíður að baki (geri aðrir verr!). Grjónagrautur með krógunum gerði þó sitt til að lyfta andanum að ekki sé nú talað um að syngja „apalagið“ svo kallaða einum 30 sinnum við mikla kátínu þeirra! En þetta átti enn eftir að batna! Mér barst nefninlega í kvöld langþráð svar frá einum kennara Ævisögukúrsins! Ekki aðeins hvatti hann mig áfram og leist vel á þær hugmyndir sem ég hafði heldur lofaði hann að það ætti engu að skila fyrr en í desember og að þeir væru í ofan á lag mjög sveigjanlegir með það!!!!!!!! Jibbí kóla!!!!! Gleði mín var mikil, ekki einungis get ég hætt að kvíða því að vera sú eina sem mæti ritgerðarlaus á morgun heldur hef ég nú fulla trú á að ég nái að gera þetta verkefni eins vel úr garði og mig langar til. Það hefði náttúrulega verið ömurlegt að vera með svona frábært efni í höndunum en geta aldrei komið því á flug!

Á morgun hef ég skipulagt kaffi til Svanhildar og smá búðarráð auk lestursins. Það verður sko gaman! Nýtt visatímabil formlega hafið og svona ... !

 

15. nóvember 2003

Það sem af er helgi hefur verið viðburðaríkur tími hjá okkur á Bárugötunni. Þar ber hæst brúðkaup föður míns sem haldið var í gær!!! Já, Pabbi og Gitta ákváðu bara að láta pússa sig saman eftir u.þ.b. 20 ára samband! (Ég er sem sagt greinilega ekkert að verða of sein í þessum efnum!) Athöfnin sem var einstaklega látlaus en mjög falleg, var haldin á heimili prestsins. Þar fylgdumst við systkinin og mamma hennar Gittu með þegar þau gamlingjarnir játuðust hvort öðru!!! Síðan var haldið í Skeiðarvoginn þar sem fleiri gestir mættu og þáðu dásamlegar veitingar. Þetta var allt saman alveg frábært og til fyrirmyndar! Yndisleg kvöldstund! 

Hér eru þau hjónin!

Og hér er ein af Maríu með afa bíbí og Gittu ömmu! Hún fékk að halda á brúðarvendnum og var alveg ótrúlega stolt!

Í dag erum við svo búin að vera á þeysispretti! Kóræfingar, frænkuheimsókn, húsdýragarður, Kringlubrjálæði og matargestir eru ágætis stikkorð yfir daginn! Nú er þó farið að hægjast um, börnin sofnuð, kvöldgestirnir farnir og ég sit yfir sunnudagskrossgátunni skelfilegu. Búin með tvö orð ... held ég finni ekki fleiri! Smellti inn örfáum myndum af börnunum frá því í dag, þið getið skoðað þær hér!

 

