Maídagbók 2004

Forsíða

Um okkur

Mín síða

Myndirnar okkar

Hafðu samband

Gestabókin okkar

 

30. maí 2004

Veikindi og verðlaun.

Ég er mest hrædd um að vefdagbókin mín sé að breytast í sannkallað veikindablogg. Ég veit ekki alveg hvað er að gerast en einhvern veginn tókst mér að veikjast aftur. Enn á ný ligg ég uppi í rúmi með hausverk og hita. Mig er helst farið að gruna að Einar sé farinn að byrla mér eitur!!! Svona þegar ég hugsa út í það þá hefur kaffið sem hann hefur lagað handa mér verið undarlega sterkt þessa síðustu daga! En það þýðir víst ekkert að fást um pestir. Ég varð reyndar voða glöð áðan þegar ég mundi skyndilega að ég á fartölvu og get því hangið á netinu uppi í rúmi. Komst því miður að því að hjónarúmið virðist vera eini staðurinn í íbúðinni sem þráðlausa tengingin nær ekki til!!! Þannig að það er bara gamla góða að horfa upp í loftið hér!!!

En sem betur fer gerast ánægjulegir viðburðir milli þess sem heimilismenn leggjast í rúmið veikir. Ég fékk einkunn fyrir Sjálfsögukúrsinn nú á dögunum og mér til mikillar gleði held ég mig enn innan ágætiseinkunnar! Fékk 9! Reyndar tel ég litlar líkur á að ágætiseinkunnin haldist mikið lengur svona miðað við að ég eyði öllum tímanum sem ég á að nýta í Bakhtin-ritgerðina veik uppi í rúmi!!! En er á meðan er! Og að sjálfsögðu fékk ég verðlaun! Lítið bara á:

Ef einhver kemur til með að taka sig vel út í dinnernum í Gaulverjabæ þá verður það ég!!! Frakklandsferðin verður farin innan þriggja vikna og eins gott að mér tókst að fjárfesta í sumarkjól í tæka tíð. Var farin að óttast að ég þyrfti að sötra rauðvínið og narta í frönsku ostana í einhverju svörtu og prjónuðu frá toppi til táar! Guði sé lof fyrir Oasis og níuna góðu sem réttlætti kaupin!!!

Ég vona að þið njótið Hvítasunnuhelgarinnar og ykkur sem finnst eitthvað vanta upp á bendi ég á alveg frábærlega fagra vortónleika Mótettukórsins sem haldnir eru klukkan 17 á morgun, annan í Hvítasunnu. Ég sel miða á hálfvirði! Góðar stundir!!!

 

26. maí 2004

Það er víst orðið ansi langt síðan ég uppfærði síðast. Ástæðuna fyrir því má skrifa á áframhaldandi veikindi í fjölskyldunni, í þetta sinn mín eigin. Ég lagðist í eina þá allrahundleiðinlegustu pest sem ég hef fengið lengi. Í ofanálag veiktist svo Hugi aftur (nema honum hafi slegið niður) þannig að við höfum legið saman mæðginin. Erum bæði öll að koma til þó við neyðumst víst til að hanga heima á náttfötunum eitthvað áfram.

Annars er ég allra fúlust yfir því að hafa misst úr heilar tvær kóræfingar út af þessu endalausta pestarstandi. Það eru bara nokkrir dagar í tónleikana og mér finnst ég einhvern veginn ekki alveg hafa mátt við því að missa svona mikið úr. Ég er orðin svo ótrúlega spennt fyrir ferðina til Frakklands að ég gæti alveg hugsað mér að vera á kóræfingu upp á hvern einasta dag fram að henni! Það verður svo notalegt að aka um franskar sveitir og syngja í rútunni, halda tónleika í sögufrægum kirkjum og sitja svo á kvöldin og sötra rauðvín í góðra vina hóp! En þangað til að því kemur þarf ég hins vegar að ná úr mér þessari pest og skrifa eina ritgerð ... best að missa ekki alveg sjónar á því!!!  

Annars setti ég inn fullt af myndum frá síðustu helgi. Endilega skoðið þær með því að smella á þá af Huga hér fyrir neðan.

Jæja, best að fara að horfa á Leitin að Nemó í 956. sinn eftir að pestarfarganið hóf innreið sína! Maður veit aldrei almennilega hvort maður á frekar að þakka fyrir eða bölva vídeótækinu á svona tímum!!! 

