Maídagbók 2007  

 

Forsíða

Um okkur

Mín síða

Myndirnar okkar

Hafðu samband

Gestabókin okkar

 

31. maí 2007

Að gleðja

Fyrr í vor átti ég, oftar sem áður, erindi niður í bæ. Þar sem ég hafði leyft Einari að hafa Saabinn þennan dag tók ég strætó héðan frá Vänge. Vanalega er það þannig að alla leiðina inn í bæinn er fólk smátt og smátt að tínast upp í vagninn en um leið og hann fer að nálgast miðbæ Uppsala fer farþegum fækkandi. Þessi ferð var engin undantekning á því en hins vegar átti sér stað dálítið sérstakur atburður einmitt á þeim skilum þar sem flestir farþegarnir eru komnir inn en fæstir farnir út aftur. Eins og verða vill í strætisvagni hafði fólk dreift sér um vagninn í von um að þurfa ekki að koma við ókunnugt fólk. Einhverjir störðu út um gluggann til að komast hjá augnsambandi, aðrir lásu í bók eða blaði og sumir störðu einfaldlega í gaupnir sér. Skyndilega greip bílstjórinn míkrófóninn og rödd hans tók að hljóma í hátalarakerfi vagnsins:

„Góðir farþegar, verið velkomin til Uppsala. Vagninn er alveg á áætlun og við erum nú farin að nálgast miðbæinn, erum með Berthåga á aðra hönd en Flogsta á hina. Það lítur út fyrir að þetta verði góður dagur, sólin skín og hitastigið hækkar jafnt og þétt, mælirinn sem sýndi aðeins 2° í morgun en nú er kominn upp í 10°. Ég þakka ykkur öllum fyrir samfylgdina og vona að þið eigið framundan góðan dag í sólinni!“

Eftir að síðust orðin í þessari óvæntu kveðju vagnstjórans höfðu bergmálað um strætóinn tók við vandræðaleg þögn. Farþegarnir litu brosandi spurnaraugum hver á annan og hafa áreiðanlega allir verið að hugsa það sama og ég: Annað hvort er maðurinn snarruglaður eða að hann hefur alltaf dreymt um að verða flugstjóri! Þessi sundurleiti hópur fólks sem áður hafði gert allt sem það gat til að forðast hvert annað átti nú allt í einu sameiginlega þessa undarlegu lífsreynslu sem ræða vagnstjórans var. Og þegar farþegarnir fóru hver á fætur öðrum að tínast út í sólina skömmu seinna voru allir léttari á brún en áður, ferðin með leið 848 hafði markað örlítið spor í daginn hjá öllum. Ég get svo sem ekki fullyrt um aðra en þegar ég fór út á síðustu stoppistöð var ég að minnsta kosti brosandi og uppfull af gleði, hláturinn kraumaði í brjóstinu eins og pottur sem er alveg að fara að sjóða upp úr og ég gat ekki beðið eftir að segja öllum sem ég þekki frá þessari ótrúlega skemmtilegu strætóferð. Og þarna þegar ég stökk niður á sólbakaða gangstéttarhelluna var ég orðin sannfærð um eitt: Bílstjórinn var ekki snarruglaður, hann var snillingur!

Ef til vill tekst mér að gleðja einhvern annan en sjálfa mig með þessum myndalbúmum:

Hreiður á Konsulentvägen ... sagan öll

Blíða í maí

Góða helgi og gleðilegan júní!

 

18. maí 2007

„Ekki meiri nærbuxur“

hrópaði ég örvæntingarfull í símann um daginn áður en ég skellti skjálffingruð (nýyrði!) á viðmælanda minn. Aldrei hefði ég trúað því að óreyndu að ég ætti eftir að skella á blásaklausan mann með ópum og ókvæðum. En ég hefði svo sem heldur aldrei trúað því að ég ætti eftir að gerast áskrifandi að herranærbuxum þannig að á undanförnum mánuðum hefur ýmislegt komið mér á óvart!

