María verður 8 ára

Þann 23. apríl 2008 voru heil átta ár liðin frá því litli páskaunginn okkar leit dagsins ljós í fyrsta sinn! Litla músin mín, sem hefur alltaf verið svo mikið að flýta sér að verða stór að hún dreif sig í heiminn tveimur og hálfri viku fyrir ásettan dag og hefur allar götur síðan alltaf reynt að vera dálítið á undan öllum viðmiðum, er nú hálfnuð í menntaskólaaldurinn! Að sjálfsögðu var þessum dásamlega áfanga fagnað daglangt á Konsulentvägen!

Við foreldrarnir vöknuðum fyrir allar aldir, Einar bakaði pönnukökur og ég lagði á borð og kveikti á kertum. Þá heyrðist örlítið brak í stiganum og litlar táslur sem hreinlega dönsuðu af spenningi sáust trítla niður! Afmælisstelpan hafði þá vart getað sofið frá um hálffimmleytið og vildi ólm fara að byrja hátíðahöldin! Hér eru þau sest við borðið systkinin, glöð að morgni afmælisdags!

Sæta og stóra afmælisstelpan!

Og sæti og stóri afmælisbróðirinn!

Pönnukökurnar komnar á borðið og morgunveislan formlega hafin!

Það voru þó ekki pönnukökurnar sem vöktu mestan spenningin þennan morgun heldur pakkarnir! Hvað skyldi nú vera í þessum?

Jú, sérstök Pet Shop útgáfa af veiðimanni!

Næsti pakki var frá Huga sem valdi gjöfina alveg sjálfur! Feðginin horfa hér hlýlega á þennan gjafmilda strák!

Og upp úr pakkanum kom þessi sæti Hello Kitty bangsi sem vakti mikla lukku hjá dömunni eins og sjá má. Hugi hafði reyndar fyrr um daginn reynt að sannfæra mig um að það væri góð hugmynd að gefa Maríu Turtles vídeóspólu en eftir að blátt bann hafði verið lagt við slíkum gjöfum komst hann svo sannarlega inn á rétta braut!

Í stærsta pakkanum var svo stór og ríkulega útilátinn föndurkassi með ýmsum verkefnum fyrir handlagnar litlar konur!

María fór svo í skólann í nýju afmælisdressi. Í skólanum var henni tekið fagnandi og fékk bæði afmæliskveðjur og heimatilbúnar gjafir frá vinkonum sínum. Best af öllu þykir mér þó kortið sem bekkjarfélagarnir og kennarinn útbjuggu í sameiningu þar sem hver og einn átti að segja eitthvað fallegt um afmælisbarnið. „Heimsins besti vinur,“ „Þú ert falleg,“ „Hjálpsöm,“ „Góð í reikningi“ og „Uppátækjasöm“ er meðal gullkornanna sem þar er að finna. Meðan María var í skólanum hrúguðust gjafir frá Íslandi í litla bláa póstkassann og því beið hennar annar pakkaskammtur þegar hún kom heim.

Hér er hún að opna pakka frá Imbu ömmu og að sjálfsögðu búin að lesa kortið fyrst!

Í pakkanum voru tveir spennandi dvd-diskar!

Og svo var það pakkinn frá Ástþóri Erni og Arnaldi Kára. Fregnir höfðu borist af því að Ástþór, 5 ára, hefði alveg sjálfur ákveðið hvað hann vildi gefa vinkonu sinni ...

... og við mæðgurnar vorum því djúpt snortnar þegar í ljós kom að hann hafði sent henni hálsmen með litlu gullhjarta! Það verður nú aldeilis heppin stúlka sem krækir í þennan litla rómantíska herramann í framtíðinni!

Þessi mynd er sérstaklega handa Ástþóri! Finnst þér hún ekki fín með hjartað frá ykkur?

