Marsdagbók 2004

Forsíða

Um okkur

Mín síða

Myndirnar okkar

Hafðu samband

Gestabókin okkar

 

31. mars 2004

Já það virðist vera að æðri máttarvöld hafi verið á sveimi undanfarna daga og sáldrað táknum hingað og þangað!!! Fyrirlesturinn gekk í það minnsta nokkuð vel og er fyrirlesarinn því fegnastur að honum sé lokið! Því fer þó fjarri að allt nám sé búið á þessari önn. Ó, nei. Í hönd fara langar vikur sem nýta þarf til að skrifa tvær ritgerðir og útbúa eina lestrardagabók. Það er ekki um annað að ræða en að setja járnin undir og gerast lestrarhestur!

 Reyndar er dóttir mín að breytast í lítið lestrarfolald. Hún er hreint ótrúlega dugleg að stauta sig fram úr orðum og það nýjasta er að skrifa. Bæði er hún dugleg að raða segulstöfunum á ísskápnum svo þeir myndi orð og svo færist í vöxt að hún pári sjálf niður á blað. Um daginn tilkynnti hún okkur hátíðlega að hún væri búin að skrifa Herkúles á ísskápinn og viti menn, þar stóð skýrt og greinilega HRGOLES (g-ið var reyndar á hvolfi sem gerði þetta töluvert krúttlegra). Og í gær hafði hún teiknað mynd og ætlað að skrifa Herra Níels við eina fígúruna. HEIRHA N ... kraftarnir hafa greinilega verið á þrotum áður en hún náði að klára nafnið enda búin að flækja málið svolítið í fyrra orðinu!!! Já, maður þreytist fljótt á lestri og skrift þegar maður er ekki einu sinni orðinn fjögurra. Reyndar er hún með svör á reiðum höndum þegar við foreldrarnir krefjumst hins ómögulega af henni hvað þetta varðar. Þegar við spyrjum hana hvort hún geti lesið tiltekið orð og hún nennir því ekki svarar sú stutta: „Nei, ég get það ekki ... ég þarf greinilega gleraugu“! Það skal tekið fram að barnið sér framúrskarandi vel og þarf alls ekki á gleraugum að halda!!! 

Ég vildi hins vegar gjarnan að ég gæti bara sett upp einhver töfragleraugu og yrði þá dugleg að lesa ... það væri flott!!! Í bókmenntafræðinni er reyndar gjarnan talað um að lesa texta með hinum eða þessum gleraugunum og er þá átt við að þeir séu lesnir með tilteknu hugarfari, allt eftir því hverju leita skal eftir. Í vetur höfum við á Sjálfssögunámskeiðinu til dæmis sett upp sjálfssögugleraugun þegar við lesum fyrir tíma og þannig koma ákveðnir hlutir í ljós án þess að við þurfum að leita mikið eftir þeim. Reyndar hef ég eiginlega gleymt sjálfssögugleraugunum á nefbroddinum alla þessa önn því ég er farin að sjá slíka drætti í nánast öllu sem ég les. Það er bara verst með Bakhtin gleraugun ... þau virðast alveg uppseld!!!

 

29. mars 2004

Tákn á tónleikum!

Nýliðin helgi var undirlögð af kórstússi. Á laugardeginum var löng æfing með hljómsveit og einsöngvurum, á sunnudagsmorgninum var messa og seinna þann dag var loksins komið að Magnificat tónleikunum. Einar var að vinna báða dagana og því fór talsverður tími og vinna í að koma börnunum í pössun, sækja þau aftur og þar fram eftir götunum. Fyrir vikið gafst hins vegar akkúrat enginn tími til að vinna að fyrirlestrinum mínum um Efstu daga eftir Pétur Gunnarsson sem haldast skal eldsnemma í fyrramálið! Eins og gefur að skilja var ég orðin töluvert áhyggjufull yfir þessu enda ekki hægt að flytja fyrirlestur nema að vera búinn að undirbúa sig vel! Ég hafði reyndar verið svo fyrirhyggjusöm að byrja fyrir löngu á að lesa bókina en það er að sjálfsögðu ekki nóg! Já það má því segja að ég hafi verið á barmi örvæntingar þarna í gær þegar ritgerðarkúlan svarta og ógurlega (fyrirlestrar sem illa gengur að undirbúa eru nefninlega líka á hennar verksviði!) var farin að veltast um í maganum á mér á ógnarhraða þar sem ég stóð í kórbúningnum þess albúin að ganga á sviðið og fara að syngja tónlist sem fjallaði því miður ekki að nokkru minnsta leyti um Pétur Gunnarsson!!! En hvað sem öllum fyrirlestrum leið þurfti ég að sjálfsögðu að standa mína plikt og flytja Magnificötin bæði og kantötu nr.10! Ég fór því upp á svið og reyndi að yfrignæfa dyninn frá kúlunni með háum og snjöllum söng! Kirkjan var alveg stútfull af fólki og var bekkurinn þéttsetinn alveg frá því upp við sviðið og lengst aftur í kór. Mörghundruð andlit syntu fyrir augunum á syngjandi fyrirlestrarskussanum. En skyndilega var eins og eitthvað æðra máttarvald hefði dregið leiktjöldin frá og mitt í öllu mannhafinu var eitt andlit baðað ljósi og skar sig út úr fjöldanum. Andlitið á Pétri Gunnarssyni!!! Þarna sat rithöfundurinn minn, með góðlátlegan svip á rjóðu andlitinu og horfði, að því er mér virtist, beint í augu mín! Ritgerðarkúlan hætti skyndilega að veltast um og koðnaði niður í næstum ekki neitt á augabragði. Þetta var tákn, það gat ekki annað verið!!! Fyrst hann sat þarna og horfði á mig með trúnaðartraust í augum þá gat ekki annað verið en að fyrirlesturinn (og ritgerðin sem fylgja mun í kjölfar hans) myndi ganga alveg glimrandi vel þrátt fyrir knappan tíma til undirbúnings! Það var bara ekki um annað að ræða! Það sem eftir var af tónleikunum söng ég af hjartans lyst. Full vissu um að ég þyrfti engar áhyggjur að hafa af morgundeginum steinhætti ég að hugsa um fyrirlesturinn og einbeitti mér þess í stað að tónlistinni fögru og kláraði tónleikana með gleði í hjarta. Þegar gestirnir tóku að streyma út að lokinni dagskrá stóð ég í anddyrinu og beið eftir ömmu og Jódísi. Skyndilega sá ég hvar skáldið kom stormandi á móti mér og rétt í því sem hann straukst fram hjá mér hefði ég getað svarið að hann leit snöggt á mig og blikkaði!!! Svona þegar ég hugsa til baka efast ég nú töluvert um að sú hafi verið raunin ... en sagan er miklu skemmtilegri þannig!!! Í dag hef ég svo setið kappsfull við fyrirlestrasmíð og kvíði engu! En fyrst hin æðru máttarvöld voru svo elskuleg að gefa mér tákn um að allt færi vel er ég  að hugsa um að draga heitmann minn í hádegisverð á Gráa kettinum ... ætli ég þurfi barasta nokkuð að vera að undirbúa þetta yfir höfuð?!!

