Margt og mikið í maí

Eins og komið hefur fram var mikið að gerast hjá okkur í maí og hér er brot af því besta!

Í blábyrjun mánaðarins blómstruðu kirsuberjatrén út um alla borg, meðal annars á skólalóðinni í Vänge skola.

Þau minna mig alltaf á kandífloss.

Og í skógarbotninum stóðu vitsippurnar í blóma.

Plómutréð í garðinum okkar var hins vegar fremur skammt á veg komið þarna, þann 3. maí.

Bræðurnir í tölvuspili í Huga herbergi.

María hélt upp á 12 ára afmælið sitt í byrjun maí og hér er hún ásamt átta kátum afmælisgestum.

Eitt af skemmtiatriðunum í afmælinu var cupcakes skreytingakeppni.

Það var auðvitað ekki hægt að velja eitthvert eitt af þessum glæsilegu framlögum svo allir unnu!

Þann 5. maí fórum við til Jälla gård til að sjá kusunum hleypt út í fyrsta skipti þetta vorið. Ferðin til Jälla er orðinn árlegur viðburður hjá okkur fjölskyldunni og í þetta sinn mættum við meira að segja vel tímanlega! Hér erum við að drekka kaffi og borða kanelbulla meðan við biðum eftir stjörnum dagsins.

María og Baldur Tumi voru spennt.

Hugi var líka spenntur (og svo er hann að safna hári!).

  

Og svo komu þær hlaupandi og hoppandi af gleði hver á fætur annarri!

Og stundum var troðningur.

Þegar út á túnið var komið tóku sumir dansspor.

Feðgarnir fylgdust einbeittir með.

Takið sérstaklega eftir dúllunni þarna hægra meginn sem er að velta sér upp úr grasinu á mjög innilegan hátt!

Ýmis deilumál úr fjósinu voru gerð upp í vorgolunni á túninu.

Í fjárhúsunum voru nýfædd lömb sem mátti klappa og þeim sem voru aðeins stálpaðri mátti halda á.

Og svo mátti setjast upp í traktora! Baldur Tumi lagði nú ekki í þá stóru en þessi var alveg mátulega lítill.

Hugi og María við viðarstafla.

Baldur Tumi á sama stað hágrátandi yfir að eiga að fara í bílinn en ekki upp að stórum traktorum sem hann sá uppi á nærliggjandi hól.

Við foreldrarnir vorum fljót að leggja niður vopn í þeirri orrustu!

María og Baldur Tumi baka súkkulaðiköku.

         

Gæðastjórinn gekk úr skugga um að allt væri eins og það ætti að vera og gaf deiginu fimm stjörnur.

Bræðurnir úti í vorsól að borða eftirlætissnakk Baldurs Tuma - grænar baunir!

Namm!

Hugi æfði sig í að grípa baun með munninum. Sjáiði hana þarna ofarlega fyrir miðju á myndinni?

Tólfta maí voru komnir myndarlegir knúmpar á plómutréð.

Og líka á túlípanana - sem Baldur Tumi kallaði sódavatnsblóm enda kúlulaga dropar á blöðunum eftir vorregnið.

         

Timbur! Það eru alltaf einhver verkefni í garðinum og hér var verið að fella hlyn sem hafði laumað sér upp mitt í sírenurunna og var allt í einu alveg óvart orðinn þriggja metra hár!

Að kvöldi þess tólfta fórum við María til Stokkhólms á tónleika með uppáhaldssöngkonunni okkar Veronicu Maggio. Tónleikarnir voru í Berwaldhallen og um undirleik sá Sveriges Radio Symfoniorkester. Ég hafði ekki þorað að taka myndavélina með þar sem ég gerði ekki ráð fyrir að taka mætti myndir á tónleikunum og fannst ekki árennilegt að þurfa að koma stóru vélinni fyrir í fatahenginu ef mér yrði bannað að fara með hana inn í salinn. Að sjálfsögðu kom svo í ljós að myndataka var leyfileg, flössin blikkuðu stanslaust allan tímann og ég var brjálað spæld að vera ekki með vélina! María var hins vegar með litlu vélina sína og tók myndir og myndbönd og veitti mér góðfúslegt leyfi til að birta brot hér á síðunni.

Og hér er myndband af heilu lagi sem ég setti inn aðallega til að þið gætuð séð (þegar María zoomar út) hvað við vorum með frábær sæti. Lagið er hið frábæra „17 år“ sem fjallar einmitt um borgina okkar, Uppsali!