13. nóvember 2003

Ég fer yfirleitt oft í viku út í Pétursbúð sem er hverfisbúðin okkar! Það er svo sem ekki frásögu færandi nema að því leytinu til að í næstum hvert skipti sem ég er þar stödd og einhver nýr viðskiptavinur kemur inn á meðan dettur mér eiginlega fyrst í hug að sá hinn sami hafi í hyggju að ræna búðina. Ímyndunaraflið fer á flug og ég sé fyrir mér búrhnífa sem bornir eru innan klæða, hótanir og peningaseðla sem þyrlast yfir döðlubrauðið og flatkökurnar. Aldrei nokkurn tíman hafa áhyggjur mínar verið á rökum reistar, í öllum tilvikum hefur verið um ofurvenjulega Vesturbæinga að ræða sem vilja kaupa sér eitthvað ofurvenjulegt á borð við léttmjólk, kleinur eða stálull. Þegar ég yfirgef Pétursbúð eftir viðburðasnauða búðarferð veit ég eiginlega aldrei hvort ég er heldur fegin eða vonsvikin! Fyrst hélt ég nefninlega að þessi ótti minn við rán og hryðjuverk stafaði af linnulausum fréttum fjölmiðla af einhverju slíku. Hélt jafnvel að ég hefði orðið Hollywood að bráð og væri orðin jafnheilaþvegin og aumingjans börnin sem ekki þekkja muninn á raunveruleika og sjónvarpi, ofbeldi og leik! Nýlega er ég þó farin að hallast að því að rótina að þessu háskalega ímyndunarafli mínu sé að finna annars staðar. Ég var ekki gömul þegar ég uppgötvaði Dularfullu bækurnar, Fimm bækurnar, Ævintýrabækurnar, Nancy bækurnar, Kim bækurnar, Frank og Jóa bækurnar ... og þannig mætti lengi telja. Þessar heimsbókmenntir reif ég í mig yfir nýbökuðu vínarbrauði og mjólkurglasi hjá ömmu, á hverjum degi, í mörg ár. Rótina að Pétursbúðar-hugaræsingnum held ég að sé að finna þarna. Ég er að verða 28 ára gömul og aldrei, ekki í eitt einasta skipti, hef ég orðið vitni að dularfullum glæp sem ég get síðan dundað mér við að leysa! Ég hef margoft lagt bílnúmer, andlitsdrætti eða klæðaburð á minnið án þess að það hafi nokkurn tíman komið að góðum notum! Ég hef líka oft litið á klukkuna þegar dularfull hljóð heyrast utan að götu í von um að síðar meir muni þessi tímasetning skipta sköpum við lausn einhvers flókins glæpamáls. En aldrei hefur lögreglumaður bankað upp á hjá mér til þess að kanna hvort ég hafi nokkuð orðið vör við eitthvað undarlegt í hverfinu nýlega! Finnur, Dísa, Lárus, Palli og Beta fengust hins vegar við ráðgátur í hverju einasta sumarfrí og jólafríi. Jafnvel í veikindafríum! Nancy mátti ekki bregða sér út úr húsi með vinkonum sínum þeim Georgíu og Bess án þess að fyrir henni sætu varnarlaus fórnarlömb skelfilegra glæpaforingja sem þurftu nauðsynlega á aðstoð þeirra að halda. En ég, ég get ekki einu sinni orðið vitni að lágkúrulegu sjoppuráni!!!

 

11. nóvember 2003

Sjálfskaparvíti?

Einn samnemandi minn í ævisögukúrsinum valdi sjálfviljugur að skrifa ritgerðina sína um 700 blaðsíðna ævisögu! Það fannst mér algjört brjálæði og í allt haust hef ég, þrátt fyrir að vera full samúðar, brosað í kampinn, fundist það nánast hlægilegt að einhver hafi komið sér í svona sjálfskaparvíti. Svo fór ég að hugsa ... síðasta bindið af Ævisögu Steingríms Hermannssonar er um 400 blaðsíður, hin tvö rúmar 300 síður hvort. Ég valdi mér sem sagt fullkomlega sjálfviljug að lesa nálega 1100 blaðsíðna ævisögu!!! Og ekki bara hvaða ævisögu sem er ... ó,nei! Ég þurfti að sjálfsögðu að velja mér ævisögu sem fjallar að mestu um verkalýðsbaráttu, skrapdagakerfi, fyrirkomulag í Rannsóknarráði, stjórnarsáttmála, kvótakerfi, kjördæmaskipan og þingsályktunartillögur! Til að kóróna allt þá stóð aldrei til að Steingrímsþáttur ritgerðarinnar minnar væri meira en 1/3 af verkefninu!!! Talandi um sjálfskaparvíti ... ! Ég verð þó að taka það fram, mér til varnar og ykkur til útskýringar, að ég valdi þessa bók nú ekki af því að ég væri sérlegur aðdáandi Denna né af því að ég hefði einstakan áhuga á skrapdagakerfinu. Nei, val mitt kemur til af því að einmitt þessi ævisaga fellur ákaflega vel að grunnhugmynd ritgerðarinnar um að lífið sé skáldskapur og að við séum öll höfundar persónu okkar! Spennandi ekki satt?!? Og það er einmitt þess vegna sem ég les Ævisögu Steingríms Hermannssonar með „fræðahroll“, niður eftir bakinu ... en ekki vegna æsileika skrapdagakerfisins! (Ef einhver hér kannast ekki við „fræðahrollinn„ þá er það hrollur sem maður fær þegar greiningin gengur svo vel upp að maður verður allur æsispenntur og uppveðraður!) Þrátt fyrir „fræðahrollinn“ sækist mér verkið seint. Þó ég hafi setið við nánast samfleytt frá 10 í morgun til klukkan 15 held ég að ég hafi ekki komist yfir mikið meira en svona 50 blaðsíður! En það kemur dagur eftir þennan dag og þá .....!

 

10. nóvember 2003

Mánudagur til blaðurs ...

