Maísól

Þessir síðustu dagar maímánaðar hafa öðru fremur einkennst af sól, sumaryl og sumarhátíðum!

Þegar við komum heim frá Íslandi biðu okkar eplatré í blóma og garður í órækt! Það vakti athygli okkar og ánægju að töluvert var af blómum á vetrareplatrénu sem stendur upp við húsið hægra meginn. Það skemmdist þegar húsið var byggt og síðan hafa ekki komið ávextir á það. Í fyrra fengum við reyndar tvö eða þrjú epli og gátum þá sannreynt að seinsprottin epli eru mun betri en þau sem þroskast yfir hásumarið. En í ár bar það sem sagt slatta af blómum og vonandi eigum við því von á að minnsta kosti nokkrum eplum í haust!

Laugardaginn 24. maí var Vänge skolas dag og að þessu sinni héldu börnin rokktónleika fyrir foreldra sína og aðra aðstandendur! Bekkurinn hennar Maríu flutti lagið Rock around the clock með nýjum texta sem snerist aðallega um drauga og aðrar skuggaverur! Hér er daman okkar mætt fyrst á svið!

Fljótlega bættust hinir bekkjarfélagarnir þó í hópinn og það var óhugnalegur söfnuður sem flutti rokklagið þarna í morgunsólinni!

         

Að öðrum ólöstuðum og alveg án þess að vera hlutdræg verð ég að segja að bekkurinn hennar Maríu stóð sig langbest á tónleikunum!!! Án gríns þá voru þau þau einu sem hreyfðu sig allan tímann og sungu hátt og snjallt! Þau slógu ekki bara hinum litlu krökkunum við heldur voru þau margfalt betri en allir 4., 5. og 6 bekkirnir!

Reyndar var þessi 5. bekkur ansi góður. Það var reyndar aðallega trommarinn þeirra sem keyrði upp stemmninguna. Allir eldri bekkirnir fengu að spila sjálf á hljóðfæri auk þess að syngja og í flestum tilvikum sátu kannski þrjár stelpur við trommusettið, hver með einn kjuða og svo rjátluðu þær eitthvað við trommurnar! Þannig að þegar þessi strákur mætti og barði húðirnar af alefli eins og atvinnumaður komust aðrir hljóðfæraleikarar og söngvarar augljóslega í gott stuð líka og atriðið var mjög vel heppnað. Þótt ég hafi aldrei séð eða heyrt um þennan strák áður varð ég ótrúlega stolt að fylgjast með honum og næstum farin að grenja þegar honum voru veitt verðlaun sem efnilegasta hljóðfæraleikara Vänge skömmu síðar!!!

Þegar Huga tók að leiðast þófið á rokktónleikunum brugðum við okkur í rólurnar og hlustuðum bara á Iron Maiden og Kizz lögin úr fjarska!

Vííííííííííí!!!

Eftir tónleikana var hægt að rölta um skólalóðina, taka þátt í happdrætti, boltakeppnum, fara á flóamarkaði og fá sér fika eins og við settum að sjálfsögðu á oddinn! Sá viðburður sem ég hafði þó almestan áhuga á voru óskilamunirnir! Þar fundust tvær 66° Norður peysur af Maríu, ein alveg glæný sem týndist á fyrsta degi sem hún var notuð í skólanum og hin sem týndist í fyrra, hafði ekki komið í ljós á þessum sama viðburði það árið en skilaði sér allt í einu núna! Þarna sést einmitt glitta í hana undir rassinum á þessum sæta kanelbullaborðandi draug!

Ég á nýja sumarskó sem mér finnast ó svo fínir! Keyptir á Íslandi fyrir morð og milljón en fullkomlega þess virði!

Finnst ykkur Vänge skola ekki sætur og notalegur skóli?

Ég skal fyrst manna viðurkenna að ég er ansi villt í öllum þessum trjám hér í Svíþjóð, held þó að þetta séu kirsuberjatré, svona alvöru sem bera ávexti en ekki bara punttré blómanna vegna.

     

Feðgarnir æfa upphífingar! Aumingja Hugi átti engin hrein eða heil föt þennan dag önnur en þessi sem umbreyttu honum í nútímaútgáfu af Stikkilsberja-Finni!

Eftir að heim var komið stóð ég við loforð sem ég gaf Huga deginum áður um vöfflukaffi!