 

26. mars 2004

Bekkjarpartý!

Ég fór í bekkjarpartý í fyrsta skipti í áraraðir í fyrrakvöld! Eða þetta var kannski ekki beint bekkjarpartý heldur hittust allir nemendur og kennari á Sjálfssögunámskeiðinu til að horfa á vídeó. Þetta var mjög hugguleg kvöldstund í Hlíðunum þó myndin væri reyndar ekkert til að hrópa húrra fyrir. Ég hafði töluverðar áhyggjur þegar allt stefndi í að ég myndi sofna yfir henni eftir fyrstu tuttugu mínúturnar. Hefði fundist frekar neyðarlegt að hrjóta þarna milli samnemenda minna! Mér tókst þó að aftra því þó þung augnlok hafi í sífellu togast niður á við! En kvöldið vakti mig til umhugsunar að einu leyti. Flest munum við eftir því hvað það kom okkur á óvart svona í sex eða sjö ára bekk þegara  við uppgötvuðum að kennarinn fór ekki bara sjálfur inn í skáp að loknum skóladegi, lokaði á eftir sér og geymdi sig þar innan um lestrarbækur og landakort þangað til kennsla hófst daginn eftir! Í það minnsta held ég að fæst okkar hafi upplifað að kennarar færu í búðina, elduðu mat sem þau borðuðu svo, færu á klósettið og upp í rúm að sofa! Ég man alla vega eftir miklum pælingum um heimilislíf hinnar mætu Sigrúnar Guðmundsdóttur sem kenndi mér frá sjö til tólf ára aldurs. Reyndar vorum við fljót að átta okkur á að hún átti sér líf utan kennslustofunnar en það líf var ætíð sveipað mikilli dulúð. Til að mynda man ég eftir því eins og það hefði gerst í gær þegar Jón, eiginmaður hennar til margra ára, birtist einn daginn í skólastofunni!!! Þessi atburður var svo magnþrunginn að ég hef ekki getað gleymt honum. Þarna fyrst rann það upp fyrir mér að líf Sigrúnar utan Austurbæjarskóla var jafnraunverulegt og það sem hún lifði í stofu 25! Eftir þetta teiknuðum við stelpurnar í bekknum nánast ekkert annað en myndir af henni og Jóni (reyndar voru þau oftast bæði í líki flóðhesta en það er önnur saga og undarlegri!). Hugmyndin um kennarann sem mannlega veru með sjálfstæðan tilverurétt utan veggja skólans hefur fengið að þróast með mér undanfarin tuttugu ár og ég er því orðin nokkuð vön tilhugsuninni um að þeir fari í bað og borði sem er kannski eins gott þar sem við mastersnemarnir í bókmenntafræði eyðum flestum frímínútum á kaffistofunni með kennaranum. En í bekkjarpartýinu uppgötvaði ég að enn eimir eftir af hinni barnalegu ímynd af læriföðurnum sem innanstokksmun í skóla. Ég varð nefninlega gjörsamlega miður mín þegar kennarinn fór úr skónum og stóð þarna á sokkaleistunum fyrir framan mig!!! Mér fannst þetta alveg hræðilega óviðeigandi og allt of afhjúpandi! Kennarar eiga bara alls ekki að vera á sokkunum! Eftir því sem leið á kvöldið tókst mér þó að hluta til að sætta mig við þessa bitru staðreynd að kennarar fari sennilega stundum úr skónum og innst inni vona ég náttúrulega að þeir geri það að minnsta kosti þegar þeir leggist til svefns eða baði sig. Ég komst líka að því að í raun var þessi upplifun mér til framdráttar í náminu því ef kennarinn getur farið úr skónum þá er nú sennilega allt í lagi þó ég skrifi ekki alveg fullkomnar ritgerðir!!!

Svona til að hnykkja á velvilja mínum í garð lesenda læt ég fylgja með nýjustu blómamyndirnar.

Góða helgi!!!

 

23. mars 2004

Ég er að fara á hljómsveitaræfingu í kvöld ...

Já í kvöld er sem sagt fyrsta æfing á Bach og Buxtehude prógramminu með hljómsveit. Eins og ég hef margoft lýst fyrir ykkur þá jafnast fátt á við hrollinn sem ég fæ þegar ég heyri í fyrsta skipti upphafshljóma þess verks sem ég hef verið að æfa vikum, jafnvel mánuðum saman. Augnablikið þegar Hörður lyftir sprotanum og fyrstu tónarnir óma eru svo magískir að ég fæ næstum alltaf hláturskast. En já, þessu hef ég sem sagt oft lýst fyrir ykkur og var ekki ætlunin að tíunda það neitt frekar hér! Hins vegar var ég að velta fyrir mér hvort ég sendi fólki misvísandi skilaboð þegar ég tala um hljómsveitaræfingar og tónleika. Ég hef nefninlega yfirleitt orðið vör við að þeir sem þekkja ekki nógu vel til mín gera sjálfkrafa ráð fyrir að ég spili á hljóðfæri í einhverju (þá væntanlega óþekktu) bandi þegar ég minnist á slíkt. Bílskúrshljómsveit eða strengjakvartett ... satt best að segja geri ég mér ekki alveg grein fyrir hvort fólki þykir líklegra!!! Í morgun átti ég til dæmis orðastað við samnemanda minn sem spurði mig hvort ég ætlaði ekki örugglega að mæta á tónleikana með Pixies og litla bróður mínum. Ég svaraði því til að það væri alla vega komið að mér að mæta á tónleika hjá honum því ég hefði fullyrt fyrir löngu síðan ég myndi ekki láta sjá mig á slíkum viðburðum fyrr en hann væri búinn að koma á tónleika hjá mér og þar sem hann hefði gert það fyrr á árinu þá væri eiginlega komið að því að ég stæði við minn hluta samningsins. „Bíddu, á hvaða hljóðfæri spilar þú?“, var ég þá spurð. Ég gerði mér strax grein fyrir að minn elskulegi samnemandi væri búinn að steingleyma því að ég væri bara hallærislegur kórsöngvari og greinilega kominn með þá flugu í höfuðið að ég væri í einhverju bandi eins og Elli bróðir. Augnablikið var rafmagnað því mig langaði svo rosalega til að svara: „Rafmagnsbassa!“ eða „Trommur!“ Ég lét það þó ekki eftir mér heldur ljóstraði upp minna töff sannleikanum. Ég áttaði mig hins vegar á því eftir á að það voru sennilega mistök. Í framtíðinni er ég að hugsa um að fara að gera út á þennan misskilning sem skapast vill í kringum hljómsveitaræfingar og tónleika (sem ég ætla til að mynda að fara að kalla „gigg“ til að auka enn á tvíræðnina!). Ég mun gæta þess vandlega að upplýsa alla um að ég sé að fara að túra um Frakkland í sumar og að sennilega verði einhverjar upptökur á næstunni hjá mér! Hins vegar verða öll svör loðin ef fólk innir mig eftir nánari upplýsingum. Eins og flestir vita eru sögur af fiskum hraðfleygar og eiga það til að vinda eilítið upp á sig. Ef allt gengur að óskum eiga þær sögusagnir því eftir að ganga ljósum logum þegar nær dregur sumri að ég sé í nýstofnaðri hljómsveit Jarvis Cocker (sem svona by the way sé nýi ástmaður minn), á leiðinni í alheimstónleikaferð með henni, fyrsta smáskífan rétt við það að koma út og að ég sé nýfarin í meðferð við svæsinni kynlífsfíkn minni!!! 

