Vinnuferð til Lysekil og Svenljunga

                                             5. - 15. júlí 2011

Eins og greint hefur verið frá áður á þessari ágætu síðu fórum við fjölskyldan í 10 daga ferðalag í júlí. Förinni var fyrst heitið á vesturströndina í smábæinn Lysekil og síðan inn í landið aftur í krummaskuðið Svenljunga. Á báðum stöðunum var Einar búinn að ráða sig í vinnu og við hin ákváðum að fylgja með.

Það var um það bil fimm og hálfs klukkustunda akstur frá Konsulentvägen til Svenljunga. Við þurftum að vera komin fyrir klukkan tíu að kvöldi til að ná á heilsugæsluna fyrir lokun til að sækja lyklana að íbúðinni sem okkur hafði verið úthlutað. Við töldum að það yrði ekkert mál þar sem við vorum að leggja af stað milli tvö og þrjú. Hér eru Hugi og María í aftursætinu einhvers staðar brunandi eftir þjóðveginum.

Fyrsta stopp var á hamborgarakeðjunni Max. Baldur Tumi hafði sofið meiri hluta leiðarinnar þangað og því í raun ekki enn farið að reyna á hversu vel gengi að keyra með hann svona langa leið þegar þarna var komið sögu.

Hamborgaraátið seinkaði okkur um næstum klukkutíma (við vorum samt ekki svona lengi að borða heldur var bilaðri kaffivél aðallega um að kenna!) en við vorum róleg yfir því, áætluð lending um níuleytið.

Um tveimur tímum síðar urðum við að gera annað stutt stopp, Einar orðinn stirður af að keyra og Baldur Tumi þurfti aðeins að fá að komast út. Hann var annars alveg ótrúlega góður í bílnum, kannski aðallega vegna þess að við höfðum keypt ferða-dvd-spilara sérstaklega fyrir þessa ferð svo hann gæti setið og horft á Emil! Þetta stopp seinkaði okkur um sirka korter og við vorum svolítið stressuð en hugguðum okkur við að samkvæmt Navigatornum sem við höfðum einmitt líka keypt fyrir þessa ferð áttum við enn að koma sirka 45 mínútum áður en heilsugæslan lokaði.

Þegar við áttum bara smávegis spotta eftir kom hins vegar babb í bátinn, svona nokkurn veginn orðrétt! Við komumst nefnilega að því að hluta leiðarinnar þurfti að fara með lítilli ferju og Navigatorinn tekur ekki með inn í útreikningana neinn biðtíma í kringum slíkt. Þegar við komum að bryggjunni var ferjan að sjálfsögðu nýfarin yfir og við tók 20-30 mínútna bið!

Allt hafði þetta þó að lokum! Við komumst á heilsugæsluna korteri áður en hún lokaði og þaðan í íbúðina. Allir voru ákaflega glaðir að hvers kyns ferðalögum væri lokið í bili. Íbúðin samanstóð af einni stórri stofu með tveimur einbreiðum rúmum og einum rétt rúmlega einbreiðum svefnsófa (sem krakkarnir sitja í á myndinni). Svo var lítið eldhús og lítið baðherbergi. Sem sagt, fimm manna fjölskylda í eins herbergja íbúð!

Það sem vantaði upp á í fermetrafjölda var hins vegar bætt upp með stórkostlegu útsýni yfir smábátahöfnina og skerjagarðinn. Ég veit að það sést alls ekki nógu vel á myndinni (þar sem þetta ljóta hús sem íbúðin var í er í forgrunni) en þetta var ótrúlega fallegt.

Fyrsti vinnudagur Einars í Lysekil var frá 8-22 svo við krakkarnir vorum ein að skottast allan daginn frá morgni til kvölds. Við byrjuðum á að fara í könnunarleiðangur um þennan ótrúlega sæta bæ. Við vorum svo heppin að íbúðin var alveg í hjarta bæjarins svo við tókum bara lyftuna niður og vorum þá svo að segja stödd á þessum fína garði. Það var hræðilega heitt og rakt þennan dag svo okkur langaði öll mest að stökkva út í gosbrunninn.

