Marsdagbók 2010 

 

Forsíða

Um okkur

Mín síða

Myndirnar okkar

Hafðu samband

Gestabókin okkar

 

 

31. mars 2010

Ótrúlegt en satt

allar myndirnar eru komnar inn!

Frábæri febrúar

Handavinna að hausti

Mildi mars

Næst á dagskrá: Bræða snjó!

 

29. mars 2010

Tadamm!

Loksins, loksins koma nýjar myndir! Ég er að vísu bara búin að klára janúar og á því nóg eftir.

Afmæli og allskonar

Vetrarferð til gamla landsins

Fleiri albúm væntanleg á næstu dögum!

 

21. mars 2010

Með höfuðið fullt af snjó

Í svona ástandi eins og lýst er hér að neðan er óhjákvæmilegt að höfuðið á manni fyllist af öllum þessum snjó. Öll vitræn hugsun er grafin undir tölvupóstinum, þvottafjöllunum og ó-óinu en það sem meira er, bæði einbeitingin og minnið bresta hreinlega undan þunganum.

Verst var þetta í kringum jólin þar sem það virtist mér ofviða að þurfa að hugsa fyrir jólakortum, aðventukransi og spariskóm á börnin ofan á allt annað. Ég held að botni vitsmunalífsins hafi verið náð kaldan desembereftirmiðdag á leiðinni í enn eina bæjarferðina með öll börnin. Ég lagði í bílastæðahúsi niðri í bæ og þegar ég stökk út til að borga í sjálfssalanum var ég með hausinn fullan af flóknum pælingum um það hvernig best væri að ná börnum, farangri og vagni út úr bílnum án þess að leggja þyrfti ungabörn á jörðina eða stofna öryggi nokkurs í hættu. Meðan ég renndi kortinu mínu í gegnum sjálfssalann og leysti fjölskyldusudokuið í kollinum tók að safnast upp röð fyrir aftan mig. Það gerði lítið til að róa mig niður. Þegar sjálfssalinn gubbaði loks út úr sér kvittuninni þreif ég hana því annars hugar og um leið sagði ég ósjálfrátt „Tack“! Um leið og þakklætið bergmálaði í djúpi bílastæðahússins fattaði ég hvað ég hafði gert! Æpandi þögn fólksins í biðröðinni á eftir mér gaf til kynna að það hefði ekki bara heyrt í mér heldur dregið sínar ályktanir: hér væri á ferðinni mjög skrýtin kona sem talaði við stöðumælasjálfsala og mjög sennilega önnur tæki líka. Hún þekkti greinilega ekki muninn á lifandi verum og dauðum hlutum og hana bæri að varast! Ég sá mér þann kost vænstan að láta sem ekkert væri og stikaði aftur að bílnum, eldrauð í kinnum og vissi ekki alveg hvort ég ætti að hlæja eða gráta. Var eiginlega mest hissa á að þetta ósjálfráða tal mitt hefði verið á sænsku. Vissi ekki hvort það væri til marks um að ég væri orðin vel aðlöguð eða hvort það þýddi kannski að mitt í öllu ruglinu hefði örlað á pínu skynsemi - það gefur jú auga leið að sænskir stöðumælasjálfssalar tala sænsku en ekki íslensku! Ég hef eytt mánuðunum síðan þetta gerðist í að jafna mig á uppákomunni og reyni að stappa í mig stálinu með því að ég sé kannski rugluð en mjög kurteis!

Eða nei annars. Botninum á ruglinu var náð nokkrum dögum eftir að ég talaði við stöðumælinn. Botninum var náð þegar við fjölskyldan vorum á leið á jólamarkað hér í Vänge til að kaupa okkur jólatré. Úti var 20° frost og snjór og nauðsynlegt að klæða alla vel. Það krefst einbeitingar, útsjónarsemi og úthalds að klæða þrjú börn undir slíkum kringumstæðum. Það þarf að hugsa fyrir ullarnærfötum, venjulegum fötum þar ofan á (mega ekki vera stíf eða þröng eða neitt svoleiðis svo börnin geti hreyft sig), flíspeysum og loðstígvélum, lúffum og húfum, kuldakrem í kinnar og æ, æ, gleymdir þú að fara í ullarsokkana - þá þarftu að fara úr stígvélunum aftur og ... Þegar allir voru komnir í föt og búið að pakka ungabarninu ofan í vagn undir mörgum lögum af kerrupokum, sængum og teppum örkuðum við af stað. En einmitt þegar hurðin að húsinu skelltist í lás fann ég undarlega kalda vinda næða um lærin á mér. Verður litið niður og æpi upp yfir mig „Já en ég gleymdi að fara í buxur“! Þarna stóð ég sem sagt í miðjum garðinum með húfu á hausnum, í hnausþykkri (en bara mittissíðri) dúnúlpu að ofan og með ullarsokka og kuldaskó á fótunum - en bara sokkabuxum á milli!!! Enn í dag kvelur mig sú hugsun hvað hefði gerst ef ég hefði komist alla leið á markaðinn án þess að gera þessa uppgötvun og kannski valsað þar um innan um aðra foreldra úr skólanum, látið starfsmenn markaðirins sýna mér ótal jólatré í leit að því rétta og góðglöð keypt lotteríismiða og knäck - fullkomlega ómeðvituð um hvernig væri komið fyrir mér. Hjálp!