Eftir tónleikana var hægt að fá eiginhandaráritun hjá stjörnunni og við María vorum ekki lengi að skella okkur í röðina. Hér er verið að ræða hvernig nafnið María sé skrifað og í hvaða átt þessi undarlega komma halli!

Veronica og María ... og einhver maður sem ég veit ekkert hver er.

Við vorum alsælar eftir frábæra tónleika í lestinni á leiðinni heim ...

... og komman sneri alveg hárrétt og allt!

Þrettánda maí, daginn eftir að knúmpamyndin var tekin leit plómutréð svona út!

Mér finnst þetta alltaf jafnævintýralegt!

Þúsundir blóma, og hvert og eitt svo ótrúlega fullkomið!

Baldur Tumi með bangsa úti í garði.

  

Bardús!

Bangsa þykir alltaf jafnnotalegt að fá sér lúr í vagninum.

Mér finnst alltaf ótrúlega erfitt að ná heildarmynd af plómutrénu í blóma sem sýnir hve fallegt það er. Það er eins og blómin leysist upp um leið og smellt er af. Þessi í kvöldbirtunni fer þó nærri því að sýna umfang þess þótt fegurðin sé kannski meiri þegar horft er með berum augum og í fallegra ljósi.

Þann 19. júní var Hugi með danssýningu í Uppsala Konsert och Kongress, fína ráðstefnu- og tónleikahúsinu hérna í Uppsölum. Hann er búinn að vera á street dansnámskeiði í vor ásamt tveimur vinum sínum og nú var komið að því að sýna afraksturinn. Hér er atriðið þeirra og Hugi er fjórði frá vinstri þegar atriðið byrjar, í rauðri Kanada-peysu og hvítum buxum. (Einhverjum kann að finnast undarlegt að ég birti þetta vídeó en ekki þau úr hæfileikakeppninni og ég get svo sem ekki alveg rökstutt þá ákvörðun nema bara með því að mér fannst hin vídeóin persónulegri, tekin á lokuðum stað sem fáir höfðu aðgang að á meðan hver sem er mátti kaupa miða á þessa danssýningu.)

Við vorum ekkert smá stolt af okkar manni og finnst að hann ætti að leggja dansinn fyrir sig! Eftir sýninguna spókuðum við okkur aðeins um á Vaksalatorgi í sólinni. Baldur Tumi var nú ekki til í að vera með á mynd en hann stóð sig ótrúlega vel á sýningunni, sat og fylgdist með (eða dundaði sér við að troða aðgöngumiðanum sínum í hólf bakpokans) og hafði gaman af þótt allt tæki þetta um einn og hálfan tíma.

Krakkarnir skoða gosbrunninn á torginu.

María og Baldur Tumi stinga saman nefjum.

Hetja dagsins, ekkert smá stór og flottur strákur!

Epaltréð blómstraði óvenjumikið í ár.

Túlípanarnir að byrja að opna sig í beðunum í kringum eplatrén.

Og enn ein tilraunin gerð til að fanga plómutréð á mynd!

Það er alveg sama hversu misheppnaðar heildarmyndirnar af trénu verða, nærmyndirnar klikka aldrei!

Eða hvað?

Og þar ríkir fegurðin ein!

Bæði stórir og smáir dást að plómutrénu.

Í lok maí fengum við risageitung í heimsókn. Við náðum ekki bara svona góðri andlitsmynd af honum ...

... heldur fengum við hann líka til að spóka sig eftir reglustiku svo fólk myndi trúa okkur þegar við segðum hvað hann var ógeðslega stór! Fjórir sentimetrar! Ef ykkur finnst það ekki hljóma mikið legg ég til að þið náið í ykkar eigin reglustiku eða málband og sjáið þetta með eigin augum!

Við veiddum hann í glas og það var rétt svo að hann kæmist fyrir þar inni!

Og svo slepptum við honum úti, það er hann sem er þessi stóra svarta klessa í vinstri kanti myndarinnar!

Og við ljúkum albúminu á sama stað og það hófst, í Vänge skola. Þar var opið hús síðasta dag maímánaðar og María tók meðal annars þátt í leiksýningu sem við fórum auðvitað og horfðum á.

Leikritið fjallaði, eins og nokkur önnur sem við höfum séð í Vänge skola, um stelpu sem er lögð í einelti. Þetta var hins vegar án efa besta útgáfan af því þema sem við höfum séð hingað til!

Með frábæru lokaatriði þar sem var bæði sungið og dansað!