 

22. mars 2004

Ég eyddi (allt of) stórum hluta helgarinnar á einum löngum bloggrúnti. Börnin heima, María veik svo það var ekkert hægt að fara út, Einar í vinnu og ég var bara alveg að missa vitið af leiðindum! Einhvern veginn fór það sem sagt svo á endanum að ég hef sennilega rennt yfir 70% allra íslenskra bloggsíðna!!! 

Eins og flestir sem uppgötvað hafa dásemdir þess að kíkja inn um skráargatið hjá öðru fólki, þá á ég mér minn fasta bloggrúnt: Mín eigin síða (til að kíkja hvort þið eruð búin að kommenta!) og Svanhildar síða. Þaðan skoða ég svo yfirleitt Bjargar síðu, Stínu síðu og Sigurðar Ágústs síðu. Þetta er skyldurúnturinn og hin sorglega staðreynd er sú að ég fer hann yfirleitt oft á dag!!! Ég kíki líka oft á síðu Evu og Torfa sem Svanhildur og Sigurður linka á og ég þekki afskaplega lítið en þykir síðan frábær! Frá þeim lít ég stundum við hjá Önnu Þorbjörgu, fyrrum skólasystur minni, og fer ferðum mínum til hennar reyndar fjölgandi enda heldur hún úti frábærlega skemmtilegri síðu! Hnakkus ( sem er líka fyrrum skólabróðir) er í miklu uppáhaldi og ég lít reglulega við hjá honum. Rúnturinn er auðvitað síbreytilegur, einhverjir detta út og aðrir koma inn.

En um helgina ákvað ég sem sagt að víkka sjóndeildarhringinn og skoðaði síður hjá hinum og þessum. Frægir bloggarar, lélegir bloggarar, gáfaðir bloggarar, illa skrifandi bloggarar, bókmenntabloggarar og þannig mætti lengi telja. Einhvers staðar um miðbik ferðarinnar var ég þó orðin heldur hnípin. Mig var nánast farið að hrylla við tilhugsuninni um að snúa „heim“ aftur þar sem biðu mín lummulegur blómabakgrunnur og fugl, blóma- og barnamyndir og leiðinlegt tal um Kringluferðir og skólaleiða! Á þessari bloggferð minni ákvað ég eftirfarandi: Að síðan mín þyrfti að fara að verða a) fyndnari b) einlægari (virðist vera mikill kostur í bloggheimum) c) móðgandi (líka álitinn talsverður kostur) d) skrifuð á sérstöku bloggmáli þar sem maður segir „mar“ í staðinn fyrir „maður“ og „eikkað“ í staðinn fyrir „eitthvað“ svo dæmi séu nefnd e) pólitískari f) þyrfti að innihalda meira af flippuðum djammsögum og umfram allt g) meira „edgy“ sem ég komst að því að er orð sem bloggunnendur nota til að lýsa góðum bloggsíðum. Ég sneri því hingað staðráðin í að gera miklar breytingar! En viti menn, um leið og lummulegu blómin og fuglinn birtust, um leið og blómamyndirnar blöstu við og um leið og ég sá linkana á notalega heimasíðurúntinn þá fattaði ég að hér er allt eins og það á að vera! Ég er bara afskaplega lítið „edgy“, mjög lítið pólitísk, fer næstum aldrei út að skemmta mér, er alveg miður mín ef ég móðga fólk og mig alveg hryllir við afleiðingum þess að vera of einlæg á veraldarvefnum!!! Mín síða er bara síðan mín og ekkert annað ... sem betur fer! Í tilefni af því setti ég inn enn eitt albúmið með myndum af Maríu og Huga að gera nákvæmlega ekki neitt ... allt eins og það á að vera!!! Dyggum stuðningsmönnum síðunnar þakka ég lesturinn og óska þeim góðrar viku framundan.

p.s. Held þó að mér hafi tekist að stikla á stóru í liðum a) - g) aðeins í þessari einu færslu ... nema kannski að vera pólitísk ... hmmm ... Ég kann ekki vel við Björn Bjarnason ... lengra en það er ég ekki tilbúin til að ganga í að vera pólitísk og móðgandi!

 

