Maídagbók 2005        

Forsíða

Um okkur

Mín síða

Myndirnar okkar

Hafðu samband

Gestabókin okkar

 

30. maí 2005

Ég er alveg í öngum mínum yfir hinu horfna kommentakerfi! Ef það verður ekki komið í leitirnar eftir að ritgerðinni hefur verið skilað inn mun ég hiklaust skipta! 

Já og talandi um ritgerðina. Ég stefni að því að skila henni inn á miðvikudaginn eða fimmtudaginn. Nú þegar er útséð um að þetta verði meistaraverk! Ég er búin að vera með þetta verkefni lengi á bakinu en hefur þrátt fyrir það ekki tekist að koma nokkurri reiðu á annars ágætar hugmyndir mínar. Nú er ég í þokkabót fyrirfram búin að fá hundleið á þessu ... þó aðeins ein blaðsíða hafi verið skrifuð! En ritgerðin skal út og ég ætla mér að skila henni í síðasta lagi þann 2. júní ... í hvernig ásigkomulagi sem hún verður á þeim tímapunkti! Eins og mín er von og vísa hef ég hins vegar ýmislegt ákaflega þarft að gera þegar ritgerðaskrif hanga yfir mér ... núna var til dæmis bráðnauðsynlegt að setja inn nýjar myndir! Þið getið skoðað þær með því að smella á þá af Huga í fjörunni.

Góðar stundir!

 

26. maí 2005

Þótt það hefði verið hitabylgja í borginni undanfarna daga og trópískar jurtir hefðu staðið í blóma hvívetna, þá hefði mér ekki getað staðið meira á sama ...

þótt það hafði verið sirkús í bakgarðinum hjá mér með dansandi birni og ljónum sem stökkva í gegnum  logandi gjarðir þá hefði mér ekki getað staðið meira á sama ...

þótt Halldór Laxness, Þórbergur Þórðarson, Einar Benediktsson, Jónas Hallgrímsson, Matthías Jochumson og höfundur Njálu hefðu setið hér við borðstofuborðið hjá mér og rætt bókmenntir, þá hefði mér ekki getað staðið meira á sama ...

þótt mér hefði verið tilkynnt að veröldin hefði umbreyst í Paradís á jörð og þið hin hefðuð öll gengið um nakin, tínt ávexti af trjánum og buslað í tærum lækjarsprænum, þá hefði mér ekki getað staðið meira á sama!

Ég er búin að vera hræðilega veik og undanfarna viku hef ég ekki haft orku í annað en að snýta mér og taka verkjalyf, hósta og hnerra. Þar af leiðandi hefur ekki stakt orð verið skrifað í ritgerðinni sem tæknilega séð átti að skila í dag! Hvílíkt ástand! En í morgun vaknaði ég hitalaus og þrátt fyrir að ástandið sé enn nokkuð bagalegt hef ég fulla trú á að ég nái fljótlega að safna fyrri kröftum og muni á næstu dögum ljúka ritgerðinni á mettíma. Og þá ... þá verð ég komin í sumarfrí og mun dansa nakin við höfund Njálu í hitabylgju og sæluvímu!

 

18. maí 2005

Síðastliðinn mánudagur snerist allur um Schütz, Stanford, Stuðmenn, Stebba og Eyva, Söndru Dee og sleikjur! Hvernig má það vera? Jú, svarið er að finna í myndum af vortónleikum Mótettukórsins og vorfagnaðar í kjölfarið. Smellið bara á sýnishornið hér fyrir neðan!

P.s. Elsku kórfélagar ... takk fyrir síðast!

 

13. maí 2005

Mikið er ég óendanlega þakklát fyrir alla góðu vini mína sem tilbúnir voru að skrifa nokkur komment til að gleðja auman námsmann í þessari viku! Takk öll (eða allar ... veit ekki hvort það lesa bara engir strákar síðuna eða hvort þeir þora ekki að kommenta?!)! Ég held þó að ég muni salta Spurningu dagsins í bili eftir þenna ágæta föstudag. Í næstu viku verður síðan mín frátekin fyrir færslur sem fjalla um það hvað mér þyki leiðinlegt að skrifa ritgerðir, hvað mér gangi illa og hvað ég sé komin með margar blaðsíður. Eruð þið ekki strax farin að hlakka til?! En síðasta Spurning dagsins er þessi:

Hver er fyrsta minningin þín?