         

Nammmm ... eða eins og maður segir á sænsku: Mums!

Daginn eftir fylltist garðurinn okkar af börnum! María var með Madicken vinkonu sína í heimsókn og Ask bekkjarbróðir hennar sem býr skammt frá okkur rann á hljóðið og bauð sjálfum sér í heimsókn ásamt systur sinni. Litli strákurinn úr næsta húsi var spenntur fyrir öllum þessum stóru krökkum og smeygði sér líka gegnum limgerðið og fylgdist aðdáunarfullur með ærslaganginum.

Á meðan mokaði Einar eins og óður væri ...

... og Hugi var með dömu uppi í herbergi hjá sér! Unn litla systir hans Asks virtist ekki kippa sér svo mikið upp við draslið sem drengurinn bauð upp á!

Á miðvikudögum reynum við Einar að hittast í hádeginu og fara saman á hlaðborð á veitingastaðnum New India. Staðurinn sjálfur er frekar svona lummó en maturinn er æðislegur og ekki spillir fyrir að maður borgar bara 75 krónur sænskar fyrir matinn og fær að auki drykk og kaffi á eftir með! Heyrst hefur að fólk komi alla leiðina frá Stokkhólmi til að sækja hlaðborðið og það er yfirleitt fullt út úr dyrum þarna og setið í hverju sæti. Eina ástæðan fyrir því að það lítur svona tómlega út bak við Einar er sú að það var 25° hiti og glampandi sól úti þegar myndin var tekin og undir svoleiðis kringumstæðum vill fólk víst frekar vera utandyra!

Þennan miðvikudag var svo kallaður inspirationsdagur í vinnunni hjá Einari og þar sem hann fékk svo langt kaffihlé hittumst við aftur þá, keyptum okkur kaffi og röltum niður að ánni. Á svona dögum finnst mér borgin mín svo falleg að ég kemst í andnauð! Hér er Fyrisáin í forgrunni, svo saluhall okkar Uppsalabúa og þar fyrir aftan dómkirkjan. Í henni ætla ég einmitt að halda tónleika 8. júní klukkan  18:00, það er frítt inn svo þið ættuð auðveldlega að geta mætt og hlustað á sænska rómantík!

Sírenurnar standa í blóma um þessar mundir.

Finnst ykkur þetta ekki dásamlegt?!

Einar sat á bekk undir blómstrandi tré (sem ég kann engin deili á) og naut blíðunnar!

Um kvöldið var svo sommarfest hjá bekknum henna Maríu. Við söfnuðumst saman í skóginum hérna við Vänge með teppi og nesti og nutum geisla kvöldsólarinnar meðan hún var enn nógu hátt á lofti til að ná yfir trjátoppana. Þótt við fjölskyldan værum þarna á Maríu vegum sáum við minnst af henni þetta kvöld enda var hún upptekin með vinkonunum.

Við þurftum að láta okkur nægja að taka myndir af henni úr fjarska til að byrja með!

María gaf sér þó tíma til að koma og sýna okkur þennan vin sinn og biðja um að tekin yrði mynd af honum!

Og í leiðinni fékk mamman að smella einni af henni sjálfri!

María og Linnea með krúttsvipinn!

Feðgarnir borða pulsu!

Eftir að búið var að grilla var farið í vísbendingahlaup um skóginn og því næst kepptu fullorðnir og börn í pokahlaupi. María fylgdist spennt með liðunum undirbúa sig ...

... og Hugi líka (í púffermarmapeysu með bleikum blómum).

Meðan beðið var eftir að keppni hæfist stytti María sér stundir með því að blása sápukúlurnar sem við fengum í verðlaun fyrir ratleikinn.

Heja pabbi!!! Einar keppti fyrir hönd hinna fullorðnu (en ekki hvað!) og hoppaði svo hratt og hátt að hann festist vart á filmu!

Nú hef ég hafið fjórðu tilraun mína til þess að vera með dalíur í potti á útitröppunum! Enn sem komið er virðast þær hafa fengið að vera í friði og ég er farin að vona að þessar dalíuelskandi bjöllur sem herjuðu á okkur í fyrra séu bara útdauðar eða eitthvað!

