Maídagbók 2009    

 

 

Forsíða

Um okkur

Mín síða

Myndirnar okkar

Hafðu samband

Gestabókin okkar

 

28. maí 2009

Þrumuguð kemur í heiminn

Og svo kom hann bara, Lillinn minn ... litli bróðir ... Einarsson! Klukkan 18:00 þann 27. maí 2009. Það brast á með þrumuveðri bæði rétt áður og rétt eftir að hann fæddist. Hið fyrra var innra þrumuveður, fór úr fjórum í útvíkkun í fætt barn á um 50 mínútum! Hið síðara byrjaði þegar við horfðumst í augu í fyrsta sinn, fyrsta alvöru þrumuveður sumarsins með tilheyrandi drunum og eldglæringum. Menn láta sko taka eftir sér! Eru þó ekkert endilega sérstaklega miklir á velli, bara 2970 g og 47,5 cm! En fullkominn er hann, svo óendanlega stórkostlegur að engin orð ná utan um það! Ég set inn fleiri myndir og fréttir fljótlega en núna bara verð ég að fara að horfa svolítið meira á hann! Takk fyrir kveðjurnar elsku vinir, þær hafa og munu endalaust áfram veita okkur styrk og gleði.

 

Enn 26. maí 2009

Stundvísi

Nú á ég að öllum líkindum bara eftir að vera ólétt í nokkra klukkutíma í viðbót. Því er ekki úr vegi að birta loksins bumbumyndaalbúmið góða sem ég hef ætlað að setja upp hér svo vikum eða mánuðum skiptir!

Bumbumyndir

 

26. maí 2009

Tilfinningasprengja

Ég hef hingað til þvertekið fyrir það að vera eitthvað óvenju viðkvæm sem ólétt. Vissulega hafa fallið eitt eða tvö tár á meðgöngunni en ég er hvort eð er undir venjulegum kringumstæðum svona týpa sem fer að gráta með ekkasogum á höfrungasýningum og húfulyftingarathöfnum svo það er ekkert sem tengja má við hormóna eða óléttu. Mér finnst ég heldur ekki hafa verið neitt uppstökkari en vanalega. Fyrr en í morgun það er að segja.

Í morgun kom enn ein ný ljósmóðirin inn og vakti mig með enn einn nýja hjúkrunarfræðinemann í eftirdragi. Ég hef hingað til borið djúpa virðingu fyrir og kærleika til starfsfólksins hérna sem er alveg frábært en í morgun var bara eins og ég hefði allt í einu fengið algörlega yfir mig nóg af spítaladvölinni og einhver taug slitnaði með tilheyrandi smelli. Ég urraði á hjúkrunarnemann þar sem hún klaufaðist við að taka blóðþrýstinginn og þurfti að hemja mig til að rífa ekki bara af henni hlustunarpípuna og segjast geta gert þetta sjálf. Og í augnablik hélt ég að ég myndi í alvörunni gera tilraun til þess að troða dopplertækinu upp í nösina á ljósmóðurinni og öskra á hana að hún gæti alveg eins leitað að hjartslætti þar miðað við hvað hún væri léleg í þessu. Þegar þær loks höfðu sig á brott var ég komin í manndrápsskap og á leiðinni fram í býtibúr að ná í morgunmatinn minn var ég virkilega farin að sjá mig fyrir mér á spítalagöngunum í einhvers konar Terminator átfitti, kastandi sprengjum hingað og þangað og hvæsandi „I'll be back“ milli samanbitinna tanna á skíthrædda lækna sem kunna ekki að segja neitt annað en „Vi avvaktar, helt enkelt“. Meðan ég smurði brauðsneiðina mína með ofbeldisfullum hreyfingum heyrði ég hins vegar að baki mér þreytulegt fótatak og kunnuglegt skrölt í einni af glæru vöggunum. Ákvað að hemja mig og gægjast ekki ofan í enda taldi ég að nýfædd börn gætu borið varanlegt tjón af að horfa framan í Tortímandann svona á fyrstu dögum lífs síns. En þegar mjóróma kjökur fór að berast úr vöggunni brustu allir varnarmúrar, ég sneri mér við og leit framan í agnarsmáan og glænýjan lítinn dreng með smávegis af dökku hári og svo ámátlega skeifu að mig langaði ekkert meira en taka hann upp úr vöggunni, halda honum þétt upp að mér og aldrei sleppa takinu. Ég reyndi að óska mömmunni til hamingju en fann bara hvernig kökkurinn byggðist upp í hálsinum og á endanum flúði ég öfug út úr býtibúrinu með súrmjólkina og brauðið í höndunum og tárin í augnkrókunum. Tortímandin horfinn veg allrar veraldar og í stað hans kominn einhver aumingi með hor og hjarta sem ætlaði að springa af óskiljanlegum tilfinningum.