Sjálf man ég fyrst eftir mér inni í svefnherbergi foreldra minna á Barónstígnum hvar ég neitaði staðfastlega að fara í hreinar sokkabuxur! Giska á að ég hafi verið kannski fjögurra ára. Hins vegar hef ég ekki hugmynd um hvort þetta er alvöru minning eða ekki. Móðir mín hefur verið dugleg að rifja það upp undanfarin 25 ár hversu meinilla  mér hafi verið við að fara í hreinar sokkabuxur í bernsku. Það getur því vel verið að þessi fyrsta minning sé bara myndræn útfærsla á slíkum sögum! Mér þykir rétt að taka það fram að þessi ósiður hefur elst ágætlega af mér. Í dag þykir mér fátt betra en að vera í sokkabuxum (líka í sól og sumaryl) og að sjálfsögðu best af öllu ef þær eru tandurhreinar!!! Góða helgi!

 

12. maí 2005

Kommentakerfið hefur sýnt viss mótmæli við Spurningu dagsins ... í það minnsta með því að þykjast ekki lengur kunna að telja. Við látum það ekkert á okkur fá og lítum bara á það sem bónus að fá kannski tvö eða jafnvel þrjú stig fyrir aðeins eitt komment! Spurning dagsins í dag er þessi:

Hver er uppáhalds veitingastaðurinn þinn (eða eftirlætiskaffihúsið þitt) í öllum heiminum?

La Primavera er án efa uppáhaldsveitingastaðurinn minn á Íslandi ... a.m.k. fer ég nánast aldrei neitt annað út að borða! Mig dreymir enn um smokkfiskinn með hvílauknum og chiliinu sem ég fékk þar fyrir nokkru og ekkert jafnast á við panna cottað og súkkulaðikökurnar sem þar er hægt að fá! En svo eru líka nokkrir staðir í útlöndum sem ég get ekki beðið eftir að heimsækja aftur. Carluccio's í London með besta ítalska mat sem ég hef bragðað, Blái fíllinn í París með óviðjafnanlegum tælenskum mat og undurfagurri gullfiskatjörn og svo bíð ég spennt eftir að við Einar getum heimsótt „kaffihúsið okkar“ aftur í Barcelona, yndislega litla holu með eldgömlum innréttingum og besta kaffi í heimi! Æ, já og litla sæta kaffihúsið í Gautaborg ... og ... og ... æ, það er ekki hægt að velja!

 

11. maí 2005

Fyrst af öllu ein tilkynning: Ég er loksins búin að setja inn nokkrar nýjar myndir. Þið getið skoðað þær með því að smella á sýnishornið hér fyrir neðan:

Spurning þessa ágæta miðvikudags er eftirfarandi:

Ætlar þú að ferðast eitthvað í sumarfríinu?

Ég stefni að því að fara í tvö ferðalög. Við Einar erum að öllum líkindum á leið til Stokkhólms í júní þar sem Einar ætlar að sækja ráðstefnu og falbjóða sjálfan sig í vinnu hverjum þeim yfirlækni sem á vegi hans verður! Ég ætla hins vegar að sitja á útikaffihúsum í hlíarbol, sötra bjór, lesa sænskar glæpasögur og taka einstaka búðarölt! Í júlí verður svo allsherjar fjölskylduferðin til Barcelona. Þar ætlum við að fara með börnin á sædýrasafn og í dýragarð, taka kannski lest á ströndina í Sitges, skoða gotneskar byggingar og sitja á kaffihúsum og þamba svalardrykki og mjólkurkaffi! Hvort tveggja alveg hrein dásemd! En þið?

 

10. maí 2005

Aðeins örfáum mínútum eftir að skemmtiplani mínu var hrint í framkvæmd í gær gerðist tvennt: Annars vegar fóru mér að detta í hug óteljandi snjallar og skemmtilegar dagbókarfærslur sem því miður væri ekkert pláss fyrir á næstunni vegna hins nýja liðar! Hins vegar datt inn um rafrænu lúguna bréf frá kennaranum þess efnis að ríflegur frestur yrði gefinn á ritgerðarskilum! Ég hef þó ákveðið að láta þetta ekkert á mig fá ... veit vel af fenginni reynslu að hugmyndir að snjöllum bloggfærslum vilja gufa upp þegar kemur að því að skrifa þær og eins þykist ég viss um að þrátt fyrir frest muni ég þurfa að sitja sveitt við tölvuna á næstu dögum til að ná að skrifa almennilega ritgerð! Þannig að Spurningu dagsins verður fram haldið a.m.k. enn um sinn og þessi er næst:

Hver var uppáhaldsbókin þín þegar þú varst barn?