Ég er búin að lenda á svo mörgum kjaftatörnum í dag að það hálfa hefði verið miklu meira en nóg. Hitti skólasystur mína á Þjóðarbókhlöðunni í morgun og eyddi alveg heillöngum tíma í að spjalla um heima og geima við hana. Rölti því næst út í Bóksölu Stúdenta hvar ég hitti Jódísi og fékk hana til að vera samferða mér áleiðis til ömmu enda höfðum við margt að ræða. Þegar við vorum rétt ókomnar á áfangastaði okkar hitti ég aðra skólasystur úr skólanum og þurfti að tala alveg óendanlega lengi við hana líka. Þegar upp var staðið kom ég því miklu seinna til ömmu en gert hafði verið ráð fyrir sem stytti að sjálfsögðu þann tíma sem ég hafði í lestur (náði þó nokkrum góðum sprettum í Denna þrátt fyrir að hafa að sjálfsögðu kjafta dálítið við ömmu líka!). Síðan stormaði ég heim þar sem ég hafði skipulagt blaðurstefnumót við Brynhildi vinkonu klukkan hálfþrjú! Við blöðruðum í eins og tvo tíma eða svo. Síðan spjallaði ég svolítið við Svanhildi á msn! Þá var gert hlé á munnræpunni til að hvíla talfærin og horfa á Survivor!!! Eftir það tók við maraþon símablaður við Jódísi sem var rétt í þessu að ljúka! Já, það verður nú seint sagt að mér þyki ekki gaman að tala!!! En öllu má nú ofgera ... nú er ég þurr í munninum og rám í röddinni. Held mér sé hollast að fara að sofa ... sem betur fer tala ég ekki upp úr svefni ... sem er nú eignlega alveg undarlegt miðað við hvað ég get talað mikið í vöku!!!

 

9. nóvember 2003

Helgin hálfnuð! Í gær áttum við ágætan dag, ég fór á langa og árangursríka kóræfingu. Æfðum tveggja kóra messu eftir Frank Martin í fyrsta skipti með Schola Cantorum, hinum kórnum. Það gekk furðuvel og við gátum flutt fyrsta og síðasta hlutann fyrir einhverja fundargesti þarna í kirkjunni í lok æfingar. Og það af glæsibrag! Ég rölti svo heim í rigningunni og ákvað á leiðinni að baka súkkulaðiköku. Þegar ég kom heim hafði Einar einmitt ákveðið að baka kotasælubollur svo ofninn var kyntur og við hjónaleysin bökuðum hvort sína sortina! Í gærkvöldi horfðum við síðan á Groundhog Day. Þetta var örugglega í svona 87. skiptið sem ég sé þá mynd. Man varla eftir að hafa séð nokkra mynd jafnoft. Reyndar orðið svolítið langt síðan ég sá hana síðast! En það var gaman að sjá hana núna með sjónarhorni bókmenntafræðingsins. Augljóst mál að þessi mynd er girnileg til greiningar! Hver veit nema ég hyggi að því einhvern tíman. 

Í dag erum við svo boðin í hangikjöt til mömmu í hádeginu. Ég held að það verði alveg ótrúlega notalegt og ekki spillir fyrir að Þórunn og Steini eru boðin líka! Svo erum við jafnvel að bræða með okkur að kíkja á listasafn í leiðinni! Ég geri svo ráð fyrir að hitta Ingu í eftirmiðdaginn og leiðbeina henni aðeins með peysuna sem hún er að prjóna undir handleiðslu minni! Sem sagt nóg að gera en ekkert pláss fyrir Steingrím! Hvernig endar þetta eiginlega? Ég ætti helst að vera að skila fullbúnu verkefni eftur u.þ.b. viku en á enn eftir að lesa alveg fullt! Ég verð víst að stefna að lestri frá 8-22 í næstu viku. Taka bara upp kerfi Einars frá því hann var í clausus! Reyndar minnir mig nú að hann hafi byrjað klukkan fimm eða sex um morguninn (eða frekar nóttina!!!) en ég treysti mér nú ekki í það!!!!

 

7. nóvember 2003

Stund milli stríða í Idolinu ... við Einar sitjum hér á sjónvarpsloftinu og bíðum spennt eftir úrslitum í hörkukeppni!