Við létum það hins vegar ekki eftir okkur heldur fórum beint á stóran og flottan róló í einu horni garðsins. Á rólónum voru hvorki grasbalar né stéttir heldur bara sandur svo þar þurftu allir að vera á táslunum ...

... mömmurnar líka!

Baldur Tumi er alltaf spenntastur fyrir „úvíúví“!

Hugi er hins vegar spenntastur fyrir hvers konar príli!

Stóri bróðir passar litla bróður á hestbaki.

         

Meira úvíúví! Baldur Tumi hafði aldrei farið einn í svona stóra rennibraut og þótt honum þætti hún yfirmáta spennandi vildi hann greinilega ekki alveg missa stjórnina þannig að hann teygði fæturna út í kantinn og hélt sér í til að geta hægt á ferðinni. Hann er svolítið skondinn með þetta, þótt hann sé athafna- og uppátektasamur er hann líka mjög gætinn og vill fá að stýra því sjálfur hvað gerist. Ég ímynda mér að þetta séu eiginleikar sem eigi eftir að koma honum langt í framtíðinni!

Gosbrunnurinn hafði þrátt fyrir rennibrautar og sand enn töluvert aðdráttarafli í hitanum!

Það er ákaflega fallegt í Lysekil. Bærinn er allur byggður í bröttum brekkum (eins og raunar margir af þessum bæjum við vesturströndina) og efst á einni hæðinni trónir kirkjan.

Hopp ...

... hopp ...

... ooooog hopp!

Þau voru ansi mörg draumahúsin í Lysekil! Hér er eitt sem ekki væri amalegt að búa í. Pant hafa svefnherbergið mitt þarna í turninum!

Eftir að hafa leikið okkur á róló og í garðinum héldum við niður að smábátahöfninni. Lysekil er einn af þessum stöðum þar sem fólksfjöldinn margfaldast yfir sumarmánuðina, ekki síst þar sem margir koma þangað á bátunum sínum og hafa viðdvöl í nokkra daga.

María og Hugi taka baðaðstöðuna út.

Þarna á bak við skúturnar sést vinnustaður Einars, ljósgula stóra húsið sem er sirka fyrir miðri mynd með rústrauðu þaki og mörgum kvistgluggum.

Það er nú ekki amalegt að hafa þetta útsýni úr vinnunni! Skerjagarðurinn á vesturströndinni er töluvert ólíkur þeim Eystrasaltsmeginn. Eins og sjá má er hinn fyrrnefndi mestmegnis berir og brattir klettar meðan sá í kringum Stokkhólm er skógivaxinn og mun flatari. Að sjálfsögðu rífast menn svo statt og stöðugt um hvor sé fallegri en ég held svei mér þá að ég gangi í lið með vesturstrandarbúum!

Annað draumahús! Ég panta líka turninn í þessu!

Það er tvennt sem er alveg vonlaust að koma til skila á myndum, annars vegar útsýni og hitt brekkur! Það sést því miður ekki nógu vel hvað brekkurnar í Lysekil voru brattar en ég get alla vega sagt ykkur það að ég var ekkert sérlega hugguleg þegar ég var búin að puða með kerruna upp þessa í hita og raka!

Og því miður sést ekki heldur alveg nógu vel á þessari mynd hvað garðarnir við sum húsin stóðu í miklum halla. Hér var garðurinn nánast lóðréttur en samt svo fallegur og gróinn. Punkturinn yfir i-ið var húsið í trénu sem var á tveimur glæsilegum hæðum!

Uppi við kirkjuna var útsýni yfir allan bæinn. Við bjuggum í ljótasta húsinu í bænum, kubbnum þarna fyrir miðju. En það er svo sem allt í lagi að dvelja inni í ljótu húsi þegar maður getur horft á öll hin litlu sætu út um gluggann!

Kirkjuturn.

Eftir langa gönguferð komum við við í sætu ísbúðinni á torginu.

