Maístjörnur

Eins og allir vita eru það María og Hugi sem eru aðalstjörnurnar hér á Bárugötunni. Það er því ekki úr vegi að birta nokkrar svipmyndir af viðburðaríkum maímánuði hjá þeim systkinum.

    

Hér sjást systkinin í misgóðum gír! Hugi grætur dramatískur (tilefnið er löngu gleymt, bæði foreldrum og þolanda!) en María rólar sér alsæl í bakgarðinum!

Freyja kom í mat til okkar í mánuðinum ásamt foreldrum sínum. Eftir máltíðina lituðu börnin nokkrar myndir og sú sutta lét sitt ekki eftir liggja!

Freyja sýndi að aldur og stærð hafa ekkert að segja þegar kapphlaupið um fínustu litina er annars vegar!

Þann 7. maí var sól og blíða í Reykjavík og systkinin nýttu daginn vel til útiveru. Hér eru þau í „bjargileik“ í bakgarðinum.

Mikið var yndislegt að rifja upp hvað það er gaman þegar sólin skín og hitastigið leyfir manni að fara út án þess að vera í fullum herklæðum. Verst hvað sú upprifjun stóð stutt! Aðeins nokkrum dögum eftir að þessi mynd var tekin voru María og Hugi send með kuldagalla og kuldaskó á leikskólann!

  

Maístjörnurnar!

Systkinin fengu að tjalda báðum tjöldunum sínum í garðinum og taka nesti með út. Þetta þótti að sjálfsögðu mikil ævintýraför!

Að snæðingi í vorsólinni.

Þórunn og Svanhildur Margrét litla frænka litu við hjá okkur í mánuðinum. Maríu þótti ekki leiðinlgt að fá að halda á þeirri litlu og stóð sig með stakri prýði í stóru frænku hlutverkinu!

María og Svanhildur Margrét ... við eigum væntanlega eftir að sjá meira af þessum sætu frænkum í framtíðinni.

Guðrún móðursystir fékk stórt bros frá Svanhildi litlu og var að vonum stolt!

Það voru ekki bara María og Hugi sem voru stjörnur þennan mánuðinn! Einar sýndi sannkallaða stjörnutakta þegar hann smíðaði hurð, flísalagði í eldhúsinu og olíubar gólfin! Hér er kappinn kominn vel á veg með fúguna.

Um daginn fékk Hugi sína fyrstu Tinnabók. Um er að ræða Tinna og Pikkarónana sem Hugi vill reyndar frekar kalla Raskras af einhverjum ástæðum! Það breytir því hins vegar ekki að systkinunum finnst þetta stórkostlegasta bók sem þau hafa lengi lesið og tryllast af hlátri með reglulegu millibili!

    

María er enginn nýgræðingur í tannmissi. Hún er búinn að missa fjórar tennur í neðri góm, búin að fá fjórar fínar tennur í staðinn og tvo sex ára jaxla. Fyrir nokkrum dögum missti hún hins vegar fyrstu framtönnina í efri góm. Báðar hafa framtennurnar dinglað laflausar um margra vikna skeið og því var mikil gleði þegar sú fyrri loksins lét unda. Hins vegar var ekki hjá því komist að hugurinn hvarflaði örlítið til karlsins sem sat undir kletti með skögultönn og hló!

    

Aðeins tveimur dögum síðar fór hin framtönnin! Tvær stórar og fínar fullorðinstennur hafa verið í startholunum þarna undir ansi lengi og eru því strax komnar vel á veg! Hún er flottust!!! Verst að tannálfurinn horfði á vídeó svo lengi frameftir að hann steingleymdi að koma við hjá henni og stinga tannfé undir koddann!!!