Sem sagt: rugluð, mjög kurteis, fullkomlega afhjúpuð ... og merkilegt nokk ekki með blöðrubólgu!

 

14. mars 2010

Að moka snjó í snjókomu ...

virðast vera einkunnarorð lífs míns þessa dagana. Í eiginlegri og óeiginlegri merkingu. Og það er eins og það sé alveg sama hversu mikið ég moka ég stend alltaf í verkefnaskafli upp fyrir hné. Í innhólfinu mínu eru ógrynnin öll af ósvöruðum pósti, í myndavélinni tveggja mánaða skammtur af myndum sem ég kem ekki inn í tölvuna þar sem harði diskurinn er fullur. Heimasíðan er enn með jólaútliti þótt kominn sé mars og kommentakerfið um það bil að sökkva. Bókabloggin eru enn bara til í kollinum á mér, bókakaup síðasta árs enn í plastinu. Og mastersritgerðin skrímsli sem másar á mig utan úr myrkrinu. svona skrímsli sem engin ráð duga við önnur en að klemma aftur augun, stinga fingrunum í eyrun og æpa LALALALA eins hátt og maður getur.

Þar fyrir utan: þvottafjöllin sem seint gengur að klífa, skriðuföll út úr skápum, rykstormar. Já og allur snjórinn! Ef við hefðum ekki stundum mokað snjó í snjókomu þennan veturinn kæmumst við áreiðanlega ekki út lengur.

Og af hverju gerir konan ekki eitthvað í þessu, spyrja lesendur sjálfsagt. Jú, svona lítur 10 mínútna sýnishorn af deginum út hjá mér: Baldur Tumi velur einhvern óskynsamlegan stað til að standa upp á (í besta falli sjónvarpssófann sem hann nær ágætis taki á, í versta falli tóman Ikea poka). Eftir að hann er staðinn upp reynir hann ólmur að nálgast eitthvað spennandi. Símar, fjarstýringar og þvíumlíkt er vinsælast. Baldur Tumi dettur því hendurnar sem áttu að halda sér í voru að fikta í tökkum. Mamma huggar. Baldur Tumi er settur aftur á gólfið og tekur nú stefnuna beint á arininn. Áætlaður komutími eftir 10 sekúndur. 8 sekúndum síðar: Mamma grípur drenginn, horfir í augun á honum og segir „ó-ó-ekki má“. Bætir við í huganum: „ekki frekar en þegar þú reyndir þetta fyrir fimm mínútum síðan, í gær, fyrradag eða nokkurt annað skipti“. Baldur Tumi er settur á gólfið og vindur sér beint að sófaborðinu og stendur upp þar. Sleppir annarri hönd, snýr upp á sig til að sjá eitthvað athyglisvert hinum meginn í herberginu ... og dettur. Mamma huggar. Arininn. Mamma: ó-ó-ekki má. Aftur á gólfið og nú er stefnan tekin á næstu innstungu ... Þið skiljið.

En svei mér þá ef sólin er ekki farin að skína, hitastigið mjakast upp fyrir núllið og það dropar af þökunum. Og þar að auki farið að hylla undir feðraorlof II hjá Einari. Orlofið ætlar undirrituð að nota til að horfast í augu við skrímslið ógurlega en mun líka gefa sér svigrúm til að bræða snjóinn á síðunni og fylla hér allt af blómum og smáfuglum. Hver veit nema áður en að því kemur gefist stund til að troða myndunum inn í tölvuna með valdi og birta svo nokkrar þeirra hér áður en langt um líður. Já, svei mér þá ...

 

 

Forsíða      Um okkur      Mín síða      Myndirnar okkar      Hafðu samband      Gestabókin okkar