Búinn að vera fínn dagur annars. Ég dreif mig af stað eldsnemma í morgun og keyrði Einar og börnin á sína staði en fór sjálf til ömmu að læra. Alveg með eindæmum notalegt að sitja við eldhúsgluggann í morgunskímunni og sötra neskaffi. Hefði reyndar alveg verið til í að lesa eitthvað áhugaverðara en ævisögu Steingríms en æ, það er samt ágætt. Ég rakst til að mynda á setningu sem hentar mínu umfjöllunarefni fullkomlega! Það er á við að finna góða gullkistu! Ég fór síðan í hádeginu til Rögnu og þáði kaffi og samlokur. Fékk líka að gramsa í efnunum hennar. Oh, það er svo margt fallegt til hjá henni að ég verð alltaf alveg brjáluð. Langar bara að rúlla mér inn í alla þessa efnastranga! Að ekki sé nú talað um öll pilsin sem ég sé fyrir mér! Eftir smá lærdómsstopp hjá ömmu sótti ég börnin og svo Einar. Dró þau með mér í Smáralindina til að kaupa herrajakka fyrir jólin á Huga! Ó, hann verður svo sætur ... er það náttúrulega fyrir en þið trúið ekki hvað hann er ómótstæðilegur í riffluðum flauelisjakka með herrasniði! 

En talandi um litla gæjann þá smellti ég þessari mynd af honum í dag:

Loðhúfur okkar foreldranna eru eitthvað voða vinsælar þessa dagana! Okkur Einari fannst hann strax minna á einhvern hljómsveitargæja, komum bara ekki strax fyrir okkur hvern helst. En Svanhildur hitti naglann á höfuðið, hann er alveg eins og Jay K úr Jamiroquai!!! Sjáið þið til dæmis þessa (æ, við eigum ekki skanna svo það verður bara að taka mynd líka):

Hvað segið þið um þetta?!?

Góða helgi!

 

6. nóvember 2003

Ófermdarástand í heimasíðumálum ... ekkert verið skrifað í vel á þriðja dag!!! Ástæðan er þó tæpast dugleysi, mun fremur atburðaleysi!!! Ég er búin að vera einstaklega dugleg við námið undanfarna daga. Hef stormað til ömmu eftir að morgunverkum mínum á Bárugötunni er lokið og setið þar fram eftir degi og lesið í Steingrími. Það er alveg með ólíkindum hvað það sækist seint. Í dag gekk mér reyndar mjög vel fyrir hádegi, var þá að lesa um æsilegar stjórnarmyndunarviðræður og var bara nokkuð spennt yfir þessu öllu saman. En viti menn skömmu eftir að við amma höfðum borðað grjónagraut með rúsínum og brauð með spægipylsu í hádegismat náði stjórn Gunnars Thoroddsen saman og þá fór nú að kárna gamanið. Öll spennan var úti og við tóku endalausar blaðsíður þar sem fjallað var um skrapdagakerfi, frystihús og byggðarkvóta! Það var eins og við manninn mælt: hraðinn sem ég hafði náð upp í lestri fyrir hádegi datt niður og ég held að ég hafi ekki lesið nema svona 10 bls. á tímabilinu frá klukkan 12 og til klukkan 16:30!!! Ekki alveg nógu gott! Ég á enn eftir að lesa svolítið af heimildum fyrir þetta verkefni þannig að ekki er seinna vænna en að fara að ljúka við Steingrím sjálfan.

Að öðru leyti er allt afskaplega gott að frétta af okkur. Einar er að fara að kenna læknanemum á morgun ... gaman að því eftir langt og strangt nám að vera kominn í stöðu læriföðurins! Sjálf ætla ég nú bara að hafa það með eindæmum gott á morgun og kíkja í kaffi til hennar Rögnu vinkonu minnar í hádeginu. Hún er með ýmislegt spennandi á prjónunum (reyndar kannski meira á saumavélinni!!!) sem gaman verður að heyra meira af. Svo bjóða þau í Lundi nú yfirleitt upp á einstaklega gott kaffi!

Ég er búin að vera alveg agalega löt við prjónana undanfarið. Keypti mér garn í peysu á Maríu í lok júlí og er enn að vinna að henni! Reyndar er ástæðan fyrir þessum seinagangi ekki bara leti heldur líka það að ég ákvað að rekja upp og prjóna aftur stóran hluta. Æ, þetta var eitthvað svo illa gert hjá mér og þá er alltaf betra að byrja aftur en að vera alltaf hundóánægður ... eða finnst ykkur það ekki?! Ég var hins vegar orðin svo ótrúlega þreytt á þessu verkefni að ég ákvað að taka lítið hliðarspor og prjóna húfu á Maríu. Sú er með eindæmum vel heppnuð eins og þið getið séð:

Nú hef ég hins vegar tekið til við leiðindapeysuna aftur og sný að sjálfsögðu endurnærð til þess verks! 