Þessi undarlega atburðakeðja hófst síðasta haust, bara nokkrum dögum eftir að við fengum sænsku kennitölurnar okkar og heimasímanúmer í kjölfarið. Einn góðan veðurdag hringdi síminn og ákaflega hress karlmannsrödd á hinum enda línunnar bað um Einar. Þegar ég sagði honum á minni bjöguðu sænsku að hann væri ekki heima spurði hann hvort ég væri konan hans. Þegar ég játti því vall mikill orðaflaumur upp úr hressa manninum. Ég skildi minnst af því sem hann sagði og miðað við viðbrögð mín held ég að honum hafi átt að vera það morgunljóst. Þrátt fyrir skilningsleysi mitt ruddi maðurinn orðunum út úr sér: „Bla, bla, bla, tilboð, bla, bla, bla, bla, senda heim, bla, bla, bla, tilraun, bla, bla, bla, herranærbuxur“. Ég reyndi nokkrum sinnum að biðja um útskýringar en viðmælandinn gerði þá lítið annað en að bakka bara upp um nokkrar línur í handritinu sínu og byrja frá þeim stað á sömu romsu. Eftir langt samtal skildist mér hins vegar á manninum að málið snerist um að Einari byðist að vera tilraunardýr í rannsókn á herranærbuxum. Það fannst mér bara of fyndið til að sleppa því að keyra brandarann alveg í botn og sagði því já við manninn sem kættist mjög.

Nokkrum dögum síðar barst skrautlegur kassi merktur mér í litla bláa póstkassann. Upp úr honum fiskaði ég tvær ljótar herranærbuxur og fylgiseðil sem ég las af samviskusemi. Við lesturinn rann mér kalt vatn milli skinns og hörunds - ég hafði persónulega gerst áskrifandi að herranærbuxum, tveimur í mánuði, hvorki meira né minna! Auðvitað var svo sem ekki ætlast til þess að ég notaði þær heldur eiginmaðurinn en mér þótti niðurlægingin samt ærin. Þetta var hins vegar bara upphafið á niðrandi samskiptum mínum við nærbuxnaframleiðandann Front. Mánuðina á eftir áttu þeir eftir að hringja ótal sinnum í mig með einhver ný og spennandi tilboð. Vegna þrjósku minnar við að skipta ekki yfir í ensku tókst mér meðal annars að gerast jafnframt áskrifandi að herrasokkum ... ljótum! Með hverju samtalinu við hressa starfsmenn Front jókst vanlíðan mín. Þrátt fyrir að ég væri farin að geta átt ágætissamskipti við annað fólk á sænsku þá leið mér alltaf eins og ég væri að tala við sænska kokkinn úr Prúðuleikurunum þegar þeir hringdu. Skildi ekkert og kom ekki heldur upp orði af viti - leið hreint út sagt eins og ég væri alveg óendanlega heimsk eftir hvert einasta símtal. Heimsk af því að ég skildi ekki, heimsk af því að ég gat ekki talað, heimsk af því að ég braut ekki bara odd af oflæti mínu, skipti yfir í ensku og tjáði þessum herramönnum umbúðalaust að ég hefði engan áhuga á frekari viðskiptum við þá. Nú undir vor, eftir enn eitt samtalið þar sem ágengur sölumaður las upp úr handriti á methraða meðan ég stamaði á línunni, fékk ég nóg! Ég fyrirskipaði Einari að hafa samband við fyrirtækið til að segja upp áskriftinni bæði að nærbuxunum og sokkunum. Þetta hafði svo sem staðið til lengi en aldrei verið komið í verk. Þar sem Einar skynjaði örvæntingu mína yfir stóra nærbuxnamálinu (þótt samræður okkar séu enn sveipaðar þoku angistar minnir mig að ég hafi bæði hótað skilnaði og að flýja með börnin til Borneó) dreif hann í að segja upp öllum við skiptum við Front strax daginn eftir. Ég lýg engu þegar ég segi að ég táraðist af gleði við þær fréttir að ég væri loksins laus úr heljargreipum nærbuxnadónanna.

Fyrir viku síðan hringdi síminn. Á línunni var ótrúlega hress Svíi sem spurði eftir Einari. Ég kvað Einar vera í vinnunni og Hressi spurði þá hvort ég væri konan hans. Full grunsemda játti ég því með semingi.

Hressi (óðamála): Frábært! Bla, bla, bla, bla, gott tilboð, bla, bla, bla, bara 99 krónur á mánuði, bla, bla, bla, kemur í póstkassann, bla, bla, bla, nærbuxur ...

Ég (skelfingu lostin): Sagðiru nærbuxur?!?!

Hressi: Já, einmitt, nærbuxur ...

Og það var þá sem ég fann hvernig kurteisistaugin slitnaði með hvell, fann örvæntinguna heltaka hverja einustu frumu líkamans, fann að ég átti aðeins eina leið út úr ógöngunum og æpti í símann hin ódauðlegu orð:

„Inget mer kalsonger!!!!“

Ó, já, enginn veit sína ævi fyrr en öll er!