         

Þegar þarna var komið sögu var Hugi orðinn eilítið örvæntingarfullur yfir öllum gjöfunum og allri athyglinni sem María fékk þennan daginn. Hann dreif því fram albúmin með myndum af honum sjálfum nýfæddum og vildi að fjölskyldumeðlimir myndu sameinast í að dást að því hvað hann hefði nú verið lítill og sætur þegar hann fæddist! Og það var svo sem ekkert nema auðsótt mál enda var hann og er afskaplega lítill og sætur!!!

María dreif sig svo upp í herbergi að föndra dálítið úr nýja föndurkassanum. Þetta er nú mest megnis föndur fyrir lengra komna með saumadóti og heklunál en henni virtist farast þetta vel úr hendi þar sem hún sat við skrifborðið sitt!

Sæt, skemmtileg og skapandi stelpa!

         

Hugi vildi endilega föndra líka fyrst María var að föndra og helst af öllu langaði hann að fá að gera fínasta verkefnið úr föndurkassanum góða. Þegar ekki fékkst leyfi fyrir því upphófst mikil sorg sem þó fékk snöggan endi eftir að mömmunni datt í hug að fá honum verkefni sem hún hefur sjálf haft gaman af að sinna frá blautu barnsbeini, nefnilega að teikna á myndirnar af fólkinu í dagblöðunum!!! Fljótlega þornuðu því tárin en ískrandi hlátur heyrðist í staðinn við eldhúsborðið.

Og hér sést afraksturinn. Þetta barn er sem sagt bæði að pissa og kúka (mér sýnist það reyndar með blóðmigu sem eitthvað þyrfti að rannsaka!) og svo er það með skegg, brodda og loðna leggi!!! Skömmu eftir að myndin var tekin bættust gleraugu við!

Á meðan barnið í blaðinu varð sífellt ógeðfelldara lauk María við þetta fína armband! Mér þykir rétt að taka það fram að það var algjörlega hennar hugmynd að sauma nafnið sitt í en mun metnaðarfyllra en það sem stungið var upp á í leiðbeiningunum!

Að ósk afmælisbarnsins var svo lasagna í kvöldmatinn. Fyrst ætlaði hún nú að hafa mexíkönskukökurnar mínar en ég er mjög fegin að hún féll frá þeim plönum! Eins og einhverjir muna kannski eftir er samanstendur sá meistararéttur sem sagt af tveimur mexíkönskum tortillum með tómatsósu og osti á milli!!!

Í eftirrétt var svo súkkulaðikaka, ís og glæný jarðaber.

Eftir kvöldmat fannst Huga aftur farið að halla óþarflega á sinn hlut hvað athygli varðar og dreif því í smá kraftasýningu!!!

Við lukum kvöldinu svo með því að taka einn góðan Pet Shop veiðimann! Hugi rúllaði upp slögunum og í miðju spilinu þegar ljóst var að hann hafði orðið afgerandi forskot ljómaði hann í framan og sagði: „Kannski vinnur bara afmælisbarnið ekkert þetta spil heldur einhver annar sem á ekki afmæli!“ Loksins eitthvert réttlæti í þessum heimi!!!

Afmælisbarnið komið upp í rúm í lok dags. Og getiði hvað hún er að lesa?! Baldintátu!!! Já þetta er sem sagt þriðja kynslóð stúlkna sem virðist ætla að deila æskunni með hinni óstýrilátu Elísabetu. Bækurnar fékk amma Imba sem lítil stelpa og ég tók svo miklu ástfóstri við þær á svipuðum aldri og María og lét mig lengi dreyma um að komast í heimavistarskóla (fór sko tvisvar í sumarbúðir, grét allan tímann og lét sækja mig fyrr í annað skiptið!). Og nú hefur litla stelpan mín tekið við keflinu enda ekkert svo lítil lengur heldur fullra átta ára!!!

Ef einhverja langar að sjá nokkrar svipmyndir af lífi þessarar ungu stúlku bendum við á eftirfarandi myndasíður:

María lítil

María þriggja ára

María fjögurra ára og fjögurra ára afmælisveislan

María fimm ára

María sex ára

María sjö ára og sjö ára afmælisveislan

Hún lengi lifi, húrra, húrra, HÚRRAAAAAA!!!!!