Nokkrar maímyndir

Hér koma síðustu myndirnar sem teknar voru meðan við vorum enn bara fjögurra manna fjölskylda!

 

1. maí var frábært veður og við nutum þess að vera úti í sól og blíðu. Hér sést Hugi reyna að leika eftir trix mörgæsarmannsins úr Batman Returns!

María sat hins vegar uppi í tréhúsi, las Andrés Önd og sötraði saft.

Ljúfasta fegurð fljóða!

Þann dag borðuðum við hádegisverð úti á stétt í fyrsta sinn árið 2009. Bassinn blindaðist af sólinni!

Og um kvöldið bakaði ég stórgóða hindberja og kardimommu köku.

María er orðin ótrúlega dugleg að baka sjálf og hér hafði hún steikt bláberjalummur handa fjölskyldunni. Þar sem berin voru frosin urðu lummurnar dálítið ósjálegar og hlutu umsvifalaust nafnið Skrímslalummur Hagrids (hér er verið að lesa Harry Potter á kvöldin!).

13. maí og plómutrén standa í blóma.

Alltaf jafn ótrúlega fallegt!

Verðandi plómur sem ég ætla að gera ljúffenga plómuböku úr síðsumars!

    

Gestkvæmt í plómutrénu!

Undir trénu stóðu hvítasunnuliljurnar sem við settum niður síðasta haust í blóma.

Nokkrum dögum eftir að ég tók myndirnar af plómutrénu var ég lögð inn á sjúkrahús. Eitt af því sem mér þótti allra verst var að missa af eplatrénu í blóma þannig að Einar tók fyrir mig nokkrar myndir af því. Að vísu var skýjað og þungt yfir og aðstæður til myndatöku því ekkert sérstaklega góðar en það sést þó vel hvað það var mikið af blómum í ár.

Verðandi epli sem ég ætla að gera ljúffenga eplaböku úr síðsumars!

Eins og áður hefur verið á minnst var útsýnið af sjúkrastofunni minni einstaklega fallegt. Gamla húsið í forgrunni tilheyrir spítalanum og í fjarska sést bleika höllin og bak við hana glittir í dómkirkjuturnana þrjá. Blómstrandi sírenur sá ég líka og úr öllum þessum trjám ómaði fuglasöngur allan liðlangan daginn (og stærstan hluta næturinnar líka). Fæðingarstofan sem litli kúturinn fæddist á var svo akkúrat fjórum hæðum neðar en sjúkrastofan þannig að við höfðum nákvæmlega sama útsýni þar líka.

Sjúkrahússdvölin var svolítið stressandi. Það var mikil óvissa varðandi meðgönguna, María og Hugi voru í hálfgerðu reiðileysi (þangað til amma þeirra kom og passaði þau) og svo vorum við ekki með neitt tilbúið heima fyrir lítið barn. Kvöldið fyrir gangsetningu ákváðum við Einar þó að sleppa tökunum á öllum áhyggjum og eiga notalega stund saman. Mig var búið að dreyma um sushi alla meðgönguna og ákvað að láta drauminn rætast þetta kvöld. Að vísu gat ég ekki fengið mér spicy tuna roll eins og vanalega en avocado sushi er líka mjög gott! Innan við tólf tímum eftir að þessi mynd var tekin vorum við svo orðin fimm manna fjölskylda!