Maídagbók  

                               2011

 

Forsíða

Um okkur

Mín síða

Myndirnar okkar

Hafðu samband

Gestabókin okkar

 

Föstudagurinn 27. maí 2011

Tveggja ára

Elsku hjartans besti Baldur Tumi okkar er tveggja ára í dag! Það þarf nú varla annað en að skoða myndina hér að ofan til að sannfærast um hve dásamlegur hann er en til öryggis fylgja hér með nokkrar staðreyndir um þennan litla mann.

Baldur Tumi hefur ákaflega gaman af að dansa! Þegar hann heyrir skemmtilega tónlist byrjar hann að dilla sér en finnst tómlegt að vera einn á gólfinu og dregur því alla nærstadda í dansinn með sér! Ég hef oft velt því fyrir mér á föstudagskvöldum hvað nágrannar okkar halda, húsið nær almyrkvað en í einum glugga logar ljós og þar fyrir innan stígur fimm manna fjölskylda trylltan dans með pizzusneið í hendi!

Baldur Tumi er líka ótrúlega félagslyndur! Hann er ekkert feiminn við ókunnuga. Hann heldur sig kannski aðeins til hlés til að byrja með en er oft fljótlega tilbúinn til að sýna dótið sitt, spjalla (á sinn takmarkaða hátt) og jafnvel skríða upp í fang. Um daginn fórum við Einar með hann með okkur að horfa á fótboltaleik hjá Huga. Eftir leikinn, meðan við og allir hinir foreldrarnir biðum eftir að strákarnir væru búnir að skipta um föt sátu tvær af mömmunum á uppbyggðri verönd og spjölluðu. Baldur Tumi fylgdist aðeins með þeim úr fjarska en stikaði eftir smá stund yfir, settist niður milli þeirra og sat þar með spékoppinn sinn og horfði upp á mömmurnar meðan þær kímdu vandræðalega og reyndu að halda spjallinu áfram!

Baldur Tumi talar kannski ekkert voðalega mikið en hann tjáir sig þeim mun meira! Hann notar hinn takmarkaða orðalista sinn till hins ítrasta, setur saman tvö og jafnvel þrjú orð. Að vísu eru þetta ekki allt orð sem finna má í orðabók heldur býr hann jafnframt til sín eigin úr hljóðlíkingum. Í morgun fékk hann til dæmis litla rennibraut frá okkur í afmælisgjöf. Rennibrautin gengur nú undir heitinu „Oví“. Jú, sjáiði til, þegar maður er að fara að renna sér í rennibraut stendur gjarnan einhver yfir manni sem segir „Einn ... tveir ... ooog ... vííííííííí“! Þrátt fyrir takmarkaðan orðaforða er hann þó með alls kyns upphrópanir á hreinu. Við komum til dæmis aldrei heim eftir eitthvert útstáelsi án þess að hann dæsi mæðulega „æjæjæjæ“ þegar komið er inn úr dyrunum! Og stundum eru orð hreinilega óþörf. Til hvers að læra eitthvað orð yfir að dansa þegar maður getur bara snúið sér í einn hring og allir skilja hvað maður er að meina?!

Til hamingu með afmælið elsku kúturinn okkar!

P.s. Myndirnar eru nokkurra daga gamlar en ekta afmælismyndir ásamt alls konar öðru skemtilegu eru væntanlegar innan skamms!

 

Sunnudagurinn 15. maí 2011

Ég held ég taki aldrei eins mikið af myndum og á vorin. Allt í einu hefur maður þessa fallegu náttúrulegu birtu stóran hluta sólarhringsins og einhvern veginn virðist maður alltaf vera að gera eitthvað spennandi og skemmtilegt. Ég ligg því alvarlega á eftir með myndaalbúmin mín. Hér koma allar aprílmyndirnar okkar:

Alls konar apríl

11 ár afmælisstelpa

Páskar 2011

Fjúff! Verst að maímyndirnar eru sennilega þegar orðnar enn fleiri ...

 

Forsíða     Um okkur     Mín síða     Myndirnar okkar     Hafðu samband     Gestabókin okkar