Þetta er náttúrulega alveg jafnerfið spurning og sú í gær. Hér held ég þó að ég verði sérstaklega að nefna bókina Flugfreyjur sem mamma mín virðist hafa fengið í jólagjöf árið 1963. Mér fannst (og finnst enn) þessi bók bara æði! Hún fjallar um líf og störf sænskrar flugfreyju sem lendir í alls kyns ævintýrum og er m.a. ranglega ásökuð um að hafa verið drukkin þegar flugáhöfnin dvelur eina nótt í París! En ástin kveður líka dyra hjá Elsu flugfreyju og flugstjórinn Ríkharð Steadman er mikill hjartaknúsari! Það er ekkert svo langt síðan ég las þessa bók síðast og allt í allt giska ég á að ég hafi lesið hana kannski milli þrjátíu og fjörutíu sinnum!

Ég verð líka að nefna Baldintátubækurnar eftir Enid Blyton ... sömuleiðis gersemar í eigu móður minnar sem ég hef fundið í bókaskápnum hjá ömmu. Sögurnar gerast í einstaklega lýðræðissinnuðum heimavistarskóla og fengu mig til að trúa því að slíkar stofnanir væru líkastar himnaríki á jörðu. Sótti ég stíft að fá að fara í einn slíkan ... þrátt fyrir að hafa tvisvar verið sótt snemma í sumarbúðir með heimþrá á háu stigi!

Svo náttúrulega verður Madditt að fá að fljóta með, Karl Blómkvist, Kim-bækurnar, Rummungur rængini, Nancy-bækurnar ... æ, það er bara vonlaust að draga mörkin.

 

9. maí 2005

Spurning dagsins!

Ég er að skrifa ritgerð! Þegar ég er að skrifa ritgerð þá leiðist mér heil ósköp á meðan ... jafnvel þó mér finnist þetta alltaf hafa verið roooosalega skemmtilegt þegar síðasti punkturinn hefur verið settur aftan við ritsmíðina! Þegar ég er að skrifa ritgerð er ég alltaf að kíkja á heimasíður annarra í von um að þeir hafi skrifað eitthvað nýtt. .Og ekki nóg með það, ég er alltaf að kíkja á mína eigin síðu í örvæntingafullri von um að ég sjálf hafi skrifað eitthvað nýtt eða að þið, kæru lesendur, hafið skrifað eitthvað ótrúlega hresst og snjallt komment. Hins vegar er gef ég sjálfri mér aldrei tíma til að skrifa fánýtar dagbókarfærslur þegar ég veit að ritun þýðingamikilla og alheimsbjargandi bókmenntafræðiritgerða þarf að bíða á meðan! Og meðan ég skrifa ekki nýjar færslur þá skrifið þið ekki ný komment! Þetta er bara lögmál!

Til að skemmta sjálfri mér í komandi ritgerðatörn er ég nú búin að sérhanna plan! Í planinu flest að ég hef ákveðið að leyfa mér þann munað að skrifa stutta færslu inn á síðuna mína á hverjum degi og eins að reyna að veiða sem allra flest komment upp úr ykkur. Planið er Spurning dagsins!!! Allt þar til ritgerðinni og öðrum verkefnum hefur verið skilað ætla ég að setja inn eina spurningu á dag sem öllum er frjálst að svara í kommentakerfinu ... eða eiginlega sem ég grátbið alla um að svara í kommentakerfinu mér til dægrastyttingar!!!

Fyrsta spurningin er: Hver er uppáhalds borgin þín?

Þetta er náttúrulega alveg glötuð spurning þar sem flestir eiga sér fleiri en einn eftirlætisstað í veröldinni. Ég held samt að ég sjálf verði að segja París. Þessi borg hefur bara einhvern alveg ótrúlegan sjarma sem ekki er hægt að koma í orð. Ég hef komið þangað tvisvar sinnum, fyrst að heimsækja Kötu vinkonu mína og síðasta sumar í kórferðinni með Mótettukórnum. Eftir bæði skiptin hef ég verið gjörsamlega heilluð! Hins vegar verð ég að taka það fram að ég verð að komast til Kaupmannahafnar með reglulegu millibili og ég kolféll líka fyrir Amsterdam þegar ég fór þangað í fyrsta sinn fyrir um mánuði síðan.

Nú þið!

 

Forsíða      Um okkur      Mín síða     Myndirnar okkar       Hafðu samband     Gestabókin okkar