         

Hugi (með súkkulaðiís í andlitinu) og María á torginu. Baldur Tumi var loksins sofnaður þegar þarna var komið sögu. Svefnmál hans í þessari ferð væru annars gott efni í hryllingssögu, sérstaklega kvöldin þegar við reyndum að koma honum í ró í ókunnugum eins herbergja íbúðum með nágranna undir, yfir og allt um kring. Það var að sjálfsögðu vonlaust að fá hann til að sofna meðan við hin vorum vakandi þannig að við þurftum öll að fara upp í rúm og slökkva ljós til að hægt væri að svæfa hann. Sem var svo sem alveg í lagi þar sem hann var yfirleitt að leggja sig svo seint á daginn í rútínuleysinu að hann fór ekki að sofa fyrr en um miðnætti. Svo lágum við í náttmyrkrinu og hlustuðum á hann öskra af öllum lífs og sálarkröftum og biðum bara eftir að einhver af nágrönnunum hringdi í barnaverndarnefnd. Við komumst reyndar að því að einmitt í þessari íbúð í Lysekil voru nágrannarnir flestir í kringum 100 ára og við vonum heitt og innilega að þeir hafi allir verið búnir að slökkva á heyrnartækjunum þegar kvöldsyrpan byrjaði!

Kosturinn við að vinna í smábæ er að maður getur auðveldlega stokkið heim í hádeginu og borðað pönnukökur með sultu og rjóma ásamt fjölskyldunni!

Annan daginn í Lysekil var Einar sem betur fer bara að vinna hefðbundinn vinnudag frá 8-17 og gat því hitt okkur síðdegis og farið með okkur í ísbúðina á torginu. Baldur Tumi tók eitt nett tveggja-ára-tryllingskast og hlaut verðskuldaða athygli tveggja karla á næsta borði!

Hugi og María eru orðin þrautþjálfuð í að þykjast ekki þekkja litla bróður sinn þegar verstu köstin ganga yfir!

Ekki einu sinni kúla af súkkulaðiís gat hresst litlu dramadrottninguna við.

Það var ekki fyrr en hann hafði farið inn í ísbúðina og sjarmað afgreiðslustúlkurnar þar til að gefa sér tvær skeiðar að hann tók gleði sína á ný! Skeiðarnar voru auðvitað bara ókeypis plastskeiðar og við vorum með fimm slíkar við borðið þá þegar en það skipti náttúrulega engu!

Eftir ísinn sýndum við Einari rólóinn ...

... og svo gengum við yfir í elsta bæjarhlutann.

Visby á Gotlandi er gjarnan kallaður „rosornas stad“ en mér finnst að það mætti líka alveg notast fyrir Lysekil. Að minnsta kosti blómstruðu þar margar ótrúlega fagrar rósir.

Já og ekki voru stokkrósirnar síðri.

Við sýndum Einari líka nýja hafnarsvæðið í Lysekil sem við höfðum kannað deginum áður. Þar er til dæmis þessi fíni fiskur.

Baldur Tumi þurfti auðvitað að fá að vera með á mynd í fisknum!

María er búin að vera í vist hjá mér í sumar og hefur farið með Baldur Tuma á róló í einn klukkutíma alla virka morgna. Fyrr um daginn hafði hún einmitt keypt þetta fína úr sem hún sýnir okkur hér fyrir hluta af laununum sínum.

Feðgarnir við nýju smábátahöfnina.

Fjölskyldan í öldurótinu.

Það er búið að gera þennan hluta hafnarinnar virkilega fínan og ég var til dæmis ægilega hrifin af sólbekkjunum sem glittir í þarna framundan, allir svona öldulaga og óreglulega formaðir en samt þægilegt að sitja á þeim og lesa meðan sólin bakar mann. Og bara örfá metra frá er stigi út í sjóinn ef maður skyldi þurfa að kæla sig.

Allir vildu komast að kíkinum á byrggjunni.

Huga fannst þessir nú svolítið að herma eftir Bakkastöðum!!!

Garðarnir í Lysekil voru flestir ótrúlega grónir og fallegir þótt litlir væru.

Þessi var allur í fjólubláum og bleikum tónum.