 

21. maí 2004

Ástandið á heimilinu er sem betur fer orðið mun skárra en þegar síðasta færsla var skrifuð. Hugi er reyndar enn veikur og óskaplega lítill í sér en er þó allur að koma til. Spítaladvölin er sem betur fer sveipuð ljóma í minningunni og sá stutti minnist nú klukkustundanna í „kastalanum“ (sjúkrastofunni) og ferðarinnar í „bíó“ (fram á biðstofu að horfa á breska spennumynd) með mikilli gleði! Það þarf þó ekki að taka það fram að meðan á sjúkrahússvistinni stóð var maðurinn allt annað en sáttur og vildi komast heim!

Kennarinn minn er líka greinilega farinn að dansa Zorba því uppkastið virðist hafa farið vel í hann þrátt fyrir seinaganginn. Það er langt síðan ég hef fengið jafngóða umsögn um verkefni ... og ég sem átti von á hinu versta! Ég kvíði því lítið að þurfa að vinna upp úr þessu sæmilega ritgerð upp á 13-16 blaðsíður fyrir þann 6. júní! Mér finnst bara alveg ótrúlegt hvað það er stutt síðan ég átti eftir að skrifa lestrardagbók og sjálfsöguritgerð frá grunni og var ekki einu sinni farin að líta á þetta verkefni, hvað þá meir. Allt í einu er þetta bara næstum því búið!!!

Það er alveg til skammar hvað ég hef verið ódugleg við að setja inn myndir. Skrifast allt á ofangreinda lærdómstörn. Til að bæta úr því smellti ég inn nokkrum myndum sem ég tók í gær, á Uppstigningardegi, fyrsta frídegi sem við fjölskyldan höfum átt saman ansi lengi. Smellið bara á myndina hér að neðan:

Góða helgi!

 

19. maí 2004

Indversk gyðja.

Já, í gær leið mér eins og indverskri gyðju, ekki af því að mér þætti ég sérdeilis glæsileg og fögur einmitt þann daginn ... því miður ... heldur af því að þær eru með svo fjandi margar hendur! 

Fyrri parti dagsins eyddi Bárugötugyðjan í að sinna dótturinni sem þá var að rísa úr rekkju eftir mikil veikindi. Milli þess sem hún hellti mjólk í glas með einum af átta handleggjum sínum, kveikti hún á sjónvarpi og vídeói með öðrum, notaði tvo til að reyna að berja saman uppkast að merkri ritsmíð og þakkaði sínum sæla fyrir að vera þó enn með fjórar hendur í kjöltu! Það breyttist hins vegar skömmu fyrir hádegið þegar fimmta höndin svaraði símtali frá deildarstjóra á Drafnarborg sem flutti þau tíðindi að þar væri gyðjusonur orðinn veikur og illa haldinn af kviðverkjum. Fimmta höndin skellti á og hringdi beint í pabba krógans og óskaði eftir heimsendingu á piltinum. Þegar sonurinn var kominn í hús kom í ljós að ástand hans var mun verra en gyðjuna hafði nokkurn tíma órað fyrir. Þrátt fyrir tvö eyrnabólgubörn sem bæði hafa verið með bakflæði og fengið vel útilátna skammta af pestum og óþverra þá hafa aðrar eins kvalir aldrei sést á Bárugötunni. Gyðjan neyddist því til að setja allar átta hendurnar í fullt starf. Tvær önnuðust soninn, reyndu að halda í höndina á honum og strjúka mallakút; tvær sinntu stóru systur sem varð fullafbrýðissöm yfir athygli litla bróður og þurfti því töluvert að láta klæða dúkkur í og úr; tvær héldu áfram að reyna að skrifa uppkastið og síðasta parið kepptist við að þurrka svitann af enni gyðjunnar. Seint og um síðir, þegar ljóst var að ekkert yrði við svitann ráðið ... né nokkuð annað, var sveitta handaparið notað til að hringja í föður barnanna og eiginmann gyðjunnar og kalla hann heim af spítala. Gyðjueiginmaðurinn tók dræmt í það og kvað einn hundveikan á spítalanum. Gyðjan benti honum einkar vinsamlega á að á Bárugötu væri einn hundveikur líka, einn milliveikur og ein mamma að fá taugaáfall!!! Faðirinn lét undan og sneri heim í hofið. Ekki tók þó skárra við því allar heimilishendur þurfti nú að nýta til að koma báðum börnunum út í bíl svo hægt væri að láta lækni meta ástandið. Eftir stutta viðkomu í Domus Medica var brunað á bráðamóttöku Barnaspítala Hringsins. Þar fyrst kom í ljós hvers vegna heimilisgyðjur eru skapaðar með átta handleggi. Einn hélt í höndina á syninum, annar handleggur hélt hinni hönd hans stöðugri meðan sett var upp nál, sá þriðji þurrkaði tár af hvarmi sóttheitrar kinnar, sá fjórði hringdi í gyðjubróður í von um pössun fyrir dótturina, sá fimmti hringdi í langömmuna með sömu bón, sá sjötti rétti stóru systur púsl og liti, sá sjöundi hélt skelfingu lostinn í höndina á gyðjueiginmanni á meðan sá áttundi klóraði gyðjuhöfuð yfir því hvernig í ósköpunum ætti nú að fara að því að skila uppkastinu góða. En einmitt þegar gyðjan var farin að örvænta sneri allt til betri vegar. Dótturinni var fundinn samastaður, piltinum var gefið verkjastillandi og foreldrarnir gátu andað léttar. Eftir margra klukkustunda dvöl á spítalanum var loks hægt að halda aftur heim á Bárugötu. Veiki sonurinn sem var þá allur að hressast og stóra systir hans sem búin var að eiga góða kvöldstund með langömmu sinni sofnuðu vært og gyðjan settist við og lauk uppkasti og sendi til kennarans. 

