Nokkrar septembermyndir

Ég geri mér stundum ferð upp í Mosfellsdal til að kaupa ferskar rósir beint frá rósabóndanum í Dalsgarði. Ástæðan er fyrst og fremst sú að mér þykir svo óskaplega gaman að koma þangað. Kisa kúrir úti í horni, rósablöð og greinar liggja eins og hráviði á gólfinu, einhvers staðar stendur kannski notaður kaffibolli með kaffiklístri sem maður sér fyrir sér að enginn mannlegur máttur (né vélrænn) nái að vinna á! Lyktin í rósakælinum er líka óviðjafnanleg og ég missi mig alveg í úrvalinu. Þessar fallegu rósir eru einmitt úr kælinum góða.

En verðið er svo sem ekki til að spilla fyrir, rósirnar eru töluvert ódýrari svona beint úr gróðurhúsinu. Mér finnst líka svo ótrúlega sjarmerandi að á þessum ógnartímum sé enn til fólk sem ber fullt traust til náungans. Í Dalsgarði er gjarnan sjálfsafgreiðsla, þá standa rósirnar í fötum uppi á borði og opinn peningakassi fyrir neðan! Svo velur maður sér búnt og skilur eftir viðeigandi upphæð.

    

Hér eru systkinin heldur betur röndótt og minna helst á aðstoðarmenn jólasveinsins. Ég er dálítið svag fyrir þessu röndótta dæmi frá hinu danska Katvig fyrirtæki.

Þau geta verið voðalega skrýtin!!!

En líka ósköp sæt!

Bella símamær! Símaáhugann hefur hún í beinan kvenlegg!

    

Huga finnst einkar skemmtilegt að elda mat í dúkkukróknum. Pasta (sem ýmist gengur undir nöfnunum Tasta eða Kasta) er þar oft á matseðlinum. Honum finnst hann líka dálítið flottur með svuntuna! Taki sérstaklega eftir nýklipptum glókollinum!

Annað sem Huga finnst mjög skemmtilegt er að burðast eitthvað með Bjart. Bjarti þykir það hins vegar ekkert stuð eins og kannski sést á þessari skondnu mynd af þeim bræðrum!

„Mamma, sjáðu hvað tunglið er fallegt ... það er eins og það sé úr gulli!“ Af einhverjum ástæðum eru María og Hugi bæði mjög hrifin af tunglinu. Hugi heldur því raunar fram að hann hafi komið þangað, nánar tiltekið að hann hafi setið á tunglinu og veitt fisk! Hér mun minni hans vera að slá saman við lógó Dreamworks teiknimyndasamsteypunnar! Í öllu falli taka systkinin eftir tunglinu sjáist það á himni, hvort heldur í björtu eða kolniðamyrkri. Og þykir fallegt!