Annað sem ég tók líka eftir var hvað fólk girti fallega hjá sér. Þetta grindverk með stjörnunum var mitt uppáhalds!

Á þriðja deginum okkar í Lysekil hellirigndi og þann dag þurftum við líka að skipta um íbúð. Já, já, ég gæti endalaust pirrað mig á þessum íbúðarskiptum og aðstæðum kringum þau en læt það vera hér á síðunni. Það var ekki um neitt annað að ræða en að pakka fimm manns niður aftur og flytja sig um set. Reyndar ekki alslæmt þar sem við fengum miklu stærri íbúð (heil tvö herbergi!) en hún var reyndar í útjaðri bæjarins svo það var minna um skemmtilega göngutúra. En í öllu falli tók ég ekki eina einustu mynd þann daginn. Á fjórða degi var Einar hins vegar í fríi (!) og við ákváðum að taka okkur bíltúr til Fjällbacka sem er annar strandbær í um það bil 45 mínútna akstursfjarlægð frá Lysekil. Þar byrjuðum við á að fá okkur hádegisverð við höfnina.

Það er gott að fá knús frá stóru systur þegar maður er eitthvað lítill í sér!

Fjällbacka er enn minni bær en Lysekil en jafnvel enn vinsælli ferðamannastaður. Að hluta til vegna nálægðarinnar við norsku landamærin en kannski líka vegna þess að hér gerast allar bækur Camillu Läckberg. Smábátáhöfnin var alla vega þétt setin þegar við skoðuðum okkur um þar.

Finnst ykkur Fjällbacka ekki sjarmerandi bær?!

Ef Lysekil er byggður í brekkum þá veit ég ekki alveg hvað á að segja um Fjällbakca! Þar er eiginlega byggt utan á hamra! Það hlýtur til dæmis að vera svolítið spes að vera úti á svölum þarna í hvíta húsinu fyrir miðri mynd. Hvernig ætli sé með glugga á þeirri hlið hússins sem snýr út að hamrinum?

Má ekki Fjällbacka bara líka kallast „rosornas stad“?

Svona er útsýnið yfir smábátahöfnina og skerjagarðinn úr efstu brekkum bæjarins. Það væri nú ekki amalegt að þetta blasti við manni þegar maður stigi fram úr á morgnana!

Það hlýtur samt að vera svolítið þrúgandi, eða í það minnsta dálítið spes, að vera með þennan hamar yfir sér alla daga. Ég verð alla vega að játa að þetta er ekki svo galið sögusvið fyrir glæpasögur! Karlinum þarna lengst til vinstri virðist þó slétt sama og les blaðið bara í rólegheitum úti á palli.

Einar sá um kerrupuðið í brekkunum að þessu sinni!

Þröngar götur og brattar brekkur. Mér fannst svo fínt hvernig glitti í sjóinn og klettana þarna milli húsanna.

Við gátum auðvitað ekki yfirgefði Fjällbacka nema hafa skoðað Kungsklyftuna. Kungsklyftan er gjá í hamarinn og fyrir þá sem hafa séð bíómyndina um Ronju ræningjadóttur upplýsist að öll atriðin í kringum Helvítisgjána eru einmitt tekin upp hér. Þarna finnst líka lík í einhverri af bókum Camillu Läckberg en ég man ekki í svipinn í hverri það var. Til að komast að gjánni þarf maður að fara upp brattar tröppur. Þá er nú fínt að vera með kerru sem leggst saman á augabragði. Enn fínna hefði samt verið ef við hefðum bara fattað að skilja kerruna eftir niðri á meðan!

María á uppleið.

Útsýnið á leiðinni upp var fagurt.

Hugi stökk auðvitað á undan okkur hinum og beið okkar á kletti þegar við komum móð og másandi upp. Kungsklyftan sjálf er þarna í baksýn.

Einar og Baldur Tumi í miðri gjánni!

Og María á niðurleið!

Baldur Tumi er alveg búinn að sjá að það er smábarnalegt að skríða aftur á bak niður tröppur, hvað þá láta bera sig niður. Auðvitað á maður að ganga sjálfur og aðalatriðið er að halda sér í handriðið á meðan eins og stóra fólkið gerir!