Þann 30. maí var hin árlega sumarhátíð á Hemmings. Þegar fjölskyldur barnanna mættu var búið að skreyta garðinn svo fínt með blöðrum, myndum og villtum blómum en börnin var hvergi að sjá. Þau stigu ekki á svið fyrr en allir voru búnir að koma sér vel fyrir og gengu þá syngjandi á sinn stað svo falleg og yndisleg!

Yfirskrift þessarar sumarhátíðar var „Árið á Hemmings“. Kynnirinn sagði lítillega frá því hvað börnin hefðu haft fyrir stafni í hverjum mánuði og svo var sungið eitt lag í tengslum við þá, yfirleitt með frumsömdum texta. Þannig var farið í gegnum allt síðasta ár frá hausti til sumars, ekkert smá metnaðarfull dagskrá!

Okkar maður stóð sig eins og hetja og tók hraustlega undir í öllum lögunum. Ég var svo stolt að ég var alveg að rifna! Fór einu sinni pínu oggulítið að skæla af aðdáun á þessum ótrúlega strák sem ég á en ég held nú sem betur fer að enginn hafi tekið eftir því!

Það hefur vakið athygli mína á öllum þessum samkomum sem ég hef sótt á vegum leikskólans hvað litlu krakkarnir eru fáránlega dugleg að sitja kyrr og taka þátt í skemmtuninni og það varð engin undantekning á því í þetta sinn. Maður þarf nú samt að vinka svolítið til mömmu og pabba sem eru komin til að horfa á mann!

Í októberlaginu var sungið um vatnið og rigninguna og áheyrendurnir sem sátu í 30° hita og sól fengu örstutta upprifjun á haustlægðunum með aðstoð þeirra Johönnu og Selmu!

Ekki voru alveg allir með það á hreinu hvernig best væri að nota derhúfuna!

Hugi milli vinkvenna sinna þeirra Ellenar og Signe. Mér finnst svo ótrúleg tilhugsun hvað hann hefur yfirstigið margar hindranir á síðustu tveimur árum. Hann byrjaði í nýjum leikskóla þar sem hann þekkti engan og talaði ekki sama tungumál og þau en er nú búinn að læra tungumálið og kynnast öllum, bæði börnum og fóstrum. Eftir sumarhátíðina trúði hann mér þó fyrir því að fyrsta daginn á leikskólanum hefði hann nú saknað mín svolítið!

Stóru skólabörnin spiluðu svo Ming músík fyrir okkur og sungu með.

Síðasta atriðið á skipulagðri dagskrá var útskriftarathöfn skólabarnanna. Krakkarnir röðuðu sér upp í röð og biðu eftir að fá útskriftarbókina sína og útskriftargjöf.

Hér er Hugi að taka á móti sinni viðurkenningu og þiggur að auki stórt kram frá frökenunum.

Það er alvörumál að útskrifast úr leikskóla!!! Á einhvern merkilegan hátt tókst mér að halda aftur af tárunum við þessa athöfn en ég sá um kvöldið þegar ég hlóð myndunum inn í tölvuna að ég átti svona 50 myndir af þessu, næstum allar eins. Mér sýnist ég því hafa sett alla einbeitinguna í myndavélina til að hafa ekki haft tíma til að hugsa of mikið um þessi merku tímamót og allt sem þeim fylgir!!!

     

Eftir að skemmtidagskránni lauk kom Hugi á teppið til okkar hinna og tók á móti hamingjuóskum og þakklæti fyrir sýninguna. Sjálfur var hann hins vegar spenntastur fyrir því að opna pakkann og upp úr honum kom þessi forláta munnharpa sem hann fór strax að spila á!

Leikskólinn bauð öllum upp á ís og ávaxtasalat sem var VEL þegið í hitanum!

Einar komst sem betur fer með á sumarhátíðina í þetta skiptið!

Eftir að dagskránni lauk tók við pikknikk í garðinum. Þetta var í fyrsta sinn sem ég mætti á einhverja svona uppákomu á vegum skólans eða leikskólans sem mér fannst ég alveg vera með á hreinu hvað ætti að gerast og var við öllu viðbúin! Ég mundi eftir bitra reynslu fyrra árs að Hugi ætti að vera prúðbúinn og ég áttaði mig á að þegar stungið var upp á því að foreldrarnir kæmu með kaffi væri ekki nóg að mæta bara með uppáhellingu í ferðamálinu heldur þýddi það í raun að allir myndu koma með teppi og tösku fulla af kræsingum. Ég mætti því með nýja pikknikkteppið, brauð og álegg, kanellengju, svaladrykki, kaffi á brúsa, pappadiska, pappabolla, hnífapör og meira að segja servéttur! Mér fannst ég alveg vera að slá í gegn!