Kannski mislyndið megi að einhverju leyti rekja til þess að í gær sögðu læknarnir loksins eitthvað annað en „Vi avvaktar, helt enkelt“. Í gær sögðu þeir „Við gangsetjum þig á miðkudagsmorgun“. Á morgun. Ég er í senn svo tilbúin og svo ekki tilbúin. Svo hrædd og svo spennt. Svo full af kvíða og svo full af tilhlökkun. Lillinn minn ... litli bróðir ... Einarsson ... getur það verið að við hittumst loks á morgun?

 

24. maí 2009

37 vikur - 1 vika

Í dag erum við Einarsson komin 37 vikur á leið og í dag erum við líka búin að liggja akkúrat eina viku á spítalanum. Viku uppfulla af rússíbanareið og hringekjuferðum sem hófst með því að ég vonaðist til að ég yrði komin heim aftur daginn eftir en lýkur með því að ég er ansi hrædd um að ég hafi ekki marga daga áður en ég verði sett af stað, hugsanlega bara einhverja klukkutíma. Staðan er sem sagt þessi (í stuttu máli og án þess að nota ósmekkleg orð á borð við „þvag“ allt of oft!): Mér líður enn vel og lillinn virðist hafa það stórfínt. Það er búið að ná nokkuð góðum tökum á blóðþrýstingnum með lyfjagjöf svo hann er lítið áhyggjuefni þessa stundina. Hins vegar er æðakerfið mitt hriplekt og úr því seytla prótein í miklu magni. Eftir því sem ég best fæ skilið er próteinlekinn þó ekkert sérstakt áhyggjuefni nema að því leyti að hann sýnir að meðgöngueitrunin fari versnandi. Hér eru því öll rauð flögg á lofti og vel fylgst með okkur.

Hvað þetta allt þýðir er erfiðara að átta sig á. Ég hef þó sterklega á tilfinningunni að staðan gæti skýrst eitthvað á morgun. Þá koma niðurstöður úr næstu próteinmælingu auk þess sem ég er þá formlega komin fram yfir 37 vikna markið og lillinn skilgreinist ekki lengur sem fyrirburi. Þótt það sé afskaplega erfitt að fá nokkur skýr svör hefur mér heyrst að eftir að þeirri meðgöngulengd sé náð þyki ekki ástæða til að halda barninu mikið lengur inni nema ástand móðurinnar sé þeim mun stöðugra ... og nægilega stöðug er ég sem sagt ekki. Sjálf vona ég að ég verði ekki sett af stað/smellt á skurðarborðið fyrr en nær viku 38 en reyni að búa mig undir allt.

