Milli hausts og vetrar

Flestar myndirnar í þessu albúmi eru líka teknar á símann og í þetta sinn hef ég enga ritgerð mér til afsökunar, ég var bara í litlu myndastuði. En hér koma nokkrar frá nóvember.

Í byrjun nóvember fórum við í Stokkhólmsferð. Við byrjuðum daginn hjá Brynju og Dóra í Solna hvar við Hugi fengum fínar klippingar hjá íslenskri hárgreiðslukonu sem var þar í heimsókn. Við vorum heldur betur lukkuleg með okkur eftir það og brunuðum í bæinn. Við komumst að vísu aldrei að endanum á þessum rosalega regnboga en kaffihús og búðir í höfuðborginni gerðu nokkurn veginn sama gagn!

Ég held ég hafi aldrei séð svona sterkan og fallegan regnboga áður.

         

Kubbaturn sem bræðurnir byggðu í sameiningu.

Stoltur smiður!

Í októberalbúminu sagði ég frá brjáluðu miðvikudagseftirmiðdögunum okkar krakkanna. Hér erum við á góðri stundu á Espresso House í St:Pers galleriunni að bíða eftir að Hugi klári Michael Jackson dansana. María les efnafræði, Baldur Tumi borðar kókoskúlu og ég nýt stórs bolla af chai latte og muffins með sítrónu og valmúafræjum.

Um leið og klukkunni er breytt síðustu helgina í október verður svooo dimmt hérna. Þá er almyrkvað rétt upp úr fjögur (í desember er orðið dimmt um þrjúleytið) og manni líður alltaf eins og það sé kominn háttatími, bæði andlega og líkamlega. Hér hafði ég stokkið í bæinn eitt síðdegið en leið eins og ég væri á næturbrölti þegar ég horfði á upplýsta dómkirkjuturnana í myrkrinu.

María eyddi heilli helgi í Mariefred með krökkunum í Youth Advisory Board samtakanna World's Children's Prize. Við sóttum hana á sunnudeginum og komum auðvitað við í kókosbollubílnum góða.

Við máttum auðvitað til með að rölta aðeins um Mariefred þótt bærinn væri örlítið eyðilegri í nóvember en hann var í maí þegar við vorum þar síðast. Hér er fyrrverandi lögreglustöð.

María sýnir okkur hvar aðalskrifstofur World's Children's Prize eru í bænum. Hún er orðin svo ótrúlega stór þessi stelpa okkar, farin að þvælast sjálf um bæinn með strætó og sitja ráðstefnur heilu helgarnar langt í burtu frá mömmu, pabba og bræðrum sínum. Hún stenst þetta auðvitað allt með glæsibrag eins og henni einni er lagið.

Svo komum við við á kaffihúsinu Två goda ting sem er í miklu uppáhaldi hjá okkur.

Beðið eftir heitu kakói með rjóma. (Finnst ykkur klippingin hans Huga ekki flott?!)

Á háhest heima.

Fyrisån í haustlitunum.

Í lok nóvember sáum við Einar um diskó fyrir bekkinn hans Huga ásamt nokkrum öðrum foreldrum. Mér finnst enn alveg ótrúlega erfitt að standa í einhverju svona hér í Svíþjóð og er alltaf dálítið hrædd um að menningarmunurinn verði til þess að ég geri allt vitlaust og allir verði ægilega óánægðir með mig. Þetta bjargaðist þó að mestu fyrir horn í þetta skiptið en ég gerði þó þau afdrifaríku mistök að halda að snakk væri vinsælla en popp - því var þveröfugt farið og gríðarlegur poppskortur varð í miðju partýi. Annars var þetta hið ánægjulegasta kvöld, við foreldrarnir spjölluðum í eldhúsi safnaðarheimilisins meðan Gangnam Style og Little Talks ómuðu til skiptis innan úr salnum og diskóljósin blikkuðu.

Svo gerðist það loksins - saffransemlurnar fóru að fást á Landings! Semlur eru, eins og lesendur þessarar síðu vita sjálfsagt, bolludagsbollur Svía og byrja yfirleitt að fást um miðjan janúar. En saffransemlur eru jólaafbrigði semlunnar sem stundum er hægt að fá í betri bakaríum og kaffihúsum bæjarins vikurnar fyrir jól.

Ég byrjaði hægt og hljótt að jólaskreyta hérna heima, minnug þess að ef ég byrja ekki of snemma þá byrja ég allt of seint!

Strákarnir byggðu hús úr sófanum og horfðu á spólu saman. Baldur Tumi fullyrti að þetta væri „lasahús“, fyrir lasna stráka. Hann var að vísu á góðum batavegi eftir smá pest og Hugi alveg frískur en lasahús var það engu að síður!

Baldur Tumi er annars mjög lítið fyrir að horfa á sjónvarpið og það er fátt sem heldur einbeitingu hans. Það er þá helst ef hann fær að horfa á eitthvað með Huga að hann endist, skiptir þá litlu hvort það er Star Wars, Harry Potter eða eitthvað annað sem hann skilur væntanlega lítið í.

Svo var loksins komið að danssýningunum! Að þessu sinni voru sýningarnar bara haldnar í dansstúdíóinu í síðasta tímanum og við fórum á tvær þar sem Hugi er búinn að vera á tveimur námskeiðum í haust. Fyrst var það Michael Jackson dansarnir. Þar fengum við að horfa á ótrúlega flottan dans við Smooth Criminal og svo fóru krakkarnir í Michael Jackson spurningakeppni! Hér er Hugi í miðjum dansi og svo flottur að það er eins og ljósið skíni sérstaklega á hann og hinir nemendurnir séu bara svona auka! Ég er náttúrulega móðir hans en ...

Í lok tímans stilltu sér allir upp ásamt kennaranum og pósuðu.

Ja allir nema okkar maður sem var annars hugar og fattaði þetta ekki alveg með pósurnar ...

... fyrr en aðeins seinna!

Skemmtilegur hópur og snjall kennari! Ég tók auðvitað vídeó af dansinum en þar sem ég er svo hryllilega sein með allar myndir og það tekur svo laaaaangan tíma að hlaða inn myndbandi bíð ég með það þangað til síðar.

Og svo kom fyrsti snjórinn! Baldur Tumi var búinn að bíða spenntur í marga mánuði og tala mikið um snjóinn í haust. Reyndar talaði hann líka mjög mikið um að hann langaði svo rosalega að „halda á ljóni og fá ljónapakka“ sem ég var ekki alveg að fatta. Sagði bara eins og ráðþrota foreldrar hafa gert í aldanna rás „Já, já, elskan, bara seinna. Seinna máttu halda á ljóni og fá ljónapakka.“ Það var ekki fyrr en seint og um síðir að ég fattaði að hann var að meina að halda jól og fá jólapakka!!!

Ég eyddi síðustu dögum nóvember á spretti við að kaupa jólagjafir í bænum. Járnbrúin skartaði sínu fegursta í ljósaskiptunum og nýföllnum snjó og fékk mann til að gleyma öllu jólastressi um stundarsakir.

Ótrúlegt að það sé hægt að taka svona fínar myndir á einn lítinn síma - og ekkert instagramm eða neitt!