Í dag hafa ekki nema eins og fjórar hendur verið í notkun sem sinnt hafa þörfum sjúklinga og tiltekt. Hinar fjórar eru enn í fatla eftir átök gærdagsins og verða sennilega um nokkra hríð!

 

18. maí 2004

Rafmögnuð stemmning ...

ástæðan er tvíþætt. Fyrir það fyrsta þarf ég að skila uppkasti að seinni ritgerðinni minni í dag. Reyndar verður þetta ekkert uppkast heldur bara nokkurra blaðsíðna lýsing á því sem ég ætla að gera. Ég uppgötvaði reyndar í gær, mér til hrellingar, að beðið hafði verið um að þessu yrði skilað fyrir 18. maí en ekki í síðasta lagi þann 18. eins og ég hafði staðið í meiningunni um. En þar sem kennarinn er á leið til Grikklands eftir örfáa daga verð ég bara að treysta því að hann sé strax byrjaður í Ouzo-inu og taki ekkert eftir að það muni hálfum sólarhring!!!

Hin ástæðan fyrir gríðarlegri spennu á heimilinu er að í dag er nákvæmlega mánuður þangað til ég held til Frakklands. Verð sennilega rétt ólent í París einmitt að þessum mánuði liðnum. Þá fara í hönd sex æsilega spennandi dagar. Við fengum ferðaplanið í hendurnar nýlega og boy, hvað þetta lítur vel út. Gisting í kastala, 5 rétta kvöldverðir á franska vísu, Versalir, tónleikar í Des Invalides kirkjunni, messusöngur í sjálfri Notre Dame, dinner í Gaulverjabæ ... bara svona svo fátt eitt sé nefnt. Það gladdi mig reyndar mikið að sjá frjálsan tíma með „verslunarplan í huga“ á prógramminu. Ég mun án efa reyna að nýta mér það!!! 

Það er svo í stíl við þetta rafmagnaða andrúmsloft að við virðumst vera komin með graffiti frömuð hér á heimilið:

  

Aðspurð hvers vegna hún hefði skrifað nafnið sitt á vegginn þó hún viti að það megi alls ekki, svaraði graffarinn mikli að það væri vegna þess að hún vildi að allir vissu að hún ætti heima hérna á Bárugötunni. Móðurinni þykir þetta undarleg röksemdafærsla þar sem hún býður sjaldnast fólki inn fyrir veggi heimilisins nema það viti svona sirka hverjir séu búsettir þar!!! En þetta er að sjálfsögðu mjög í stíl við hugsjónir graffiti listamanna ... eru hugsunin ekki einmitt svona „ég var hér“-pæling? 

