Mildi mars

 

Loksins, loksins er hægt að merkja að vorið sé á næsta leyti.. Að vísu er enn svolítill snjór í görðunum og fróðir menn spá því að hæstu snjófjöllin muni ekki bráðna fyrr en í júlí.. En hér á Konsulentvägen hefur sólin skinið inn um gluggana, búið er að kaupa útsæði og tómatafræ og í garðinum syngja fuglarnir allan liðlangan daginn.

Svanhildur kom í heimsókn til okkar um mánaðarmótin febrúar/mars. Við áttum yndislega daga með henni og við vinkonurnar skruppum meðal annars til Stokkhólms á sýningu á verkum Rubens og Van Dyck í Nationalmuseeum og svo spjölluðum við, prjónuðum og drukkum mikið kaffi. Það er hræðilegt frá því að segja en ég tók næstum engar myndir - enda allt of upptekin við allt framantalið.

Hér vorum við hins vegar búnar að baka óskaplega góð súkkulaði cupcakes sem við gæddum okkur á í félagsskap við strákana en María var því miður veik og fjarri góðu gamni. Takk elsku vinkona fyrir þessa frábæru daga!

         

Baldur Tumi byrjaði að standa upp einmitt meðan Svanhildur var hjá okkur og hefur æ síðan verið óþreytandi að leika þessar listir sínar hvar sem er og hvenær sem er!

Kirsuberjagreinar í blóma innandyra. Það styttist í þær utandyra líka!

Þessi litli ljúflingur hefur leikið á alls oddi í mars, skoðað bækur og staðið upp, sofið vel í vagninum úti á palli og almennt verið hvers manns hugljúfi.

Yndi!

Já og kominn með fjórar tennur, tvær niðri og tvær uppi! Sjá þessi litlu hrísgrjón!

Kátir voru karlar ...

Það er fátt skemmtilegra þessa dagana en að vera undir hlutum. Ég skil hann svo vel, ég man sjálf hvað mér fannst frábært að vera „í húsi“ þegar ég var lítil.

„Hva, það er ekkert merkilegt að kunna að standa!“

„Djók! Það er ógeðslega töff!!!“

„Töff og skemmtilegt og best af öllu væri ef hægt væri að gera allt standandi, til dæmis borða og sofa. Þetta hef ég reynt ítrekað en mamma og pabbi fatta eki alveg hvað þetta er frábær hugmynd.“

„Og þá getur maður orðið verulega fúll!“

Þið haldið kannski að við foreldrarnir séum orðin alveg rugluð að gefa barninu ostapopp að naga!

En nei, nei, þetta eru svokallaðir maískrókar, 0% salt, 2% fita og 100% ánægja. Sýndu þeim, Baldur Tumi!

Næst skemmtilegast á eftir að standa er að fá að borða sjálfur!

Eins og áður hefur verið greint frá getur verið áskorun að hafa ofan af fyrir hinum nýjungagjarna Baldri Tuma. Ekki einasta verður hann þreyttur á dótinu sínu heldur þykir honum líka leiðinlegt að vera í sama herbergi löngum stundum. Efri hæðin er einna ferskust en þar eru fáir staðir sem honum er óhætt á enda stutt í stigann úr öllum áttum. En það má leysa með einföldum hætti - búningakistunni hans Huga!

Hann er eins og einhver svona aðstoðarmaður töframanns sem rís öllum að óvörum upp úr kistunni! Ta-da!!!

         

Mest spennandi staðurinn í húsinu er þó án efa ísskápurinn! Um leið og einhver opnar ísskápsdyrnar tekur hann á sprett í áttina að honum og verður þvílíkt sár ef maður lokar áður en hann er kominn á áfangastað.

Það er svo krúttlegt hvernig hann er alltaf að spóla svona létt með öðrum fæti í leit að einhverri tyllu til að stíga upp á í von um að geta príla lengra og kannað nýjar slóðir!

Tveir alveg eins! Og kannski krúttlegasta mynd nokkru sinni?

Feðgarnir í sunnudagsstemmningu.

Sybbinn.

Þegar við mæðginin erum orðin þreytt á öllum herbergjum hússins skellum við okkur í þvottahúsið. Þar er alltaf nóg af verkefnum að takast á við og Baldri Tuma þykir mikil tilbreyting að koma þangað inn og fá jafnvel að horfa á þvottinn snúast í vélinni.

Hér sést Baldur Tumi horfa á Stubbana í fyrsta sinn. María stóra systir passar að allt keyri ekki um koll í æsingnum og tekur þátt í gleðinni.

Ekkert smáræðis skemmtilegt!

  

Getur einhver staðist þennan krúttsvip?!

Það væri enn skemmtilegra ef það væri hægt að ná taki á þessum fígúrum ... og jafnvel stinga þeim í munninn og naga aðeins! Og þrátt fyrir að Stubbarnir séu mjög skemmtilegir endist maður nú ekki nema í eins og fimm mínútur en þá er orðið tímabært að fara að gera eitthvað annað!

  

Krúttsprengja!

Baldur Tumi er nýkominn úr 10 mánaða skoðun og heldur sínu striki í lengd og þyngd. Hann er enn tveimur staðalfrávikum undir meðallagi líkt og þegar hann fæddist en það er alla vega ekki hægt að kenna næringarleysi um því hann hesthúsar sex máltíðum á dag eins og ekkert sé!

Hér á Konsulentvägen hefur allt snúist um plöntur og potta í marsmánuði og kominn mikill vorhugur í okkur. Þegar ég sá þetta litla tré í eftirlætisblómabúðinni minni um daginn missti ég næstum úr slag af hamingju.

Þetta var ást við fyrstu sýn!

  

Ég var í svo miklum hugaræsingi þegar ég keypti tréð að ég er búin að steingleyma hvað það heitir. Man samt að það var eitthvað „japonica“ því ég hugsaði með mér að það hlyti auðvitað að vera þar sem ég elska allt japanskt. Tréð er svo fíngert að eitt svona laufblað (samsett úr mörgum litlum blöðum) er álíka stórt og nöglin á litla fingri. Mér hefur aldrei verið jafnmikið í mun að halda lífi í nokkurri plöntu og ef það hefur það ekki af hjá mér þá er það áreiðanlega vegna þess að ég mun drekkja því í vatni, næringu, ást og umhyggju!

Talandi um ást og umhyggju!

Er til nokkuð yndislegra en glöð börn í vorsólinni?

Þrjú á palli!

  

Þessi litli snáði fékk að sitja sjálfur utandyra í fyrsta sinn á ævinni. Í tilefni af því setti hann upp krúttsvipinn!

Nú kann hann að gera „svooooona stór“! Hann kann líka að klappa en neitar alveg að gera það eftir pöntun nema helst ef maður biður hann um að vinka, þá gæti maður fengið smá klapp!

         

Allir spennandi hlutir sem Baldur Tumi nær í fara beinustu leið í greiningarstöðina - munninn! Líka gömul laufblöð!

Það er gott að eiga stór systur sem aðstoðarmann við náttúrulífsrannsóknir.

Svei mér þá ef maður er ekki farinn að trúa því að vorið muni koma á endanum.

         

Gamla setjarahillan mín fangar kjarna marsmánaðar vel, frá vetri til vors!