Marsdagbók 2005  

Forsíða

Um okkur

Mín síða

Myndirnar okkar

Hafðu samband

Gestabókin okkar

 

29. mars 2005

Páskamyndir!!!

Já ég er búin að setja inn virkilega stórt og feitt albúm frá páskunum sem þið getið skoðað einfaldlega með því að smella á myndina af gula túlípananum. 

Ég velti því oft fyrir mér hvers vegna ég er svona myndaóð (ég tók til dæmis sléttar 200 myndir í páskafríinu einu). Ég hef löngum talið að ég eigi einhverja japanska forfeður og dettur stundum í hug að myndavélaæðið sé runnið í gegnum þann ættlegg!!! Flestir kannast við að hafa fylgst með japönskum túristum sem virðast hafa meiri áhuga á að skoða sögufræga staði í vídeóinu heima hjá sér að ferðinni lokinni og sjálfsagt minni ég stundum á slíka brjálæðinga! Ég er samt eiginlega komin að niðustöðu um það af hverju myndavélaæðið stafar og tengist það á engan hátt meintum japönskum rótum mínum!

Ljósmyndaæðið er fagurfræðilegt. Ég finn að þegar ég tek myndir af einhverju fer mér um leið að þykja það fallegt, hvort sem um atburð, hlut eða persónu er að ræða. Myndatakan mótar upplifunina og festir ekki aðeins fallega mynd á filmu heldur greypir í minnið ógleymanlega, fallega stund. Að sjálfsögðu má njóta sólríks sumardags, yndislegra barna og afskorinna blóma án þess að taka af því myndir en í gegnum linsuna sé ég oft eitthvað sem ekki er sýnilegt með berum augum eða hreinlega eitthvað sem maður tekur ekki eftir undir venjulegum kringumstæðum. Þegar horft er í gegnum linsuna verða hversdagslegir hlutir sveipaðir ævintýraljóma, það sem við kannski höfum fyrir augunum á hverjum degi öðlast nýtt líf. Minningin verður ekki til með því að skoða myndirnar seinna heldur í gegnum upplifunina af að taka fallegar myndir.

Svo finnst mér líka óumræðilega skemmtilegt að sýna öðrum myndir ... ég get ekki neitað því! Sælir eru einfaldir og það er gaman að monta sig af sér og sínum! Í þeim anda býð ég ykkur að kíkja á páskamyndirnar!!!

 

21. mars 2005

Eftirfarandi leikþáttur er byggður á sannsögulegum atburðum:

Mamman er með börnin sín tvö, Maríu og Huga, í Kringlunni. Þau fara inn í tískuverslun og mamman ákveður að máta vorkápu. Börnin fylgja með í mátunarklefann og setjast hlið við hlið í sófa meðan mamman bregður sér í kápuna. Þegar hún er komin í snýr hún sér að börnunum sínum.

Mamman: María, hvernig finnst þér kápan?

María: Bara vel!

Mamman: En þér Hugi, hvernig finnst þér kápan?

Hugi: Hákarl!

Endir!

Boðskapur verksins er að allir hafa rétt á sinni skoðun ... og að maður skyldi aldrei kaupa sér flík sem minnir einhvern á hákarl!

Ég setti svo inn nokkrar myndir af aðalleikurunum, ykkur er velkomið að skoða þær með því að smella á sýnishornið hér fyrir neðan!

 

18. mars 2005

Hver er þessi Einar?

Hver er þessi Einar sem af og til birtist hérna heima á Bárugötu og lætur eins og heima hjá sér? Ég kannast ekkert við manninn! Stundum sést hann ekkert heilu og hálfu dagana en mætir svo kannski allt í einu eftir að ég er sofnuð og stingur sér undir sæng við hliðina á mér. Sumar nætur sést hann þó ekki en þá vill brenna við að hann mæti að morgni og vilji fá að sofa í rúminu mínu yfir daginn? Hvað gengur honum til? Hver gaf þessum manni lykil að íbúðinni minni? Ætti ég að hringja á lögregluna? En þetta er svo sem huggulegasti maður og sérlega húslegur þá sjaldan hann sést hér, eldar mat, setur í þvottavél og skúrar gólf. Ég ætti kannski að reyna að kynnast honum? Hver veit nema eitthvað meira gæti orðið úr því?!

 

16. mars 2005

Fleygði inn nokkrum myndum úr æfingabúðunum síðustu helgi. Þið getið skoðað með því að smella á myndina hér fyrir neðan.

 

 

11. mars 2005

Ég var spurð að því um daginn hvort ég væri búin að pakka niður fyrir fyrirhugaðar æfingabúðir Mótettukórsins um helgina og hve marga alklæðnaði ég ætlaði að koma með. Svarið er svo einfalt að ég á bágt með að trúa því að það liggi ekki ljóst fyrir!