Helgin framundan með fögrum fyrirheitum ... reynið að hemja ykkur þangað til!!!

 

3. nóvember 2003

Mikill pæjudagur að kveldi kominn! Við María áttum nefninlega smá svona skvísustundir saman í dag, bara tvær! Ég sótti hana um hádegið á leikskólann til að fara í 3ja og 1/2 árs skoðunina. Hún gekk að sjálfsögðu með eindæmum vel, enda María skýr og góð stúlka! Síðan fórum við í smá snatt, til skósmiðs og í fatahreinsun (alveg týpískt ég að koma mér loks í að láta laga vetrarskóna og -kápuna akkúrat þegar komið er hitastig og veðurfar til að nota slíkar flíkur!) en svo var haldið á kaffihús. Áttum ansi notalega stund saman á Súfstanum mæðgurnar, sötruðum drykki og spjölluðum saman. Síðan var strunsað með dömuna ungu í klippingu hvar hún stóð sig með eindæmum vel. Svo gátum við (eða aðallega ég) ekki á okkur setið með að kíkja í nokkrar búðir á leiðinni heim! Æ, það er ósköp gaman þegar börnin eru orðin tvö að eiga af og til stundir þar sem hægt er að einbeita sér að öðru í einu! Eftir að við vorum búnar að sækja Huga fórum við svo í heimsókn til ömmu á Sóló eða „Hlólóömmu“ eins og Hugi kallar hana. Það var líka ósköp notalegt og þar finnst krílunum gott að vera. Ég ætla svo að fara aftur niður á Sóló á morgun en þá krílalaus og með það markmið eitt að vera dugleg að læra! Hvergi er betra að stunda nám en einmitt þar! Hér heima er orðið of margt sem freistar, ef það er ekki internetið (eða jafnvel mjúkt rúm og sæng!) þá er það bara uppvaskið eða þvottahúsið ... það er jú alltaf nóg að gera á stóru heimili! Já heimilið sem var svo ansi hreint þrifalegt og fagurt um helgina hefur strax breytt um svip, nú á mánudagskvöldi. Ég er ekki frá því að ég standi í lítilli sandhrúgu og horfi á a.m.k. eitt handarfar prentað með skyri í áklæði borðstofustóls! Það er af sem áður var ... hvar endar þetta?!!!

 

2. nóvember 2003

Dásamlegur sunnudagur hér á Bárugötunni! Eftir notalegan morgun fengum við einstaklega góða gesti í hádeginu. Svanhildur, Sigurður og Ástþór Örn litu hér við okkur til mikillar gleði! Við gátum boðið upp á kaffi og eplaköku ásamt slatta af áður óséðu dóti ... það síðasta var nú aðallega fyrir Ástþór Örn! Það var alveg rosalega gaman að fá þau og svona eftir á fór ég að hugsa að við hlytum nú að eiga alveg einstaklega góð börn því þau það heyrðist eiginlega ekki múkk frá neinu þeirra þriggja meðan á heimsókninni stóð! Í það minnsta gátum við foreldrarnir spjallað að vild sem er nú alls ekki sjálfsagt þegar þrjú kríli eru á staðnum! Eftir heimsóknina fóru svo Einar og María að gera upp syndir sínar á Borgarbókasafninu! Við höfum verið með nokkrar bækur í láni frá því svona í maí og alveg kominn tími á að skila þeim!!! Ég vona að börnin erfi ekki mín gen sem stjórna því hve samviskusamur maður er að skila bókum á bókasöfn! Hér inni í bókaskáp er ein bók sem ég fékk að láni þegar ég var í 4. bekk í MR, s.s. fyrir um tíu árum síðan og reyndar ein frá því ég var svona tólf ára!!! Roðn!