20. mars 2004

Hvernig stendur á því að mér finnst enn vera laugardagsmorgunn en samt er klukkan farin að ganga fimm?!! Ég skil ekkert í því hvernig tíminn hleypur í sífellu frá mér. Kannski á fjögurra tíma kóræfing sinn þátt í því í dag! Mér finnst ég alltaf bara rétt skreppa á æfingu þó ég fari af stað vel fyrir hádegi og komi ekki aftur fyrr en langt er liðið á eftirmiðdaginn! Það er nefninlega svo ótrúlega gaman á æfingum að ég gleymi alveg hvað tímanum líður. Í dag var síðasta æfing á Bach og Buxtehude prógramminu áður en hljómsveitin mætir á svæðið og ekki nema rúm vika í sjálfa tónleikana. Mér finnst það alveg ótrúlegt og hef þungar áhyggjur af nokkrum töktum sem eru eitthvað ekki að gera sig hjá mér!!! Annars er Frakklandsförin farin að setja sífellt meiri svip á kórstarfið og menn almennt orðnir spenntir. Strax eru komnar upp hugmyndir um hina ýmsu bari sem draga eigi aðra meðlimi á enda ekki ráð nema í tíma sé tekið! Í þessari einu kórferð sem ég hef farið með Mótettukórnum var ég ólétt, komin tvo mánuði á leið og aðeins búin að segja tveimur af samferðamönnum mínum fréttirnar. Það var því ærið margt sem fór fram hjá mér í þeirri ferð eins og t.d. strandpartýið fræga í Vancouver (reyndar er ég búin að heyra svo ógeðslega mikið af því að ég er algjörlega farin að trúa því að ég hefi verið á svæðinu ... Tobbi með gítarinn og Hjalti að syngja Britney Spears ... mér finnst ég hafa upplifað þetta allt!!!) og sundlaugapartýið í Calgary. Það verður því pínulítið skemmtilegt að upplifa í fyrsta sinn að fara í kórferðalag með öllu tilheyrandi! Reyndar er ég búin að taka að mér ábyrgðarhlutverk í ferðinni sem gæti komið í veg fyrir fulla þátttöku í „strand- og sundlaugarpartýum“ Frakklandsferðarinnar. Herbergisfélagi minn verður á sjöunda mánuði meðgöngu og ég búin að lofa hinum verðandi föður sem sennilega verður að farast úr áhyggjum hér heima að hugsa vel um óléttu konuna!!! Ekki þykir mér það slæmt hlutskipti og hyggst taka það mjög alvarlega, hef m.a.s. hugsað um að kaupa imba-blóðþrýstingsmæli til að sinna skyldum mínum af fullum krafti!!! Já, já, ég mun verða allt í senn partýdís, ljósmóðir og söngfugl!!!

Plönin um að kaupa blóm til helgarinnar fóru eitthvað út um þúfur hjá mér enda lítill tilgangur í að stilla upp vendi á miðjum ruslahaugnum! En Jódís frænka var svo yndisleg að koma í heimsókn færandi hendi! Hún gaf mér þessa dásamlegu orkideugrein sem að sjálfsögðu var mynduð með nýju vélinni. Ég komst reyndar enn og aftur að því að ég þarf að læra eitthvað betur á þessa myndavél ... en hér er afraksturinn:

Læt þessar blómamyndir vera loka„orðin“ hér í dag og leyfi þeim að fylgja ykkur inn í helgina, megi hún vera sem gleðilegust hjá ykkur öllum!

 

18. mars 2004

Hvert fór vorið?!

Ég sem var búin að draga upp grænu, sumarlegu skóna með blóminu og ætlaði að fara að leggja vetrarbomsunum! Farin að plana kaup á sumarjakka eða -kápu og bara almennt komin í stuð fyrir að sitja í grasi og teygja andlitið á móti sólinni! Í dag er hins vegar ekki stætt fyrir roki og almennum leiðinlegheitum úti!!! Ég treysti þó á að þetta sé bara skammvinnt bakslag í vorið sem mæti tvíeflt aftur eftir nokkra daga. Er ekki annars dásamlega hentugt hvernig maður kemst í stemmningu fyrir grænt gras, blóm, sólskin og berar tásur svona í kringum páskana en fer að hlakka til að sjá hvítan snjó yfir öllu, vera með vettlinga og drekka kakó fyrir innan glugga skreyttan frostrósum svona um svipað leyti og skólinn byrjar á haustin?! Ég hef alla vega oft velt því fyrir mér hvað þetta sé heppileg tilviljun! Hversu yndisleg sem mér þykja jólin þá bara gæti ég ekki hugsað mér að halda þau núna ... ekki einu sinni þó ég fengi borgað fyrir það! Ég fæ næstum hroll við að hugsa um jólaskrautið (sérstaklega grenið og seríuna sem enn er á handriðinu fyrir utan útidyrnar hjá okkur ... úff) og mér finnst eins og ég muni aldrei aftur vilja sjá snjó á ævi minni! Nú get ég um fátt hugsað annað en sumarblóm, grillilm í lofti og bjartar sumarnætur þegar fuglarnir byrja morgunsönginn um þrjúleytið! Síðastliðinn ágúst gat ég hins vegar ekki beðið eftir að draga fram vetrarkápuna (þá sömu og ég gæti gubbað á núna) og var búin að fá mig fullsadda af sandölum og svaladrykkjum! Já þetta er svo sannarlega heppilegt og minnir mann á hve snjöll náttúran er. Hún er furðuverk ... aaaalgjört furðuverk!!!

Nú er ég loksins búin að setja inn albúm með fyrstu myndunum úr nýju myndavélinni minni og býð ykkur að kíkja á þær með því að smella á sýnishornið hér að neðan:

Við erum svona enn að læra á þetta, bæði vélina og ekki síst hvernig þetta virkar allt saman þegar í tölvuna er komið. Þessa stundina hef ég mestar áhyggjur af því að nýju myndirnar verði allt of plássfrekar þrátt fyrir að þær séu ekki teknar á nema miðlungsgæðum (sem þó eru örugglega hundraðfalt betri en þær úr gamla jálknum). Þið megið því gjarnan láta mig vita ef nýja myndasíðan reynist nettengingunni ykkar þung í vöfum. Annars hlakka ég alveg svakalega til að taka fleiri myndir á þá nýju og setja inn. Stefni til dæmis tvímælalaust á að kaupa blómvönd til helgarinnar svo ég geti prufukeyrt hana á mínu eftirlætismyndefni (á eftir systkinunum sætu að sjálfsögðu)! Bíða ekki allir spenntir?!!!

 

16. mars 2004

Voðalega ósköp er erfitt að koma sér af stað aftur í hversdagslífinu eftir ævintýraferðir! Á einhvern þverstæðukenndan hátt finnst mér bara alveg fáránleg tilhugsun að ég hafi ekki verið að fara út að borða í hádeginu og sötra rauðvín með og rölta svo um bæinn í góða veðrinu á eftir, kaupa sitt lítið af hverju og bara almennt hafa það gott! Mér finnst svo óréttlátt að ég sé bara búin að hanga ein heima í dag að reyna að hafa mig upp í að vinna grein til kynningar fyrir morgundaginn á meðan ég narta í þurra brauðskorpu eða maula seríos með engri mjólk!!! Hef þó getað fengið mér gott kaffi ... sem betur fer, ég veit ekki hvernig hefði farið fyrir mér annars!!! 