Fjällbackabúar eru voða listrænir. Þetta fallega málverk keypti ég handa Einari í jólagjöf. Voða verður hann glaður!

Frá Fjällbacka héldum við á ströndina. Það var að vísu áliðið og ekkert allt of hlýtt úti en krakkarnir vildu ólm drífa sig í sundfötin, líka Baldur Tumi.

Feðgar á bryggju, sennilega að leita að bláskel fyrir Huga að nota við krabbaveiðar. Krabbaveiðar eru nefnilega ein helsta afþreying barna á vesturströndinni. Þá bindur maður þvottaklemmu í línu og festir svo bláskel í klemmuna og lætur síga út í sjóinn. Skömmu síðar getur maður svo vænst þess að hafa laðað að litla krabba sem hægt er að safna í fötu til að skoða nánar. Hugi var á þessu stigi kominn með fötuna, línuna og þvottaklemmuna og meira að segja háf en vantaði bara bláskel.

María mun seint eldast upp úr því að hafa gaman af að grafa sig í sand!

Baldur Tumi prófar háfinn.

Enn hafði bláskeljaleitin engan árangur borið, hér eru bræðurnir að koma úr einum leitarleiðangrinum.

María komin skrefinu lengra í sandgreftrinum. Undir venjulegum kringumstæðum hefði hún að vísu eytt meiri tíma í sjónum en hann hafði lítið aðdráttarafl þarna þar sem það var allt krökkt af marglyttum í fjöruborðinu! Einar hafði einmitt fengið til sín sjúkling með marglyttubruna daginn áður svo við vorum kannski óþarflega vör um okkur. Það eru alla vega ýmis vandamál sem bíða læknis í skerjagarðinum sem koma sjaldan upp á heilsugæslu í miðri borg inni í landi!

Mister Sandman.

Og enn fannst engin bláskel. Fatan var því fyllt af sjó og sandi og notuð í annað á meðan!

Systkinin hafa bæði gaman af að sulla.

Þarna í baksýn sést einmitt Hugi með háfinn, enn bláskeljalaus! Allt í kringum hann var krakkaskari að veiða krabba þannig að við virtumst þau einu sem ekki vorum að ná þessu með bláskelina!

Mér sýndist það hins vegar ekki koma að sök, hann skemmti sér konunglega við að fiska upp marglyttur með háfnum.

Hér lengst til vinstri má sjá okkur Huga í síðasta skeljaleiðangrinum! Við komumst að þeirri niðurstöðu að sennilega hefði þurft að synda aðeins út og kafa eftir bláskel en Einar hafði einmitt gleymt sundskýlunni sinni svo það var aldrei hægt að reyna þá kenningu. Það verður bara næst!

Daginn eftir, á fimmta degi ferðarinnar, var enn og aftur kominn tími til að pakka niður og nú til að flytja okkur frá vesturströndinni og yfir í Svenljunga sem liggur í Jönköpingsléni, sirka milli Gautaborgar og Borås. Hér eru systkinin að hjálpast að við að bera sængurnar okkar út í bíl áður en lagt var af stað. Einar var að vinna til sjö og okkar beið svo tæplega þriggja tíma ferðalag þannig að við vorum ekki komin á staðinn fyrr en löngu eftir myrkur.

Hér erum við að vakna fyrsta morguninn okkar í Svenljunga, Einar farinn til vinnu og við því á eigin vegum fram eftir degi. Við fengum reyndar hálfgert áfall þegar við komum í íbúðina um kvöldið. Fyrir það fyrsta var hún pínulítil, bara þessi stofa sem sést á myndinni með svefnsófa og rúmi í einni og hálfri breidd (þar sem við Einar þurftum að vera með Baldur Tuma) og svo eldhús og bað. Inn af stofunni var reyndar einhver undarleg gluggalaus kompa, næstum eins og fangaklefi, og þar var eitt rúm. Ekkert okkar gat hins vegar hugsað sér að vera þar!

