Notalegur nóvember

Örfáar myndir úr fremur viðburðasnauðum mánuði

Hér var milt haustveður fram eftir öllu og einn nóvemberdaginn skruppum við í Stadsträdgården. Við byrjuðum við Svandammen þar sem nokkrar hressar endur heilsuðu vongóðar upp á okkur.

Baldri Tuma fannst mjög spennandi að hitta „bla bla“ eins og hann sagði þá en er í dag svo forframaður að hann talar bara um „önd“.

María og bleika höllin.

Þarna við tjörnina rákumst við svo á feðginin Haffa og Jóhönnu sem voru að gefa öndunum brauð og voru svo elskulega að leyfa Baldri Tuma að prófa líka.

Þetta þótti æsispennandi viðburður. María og Hugi voru slakari enda öllu vön frá Reykjavíkurtjörn.

María og Jóhanna á spjalli.

Feðgar í haustlaufi.

Við höfum ekki komið í Stadsträdgården síðan um páskana og leiksvæðið hefur nú tekið á sig algjörlega nýja mynd þannig að þar var nóg fyrir okkur að skoða og rannsaka. María tók þessa krúttlegu skjaldböku gaumgæfilega út.

Og svo fengum við okkur heitt kakó. Bræðurnir súpa samtaka á.

Safnast saman á garðbekk.

Enn voru fallegir haustlitir alls staðar ...

... eins og sjá má.

Það voru meira að segja enn blóm hér og þar!

Hugi rólar í nýju rólunum þarna fyrir miðju.

Eitthvað fallegt sem ég veit ekki hvað heitir.

Inn á milli norrænna trjáa í haustlitum mátti svo sjá pálmatré á stangli!

Þarna þykist ég þekkja gamla rólu úr garðinum sem fengið hefur nýtt hlutverk sem einhvers konar rugguhestsrúmróla.

Hugi prílar í pálmatrjám - ný reynsla!

Tuminn efst uppi á riiiisastórum hól, um það bil að fara að renna sér niður víúvíið.

Á leiðinni heim gengum við smá spotta meðfram ánni sem var falleg í ljósaskiptunum.

Einar er mjög ruglaður maður - eins og þið munuð brátt skilja. Fyrir aftan húsið okkar stendur álmur sem drapst í svokallaðri álmveiki í fyrrasumar. Nú er hann orðinn þurr og stökkur og við höfum verið svolítið hrædd um að hann standist ekki mikil óveður og gæti jafnvel lent inni í svefnherbergi hjá okkur einhverja nóttina ef ekkert verði að gert. Vandinn er hins vegar að tréð stendur svo þétt upp við húsið að erfitt er að fella það, engar vinnuvélar komast þarna að bara hægt að fella tréð yfir í garð nágrannans sem er alfarið búinn að segja sig frá stóra álm-málinu. Eina leiðin sem okkur datt í hug var því að fá háan stiga og saga greinarnar niður í bútum. Þetta var góð hugmynd. Það sem ekki var svo gott var að byrja að framkvæma hana óundirbúinn klukkutíma fyrir myrkur. Og þar komum við að þætti hins ruglaða Einars.

Fyrsta greinin féll tiltölulega auðveldlega niður og eftir þann stórsigur gat hann auðvitað ómögulega hætt, jafnvel þótt það væri farið að dimma verulega. Næst ætlaði hann að taka stærstu og erfiðustu greinina. Hann byrjaði á að skorða hana fasta með bandi svo hún félli ekki beint niður og svo var byrjað að saga. Nema greinin reyndist svo vel skorðuð að hún féll ekki einu sinni þegar sögin var komin í gegnum stofninn! Þá vantaði kaðal til að reyna að toga í greinina en enginn kaðall reyndist til á heimilinu. Í staðinn batt Einar rafmagnssnúru í drumbinn og byrjði að toga. Við tók klukkutímalangur prósess sem fól meðal annars í sér eitt hrap úr stiga, týnd gleraugu í myrkrinu og alls konar annað rugl. Eftir langa mæðu tókst þó að vega bolinn niður en hann hékk enn fastur við tréð og ekki var hægt að gera neitt frekar í málinu það kvöldið enda aðstæður vonlausar (eins og öllum hefði átt að vera ljóst þegar lagt var af stað með verkefnið!).

Daginn eftir (og raunar alla næstu viku!) var ástandið þvi svona bak við hús! Ég veit ekki hvað nágrannarnir hafa haldið um okkur og vil helst ekki reyna að ímynda mér það! Ég efast alla vega um að þeir hafi nokkurn tímann séð tréð fellt með jafnófaglegum hætti!

Ástandið á pallinum var dálítið brútal! En auðvitað er ég fegin að stærstu og hættulegustu greinarnar skuli vera farnar - og svo stefnir líka í að við þurfum engan við að kaupa fyrir næsta vetur!

     

Við Baldur Tumi bökuðum súkkulaðiköku (já eða kúkkúköku) eitt föstudagskvöldið í lok nóvember. Það er gaman að eiga svona duglegan lítinn bakarasvein sem hjálpar til við að sleikja skálina!