Marsdagbók 2011

            

 

 

Forsíða

Um okkur

Mín síða

Myndirnar okkar

Hafðu samband

Gestabókin okkar

 

28. mars 2011

Vorið

Skógardúfan lenti hér á Konsulentvägen í fyrsta sinn þetta árið bara núna í morgun. Nú kurrar hún og syngur á berum greinunum hér fyrir utan gluggana og fær mig til að halda að vorið sé ekki bara á næsta leyti heldur mögulega þegar komið. Í glugganum suðar lítil húsfluga og í beðinu framan við hús brosir einn einmana vetrargosi. Að vísu er ekki allur snjórinn farinn en hann skal, fjandinn hafi það, alla vega fara héðan af síðunni eins fljótt og auðið er. Vorútlit í apríl, eigum við að segja það?

Í dag verður hins vegar ekki boðið upp á frekari nýjungar en tvö myndaalbúm:

Febrúar og fjör

Bolludagar

Og nú ætla ég að laga mér einn stóran kaffibolla, skella mér í þykka peysu og draga Gotlandsgæruna út á tröppur og halda áfram að þykjast að vorið sé komið.

 

8. mars 2011

Musselmalet(brjál)æði

Musselmalet safnið mitt hefur vaxið og dafnað undanfarnar vikur. Í viðbót við litlu diskana sex sem ég var búin að setja inn myndir af einhvern tímann og fína boxið sem ég fékk í jólagjöf frá Þórunni systur hef ég nú eignast litla rjómakönnu sem ég fékk í afmælisgjöf frá Rósu, fimm stærri kökudiska, litla skál og tvær undirskálar. Undirskálarnar hefði ég svo sem aldrei keypt einar sér en þær fylgdu með diskunum og ég sé fram á að geta notað þær alveg fullt og kannski, kannski sé ég einhvern tíman seinna staka bolla við þær sem hægt verður að fá á skít og kanil. Ég er svo hamingjusöm með safnið mitt að það tístir í mér í hvert sinn sem ég rek augun í það. Og ekki spillir það gleðinni að vita að með því að kaupa notað stell (sem samt sér ekki á) í gegnum uppboð á netinu hef ég fengið þetta allt á nokkurn veginn sama verði og ég hefði borgað fyrir einn kökudisk af stærri gerðinni út úr búð.

Ég skal hins vegar fúslega játa að ég er kannski búin að vera með musselmalet aðeins of mikið á heilanum þessar vikur. Það krefst svolítillar yfirlegu að kaupa af netuppboðum. Maður þarf að fylgjast vel með til að álitlegir hlutir fari ekki fram hjá manni, maður þarf að vita nægilega mikið um vöruna sem maður ætlar að bjóða í til að átta sig á hvað sé eðlilegt verð miðað við þessar kringumstæður, hvort það séu einhverjar líkur á að maður fái fleiri hluti í stíl svo maður sitji ekki bara uppi með staka diska og svo þarf maður að reyna að bjóða af svolitlum klókindum. Og svo stundum situr maður með hjartslátt og sveitta lófa á undarlegum tíma sólarhrings að bjóða í eitthvað sem maður missir svo á ögurstundu til einhvers annars. Sem sagt, það er auðvelt að sökkva sér aðeins of mikið í þetta og verða að athlægi innan fjölskyldunnar fyrir musselmalet-æsing!

Nema hvað, á ferðum mínum um internetið í leit að musselmalet-fróðleik hef ég orðið margs vísari. Til dæmis að svona gömul stell með ríka hefð hafa verið framleidd í ótal útgáfum og að þá hafa gjarnan fylgt þeim ýmsir fylgihlutir í takt við tíðarandann. Það er sem sagt ekki bara hægt að fá musselmalet diska og bolla heldur alls kyns annað eins og blekbyttur, blómapotta og skúffuhnúða. Og ef maður er á annað borð er illa haldinn af musselmalt-æðinu þá fer manni allt í einu að finnast það ekkert svo út í hött að einhvern daginn muni maður til dæmis kaupa sér musselmaletpípu!

Pípurnar eru til í mörgum útgáfum og eru gríðarlega eftirsóttar og seldar fyrir marga, marga peninga í dönskum antíkverslunum. Svo eru að sjálfsögðu til pípuhaldarar í ýmsum gerðum í stíl! Ég held að Einar langi í alvöru svolítið til að ég kaupi eina í von um að hann fái leyfi til að reykja pípu aftur! En þar skjátlast honum. Í framtíðinni byggi ég mér eins konar musselmalet-panic room, fullkomlega einangrað og öruggt herbergi fyllt með gígantísku musselmaletsafni mínu og þar inni mun ég sitja í Gollumslíki með pípuna hangandi í munnvikinu og dást að dýrðinni og hugsa: Ég á þetta allt ein!

 

Forsíða      Um okkur      Mín síða      Myndirnar okkar      Hafðu samband      Gestabókin okkar