María hefur greinilega ekki farið varhluta af þessu Orkuátaki þó hún hafi ekki verið í hópnum sem fékk Orkubókina senda. Í það minnsta hefur hún haft stór orð uppi um að hætta að borða nammi og borða bara grænmeti í staðinn! Svolítið fyndið því henni finnst nú grænmeti ekkert voðalega gott (reyndar ekki nammi heldur!) en maður tekur bara viljann fyrir verkið! Og eitthvað hefur íþróttaandinn eflst hjá henni því í dag hefur hún fullyrt að hún geti farið í splitt! Ég bað hana nú um að sýna mér kúnstirnar og tók meira að segja mynd af afrekinu:

Já, ég er nú ekki alveg viss um hvort þetta sé splitt ... en eitthvað er það, það er nokkuð ljóst!

Helgin alveg á lokasprettinum og við tekur vonandi vika þar sem ég get lært duglega, svona til að bæta upp vinnutapið í veikindum barnanna! Vona að þið eigið öll góða viku framundan!

 

1. nóvember 2003

Mikið byrjar nýr mánuður vel! Eftir kaffi morgunsins og krossgátuna var tekið til við stórhreingerningar. Mamma var svo elskuleg að fjarlægja litla hryðjuverkamanninn tímabundið enda er tilfinningin að taka til með Huga á svæðinu svipuð því að moka snjó í snjókomu! María reyndist hins vegar hin besta ráðskona og aðstoðaði við afþurrkun milli þess sem hún fjöldaframleiddi listaverk til heimilisins. Við Einar kepptumst við og tuskur, ryksuga og moppur þutu yfir hina ýmsu fleti. Já, það er loksins orðið hreint á Bárugötunni! Okkur hefur því þótt heimilsbragurinn heldur jólalegur í dag og segir það því miður skelfilegan sannleikann um hve sjaldgæfar slíkar hreingerningar eru! Til að bæta um betur keypti ég meira að segja blóm til að gera heimilið enn fegurra! Og að sjálfsögðu myndaði ég þau í bak og fyrir líkt og mín er von og vísa. Gjörið þið svo vel:

Óskaplega fallegt! Ég hef áður sagt á þessum vettvangi að hamingja mín sveiflist í öfugu hlutfalli við skítastuðul heimilisins. Ég er því með eindæmum glöð og hamingjusöm ung kona í dag. Til að kóróna daginn gerði Einar góðan kvöldmat og ég bakaði eplaköku í eftirrétt. Síðan ráðskonan unga og litli hryðjuverkamaðurinn sofnuðu hefur okkur gefist gott næði til að kíkja í blöðin, ráða fleiri krossgátur (við Einar ákváðum að reyna við þessa ógeðslega erfiðu í sunnudagsblaðinu, varð ekki mikið ágengt en náðum nokkrum orðum þó!) og hafa það almennt huggulegt við kertaljós og ajaxilm! Hver veit nema mér takist á halda Einari vakandi til að horfa á Beck í kvöld! Við hjónaleysin eigum nú ekkert svona „lagið okkar“ en við ég held að myndirnar um Beck lögregluforingja geti alveg talist „sjónvarpsmyndirnar okkar“! Og talandi um Beck þá verður hann viðfangsefni lítillar ritgerðar sem ég mun skrifa til að bæta mér upp þá 2,5 einingu sem mig vantar til að geta lokið B.A.-náminu. Eða ekki kannski Beck en bók um hann, nánar tiltekið hin frábæra Maður uppi á þaki eftir sænsku hjónin Sjöwall og Wahlöö. Sú bók gekk lengi undir nafninu „berrassaða bókin“ á mínum bæ enda skrifuð á hinum mjög svo berrassaða sjöunda áratugi síðustu aldar! En það er nú ekki þess vegna sem ég valdi að skrifa um hana heldur vegna þess hve hún smellpassar inn í formgerð skandinavísku hefðarinnar í glæpasagnagerð og fyrir það hvað það er áhugavert líkamsmyndmál í henni! Já það er verkefni sem ég hlakka til og ævisöguverkefnisins raunar líka. Sé því fram á skemmtilegar stundir yfir námsbókunum fram að aðventunni. Þá tekur auðvitað við taumlaus gleði þar sem ég rúlla mér inn í jólapappír, hengi jólakúlur í hárið og baka jólasmákökur (og borða deigið!) milli þess sem ég syng jólalög af öllum stærðum og gerðum! En nú er ég komin fram úr sjálfri mér.

Vona að helgarafgangur verði ykkur jafnánægjulegur og hann mun án efa verða okkur á nýþrifinni Bárugötu. Gleðilegan nóvember!

 

Forsíða      Um okkur      Mín síða      Myndirnar okkar       Hafðu samband      Gestabókin okkar