Deildin sem við liggjum á er annars blanda af meðgöngu- og sængurlegudeild. Hér dveljast sem sagt konur sem þurfa að vera undir eftirliti bæði fyrir og eftir fæðingu. Þegar maður á leið um ganga deildarinnar rekst maður því reglulega á þreytulega foreldra með glærar vöggur í eftirdragi. Ég held að það sé afskaplega góð blanda því í hvert sinn sem ég rek augun í glænýtt kríli þarf ég að hemja mig að læðast ekki á eftir vöggunni, lyfta sænginn ofurvarlega til að fá að skoða agnarsmáa fingur og strjúka dúnmjúkan koll. Og í hvert sinn rifjast það upp fyrir mér að tilgangurinn með veru minni hér er annar og meiri en bara að fá verki í mjaðmir af löngum dvölum í sjúkrarúmi, borða óætt sjúkrahússfæði og glíma við brostnar vonir varðandi meðgöngu og fæðingu. Lillinn minn ... litli bróðir ... Einarsson.

 

19. maí 2009

Les Misérables

Við vesalingarnir, ég og Lilli Einarsson, sendum ykkur okkar bestu kveðjur héðan af deild 96D á Akademiska sjukhuset í Uppsölum. Vesalingur á þó aðallega við um mig þar sem hinn ófæddi Einarsson virðist eldhress og harðákveðinn í að sýna sínar bestu hliðar meðan á dvölinni hér stendur, keppist við að sparka í sónartæki og mónitora og ku vera orðinn 2700 g nú þegar fjórar vikur eru í áætlaðan fæðingardag. Það er því eiginlega bara ég sem þykist eiga eitthvað bágt, búin að liggja á spítalanum í þrjá daga með meðgöngueitrun og væntanlega ekkert á leiðinni heim alveg í bráð. Annars ætti ég svo sem ekki að kvarta þar sem líðanin hefur verið eftir atvikum góð (sú líkamlega alla vega, andlega hliðin dálítið brothættari!) og starfsfólkið hér er hvert öðru frábærara. Þar að auki býðst mér útsýni yfir bleika höll og dómkirkjuturna frá sjúkrarúminu og fuglasöngur ómar inn um gluggana frá morgni til kvölds. Pollýönnu hefði sjálfsagt þótt þetta mikið sældarlíf en ég er sennilega aðeins meiri „glasið er hálftómt-týpa“! Nú þegar við erum orðin nettengd mæðginin er þó aldrei að vita nema sjúkrahússvistin verði ögn fjörlegri og við vonum að komandi dagar beri í skauti sér ótal uppfærslur á vefdagbókinni og metfjölda í kveðjum gegnum tölvupóst, komment, msn og Óskalög sjúklinga!

 

1. maí 2009

Bestu augnablik dagsins

* Í morgun þegar aðrir fjölskyldumeðlimir voru komnir á fætur kúrði ég aðeins áfram og náði værum blundi sem jafnaðist áreiðanlega á við hálfan nætursvefn að gæðum!

* Eftir hádegismatinn sem borðaður var úti á stétt undir sólhlífinni settist ég í hengistólinn með kaffibolla, hlustaði á fuglasönginn, fylgdist með fiðrildum flögra og litlum bjöllum skjótast milli grasstránna, fann sólina gæla við vangann og litla kútinn sparka ... og grunaði að lífið væri fullkomið.

* Eftir kvöldmatinn borðuðum við kardimommu- og hindberjaköku og náttfataklædd María og Hugi fengu hláturskast. Það hefur sennilega verið blandan af náttfötum og berjum sem minnti mig á sumarkvöld í Svarfaðadalnum þegar ég var lítil þar sem skemmtilegast af öllu var að fá að fara í gúmmístígvélin við náttfötin og bursta berjabláar tennurnar upp úr bæjarlæknum fyrir háttinn

* Ótrúlegt en satt þá hefur mér tekist að setja restina af aprílmyndunum inn í tveimur albúmum:

Aprílmyndir og afmælisstelpa

Valborgarmessa 2009

Maí byrjar að minnsta kosti dásamlega!

 

Forsíða      Um okkur      Mín síða      Myndirnar okkar      Hafðu samband      Gestabókin okkar