Greinin sem ég ætla að fjalla um á morgun, The Pregnant Text. Bakhtin's Ur-Chronotope: The Womb eftir Ruth Ginsburg, fjallar um krónótópa Bakhtins sem mér skilst að þýða megi sem tímarúm. Tímarúm eru í stuttu máli nokkuð sem ég skil hvorki upp né niður í!!! En greinin er samt skemmtileg og þó það hljómi kannski skringilega þá skil ég hana alveg þó hugtakið sjálft hafi kannski ekki alveg ratað rétta leið! Ég veit hins vegar ekki alveg hvernig fer með þessa umfjöllun á morgun því ég börnin þarf að sækja innan skamms og þar sem Einar er á sjúkrabílnum í dag mun ég sennilega lítið geta lært á næstu klukkutímum. Um það bil sjö mínútum eftir að Einar kemur heim þarf ég svo að fara á kóræfingu (sem ég hlakka reyndar mikið til ... Bachstuð!) svo það fer eiginlega að nálgast miðnætti þegar ég kemst í þetta næst! Og þó ... það er nefninlega skipulögð ferð á hverfispöbb Mótettinga í kvöld, Vitabarinn! Slíkri gleði er varla hægt að sleppa! Ætli þetta endi ekki með fögrum fyrirheitum um að vakna fyrir allar aldir á morgun og gera þetta áður en ég á að mæta í skólann! Og við vitum öll hvernig það fer!!!

 

15. mars 2004

Ferðasaga í máli ... en engum myndum!

Þá erum við skötuhjú komin heim í heiðardalinn eftir stutta heimsókn til London. Æ, það er nú alltaf ósköp notalegt að koma heim þó það sé vissulega gaman að fara út fyrir landsteinana af og til! Eins og lög gera ráð fyrir hófst þessi utanlandsferð í fríhöfn Leifs Eiríkssonar. Þar festi ég kaup á glæsilegri myndavél  og hugsuðum við hjónaleysin okkur gott til glóðarinnar að festa atburði ferðarinnar á filmu ( ... eða þannig ... þetta er reyndar digital vél og því engin filma!). Flug og lestarferðir gengu vel fyrir sig og innan tíðar vorum við komin á Best Western Paddington Court Hotel sem reyndist hið besta í alla staði! Herbergin reyndar lítil og gangar þröngir en það tilheyrir nú bara á hótelum í London! Reyndar þótti okkur undrun sæta að engin teppi voru á hótelherberginu sem var nýstandsett og mjög fínt! Þar sem við lentum seint gafst ekki tími til annars en að smella sér í næstu götu til að fá sér bita fyrir háttinn! Ítalski veitingastaðurinn Bizzarro varð fyrir valinu og verður ekki annað sagt en að hann hafi verið nokkuð bizzarro!!! En mjög skemmtilegur samt! 

Á föstudagsmorgni var nýja myndavélin fullhlaðin og prufukeyrð til hins ítrasta. Myndefnin voru reyndar ekki mjög spennandi, speglar, ferðatöskur og sjónvarp ... en það er svo sem í góðu lagi þegar hægt er að eyða öllu út jafnóðum! Eftir góðan morgunverð röltum við niður í Hyde Park og tókum þar nokkrar myndir en héldum þaðan niður á Oxford Street og kíktum í búðir. Einar reyndist ómetanleg stoð og stytta í Selfridges þar sem ég er örugglega verst áttaða manneskja í heimi og þurfti því svo sannarlega á svona „navigator“ að halda. Ég held þó að Einari hafi ekki þótt alveg jafngaman þar og mér! Eftir þá törn var vel við hæfi að halda á St. Christopher's Place sem hún Svanhildur hafði mælt með og þar skelltum við okkur á tyrkneskan veitingastaðinn Sofra sem var mjög svo frábær (takk fyrir ábendinguna!). Þar tókum við líka nokkrar myndir, m.a. eina af Einari með tyrkneskan kaffibolla sem seint verður talinn bragðdaufur! Eftir matinn var rölt áfram í bænum, farið í BabyGap og verslað á börnin sem og í Hamley's til að kaupa gjafir handa þeim. María var búin að panta Barbie og við foreldrarnir urðum góðfúslega við þeirri ósk. Létum þó alveg eiga sig að kaupa Armani Barbie á 150 pund!!! Kvöldverðinn snæddum við svo á indverskum stað sem við römbuðum á við Queensway. Í miðri máltíð áttuðum við okkur á að við höfðum rambað á nákvæmlega sama stað fimm árum áður þegar við vorum síðast í London ... það var svo sem í góðu lagi enda maturinn til fyrirmyndar!

Á laugardeginum röltum við um í Covent Garden í sól og blíðu! Gerðum heiðarlega tilraun til að finna belgískan veitingastað sem Þórunn systir mælti með en enduðum á ítölskum eftir þriggja tíma þramm! Þrömmuðum svo um í nokkra klukkutíma í viðbót, kíktum í nokkrar búðir og keyptum okkur kaffi nokkrum sinnum! Um kvöldið vorum við bókstaflega dregin inn á annan tyrkneskan stað sem vakti mikla lukku hjá okkur. Þar inni var alveg ótrúlega fallegt, staðurinn var lýstur upp af marglitum, tyrkneskum ljósakrónum sem héngu þétt niður úr loftinu innan um aðra tyrkneska skrautmuni. Ég tók að sjálfsögðu nokkrar myndir af þessu og ýmsar stillingar á myndavélinni, ætlaðar til að taka myndir í myrkri, voru prófaðar með góðum árangri! Maturinn var himneskur, sérstaklega forrétturinn sem var blanda af mismunandi tyrkneskum smáréttum!