Og talandi um veggjaskraut ... þegar ég var nemandi í Austurbæjarskóla þurftum við Ölvir frændi einmitt að ganga fram hjá krotvegg skólans a.m.k. einu sinni á dag! Þar kenndi ýmissa grasa, svona þetta klassíska „Ef þú vilt r*** hringdu þá í *****“ (bara 5 stafir í símanúmerum í þá daga!) og að sjálfsögðu hinar ýmsu ástarjátningar! Ein yfirlýsingin vakti þó jafnan forvitni okkar, enda gátum við ekki með nokkru móti ímyndað okkur hvað hún merkti. I´m horny! ... þetta stóð skrifað risastórum stöfum á vegginn góða og á hverjum degi á leið heim til ömmu eftir skóla skeggræddum við möguleikana á þýðingu þessarar áhugaverðu fullyrðingar. Eftir nokkurra mánaða vangaveltur var ákveðið að spyrja Gísla, pabba Ölvis og platfrænda minn, hreinlega út í þetta mál enda maðurinn sprenglærður í enskri tungu! Ölvir kom færandi hendi með svarið daginn eftir: „Þetta þýðir: Ég er graður“! En málið var langt frá því leyst: „Hvað er að vera graður?“, spurði ég í einfeldni minni kannski 8 ára gömul. „Það er svona að vilja mikið gera það“ var svarið. Ég, sem á þeim tíma blótaði aldrei og átti þá ósk heitasta að verða 12 ára og svo bara 20 ára beint á eftir í von um að sleppa við hin hræðilegu unglingsár, roðnaði og blánaði og óskaði þess að jörðin gleypti mig. Eftir þetta var aldrei aftur minnst á hina engilsaxnesku yfirlýsingu!!!

 

16. maí 2004

Eitthvað gengur illa að uppfæra vefdagbókina á þessum síðustu og verstu. Ég lofa betri tíð með blómum í haga eftir að öllum verkefnum hefur verið samviskusamlega skilað inn! 

Í öllu falli ... brúðkaupsvakan í Langagerðinu var hvorki meira né minna en stórfengleg! Og brúðkaupið sjálft náttúrulega dásamlegt. Hver komist ekki við þegar Friðrik felldi tárin? Og var ekki Mary yndisfríð með slör Ingiríðar drottningar? Það hefði nú ekki verið amalegt að vera staddur í kóngsins Köben meðan á herlegheitunum stóð! En Langagerðið var jafnvel betra eins og sjá má af þessum myndum. Svanhildur stóð sig glæsilega í hlutverki gestgjafans og var til að mynda mun betri í beinum lýsingum en þulir Ríkissjónvarpsins ... hvers vegna konan var ekki fengin í þetta hlutverk er ofar mínum skilning! 

Nú er aðeins einn ógiftur ríkisarfi eftir á Norðurlöndunum. Þegar Viktoría krónprinsessa gengur í það heilaga ætla ég mér að vera stödd aðeins nær aðalfjörinu! Spurning um að stilla hugsanlega flutninga Bárugötufjölskyldunnar til Svíþjóðar eftir þessum atburði. Flytja út um leið og trúlofun er opinberuð svo maður sé örugglega búinn að koma sér þægilega fyrir þegar kemur að brúðkaupinu sjálfu! Það er alla vega hugmynd!

 

13. maí 2004

Önnur lota

Já fyrstu lotu í verkefnaskilum er loksins lokið. Á miðnætti (í lok þess 10. byrjun 11. maí) rölti ég með verkefnin á áfangastað. Að sjálfsögðu nýtti ég allan skilafrestinn, mér er bara gjörsamlega fyrirmunað að skila fyrr en ég er alveg að falla á tíma! En alla vega ... það fóru 66 blaðsíður inn um lúguna hjá kennaranum ... 66 blaðsíður og næstum allar skrifaðar á einni og hálfri viku. Þetta er ekki mikið styttra en BA-ritgerðin sem ég eyddi einum og hálfum mánuði í að skrifa! Skil ekki hvað ég var að eyða svona miklum tíma í hana fyrst það er hægt að gera þetta svona hratt!

