María sæta í sumarskapi

Hin ný afmælisveislaða María er hress og kát sem aldrei fyrr. Síðastliðinn föstudag fór hún loks í langþráða fimm ára skoðun og stóð sig að sjálfsögðu með stakri prýði. Hjúkrunarfræðingurinn mátti vart mæla fyrir aðdáun þegar henni var tilkynnt að ekki einungis kynni María alla stafina heldur hefði hún hvorki meira né minna en skrifað nokkrar sögur upp á eigin spýtur! Ég stend statt og stöðugt í þeirri trú að hún muni verða rithöfundur með tíð og tíma. Um daginn brá hún fyrir sig ótrúlega flottu og snjöllu rími (sem ég man engan veginn hvernig var) og ég stakk því þá að henni að hún ætti kannski að fara að yrkja kvæði nú þegar hún væri búin að ná góðum tökum á skáldsagnaforminu! Síðan var ekki meira rætt um það. Nokkrum dögum seinna þegar við vorum að keyra í bílnum segir sú stutta upp úr eins manns hljóði: „Nú er ég búin að reyna að yrkja kvæði við öll þessi lög í útvarpinu og það gengur bara ekkert! Það er best að ég fari bara aftur í sögurnar!!!“ Já, hún verður skáldsagnahöfundur ... og það hefur ekkert með það að gera að ég er bókmenntafræðingur!!!

Og hér er hún komin, skáldkona framtíðarinnar!

Sem þó kann þá list að setja sig í réttar stellingar frammi fyrir myndavélinni. Rithöfundar verða líka að líta vel út á myndum!

Samkvæmt nýjustu mælingum er María orðin hvorki meira né minna en 113 cm og 22 kg! Ekkert smá sem maður hefur stækkað, fyrir fimm árum síðan mældist hún rétt rúmir 50 cm og 3,5 kg!

En María er ekki einhöm í listrænni tjáningu sinni ... hún kann líka að dansa!

Það er líka viss list að geta borað í nefið meðan maður hlær og dansar!!!