P.s Tveir menn stóðu þétt við bakið á mér í nærbuxnadramanu: Einar með því að nota nærbuxurnar og reyna sitt besta til að losa mig úr viðjum Front og Ingi Björn sem huggaði mig á msn eftir símtölin, stappaði í mig stálinu og hvatti mig stöðugt til að gera það sem ég að lokum gerði: skella á! Hér er nóg af myndum af þessum hetjum:

Ingi kemur í heimsókn ... aftur

Góða helgi!

 

6. maí 2007

Fréttir og veður, auglýsingar og dagskrá II

Mér finnst óskaplega langt síðan ég hef skrifað eitthvað að ráði inn á síðuna mína. Undanfarnar vikur hef ég eiginlega bara sett inn tilkynningar um að komnar séu nýjar myndir. Mér finnst því ekki úr vegi að endurtaka liðinn „Fréttir og veður, auglýsingar og dagskrá“ sem síðast var birtur í september.

Af okkur fjölskyldunni á Konsulentvägen 2 er allt ákaflega gott að frétta. Einar er ánægður á heilsugæslunni og fór með vinnufélögum í siglingu til Álandseyja um helgina. Álandseyjar höfðu þó minnst með ferðalagið að gera enda var ekki einu sinni stigið á land þar! Aðalmálið var siglingin sjálf og farkosturinn sem kalla má fljótandi fríhöfn. Um borð eru veitingastaðir, diskótek, barir og verslanir en auk þess er hægt að skella sér í sund eða sólbað undir risastórum ljósalömpum! Mér skilst að siglingar sem þessar gangi aðallega út á tvennt: að drekka áfengi og að kaupa áfengi. Einar fylgdist með í forundran þegar annars dagfarsprúðir vinnufélgar hans hlupu með tryllingsglampa í augum um skipið rétt áður en lagt var að bryggju til að ná sem allra bestum tilboðum á viskíi og gini! Ótrúlegt nokk er tími Einars á heilsugæslunni þó senn á enda og fyrsta árið okkar hér að sama skapi að verða liðið. Við taka þrír mánuðir á öldrunardeild og svo þrír mánuðir á öðrum stað sem enn er óráðinn. Eftir það getur pilturinn sótt um leyfi sem sérfræðingur í heimilislækningum. Duglegur!

Tími Maríu í Förskolaklass A er nú senn á enda þar sem skóla verður slitið eftir rétt rúman mánuð. Það þarf auðvitað ekki að hafa um það fleiri orð hvað við foreldrarnir erum ótrúlega stolt af henni! Sænskuna talar hún reiprennandi, eins og hún sé fædd og uppalin í Gautaborg. Merkilegt nokk þar sem Gautaborg er í marga klukkustunda akstursfjarlægð frá Uppsölum! Skýringin er sú að kennarinn hennar, Cecilia, er fædd og uppalin þarna fyrir sunnan og María hefur augljóslega fyrst og fremst lært tungumálið af henni. Þrátt fyrir tök Maríu á sænskunni kemur fyrir að hún lendir í vandræðum. Um daginn kom María strunsandi út úr sjónvarpsherberginu þar sem þau systkinin höfðu verið að horfa á barnatímann á laugardagsmorgni. „Hva, er barnatíminn strax búinn?“ spurði ég í forundran. Stúlkan svaraði að bragði: „Nei, það eru bara Múmínálfarnir núna“. „Nú, en finnst þér þeir ekki svo skemmtilegir?“, sagði ég. „Jú, jú, ég skil bara ekki alveg hvað þeir segja, þeir tala svo skrýtna sænsku ... dálítið svona eins og þið pabbi“!!! Það allra versta við þetta er að mig grunar sterklega að það sé of mikið hrós að líkja sænskunni minni við finnlands-sænsku!!!

Hugi er alltaf jafnánægður á leikskólanum og við erum auðvitað alveg jafnstolt af honum og stóru systur! Hann hefur tekið stökk í sænskunni að undanförnu og þorir nú mun frekar að tala við fóstrurnar en áður lokaði hann alltaf munninum um leið og einhver fullorðinn nálgaðist hann þar sem hann var að leika við krakkana. Um þessar mundir er Hugi gagntekinn af miklu Kardimommubæjaræði og vitnar stöðugt í leikritið góða. Fyrir skemmstu var kvöldmaturinn til umræðu þegar Hugi sagði hátt og snjallt: „Mig langar í laukasteik!“ „Laukasteik?! Ertu ekki að meina nautasteik?!“, svaraði stóra systir hans hneyksluð. „Jú, nautasteik ... og pylsur ... og bauta“!!! Þarna vitnar drengurinn að sjálfsögðu beint í pylsugerðamanninn sem afi hans lék fyrir ríflega 20 árum í Þjóðleikhúsinu ... Hugi grætur enn að hafa „misst“ af þeirri sýningu!