Nú bíður mín hins vegar 15 blaðsíðna ritgerð sem skila á uppkasti að næsta þriðjudag! Lokaútgáfunni þarf ekki að skila fyrr en 6. júní (þá eru bara 12 dagar þangað til ég fer til Frakklands ... bara svona að minna á það!). Ég byrjaði á þeirri ritgerð í gær en gekk nú ekkert allt of vel! Einhver leti í manni eftir hitt verkefnið og hugurinn meira við öll þau verðlaun sem mér finnst ég muni eiga skilin þegar þetta er allt saman afstaðið! Ég fékk þó að sjálfsögðu verðlaun fyrir síðustu verkefnaskil, tvenn pör af eyrnalokkum og einn bol. Þetta voru þó bara verðlaun frá sjálfri mér ... það virðist enginn annar ætla að taka við sér hvað þetta varðar!!!

Á morgun verður hins vegar mikið um dýrðir hjá okkur stallsystrum, Svanhildi og mér. Við ætlum að fylgjast prúðbúnar með því þegar Friðrik krónprins gengur að eiga Mary Donaldson. Hin opinbera brúðarterta verður að sjálfsögðu á boðstólum, brúðkaupsbjórinn sömuleiðis og hver veit nema við skálum í freyðivíni meðan við þurrkum gleðitárin af hvörmunum! Til lykke!!!

 

10. maí 2004

Þá er dagurinn ógurlegi runninn upp. Í dag á að skila bæði lestrardagbók og ritgerð um sjálfsögur. Dagbókin er nánast tilbúin og ritgerðin ... tjah, hún er vonandi frekar svona á lokametrunum en kílómetrunum! Í það minnsta stefni ég á að skila hvoru tveggja seinni partinn í dag. Þá verður mikið um dýrðir. Að sjálfsögðu verður áfanganum fagnað með búðarferðum og verslunarleiðöngrum þeim sem ritgerðar- og dagbókarhöfundur hefur haldið aftur af sér að fara í meðan á skriftum stóð! Ég er með heimsóknir í hinar ýmsu verslanir á prjónunum og bíð spennt eftir að sú stund renni upp að ég leggi af stað í leiðangurinn. Eins og áður hefur komið fram grunar mig að dóttir mín barnung, deili þessum verslunaráhuga með mér. Í morgun átti t.d. eftirfarandi samtal sér stað milli okkar mæðgnanna:

María: Mamma, Jesú bjó til alls konar.

Mamma: Hmmm, já, já! (Tæknilega séð var þetta auðvitað ekki mjög nákvæmt svar hjá mér en við látum slíkt liggja milli hluta hér á Bárugötunni!)

María: Já, Jesú bjó til dæmis til búðirnar!

Já búðir og verslanir eru svo sannarlega guðleg sköpun og verðskulda tilbeiðslu í samræmi við það! Þetta mun ég hafa í huga þegar ég legg af stað í verslunarleiðangurinn góða! Annars var dóttirin óvenju fróðleiksfús þennan morguninn því ég fékk líka hina geysimikilvægu spurningu sem allar kynslóðir vilja einhvern tíman fá svar við: „Hvernig komast börnin eiginlega út úr maganum á mömmunni?!“ Um svör mín við þeirri spurningu verður hins vegar ekki fjölyrt hér enda lesendur mínir vonandi nokkuð fróðir um það efni!

Svona til að hvetja mig áfram á lokasprettinum og til að gleðja ykkur lesendur í upphafi nýrrar viku smelli ég inn úrvali af nýjustu blómamyndunum:

Eigið góðan dag!

 

6. maí 2004

„So if recursive structure is to function in a postmodernist poetics of ontology, strategies obviously must be brought to bear on it which foregrounds its onotlogical dimension.“

