Nokkrar maímyndir

Við fundum gamla dúkkuvagninn hennar Maríu í bílskúrnum í byrjun maí, drógum hann fram og standsettum. Baldur Tumi skemmti sér konunglega við að keyra voffa fram og til baka í garðinum. Eins og sést gekk hann rösklega til verks í þessu eins og öðru!

Baldur Tumi og Rósa eru sérstaklega góðir vinir og hafa verið frá fyrstu stundu.

         

Það er nú aldeilis gott að eiga svona góða vinkonu þegar allar dekrandi og knúsandi ömmur og frænkur eru langt í burtu.

Ungfrú María hélt upp á afmælið sitt í maí og bauð bestu vinkonum sínum heim í pizzur, spjall og leiki. Við mæðgur skemmtum okkur hið besta við að skreyta fyrir komu gestanna. Við vorum búnar að kaupa diska og servéttur í Lagerhaus og stráðum svo bleiku konfetti yfir dúkinn.

Þessar fínu cupcakes voru nú eiginlega meira hugsaðar upp á punt. Þær voru samt mjög góðar, það var ekki það!

Gestirnir mættir, frá vinstri Angelina, Clara, Linnea BS, Isabella, Linnea L, María, Tuva og fremst stendur svo Baldur Tumi sem taldi sjálfan sig aðalmanninn á svæðinu!

Sætar stelpur samankomnar við borðið ... og aðalmaðurinn skælbrosandi þarna til hægri!

Angelina, Baldur Tumi, María og Linnea L.

Tuva, Isabella og Clara.

 

Baldur Tumi býður Angelinu pizzubita, María klórar sér í nefinu.

Daginn eftir afmælisveisluna héldum við til Stokkhólms og brunuðum beint í Gamla Stan. Við vissum nefnilega af henni Ásu okkar þar og ákváðum að ræna henni smá stund frá vinkonum sínum. (Vinsamlegast athugið að þótt við Einar eigum mörg börn þá eru þessar stúlkurnar þarna lengst til vinstri ekki á okkar snærum!)

Mannránið afstaðið og við búin að flytja Ásu yfir á öruggan veitingastað við Slussen. María var kát með vel heppnaða aðgerð.

Hitað upp fyrir Danmörku í ágúst, þá verða Elli og mamma sem betur fer líka með okkur!

   

Við fengum okkur hamborgara og franskar á línuna og höfðum það gott þrátt fyrir að það væri eilítið svalt að sitja úti.

Eftir að við höfðum skila Ásu aftur til vinkvennanna héldum við hin yfir á Kungsholmen í bakaríið Petite France. Þangað hef ég ætlað að fara í hverri einustu Stokkhólmsferð í mörg ár en á svo aldrei leið um Kungsholmen svo makkrónu- og baguettekaup eru ævinlega látin sitja á hakanum. Ég ákvað því að ef ég ætlaði að koma þangað á annað borð þyrfti ég að gera mér sérstaka ferð og alveg án þess að blanda henni saman við önnur erindi. Og þetta var sem sagt dagurinn. Hér nýtur María þess að fá knús frá Baldri Tuma fyrir utan bakaríið meðan Einar er inni að kaupa kræsingar.

Hugi minn er aldeilis að verða myndarlegur ungur maður.

Makkarónur af öllum gerðum, vanillu, hindberja, pistasíu, sítrónu, lakkrís og alls konar! Við nýttum ferðina vel og keyptum fleiri makkarónur til að taka með okkur heim, súrdeigsbaguette og afar illa lyktandi en sérstaklega bragðgóðan franskan ost. Það kom sér vel að eiga þessar kræsingar því einmitt þetta kvöld voru Eurovision úrslitin.

Eftir bakaríið gengum við smá stund eftir Norra Mälarstranden, fengum okkur sæti á bryggju, horfðum yfir á Södermalm og höfðum það gott.

Við Einar með Söder í baksýn.

Á leið heim eftir góðan dag.