Maídagbók 2006   

 

Forsíða

Um okkur

Mín síða

Myndirnar okkar

Hafðu samband

Gestabókin okkar

 

 

 

31. maí 2006

Hér á minni síðu verður maímánaðar sennilega minnst fyrir einkar slaka frammistöðu í netskrifum og myndbirtingum. Ég lofa bót og betrun í júní en fyrst þarf ég að gera nokkrar nauðsynlegar breytingar á síðunni (m.a. finna nýja gestabók þar sem það er orðin 75% vinna að þurrka út öll tilboðin um kaup á stinningar- og megrunarlyfjum sem berast þangað inn). Þangað til næst bendi ég á fyrstu og einu maímyndir ársins 2006:

Sjáumst í júní!

 

10. maí 2006

Fyrir sex árum síðan átti ég að vera að fæða barn. Það gekk þó ekki eftir þar sem barninu lá á og hafði drifið sig í heiminn næstum þremur vikum fyrir þennan áætlaða fæðingardag, þann 23. apríl 2000. Allar götur síðan hefur Maríu Einarsdóttur legið á, legið á að verða stór og skilja heiminn. Hún er eilíflega að reyna að átta sig á því hvernig hlutirnir virka, alltaf að leggja saman tvo og tvo!

Þegar María var rétt rúmlega tveggja ára ákvað móðir hennar að taka sig á í því kristilega uppeldi sem hún hafði lofað að sinna við skírn barnsins og fara með litla bæn á rúmstokknum. Eftir að bænunum hafði lokið með hefðbundu ameni bætti hún gjarnan við: Þetta þýðir: Góði Guð viltu alltaf passa mig. Á sama tíma gerðist María líka forfrömuð heimskona og fór að læra útlensku. Það fyrsta sem hún lærði var „I love you“ og aftur stóð mamman yfir henni og þuldi útskýringar: Þetta þýðir: Ég elska þig. Eitthvað hefur allt þetta tal um hvað hitt og þetta þýddi sett málin á flot. María hlustaði, hún vann úr upplýsingunum, lagði saman tvo og tvo en fékk út sjö! Nokkru eftir að bæna- og útlenskukennslan hófst sat hún við hlið nýfædds bróður síns, strauk honum um vangann og hvíslaði svo að honum, undurblítt: I love you ... amen!!!

María er orðin sex ára! Hún er best, sætust, duglegust, klárust, skemmtilegust og við elskum hana ... amen!

 

6. maí 2006

Tilkynningar

*Eins og glöggir gestir síðunnar hafa kannski orðið varir við hrundi tölva heimilisins og hafa síðustu vikur farið í að kaupa nýja, bjarga gögnum af þeirri gömlu og redda hugbúnaði. Núna erum við loksins komin með allt sem við þurfum til að geta haldið áfram að uppfæra síðuna (augljóslega!).

*Við fengum nýja útgáfu af heimasíðugerðarforritinu sem er töluvert þróaðri en sú gamla og með alls konar nýjum fídusum. Þeir fídusar sem ég notaði mest virðast hins vegar hafa verið dæmdir úreltir og því hefur það tekið mig dálítinn tíma að læra á allt upp á nýtt. Í því ferli hafa nokkur tár fallið og ófá reiðiöskur glumið yfir gamla vesturbæinn héðan ofan úr risi.

*Þrátt fyrir allt tókst mér að setja inn nýjar myndir. Endilega kíkið á allar páskamyndirnar okkar.

*Vorið er komið ... loksins!

p.s. Ef þið, lesendur góðir, verðið varir við einhverjar breytingar á síðunni í tengslum við þessi tölvuskipti megið þið gjarnan tilkynna mér það.

 

Forsíða      Um okkur      Mín síða      Myndirnar okkar       Hafðu samband     Gestabókin okkar