Það má eiginlega segja að þessi tilvitnun lýsi lífi mínu  í hnotskurn þessa dagana ... sorglegt en satt! Það góða við þetta er að mér finnst námsefnið rosalega skemmtilegt ... það leiðinlega að ég er samt búin að fá alveg nóg af ontology, epistemology, projected worlds, hypodiegetic worlds og póstmódernisma!!! Lestrardagbókin telur nú 48 blaðsíður og þeim mun sennilega ekki fjölga mikið úr þessu. Ritgerðin er hins vegar enn í 0 blaðsíðum sem veldur mér meiri angist en orð fá lýst. Það var svo sem ekkert á dagskránni að byrja að skrifa ritgerðina fyrr en í fyrsta lagi á morgun en að sjálfsögðu hefur mér samt tekist að fara á taugum yfir að vera ekki byrjuð. Núna ímynda ég mér að mér muni aldrei takast að koma nokkru skikki á alla þessa punkta og hugmyndir sem ég er með! Ég reyni reglulega að róa sjálfa mig niður og minni mig á að mér hafi verið sent tákn af himni ofan um að allt muni fara vel með rigerðina (þið munið Pétur Gunnarsson í kirkjunni)! Þar sem ég er samt sem áður virkilega hrædd um að þetta verði ömurlegasta ritgerð sem ég hef skrifað á ævinni, að ég verði lægst í bekknum ... já hreinlega bara að ég falli, þá var ég að spá í hvort ég ætti ekki bara að biðja þann gamla að senda mér nýtt tákn!!! Bara eitthvað lítilmótlegt ... til dæmis væri ágætt ef að Pétur birtist bara niðri á Sóló á morgun. Hann gæti svo bara lesið fyrir og ég slegið inn í tölvuna. Ætli það sé nokkuð of mikið að biðja um það?!

 

3. maí 2004

Eitthvað er orðið langt síðan uppfært var hér á þessari ágætu síðu! Ástæðan er einföld! Nú um hríð hafa önnur skrif átt hug minn allan, nefninlega lestrardagbókin góða. Já, eftir aðeins viku þarf ég að skila kennaranum fullbúinni lestrardagbók og einu stykki ritgerð. Eftir vinnudaginn í dag telur dagbókin 39 blaðsíður og sífellt bætast nýjar hugmyndir í ritgerðina sem þýðir vonandi að hún verði skrifuð á methraða næstu helgi! 

Þar sem ég er í frekar mikilli tímaþröng fyrir þessi verkefnaskil hef ég unnið stíft síðustu daga. Eftir að hafa rölt til ömmu með tölvuna á bakinu og nokkur kíló af bókum að auki hefur törnin yfirleitt byrjað á nessopa með ömmu sem gjarnan leikur fyrir mig nánast allan síðasta þátt af Spaugstofunni! Eftir það hef ég setið við, lesið og hugsað og skrifað og hugsað meira! Milli þess hef ég hellt í mig meira neskaffi en ég hef gott af! Eftir 8 klukkustundir af þessari iðju get ég með sanni sagt að -ismar og fræði þrengi sér út úr stútfullu höfðinu um eyrun! Heilinn á mér hefur verið lagður í neskaffibleyti og til þess ætlast að hann kokkaði upp nýjar og ferskar hugmyndir um hina ýmsu bókmenntatexta. Þegar ég hef staðið upp eftir þess konar eldamennsku væri ekki of djúpt í árina tekið að segja að heilinn minn hafi verið kominn á yfirsnúning! Heimferðirnar með tölvuna á bakinu vilja því oft verða ansi undarlegar. Einhvern veginn virðist ég þá skynja allt umhverfið sem texta og fer að velta því fyrir mér hvaða tákn ég geti mögulega lesið út úr tjörninni og hvort það speglist ekki eitthvað af meginþemum borgarinnar í henni, hvort stígurinn gegnum Hljómskálagarðinn hafi einhverja sérstaka merkingu, hvort fólkið sem ég mæti séu þríklofnir höfundar að eigin tilvist... eða eitthvað álíka. Í dag var ég til dæmis heltekin af þeirri hugmynd að ég væri að skrifa stafinn minn, G, með leiðinni sem ég valdi þegar ég sótti börnin á leikskólann! Ég er nokkuð viss um að þessu er nákvæmlega eins farið með aðrar greinar í Háskólanum. Ætli raunvísindafólki takist ekki að búa til reikningsdæmi úr öndunum á tjörninni og setji ráðhúsið í þriðja veldi? Sem betur fer bráir þessi bókmenntabrími þó af mér fljótlega eftir að komið er heim. Í staðinn tekur við rólegheitastund með Maríu sem teiknar og Huga sem púslar ... mamman drekkur kaffi enda enn verið að fagna endurkomu Magdalenu Pavoni!

p.s. Setti inn síðustu aprílmyndirnar, þið getið kíkt á þér hér!

 

Forsíða      Um okkur      Mín síða      Myndirnar okkar       Hafðu samband      Gestabókin okkar