Það sem var þó allra verst var að það var alveg hræðileg raka- og myglulykt í íbúðinni þegar við komum og á ganginum var gegnblaut motta. Við hentum mottunni út og ég reyndi bara að halda fyrir nefið (og aftur af tárunum) þegar ég fór að sofa. Nokkrum dögum síðar komumst við að því að að það hafði flætt inn í húsið í miklum rigningum vikuna áður. Íbúðin „okkar“ hafði staðið tóm á þeim tíma og því enginn orðið var við neitt en ég held að blauta mottan og vonda lyktin sé alveg næg sönnun fyrir því að það hafi líka farið allt á flot hjá okkur. Lyktin veðraðist sem betur fer helling út þessa viku sem við vorum þar og svo vöndumst við henni líka merkilega vel. Og það er líka rétt að taka það fram að þetta gekk allt saman ljómandi vel þótt aðstæður hafi ekki alltaf verið þær bestu, hvorki í Lysekil né Svenljunga. Baldur Tumi öskraði jú á kvöldin og sparkaði í okkur Einar þar sem við kúldruðumst með hann á milli okkar og María og Hugi hefðu áreiðanlega alveg getað hugsað sér betri aðstæður en að deila rúmi og sofa inni í sama herbergi og við hin en þrátt fyrir það skemmtun við okkur konunglega og létum okkur líða vel. Og ég held að niðurstaða ferðarinnar sé bara sú að það geri fjölskyldunni gott að takast af og til á við áskoranir, neyðast til að kúldrast hvert ofan í öðru og leysa þau vandamál sem koma upp!

Í Svenljunga var ekkert að gera, akkúrat ekki neitt! Þar var til dæmis hvorki róló né almenningsgarður að tylla sér í! Við vorum því að mestu inni í íbúðinni að lesa og horfa á vídeó meðan Einar var í vinnu. Hann var sem betur fer bara í hefðbundinni dagvinnu þessa viku þannig að eftir klukkan fimm gátum við skvett úr klaufunum. Einn daginn keyrðum við til Gautaborgar og fórum í Liseberg sem er stærsti skemmtigarður í Norður Evrópu! Hér erum við fyrir utan garðinn ...

... og hér erum við komin inn.

Við byrjuðum á að fara með Baldur Tuma í hringekju. Þarna sjáið þið hann koma, svanaprinsinn!

Dáldið að reyna að ná sambandi við strákinn á svarta svaninum!

María og Hugi ákváðu að skella sér í rússíbana saman. Hvorki ég né Einar fórum með og við þurftum því að skilja við þau í röðinni sem var löng og á lokuðu svæði. Ég var voða stressuð og hékk við grindverkið til að fylgjast með þeim!

Loksins loksins var röðin komin að þeim ...

... og þá var það ekki bara ég sem var stressuð!

  

Hér sést María öskrandi á leið niður! (Hugi var við hliðina á henni en sást ekki þaðan sem við stóðum.)

Hér er Einar ekki að benda okkur á þennan huggulega mann heldur vill hann beina athygli okkar að „kolkrabbanum“ sem þeir Hugi fóru í saman. Mátti vart á milli sjá hvor skemmti sér betur. Við María freistuðum gæfunnar á bangsatombólu á meðan ...

... og haldið að María hafi ekki bara unnið þennan sæta pandabjörn! Hér er Hugi annars með þann rosalegasta ís sem við höfum séð, var svona eins og nokkur ísfjöll í hring og svo stöðuvatn af súkkulaðisósu í miðjunni. Honum gekk ekkert sérstaklega vel að borða hann get ég sagt ykkur!

Eftir ísát skelltum við krakkarnir okkur í vatnsrússíbana. Ég er eiginlega alveg búin með minn tívolíkvóta en er enn voðalega svag fyrri vatnsrússíbönum.

  

Og hér komum við niður, skellihlæjandi og rennandiblaut!

Við Baldur Tumi fórum í ævintýrakastala á fljúgandi skútu ...

... og María og Hugi fylgdu á eftir okkur, æsispennt!

