Marsdagbók 2006

Forsíða

Um okkur

Mín síða

Myndirnar okkar

Hafðu samband

Gestabókin okkar

 

30. mars 2006

Vorþrá

Í dag reyndi ég að kalla á vorið. Ég fór ég í skærbláa háhælaða skó með bronslituðum böndum yfir ristina og skórnir mínir kölluð klipp, klapp, klipp, klapp, klipp, klapp frá því snemma í morgun og langt fram eftir degi. Ég er ekki frá því að það hafi verið aðeins bjartara yfir en í gær.

 

14. mars 2006

Snewburgh

Fyrir allnokkrum árum þegar ég var á leið til Lundúna stakk góðhjörtuð kona upp á því að ég liti inn í verslunina Angels sem seldi ilmolíur og ýmislegt annað áhugavert dót. Mér leist vel á hugmyndina og fékk adressuna handskrifaða með stórum stöfum á miða: ANGELS, SNEWBURGH STREET, W1F 7RU. Skömmu síðar settist ég niður með kortið mitt til að reyna að átta mig á hvar Snewburgh street væri. Ekki fannst þó gatan á mínu korti en ég hafði ekki miklar áhyggur af því þar sem það var lítið og hafði verið algjörlega ókeypis og því væntanlega ekki mjög áreiðanlegt. Þegar ferðalagið hófst nokkrum dögum síðar var ég svo sannarlega ekki búin að gleyma Snewburgh street. Ég fór í gegnum öll kortin sem ég fann af London á Keflavíkurflugvelli en hvergi var þetta götunafn að finna. Eftir að ég var lent á enskri grundu hélt ég áfram að blaða í öllum kortum sem ég komst yfir, stórum, litlum, gömlum, nýjum ... en hvergi var gatan mín. Ég verð að játa það að þegar þarna var komið sögu var það ekki löngunin eftir ilmolíum sem knúði mig áfram enda hef ég svo sem aldrei verið mjög upprifin yfir svoleiðis dóti. Það pirraði mig hins vegar óendanlega að finna ekki blessaða götuna. Ég var margoft búin að taka miðann upp og lesa heimilisfangið aftur til að fullvissa mig um að ég væri ekki að stafsetja vitlaust en án þess að það breytti nokkru. Eftir nokkurra daga dvöl í borginni varð ég að játa mig sigraða og snúa heim. Snewburgh street virtist annað hvort svo agnarsmá gata að hún rataði ekki inn á nein kort eða þá að hún væri svo langt utan við borgina að ég væri í raun að leita á vitlausum kortum. Snewburgh street ...piff ... hverjum dettur líka svona ótrúlega asnalegt nafn á götu í hug?!

Það var sjálfsagt meira vegna einhverrar þrjósku að ég ákvað að geyma miðann með adressunni þegar ég kom heim en að ég tryði því að ég ætti í framtíðinni eftir að finna götuna og drífa mig í Angels! Svo þrjósk var ég að ég flutti tvisvar sinnum milli húsa með hann með mér! Fyrir kannski ári síðan var ég að gramsa í skúffu í leit að passanum mínum þegar ég rakst á hann fyrir tilviljun. Og skyndilega blasti sannleikurinn við mér í öllu sínu veldi ... það var eins og ég væri að sjá þennan miða í fyrsta sinn! Á honum stóð skýrum stöfum: ANGELS, 5NEWBURGH STREET, W1F 7RU!

Hvað um það þetta rifjaðist upp fyrir mér um daginn þegar ég sá að uppáhaldsfatahönnuðurinn minn selur vöru sína í lítilli búð við Newburgh street. Við mamma erum nefninlega að fara í leikhúsferð til London í lok apríl og ég er farin að skipuleggja búðaferðirnar ... enda verður dvölin stutt. Ég er viss um að ég muni líta við í Angels ef búðin sú arna stendur enn við Newburgh street ... ekki út af ilmolíunum ... nei, bara svona af því að ég kann svo illa við að játa mig sigraða og vil gjarnan ljúka dæminu með því að leggja Snewburgh að velli þó seint sé!

 

7. mars 2006

Útbitin en öll að gróa!

Í fyrsta skipti frá áramótum er ég án samviskubits! Hvern einasta dag ársins 2006 hef ég kvalist af samviskubiti frá morgni til kvölds. Yfirleitt stafaði samviskubitið af því að ég var ekki að gera mikilvæga hluti (skrifa greinar og sækja um styrk) og þá sjaldan að ég sinnti mikilvægu hlutunum kvaldist ég af samviskubiti yfir að vera ekki að gera þá nógu vel. En nú eru stærstu verkefnin frá og þó enn sé nóg að gera er einhvern veginn það langt í næstu skiladaga að ég er svona 99% samviskubitslaus (prósentið sem upp á vantar skrifast á samviskubitið yfir að vera ekki nógu góð móðir ... eins konar erfðasynd sem konur uppgötva um leið og þær fjölga mannkyninu.)

Síðustu helgi fór ég því á árshátíð Mótettukórsins alveg gjörsamlega laus við samviskubit af nokkru tagi ... og í morgun skellti ég inn myndum frá kvöldinu án þess að vera nokkuð nöguð á meðan! 

Árshátíð Mótettukórsins 2006

Ég hvet ykkur sem skoðið þessar myndir í vinnunni eða þegar þið eigið að vera að læra til að gera það algjörlega samviskubitslaust ... fyrir mig!

 

Forsíða     Um okkur     Mín síða      Myndirnar okkar       Hafðu samband      Gestabókin okkar