Í rútuferðinni verð ég í einhverjum hentugum klæðnaði með slæðu bundna um höfuðið (til að passa greiðsluna) og sólgleraugu. Um leið og komið verður í Skálholt mun ég skipta yfir í þægilegan klæðnað til að vera í á æfingu. Engan æfingagalla þó (hélduð þið það nokkuð?) heldur peysusett og plíserað pils. Rétt áður en æfingunni lýkur skýst ég þó út og skipti yfir í dress til að klæðast við hádegisverðinn, eitthvað elegant en þó við hæfi. Eftir hádegið skipti ég aftur og nú yfir í sumarlegan og léttan klæðnað sem á vel við eftirmiðdag í sveit ... ég sé fyrir mér einhvers konar safariþema með etnískum blæbrigðum. Fyrir kvöldverðinn klæði ég mig að sjálfsögðu upp á, verð með dragsíðan og perluskreyttan kvöldkjól, skartgripi og við þetta tækifæri skarta ég sérstaklega háum hælum (verð þó að sjálfsögðu á hælum allan tímann). Fyrir kvöldvökuna hugsa ég að ég skipti yfir í einhvern lekkeran silkislopp og verði svo í háhæluðum inniskóm með fjaðraskúf á og helst líka með fjaðrir um hálsinn. Hvernig líst ykkur á túrban við þetta dress? Verði eitthvað farið í heitan pott verð ég með sundföt, pallíettuskreytta túniku og sérhannað handklæði með í för. Náttklæðnaður verður að sjálfsögðu tvenns konar (ef kvikna skyldi í ... það vill brenna við á kórferðalögum að slíkt gerist). Í morgunverðinum klæðist ég einföldum morgunslopp og fyrir æfinguna í kjölfarið hef ég hugsað mér létt retróþema með skírskotunum til sjötta áratugarins. Á ferðalaginu heim verður aftur á móti þjóðlegt þema, íslenska lopapeysan hefur átt sterka endurkomu að undanförnu og ég læt slíkt að sjálfsögðu ekki fram hjá mér fara!

Þetta gera samtals 12 dress sem ég pakka niður í eitthvað huggulegt töskusett. Efst á því mun svo tróna bjútíbox með öllu því innanborðs sem dömur þurfa á að halda til að fela ferðaþreytu á fögru andliti sínu! Ó, þetta verður dásamleg ferð!!!

Ykkur hinum sem ekkert ferðalag komast í sendi ég blóm:

 

Þessa dásamlega fallegu túlípana gaf elskulegur eiginmaður minn (eh ... verðandi eiginmaður) mér í gær! 

 

Sjáiði hvað einn túlípaninn var mikil dúlla! Eitt græna blaðið var samvaxið einu krónublaðinu ... finnst ykkur þetta ekki ótrúlega merkilegt?

 

6. mars 2005

Andsetin?

Eins og margir vita hef ég unun af að prjóna. Ég hef alltaf prjónað ótrúlega fallega, þó ég segi sjálf frá! Allar lykkjur hafa verið jafnstórar, yfirborðið slétt og fellt! Fyrir nokkrum mánuðum síðan byrjaði ég á nýrri peysu. Þegar ég var búin að prjóna fáeina sentimetra varð mér litið á stykkið og sá, mér til mikillar hrellingar, að það var eins og ég væri komin aftur í níu ára bekk og hefði lánað prjónadótið mitt einhverjum bekkjarbróður mínum í handavinnutíma hjá Jenný og Rósu! Við mér blasti hrein skelfing. Sumar lykkjurnar voru svo stórar að ég hefði auðveldlega getað stungið kústskafti í gegn, aðrar samanrykktar eins og skátahnútar! Í örvæntingu minni reyndi ég ýmsar aðferðir, prjónaði laust, prjónaði fast ... en ekkert dugði til. Ég rakti væntanlega peysu upp einum þrisvar sinnum áður en ég gafst upp. Þá nam handvegurinn við mitti og peysan sjálf stefndi í að ná mér niður á hné. Ermarnar eins og ég væri að reyna að endurlífga Bjarkartímabilið ... eða að búa til prjónaða útgáfu af spennitreyju. 

Eftir prjónaráðgjöf hjá mér reyndari konum tókst mér að vinna bug á þessum vandræðum þó ég hafi aldrei náð að prjóna eins fallega og fyrir „fallið“. Þegar ég hugsa til baka dettur mér eiginlega ekkert annað í hug en að einhver skelfilega léleg, framliðin prjónakona hafi tekið sér bólfestu í líkama mínum og prjóni nú í gegnum mig! Hvað henni gengur til veit ég ekki en annað hvort hefur henni þótt svona óskaplega gaman að handavinnu í lifanda lífi, þrátt fyrir takmarkaða hæfileika, eða þá að henni er persónulega illa við mig! Mér er svo sem sama hvort er meðan mér tekst að halda hæfileikaleysi hennar nokkurn veginn undir yfirborðinu!