Á sunnudeginum fórum við í skoðunarferð að St. Paul's Cathedral að ósk Einars. Þegar við komum inn í kirkjuna var messa einmitt að hefjast og um leið og ég heyrði í kórnum á staðnum (karlakór með kontratenórum og drengjasóprönum) vissi ég að ég yrði að vera við messuna! Við slógumst því í hópinn með hagvanari messugestum og sátum rúmlega klukkutíma langa messu í kirkjunni og fórnuðum ferð á Tate gallery! En því sáum við ekki eftir því þetta var alveg tvímælalaust einn af hápunktum ferðarinnar. Söngurinn var yndislegur og svolítið skemmtilegt fyrir mig sem þarf að vera við messur reglulega að kynnast öðru formi á þeim. Og við Einar stóðum okkur bara nokkuð vel undir þessum framandi kringumstæðum, mynduðumst við að syngja sálmana og gengum til altaris. Eftir messuna drifum við okkur aftur upp á St. Christopher's Place, nú til að hitta Evu og Gunna, sem líka voru stödd í London, á Carluccio's, öðrum stað sem Svanhildur mælti með. Í stuttu máli þá hef ég bara aldrei smakkað svona góðan ítalskan mat og ég held að það sé bara eins gott að ég búi ekki í námunda við hann því ég myndi örugglega vilja borða þar í hvert mál! (Sem væri ekkert mjög skynsamlegt þar sem pastað bókstaflega synti í smjöri!) Það var líka mjög skemmtilegt að hitta Evu og Gunna og við áttum virkilega notalega stund þarna í hádeginu. Við tókum að sjálfsögðu nokkrar myndir af þeim líka. Eftir síðasta séns í búðunum var svo haldið aftur á Heathrow. Þar settumst við niður með bjór og snarl og ætluðum að hafa það gott meðan við biðum eftir Evu og Gunna sem voru á leið heim með sömu vél. Einar ákvað að taka af mér eina mynd við þessar kringumstæður og fór svo að fikta í vélinni meðan ég sat í mestu makindum og snæddi Ceasar salatið mitt og sötraði ölið. Þessi notalega stund tók þó nýja stefnu þegar ég sá að Einar stífnaði skyndilega upp og stundi þungt. Að mér læddist hræðilegur grunur og minn versti ótti var staðfestur nokkrum spennuþrungnum augnablikum seinna ... Einar hafði eitt út hverri einustu mynd sem tekin hafði verið í ferðinni á nýju myndavélina mína!!! Hverri einustu!!! Mér er enn fyrirmunað að skilja hvernig það var hægt en það breytir engu um staðreyndir málsins! Ég þakka bara fyrir að sem sárabætur fyrir myndirnar get ég enn kveikt á nýju kerti, farið í notalega sturtu, borið á mig nýja kremið, klætt mig í ný nærföt, nýjar sokkabuxur, nýja peysu, nýjar buxur, úðað á mig nýja ilmvatninu, málað mig með nýja augnskugganum og sett á mig nýja glossið, nælt í mig nýju nælunni, gripið nýju töskuna og stormað út í vorblíðuna!!! Já, kannski á ég bara nóg af minningum frá dásamlegri ferð til að orna mér við þó engar séu myndirnar?!!!

 

11. mars 2004

Piss, piss og pelamál ...

Þau merku tíðindi urðu hér á Bárugötunni í morgun að Hugi pissaði í fyrsta skipti í koppinn!!! Og ekki nóg með það heldur sagði hann sjálfur til (þetta er sem sagt ekki bara  því að þakka að ég væri nógu þolinmóð að halda honum á koppnum þar til honum yrði mál)! Við foreldrarnir erum hvorki meira né minna en himinlifandi og eygjum nú í fyrsta sinn í fjögur ár bleiulaust heimili! Það er vitanlega ekki komið alveg að því strax en ég myndi nú samt segja að það væri fyrirsjáanlegt fyrst þessi björn er unninn! Mikil voru því fagnaðarlætin í morgun þó stjarna dagsins léti sér fátt um finnast enda svo sem lítið merkilegt við hland!!! Nú get ég ekki beðið eftir að komast til London og kaupa einhverjar pínulitlar og herralegar nærbuxur á piltinn! Kannski einhverjar með spiderman?!

Ég prufukeyrði nýja sjónvarpið í gær og því hefur verið staðfest að þetta er hið besta sjónvarp. Reyndar var Boston Public enn jafnótrúlega leiðinlegur þáttur þrátt fyrir að ég gæti séð alla fýlusvipina sem persónurnar settu upp mjög enn skýrar en vanalega. Sumum hlutum er kannski ekki viðbjargandi þrátt fyrir Philips myndlampa!!! 

 

10. mars 2004

Það stefnir allt í að um næstu mánaðarmót verði stærsti visareikningur sem gefinn hefur verið út hjá Reiknistofnun bankanna sendur hingað á Bárugötuna!!! Ég á fullkomlega von á að reikningurinn verði afhentur mér með mikilli viðhöfn, blómum og hamingjuóskum í tilefni af því að ég hafi formlega eytt meiri pening á einum mánuði en nokkur annar Íslendingur ! Ég vona að það verði einhver verðlaun ... kannski frír reikningur, ætli það séu einhverjar líkur á því?

Eins og það væri ekki nóg að greiða fyrir utanlandsferð og hótelgistingu, snittur og útskriftargjöf allt á eina og sama kortatímabilinu þá neyddumst við til að fjárfesta í nýju sjónvarpi í dag! Fram að þessu höfum við verið svo heppin að hafa komist hjá því að kaupa slíkan grip! Fyrst notuðumst við við gamlan garm sem við fengum gefins úr geymslu fyrrum nágranna og þegar myndin í honum var orðin alveg heiðgræn fengum við lánað sjónvarp hjá litlu frænku minni sem hafði verið svo forsjál að eyða fermingarpeningunum í slíkan grip. Nú er hins vegar orðið tímabært að skila því ... þótt fyrr hefði verið! Og þá neyddumst við að sjálfsögðu til að stíga loks þetta stóra skref sem fylgir því að kaupa sér sjónvarp. Neyðin stafar af því að ég treysti mér bara alls ekki til að sleppa úr neinum þætti af Survivor, American Idol og Bachelor á næstunni. Frekar glatað, ég veit! Mér til málsbóta tek ég fram að sjónvarpið er hvorki stórt né dýrt og því ekki miklar líkur á að sjónvarpsfíkn mín steypi okkur í gjaldþrot ... enn sem komið er!

María og Hugi hafa notið góðs af kaupunum á fleiri en einn hátt. Ekki er nóg með að þau hafi eignast nýtt og betra sjónvarp til að horfa á spólurnar sínar (ég er viss um að myndbönd þeirra muni samanlagt ná a.m.k. hringinn í kringum landið) heldur eignuðust þau líka séríbúð!

Smellið á myndina til að sjá fleiri sýnishorn af flutningum þeirra systkina!

Fram til kvöldsins læt ég mig því hlakka til að horfa á nýja sjónvarpið mitt ... verst hvað það er eitthvað fúlt sjónvarp á miðvikudögum! En áður en ég fer að hafa áhyggjur af því þarf ég að ljúka við þrif sem standa yfir einmitt núna. On y va!

 

9. mars 2004

Mr. Shark ...