Hugi var kátur með kanellengjuna! Um hálsinn á honum hangir hið svokallaða prumpu-rör sem notað var í einu laginu!

Eftir að allir voru búnir að borða ís og aðrar kræsingar héldu vinirnir Hugi, Olle og Filip smá munnhörpukonsert í einu horni garðsins.

         

Hugi klifraði líka í klifurgrindinni og spilaði svo smá meira á munnhörpuna góðu!

Stóra systirin klifraði líka svolítið og brosti undurblítt til ljósmyndarans!

Meðan ég var að taka myndir af Maríu hvarf Hugi en ég fann hann aftur undir stóru eikartré hvar hann stóð einn í skugganum, spilaði á munnhörpuna og virtist í þungum þönkum. Hann minnti mig mest á Snúð í Múmíndalnum!

Og hér er Hugi ásamt öllum sínum frökenum! Frá vinstri: Azam, Ann-Britt, Elisabeth og Britt! Hver annarri frábærari! Af öllu fólkinu sem ég hef átt samskipti við hér í Uppsölum hefur mér alltaf þótt best af öllu að tala við þessar konur! Alltaf hafa þær nennt að hlusta á mig böggla út úr mér misgóðri sænsku og aldrei nokkurn tímann hafa þær sett upp „Guð, hún er útlensk ég mun örugglega ekkert skilja hvað hún segir-svipinn“ sem ég hef annars séð allt of oft! Ég veit því eiginlega ekki hvað ég geri þegar Hugi hættir á leikskólanum og ég missi af tækifærinu til að spjalla við þær. Ætli það sé möguleiki á að fá pláss fyrir 32ja ára á Hemmings?!

Áður en við yfirgáfum Hemmings þennan dag komum við við inni og skoðuðum Skapa med skräp (skapa úr rusli) sýninguna sem börnin hafa verið að útbúa alla þessa önn. Hér er Hugi við uppstillingu síns hóps. Hann gerði rakettuna þarna lengst til vinstri ...

... þennan ótrúlega flotta bláa hest ...

... og svo teiknaði hann og klippti út þessa flottu krabba sem eru þarna í sjónum!

Við andyrið var líka sýning á flottum steinakörlum sem krakkarnir höfðu búið til!

Eftir sumarhátíðina röltum við aðeins í bæinn sem skartaði sínu fegursta í veðurblíðunni. Þótt langt væri liðið á dag sat fólk enn niðri við ánna og naut sólarinnar.

Og við Einar vorum svo ósköp sæl og stolt af litlu stóru börnunum okkar sem við höfum fylgt á hinar ýmsu sumarhátíðir þessa vikuna!

Á göngugötunni komum við við í ísbúð og fengum okkur nokkrar kúlur og vont kaffi! Voðalega finnst mér ég sjaldan taka myndir af Einari og Maríu saman ... fatta það bara þegar ég skoða þessa fínu fínu mynd af þeim!

Hugi valdi sér að sjálfsögðu súkklaðiís en kom líka á óvart með því að óska eftir því að önnur kúlan væri marsipanís ... og ekki síst kom á óvart að hann skyldi borða hana alla upp til agna!

Um kvöldið borðuðum úti á palli í fyrsta sinn þetta ár í dásamlegri kvöldsól, hita og logni!

Þessi mynd af Huga hefur vakið mikla kátínu ... aðallega hans eigin! Eftir kvöldverðinn vorum við óvænt boðin í kvöldkaffi til nágranna okkar. Þau eru með litla útistétt sem er umkringd blómstrandi sírenum og þar drukkum við kaffi og Baileys og dýfðum biscotti í meðan börnin fengu ís með súkkulaðisósu, rugguðu sér í hengirúminu þeirra og léku í frisbí með hundinum. Sannarlega notalegt kvöld og góður endir á frábærum degi ... já og góður endir á frábærum mánuði! Sjáumst í júní!!!