Annað sem ég hef alltaf haft ótrúlega gaman af er að baka. Ég byrjaði snemma að bisa við þetta upp á eigin spýtur og ég man að þegar ég var tíu ára var brúnkaka með gulu smjörkremi til á heimilinu samfleytt um nokkurra mánaða skeið vegna elju minnar við eldavélina! Ég hef aldrei nokkurn tíma haft áhyggjur af að eitthvað falli eða sé ekki bakað í gegn ... hef bara verið mátulega kærulaus í aðra röndina og uppfull sjálfstraust í hina.  En allt í einu er ég farin að taka hverja hráblauta kökuna á fætur annarri úr ofninum, nú eða þá að þær falla og umbreytast í einhvers konar litla vesúvíusa. Steininn tók þó úr um daginn þegar ég ætlaði að spreyta mig á sítrónuböku með marengs. Marengsinn ofan á varð einmitt ekki marengs heldur einhver ókennileg og ótrúlega ólystug froða! Ástæðan fyrir þessu kann að tengjast því að svo virðist sem eggjahvíturnar í marengsnum hafi lekið niður í miðja sítrónubökuna þar sem þær hafa soðnað! Þarna í miðri bökunni mátti sjá hvíta eggjarönd sem var nákvæmlega eins og ég hefði hraðsoðið nokkur egg, skorið niður og raðað þarna í miðjuna áður en ég skellti kökunni í ofninn! Ég vissi ekkert hvaðan á mig stóð veðrið þangað til hryllingnum laust niður í höfðinu á mér eins eldingu ... framliðna frúin er mætt enn á ný og bakar nú í gegnum mig fyrst hún kemst ekki að í prjónunum!!! Má ekki bjóða yður sítrónuböku með soðnum eggjum og froðu?!

Ég veit ekki hvað þessi kelling er að vilja mér en hún hefur án efa verið versta húsmóðir sem um getur meðan hún enn tórði! Yfir höfuð skil ég ekki hvað hún er að vesenast þetta í staðinn fyrir að lifa bara hinu ljúfa lífi svífandi um á mjúki skýi og spilandi á gyllta hörpu. En ég vil ekki hafa hana, það er nokkuð ljóst! Ég get ekki hugsað þá hugsun til enda að hún taki innanhússhönnun heimilisins yfir næst. Sé fyrir mér nokkur stykki af grátandi dreng uppi á vegg, barrokk veggfóður eða eitthvað þaðan af verra. Og guð sé oss næstur ef hún kemst í ritgerðirnar mínar! Nei, ég verð að losna við hana! Annars gæti hún kannski viljað fara að stjórna því í hverju ég er og sent mig í Stellu í Bankastræti til að kaupa „matreiðslukennaraslopp“!!! Særingarmaður óskast strax ... hjááááálp!!!

P.s. Nýjar myndir og fleiri nýjar myndir.

 

1. mars 2005

Í morgun fór ég í bankann. Kannski ekki frásögu færandi nema af því að í þetta sinn fór ég til að greiða afskaplega mikilvægan greiðsluseðil. Með þessari einu ferð í bankann á kuldalegum þriðjudagsmorgni í mars tryggði ég okkur Bárugötufjölskyldunni íbúð í Barcelona í heila viku í sumar!!! Í heila viku getum við vaknað, skriðið undan lökunum okkar og horft út um gluggann* á þessa byggingu:

Þegar við verðum búin að skella okkur í sumarkjóla, stuttbuxur og sandala þá drífum við okkur beint á eitthvað notalegt kaffihús í nágrenninu og fáum okkur ilmandi mjólkurkaffi og croissant. Þar getum við ráðið ráðum okkar og tekið ákvörðun um hvort við viljum fara í dýragarðinn, á ströndina í Sitges, rölta um þröngar götur gotneska hverfisins, heimsækja Parc Güell, skella okkur með lest og kláf upp í klaustrið í Montserrat eða hvort okkur langar kannski mest að sitja bara í notalegheitum og fylgjast með iðandi mannlífinu við Römbluna meðan við snæðum tapas eða paella! Hvað sem við veljum að gera verður það án efa alveg dásamlegt! Nú er bara að þrauka þetta tímabil fyrirlestra, ritgerða og kaldra daga sem í hönd fer og síðan ... síðan verða það spænskir dagar og sól!

*Þið haldið kannski að ég sé eitthvað að grínast með það að Sagrada Familia sjáist úr íbúðinni en það er ekki rétt! Kirkjan sú arna er BEINT fyrir utan gluggann!!!

P.s. Já, og alveg rétt ... ég er búin að setja inn síðustu febrúarmyndirnar!

 

Forsíða      Um okkur      Mín síða      Myndirnar okkar       Hafðu samband      Gestabókin okkar