Ég fékk alveg frábæra hugmynd áðan þó ég segi sjálf frá. Sem ég sat hérna og las leiðinlegustu smásögu í heimi („The Open Boat“ eftir Steven Crane ... mæli ekki með henni!) datt mér í hug fullkomið nafn á næsta son minn (sem ég eignast kannski í ókominni framtíð). Nafnið er ... tatatatamm ... Helgi Karl Einarsson! Já ykkur finnst þetta kannski ekki tilkomu mikið en bíðið augnablik! Við myndum nefninlega aðeins nota upphafsstafinn í fyrra nafninu og millinafnið ... sem sagt H. Karl ... Hákarl!!! Þessari snilld laust niður í huga mér eins og þrumu úr heiðskíru lofti! Hversu ótrúlega töff væri að vera með Hákarl á brjósti?! Ég heyri í anda framtíðarsamræður við gamla skólafélaga yfir frystinum í Hagkaup: „Þetta er litli Hákarlinn minn ... já, já, hann er eins árs, nýlega farinn að labba!“ „Já nú er Hákarl bara byrjaður í skóla.“ „Hákarl er kominn með kærustu!“ „Hákarl er orðinn pabbi“ ... möguleikarnir á skemmtilegum setningum eru óþrjótandi. Nokkuð ljóst að það yrði ævinlega líflegt í kringum Hákarl Einarsson! Ég varð svo spennt fyrir þessari hugmynd að mig langaði helst að fara bara að drífa í frekari barneignum! Reyndar skapast svolítil vandræði í kringum þann möguleika að barnið gæti orðið stelpa ... ég held því að við munum, þegar öllu er á botninn hvolft, bíða með að setja í fleiri kríli þangað til við erum komin með jafnsnilldarlegt stelpunafn! 

Önnur góð hugmynd hefur líka komið í veg fyrir að ég hafi stundað námið mikið í dag! Ég er búin að ákveða að kaupa mér góða stafræna myndavél fyrir peninginn sem ég fékk í útskriftargjöf. Við Einar erum búin að velja eina sem okkur líst báðum mjög vel á og býður upp á ýmsa möguleika og ætlum að fjárfesta í henni á leið okkar til London. Í dag eyddum við töluverðum tíma í að skoða alla fídusa og prófa vélina í einhverju sýndarveruleikadæmi á netinu. Ég er strax farin að hlakka óskaplega til að geta tekið almennilegar myndir af Maríu og Huga og prentað þær bara út sjálf. Ekki spillir fyrir að vélin er með möguleika á að taka stutt vídeó með hljóði. Við höfum aldrei nokkurn tíman tekið vídeó af krökkunum og ég er því strax farin að hugsa um hvað það verði gaman að eiga smá myndbrot af Maríu að læra að lesa og Huga að syngja „Hver er undir teppinu“ (þetta lag er stór hluti af afskaplega vinsælum leik á Drafnarborg. Mér finnst Hugi sjaldan sætari en þegar hann er að syngja þetta!). Nú og svo verður auðvitað alveg yndislegt að eiga smá vídeó frá fæðingardegi og fyrstu skrefum Hákarls litla!!!

 

8. mars 2004

Þá er löng og góð helgi afstaðin. Á laugardaginn hélt Mótettukórinn í æfingabúðir og var sungið allan liðlangan daginn. Alltaf alveg ágætt að skella sér í slíkar ferðir reglulega þar sem það er yfirleitt hægt að fara yfir mikið efni og maður kann allt í einu voðalega mikið þegar komið er í bæinn aftur. Að þessu sinni var árshátíðinni slegið saman við æfingaferðina og fínasta púss dregið fram undan nótunum! Æ, þær eru alltaf svolítið svona spes þessar árshátíðir úti á landi. Vanalega er þá vont lambakjöt á matseðlinum, pakkasósa út á og svona forskrælaðar kartöflur með!!! (Þórunn, ef þú lest þetta ... manstu Hveragerði '98?!!!) Þessi árshátíð var engin undantekning! Það er alltaf svona pínu andstemmning fólgin í því að draga fínu fötin bara upp úr einhverri Nike tuðru og bjástra við að koma sér í þau inni á einhverri kytru sem er alveg tóm fyrir utan tvö rúm með útpissuðum svampdýnum!!! Mér finnst algjörlega tilheyra svona sparikvöldum að eyða a.m.k. tveimur tímum í að ákveða í hverju maður ætlar að vera, tæta allt út úr fataskápnum og skilja eftir í rúst á rúminu sem maður sér svo ákaflega eftir þegar komið er heim seint að nóttu og velja þarf milli þess að hengja allt klabbið upp á herðatré aftur eða bara láta það gossa á gólfið til að komast sem fyrst í rúmið!!! (Ég vel síðari kostinn undantekningalaust!) En árshátíðin var bráðskemmtileg, nokkur ótrúlega vel heppnuð skemmtiatriði og nokkur aðeins ver heppnuð!!! Að sjálfsögðu var sungið svolítið, að þessu sinni voru Bítlarnir og Dýrin í Hálsaskógi vinsælasta efnið! Sjálf eyddi ég reyndar stærsta hluta kvöldsins á trúnó með ýmsum aðilum frammi á gangi! Þegar fjör var farið að færast í leikinn lét ég mig hins vegar hverfa enda ekki á dagskránni að gista heldur þurfti ég að vera klár í slaginn að annast börnin mín eldsnemma á sunnudagsmorgninum þegar Einar færi til vinnu! Ég hlakka mjög til að mæta á næstu æfingu og fá fréttir af gangi mála eftir brottför mína. Var m.a. með spá um að einhver yrði berrassaður í pottinum ... hlakka til að heyra hvort hún hafi gengið eftir!!! 

Annars geri ég mér vonir um að komandi vika verði hvorki meira né minna en frábær, jafnvel stórkostleg! Ég óska okkur öllum hinna bestu daga fram undan!!!

 

5. mars 2004

Ævintýri hversdagsleikans ...

Í gær fór ég með Maríu og Huga í gæludýraverslun eftir leikskóla. Við ætluðum ekkert að kaupa neitt (þó okkur Maríu langi enn voða mikið í fiska) heldur bara skoða. Ég var svo óskaplega sakbitin móðir þar sem ég hafði neyðst til að sleppa foreldrakaffi á Drafnarborg um morguninn vegna þess að ég þurfti að mæta í tíma. Ákvað því að lyfta þeim aðeins upp í staðinn með því að skoða fiskana og fuglana í Dýraríkinu við Grensásveg. Í stuttu máli snerist þessi ferð upp í algjöra ævintýraferð. Hugi réði sér ekki fyrir kæti og var hreinilega farinn að öskra af spenningi fyrir framan kanínubúrin! María var kannski ekki alveg svona vanstillt í sinni hrifningu en þeyttist milli fiskabúra til að skoða furður hafsins! Sá þarna meðal annars kolkrabba ... ég sá hann reyndar hvergi!!! Mesta hrifningu vakti  þó risastórt fiskabúr með ævintýralega fallegum fiskum, þar á meðal nokkrum svona trúðsfiskum! Börnin æptu upp fyrir sig af hrifningu: „Nemó, Nemó ... og annar Nemó ... og annar Nemó!“ Og ég var eiginlega orðin alveg jafnæst þó ég hafi reyndar stillt mig um að hrópa! Á nokkrum stöðum hafði lokunum fyrir fiskabúrin verið skotið frá þannig að það sást beint ofan í búrið. Við þessi op stóð Hugi og æpti: „Vatnið, vatnið!!!“ Já meira að segja vatnið hafði fengið á sig ævintýralegan blæ. Þetta fyrirbæri sem gusast út úr krönum heimilisins allan daginn, sem þau sitja og baða sig í reglulega og svolgra í sig með kvöldmatnum var allt í einu farið að ganga kraftaverki næst!!!

