Marsdagbók 2009    

 

 

Forsíða

Um okkur

Mín síða

Myndirnar okkar

Hafðu samband

Gestabókin okkar

 

29. mars 2009

Fólk og ræningjar í Kardemommubæ

... eða réttara sagt í Vänge.

Við fyrstu sýn gæti maður haldið að Vänge væri afskaplega rólegur staður og að hér gerðist aldrei neitt spennandi. En þegar nánar er að gáð er heilmikið líf í tuskunum hér og ekki nóg með það heldur eru jafnvel harðsvíraðir afbrotamenn á sveimi í bænum.

Eina nóttina fyrir skemmstu var nefnilega framið dularfullt rán hér í Vänge.  Einn eða fleiri hættulegir glæpamenn brutust þá inn í Jonasgården sem er eins konar safnaðarheimili kirkjunnar. Þar stálu þeir hvorki meira né minna en tveimur heilum skírnartertum sem stóðu í kæliskáp í eldhúsinu og bera átti fram í veislu daginn eftir! Það þarf auðvitað ekki að taka það fram að ógn og skelfing hefur gripið um sig í bænum og eru nú allir þeir sem líta út fyrir að hafa bætt á sig einu eða tveimur kílóum litnir illum grunsemdaraugum. Sjálf mun ég héðan í frá ekki þora öðru en að læsa rækilega að mér þegar ég baka kökur og biðja til guðs áður en ég sofna á kvöldin að ég vakni ekki upp í ræningjabæli að morgni.

Ja fussum svei.

 

15. mars 2009

Meira um vorið og vetrarmyndir

Af vorkomu er það helst að frétta að hér á Konsulentvägen var hvorki meira né minna en 6° hiti og glampandi sól í dag! Á morgun er spáð jafnvel enn hlýrra og á hinn á að rigna! Húrra!

Og hér koma loksins febrúarmyndirnar:

Snjór og sætindi

 

12. mars 2009

Mynd af Mars

Ég veit ekki hvað ég var að vonast eftir vorkomu þarna um daginn, hefði bara átt að líta í Årets Saga og rifja upp mynd marsmánðar. Gamli maðurinn á myndinni er enginn annar en Mars sjálfur. Í ljóðinu sem myndinni fylgir (bókin inniheldur sem sagt líka mánaðarljóð) kemur skýrt fram að meðan Mars er ungur sé hann bæði strangur og óvæginn, lokki börnin út í leik og blómin úr mold til þess eins að hylja þau snjó jafnóðum. Augljóslega eru það ekki bara börn og blóm sem láta Mars plata sig heldur líka 33ja ára konur, betlarar og skjóar! Okkur öllum til hughreystingar þiðnar Mars þó upp eftir því sem á líður, hann verður gamall og mildur, gælir við brumið á greinunum og hvetur fíflana til sprettu. Ég vona að minn Mars sé orðinn miðaldra og þessi gífurlega snjókoma sem hann stóð fyrir í gær og í fyrradag hafi verið einhvers konar grár fiðringur.

 

5. mars 2009

Atburðarás

Í gær var ég viss um að vorið væri komið. Taldi mig hafa fyrir því að minnsta kosti fjórar sannanir:

* Það hafði ekkert fryst um nóttina

* Það rigndi um morguninn og snjórinn rann í stríðum straumum ofan í niðurföllin

* Ég sá skjó byggja sér hreiður hátt yfir höfðum okkar barnanna þegar við röltum af stað í skólann

* Ég sá ekki bara einn heldur tvo betlara í bænum (á Íslandi eru rónar helstu vorboðarnir, í Uppsölum betlarar)

Í morgun var snjókoma þegar ég vaknaði ... og heimurinn hrundi í smá stund.

Á morgun langar mig að baka eitthvað, eitthvað sem ég hef aldrei bakað áður. Ekki köku heldur eitthvað svona sem maður setur í box í mörgum bitum. Kannski karamellusnittur? Já, kannski bara.

 

Forsíða      Um okkur      Mín síða      Myndirnar okkar      Hafðu samband      Gestabókin okkar