Maídagbók 2010  

 

Forsíða

Um okkur

Mín síða

Myndirnar okkar

Hafðu samband

Gestabókin okkar

 

30. maí 2010

Myndabrjálæði

Páskar og páskafrí

Allskonar aprílmyndir og afmæli

Gönguferð í sveitina

Handavinna vor 2010

Sko mig! Fjögur albúm og áreiðanlega þrjú önnur væntanleg! Nú held ég að ég sé loksins búin að leysa vandræðin sem ég var í með ósamræmið milli nýju myndavélarinnar og gömlu tölvunnar svo vonandi get ég birt myndir aðeins jafnar og þéttar í framtíðinni.

 

27. maí 2010

Baldur Tumi eins árs!

Að hugsa sér! Að það sé heilt ár síðan hann skaust í heiminn, svo agnarsmár og fullkominn! Í fæðingarsögunni sem ég var svo skynsöm að setja á blað nokkrum dögum eftir að hann fæddist segir um þessi örlagaríku augnablik:

„Lilli var kominn og klukkan var 18:00! Hann grét kröftuglega um leið og fékk 9 í apgar (seinni apgarskorin voru svo 10 og 10). Ég fékk hann ekki á magann strax þar sem það var tekið blóð úr naflastrengnum og þetta augnablik áður en ég fékk hann í fangið horfði ég bara skilningsvana á fólkið í kringum mig og spurði aftur og aftur „Er þetta búið?“ Ég hafði ekki einu sinni rænu á að gráta af gleði ég var svo hissa! Og svo fékk ég hann í fangið og ekkert komst að annað en hvað hann væri ótrúlega fallegur, fullkominn og einhvern veginn ekki líkur neinum!“

Ég held ég sé enn, ári síðar, hálfhissa! Meðgangan leið svo hratt, fæðingin var búin þegar hún var rétt að byrja og fyrsta árið gufaði upp í reyk! Enda sjaldan lognmolla í kringum Baldur Tuma! Það þarf að vakna klukkan fimm til að fara að keyra stóla um gólfin, berja í potta með sleifum og skríða upp á efri hæðina með reglulegu millibili til kanna hvort ekki sé allt með felldu þar. Og mölin, hún étur sig ekki sjálf! Nei það skyldi engan undra að líf þessa litla manns skuli hafa byrjað með þrumuveðri! Og enn, ári síðar, er ég jafnheilluð af honum, hvað hann er fallegur og fullkominn! Þessi björtu augu, úfinn hnakkinn, litla bumban. Og hvernig hann getur kramið hjartað mitt sundur og saman af ást með spékoppnum einum saman!

Spékoppinn fengum við annars að sjá í allri sinni dýrð í dag þegar hann prófaði róluna sem við gáfum honum í afmælisgjöf:

Framundan er spennandi ár. Það þarf að læra að ganga, læra að tala, busla í sumarsólinni og fara á snjóþotu í snjó komandi vetrar. Ég get ekki beðið!

 

Forsíða      Um okkur      Mín síða      Myndirnar okkar      Hafðu samband      Gestabókin okkar