Eftir á fór ég að hugsa hvort við hefðum ekki öll svolítið gott af því að fara í þess konar ævintýraferðir svona af og til. Farskjótinn þarf ekki að vera neitt stórkostlegur, hugarfarið fleytir okkur ansi langt! Einhvern veginn hefur mér t.d. tekist að gera ævintýri úr hverju því skipti sem ég fæ mér kaffibolla! Þessi óskaplega hversdaglegi hlutur er nánast heilög stund fyrir mér og ég ímynda mér að þetta sé bara eitt það mesta dekur sem til er, að drekka kaffi! Það skemmtilegasta sem ég veit er þegar ég stilli á ævintýrahugarfarið þegar ég rölti eftir götum hverfisins míns. Þarna eru vettlingar á grindverki ... hver ætli hafi týnt þeim? Kannski einhver sem reif þá af sér rétt áður en hann rændi búð? ... Kannski einhver sem missti þá í götuna þegar hann lyfti höndunum upp að andliti ástmeyjar sinnar og kyssti hana á frostbitnar varirnar? Og þarna er hundur einn á ráfi og dregur tauminn á eftir sér ... hvað ætli hafi gerst? Kannski hefur hann hann hlaupið af stað með húsbónda sinn fljúgandi í taumnum á eftir sér alveg þangað til hann gat ekki meir og sleppti? ... Kannski hefur hann setið með húsbónda sínum á bekk á Landakotstúni þegar eigandinn fékk hljóðlegt hjartaáfall og hundurinn hefur gefist upp á biðinni eftir þrjá tíma og rölt af stað heim aftur? Og þarna eru krókusarnir farnir að stinga höfðinu upp úr moldinni ... eftir nokkrar vikur munu krónur þeirra opnast, teygja sig á móti vorsólinni og minna okkur á sumarið sem framundan er með öllum sínum dásemdum!

Eftir ekki svo marga daga ætlum við Einar hins vegar að halda í alvöru ævintýraferð! Farskjótinn á þeirri ferð verður flugvél og ævintýrastaðurinn ekki lendur hugans heldur stórborgin Lundúnir!!! Markmiðið er að fylla maga af góðum mat, ferðatöskur af fallegum varningi og hugann af gleði! Já, maður getur ekki bara látið sér nægja ævintýraferðir hversdagsins!!!

 

3. mars 2004

Ég held að ég hljóti að vera versti námsmaður ever! Í dag var enn einn dagurinn sem ég lærði of lítið, já, nánast bara ekki neitt! Ég er farin að halda að ég þurfi að fara í einhver svona 12 spora samtök til að ná tökum á vandamálinu. LA (lazy anonymous) ... ætli það sé til?!!

Setti inn nokkrar nýjar myndir af Maríu og Huga, endilega kíkið á þær í marsalbúmi eða smellið hér! Ég held hins vegar að mér sé hollast að fara að sofa í von um að morgundagurinn reynist eitthvað drýgri við námið.

Góða nótt.

 

2. mars 2004

Bókmenntafræðingur ritar:

Þá er útskriftin afstaðin. Allt fór blessunarlega vel fram, ég passaði upp á þetta með hvíta strikið og mundi eftir að fara út af sviðinu á réttum stað! Reyndar verð ég að játa að athöfnin fór svolítið fyrir ofan garð og neðan hjá mér þar sem ég hafði svo ógnarmiklar áhyggjur af þessari lestrardagbók sem ég átti, strangt til tekið, að skila fyrir mánaðarmót. Mér tókst þó að mestu að hætta að hugsa um það og naut veislunnar mjög enda mikið af ótrúlega skemmtilegum gestum. Ég hefði reyndar aðrar áhyggjur í staðinn, þ.e.a.s. af afgöngum sem ég óttaðist á tímabili að yrðu gríðarlegir ... sem betur fer herti fólk greinilega á átinu fyrir áeggjan mína og niðurstaðan varð því ekki alveg eins slæm og ég hélt! Við vorum alveg ótrúlega ódugleg við að taka myndir en náðum þó nokkrum fyrir veisluna og svo bætti ég um betur með því að taka svolítið af myndum af gjöfunum. Þið getið skoðað þær með því að smella á myndina hér fyrir neðan:

Á sunnudagsmorgninum var ég búin að skipuleggja stórkostlega törn í lestrardagbókinni sem standa átti nánast samfleytt fram að þriðjudagsmorgni þegar verkinu skyldi skilað! En daginn eftir útskriftina vaknaði ég hins vegar hundveik. Ætlaði nú eitthvað að reyna að harka af mér og halda mínu striki en þegar komið var hádegi og ég ekki búin að gera neitt annað en að liggja rænulítil uppi í sófa með magakvalir þá sá ég að ég yrði bara að láta í minni pokann fyrir pestinni! Endaði sunnudaginn hér með fáránlega háan hita og eitthvað hálfmeðvitundarlaus. Hef síðan þá verið að jafna mig hægt og rólega auk þess sem ég hef gert mitt besta til að mjaka þessari lestrardagbók áfram eftir því sem hitatölur og magaverkir leyfa. Já verkefnaskilum verður því að fresta um óákveðinn tíma þrátt fyrir að mér sé það einstaklega óljúft! 

Já fyrstu dagar mínir sem bókmenntafræðingur hafa því verið dálítið undarlegir. En fall er fararheill og ég hlýt því að láta sannfærast um að eftir þetta sé framtíðin björt! Sé fyrir mér stórkostlegar ritgerðir sem sáldrast úr pennanum, hugljómanir varðandi áður óþekktar staðreyndir um bókmenntir og síðast en ekki síst alveg endalaust af verkefnum og vinnuframboði! Já framtíðin er björt ... eða er það ekki?!

 

Forsíða      Um okkur      Mín síða      Myndirnar okkar       Hafðu samband      Gestabókin okkar