Af mér er alltaf jafnlítið að frétta! Ég tók góða rispu í ritgerðinni upp úr áramótum en vinnugleðin koðnaði niður um miðjan mars og liggur enn í dvala. Ég er augljóslega jafnléleg í að skrifa mastersritgerðir og ég er í sænsku! Stundum finnst mér að ég hafi ekki lært neitt í málinu á þessu tæpa ári sem ég hef búið í landinu! Merkilegt nokk tekst mér þó að komast í gegnum þau samskipti sem ég get ekki ýtt yfir á Einar. Á þessum mánuðum hef ég til dæmis tekið á móti, sótara, þvottavélaviðgerðarmanni, pípara, tryggingamanni sem vildi skoða grunn hússins, rafvirkja og svo öðrum pípara. Samtöl mín við þessa menn hafa sjaldnast verið glæsileg (reynið til dæmis að ímynda ykkur mig að leika ofhlaðna þvottavél að sveiflast til og frá!) en öllum málum hefur þó lokið farsællega. Það er kannski merki um tímans tönn að fyrir skemmstu fengum við aftur bréf frá sótaranum sem boðaði árlega heimsókn sína enn á ný! Það verður ágætis prófesteinn á hversu mikið mér hefur farið fram í málinu að taka á móti honum ... en ég vona þó að í þetta sinn losni ég við að leika tryllta kráku að fljúga út úr arninum!

Veðrið hefur verið alveg hreint ágætt undanfarnar vikur, 25° og sól þegar best lætur, kannski 10° og skýjað þegar veðurguðirnir eru í fýlu. Ég var þó rétt mátulega búin að lýsa því yfir við alla vini og ættingja að hér hreyfði aldrei vind þegar við tók hífandi rok upp á hvern einasta dag! Í dag var t.d. 21-22° og glampandi sól en svo mikill vindur að langerma var algjört möst! Við höldum þó í vonina um að það lygni fljótt þannig að við getum notið þess að skottast í fallega garðinum okkar ... plómutrén standa í blóma akkúrat núna og það styttist í eplatrén.

Frá 17. júní til 14. júlí verðum við á Íslandi. Einar verður að vinna á heilsugæslunni og spítalanum á Selfossi en við hyggjumst búa á Bakkastöðum hjá mömmu. Fyrir vikið auglýsum við eftir bíl til afnota á þessu tímabili. Ef einhver góður lesandi verður ekki á landinu eða hyggst af öðrum orsökum ekki nota bílinn sinn þessar vikur eða hluta þeirra má hann gjarnan hafa okkur í huga. Nú og ef einhver á enn eftir að skipuleggja sumarfríið sitt auglýsum við skiptitilboð, hús og bíll í Uppsölum í skiptum fyrir bíl í Reykjavík! Annars hlökkum við auðvitað óskaplega til að hafa næstum fjórar vikur til að hitta ykkur öll, drekka með ykkur kaffi, borða góðan mat, hlæja og faðmast! Ég hlakka líka meira en orð fá lýst til að hlusta á hrossagaukinn vella á bjartri sumarnóttu sem ilmar af grasi og blóðbergi!

Það er ýmislegt á dagskránni hjá okkur Konsulentunum fram að Íslandsför. Ingi Björn kemur til okkar á þriðjudaginn og verður í næstum viku. Nokkrum dögum eftir að hann fer kemur Gitta amma til okkar á leið sinni frá Mora og stoppar yfir tvær nætur. Aðra vikuna í júní fyllist svo allt af dömum hér á Konsulentvägen þegar Þórunn systir, Svanhildur Margrét minnsta frænka og stórvinkonur mínar Eva og Freyja koma í heimsókn! Þær stoppa í tæpa viku og eftir þá heimsókn höfum við Konsulentar nokkra daga til að ganga frá húsinu og garðinum og loka sjoppunni áður en við höldum á vit Esjunnar, björtu sumarnóttanna, hrossagauksins og ykkar!

Næst á ykkar dagskrá, kæru lesendur, er hins vegar að skoða þetta ágæta myndaalbúm frá Valborgarmessu:

Góða skemmtun!

 

Forsíða      Um okkur       Mín síða      Myndirnar okkar       Hafðu samband      Gestabókin okkar