Marsdagbók 2007  

 

Forsíða

Um okkur

Mín síða

Myndirnar okkar

Hafðu samband

Gestabókin okkar

 

30. mars 2007

Ég ætlaði að skrifa hér einhverja mikla romsu um sumarblíðu, fjölskyldufundi, gleði og hamingju ... en held að ég láti myndirnar bara tala sínu máli:

Gestir í mars

Vor og væmni í mars

Við heyrumst bara betur í apríl! Hafið það gott þangað til!

P.s. Dáldið verið að stela hugmyndum af minni síðu, ha!

 

15. mars 2007

Vor og vantrú

Ég er búin að hlakka svo óskaplega til vorsins undanfarnar vikur. Alltaf þegar maður hlakkar mikið til þá er eins og stundin sem beðið er eftir muni aldrei renna upp. Þannig er það einmitt búið að vera með mig og vorið, ég treysti því ekki að það myndi nokkurn tíma láta sjá sig. Því var það svo að þegar sólin fór að skína, snjórinn að bráðna og brumknappar birtust á runnum og trjám þá þorði ég ekki að trúa því að hið langþráða vor væri loksins komið. Ég held að vantrúin hafi fyrst og fremst verið í sjálfsvarnarskyni. Ég var hreinilega ekki viss um að ég þyldi vonbrigðin sem myndu fylgja því að vera búin að draga fram grillið, nýja vorjakkann og gullskóna ef það færi svo að snjóa og frysta aftur. Að undanförnu hefur vorið hins vegar hvað eftir annað reynt að sannfæra mig um tilvist sína og sent mér fjölda sönnunargagna í því skyni.

Sönnunargagn nr. 1 Sænska dagblaðið Dagens Nyheter heldur úti sérstakri vefsíðu þar sem fylgst er með vorkomunni í landinu. Með því að smella nokkrum sinnum á hnappinn Fortsätt (efst til hægri) má sjá hvernig vorið hefur færst yfir smátt og smátt. Þann 9. mars var það bara rétt sunnan við Uppsali, 13. mars var það komið lengst norður fyrir. Maríuhænurnar líst mér óskaplega vel á en ég veit ekki alveg hvað ég á að segja við höggormunum!

Sönnunargagn nr. 2 Í gær fylgdist ég með því hvar systurnar úr næsta húsi röltu með skíði, skíðastafi og snjóþotur út í geymsluskúr. Þær komu út aftur eftir nokkrar mínútur, hvor með sinn badmintonspaða og í dágóða stund slógu þær fluguna á milli sín í vorsólinni.

Sönnunargagn nr. 3 Áðan heyrði ég hið stórfurðulega en skemmtilega kurr skógardúfunnar í fyrsta sinn síðan í ágúst.

Sönnunargagn nr. 4 Þessa dásamlegu vorlauka fundum við mæðgurnar í garðinum okkar í morgun:

Með því að smella á myndina má sjá enn fleiri vorsönnunargögn á myndrænu formi.

Ég held ég verði að játa mig sigraða ... vorið er komið!!!

 

5. mars 2007

Loksins er komið vor á Okkar síðu!

Já, vorútlitið er komið og fyrir utan augljósar útlitsbreytingar var ýmislegt annað tekið í gegn í leiðinni!

Einars síðu var sökkt með manni og mús! Það eina sem bjargaðist á land var þessi myndasíða. Ritstjórn þakkar Einari „vel“ unnin störf um leið og hún kveður hann með söknuði.

Í stað Einars síðu er þó komin ný síða, Hafðu samband. Þar er að finna heimilisfang okkar, öll helstu símanúmer, netföng og upplýsingar um msn og skype. Þessi síða er um leið lítt dulbúin auglýsing eftir vinum! Við viljum auðvitað fá bréf og kort frá sem flestum (og gerum okkur enn vonir um að einhver nýti sér heimilisfangið til að koma í óvænta heimsókn!), hvers konar símhringingar og sms-sendingar eru vel þegnar og síðast en ekki síst viljum við að sem flestir bæti okkur inn á msn-ið sitt og skype-ið. (Bara vara ykkur við samt að Einar er eiginlega alveg jafn „duglegur“ í msn- og skypesamtölum og hann er í heimsíðugerð!)

Það er líka komin ný gestabók. Það var ekki lengur hægt að skrifa kveðjur í hina og þar sem ég var handviss um að á hverjum degi reyndu tugir vina og ættingja að senda okkur línu með þessum hætti þá ákvað ég að skipta. Því miður töpuðust allar gömlu kveðjurnar frá ykkur við þessar tilfæringar þannig að þið verðið að vera dugleg að fylla þessa nýju!

Aðeins einum nýjum hlekk var bætt við en nú er að finna slóð á heimasíðu Péturs Alfreðssonar hér neðst til vinstri. Látið ekki blekkjast af valdsmannslegu nafninu, Pétur Alfreðsson er hvorki þingmaður né framkvæmdastjóri heldur sex mánaða gamall dúllurass sem býr hér í Uppsölum. Mér finnst reyndar eins og ég hafi ætlað að setja inn miklu fleiri nýja hlekki en þegar til kastanna kom mundi ég bara eftir Pétri. Ef einhver telur sig eiga að vera á listanum er sá hinn sami beðinn um að setja sig í samband við mig hið fyrsta (og þá kemur nú nýja síðan aldeilis að góðum notum, ha!).

Að öðru leyti er það helst að frétta að í fyrradag kom vorið til Uppsala! Það er reyndar enn snjór yfir öllu og frost á næturnar en þetta óáþreifanlega og dásamlega „vor í lofti“ er óumdeilanlegt!

 

Forsíða      Um okkur      Mín síða      Myndirnar okkar       Hafðu samband      Gestabókin okkar