Einar og Baldur Tumi skelltu sér svo í Drekaskipin og ég stóð fyrir utan og myndaði. Þrátt fyrir að allar myndirnar séu teknar í gegnum gler sjást kostuleg svipbrigði litla mannsins ágætlega. Hann var nefnilega alveg dásamlegur í öllum sínum ferðum í tæki, fannst greinilega alveg ótrúlega gaman en vildi halda kúlinu og ekki sýna okkur hinum hvað hann skemmti sér vel. Hann byrjaði því með einhvern svona svip, svo mikið að reyna að halda aftur af brosinu að hann var næstum komin með stút á munninn! (Ég mæli með því að þið einbeitið ykkur alveg að svipbrigðum Baldurs Tuma í þessari seríu þar sem svipbrigði Einars eru ekki beint neitt sem maður tekur milljón myndir af og birtir á heimasíðu!)

Hér á hann orðið ansi erfitt með að halda aftur af brosinu en reynir þó!

Svo brast þetta alveg hjá honum og hann brosti út að eyrum með litla sæta spékoppinn sinn!

Elsku litli karlinn minn, svo yndislegur, glaður og góður!

Fyrir mér var þetta hins vegar toppurinn á tívolíferðinni! Í hvert skipti sem Baldur Tumi fór í einhver tæki biðu stóru systkini hans spennt eftir að hann kæmi út, vildu fá að halda á honum, gleðjast með honum og spyrja hann í þaula um ferðina! Ég held eiginlega að þau stóru hafi haft meira gaman af hans tívolítækjaferðum en hann sjálfur (og er þá mikið sagt!). Ég á svo góð börn að það nær ekki nokkurri átt!

Einar og Baldur Tumi fyrir framan nafna þess síðarnefnda, rússíbanann Balder!

Við vorum öll voðalega fegin að þurfa ekki að fara ferð með þessum!

         

Baldur Tumi og María fylgjast með hoppandi vatnsbunu sem var svona líka skemmtileg!

Á sviði í miðju tívolíinu spilaði hljómsveit og múgur og margmenni dansaði. Baldur Tumi sem er þekkt dansfífl stóðst ekki mátið og tók að dansa líka eins og sjá má á þessu stutta vídeói:

Hann er líka með svipinn þarna ... algjör dúlli!

Stærsti og minnsti kallinn minn!

Við gamla kærustuparið með ljósadýrðina í bakgrunni.

Feðgarnir fylgjast með gosbrunnasýningu við stóra sviðið í Liseberg. Til allrar hamingju vorum við ekki þarna á sama tíma og hinn „frábæri“ sjónvarpsþáttur Lotta på Liseberg er tekinn upp og losnuðum því alveg við að syngja gamla sænska slagara ásamt mörghundruð manns!

Komið kvöld á Liseberg ...

... og tími til að halda „heim“ til Svenljunga. Við vorum aldrei eins seint á ferðinni og einmitt þetta kvöld og vorum við þó oft skammarlega seint á ferli með börnin!

         

Dagarnir í Svenljunga voru eins og áður sagði, fremur viðburðalitlir og þar af leiðandi tók ég næstum engar myndir þar. Þetta augnablik þar sem Baldur Tumi hékk úti í glugga og hrópaði hástöfum á Emil varð þó að mynda! Hann vissi auðvitað sem var að við værum nokkurn veginn í Smálöndunum og Emil sennilega einhvers staðar þarna á flandri!

Kvöldið áður en við fórum heim keyrðum við til Borås. Við höfðum reyndar verið þar nokkrum dögum áður líka og séð að Borås er merkilega notalegur og sætur bær. Öll fimmtudagskvöld yfir sumarið stendur bærinn fyrir metnaðarfullri skemmtidagskrá á aðaltorginu og einmitt það fimmtudagskvöld sem við vorum á svæðinu átti engin önnur en uppáhaldssöngkonan mín hún Veronica Maggio að vera aðalnúmerið! Við ákváðum því strax að fara til Borås þetta kvöld. Reyndar vorum við næstum snúin við á leiðinni þar sem það rigndi eins og hellt væri úr fötu og Einar var á skyrtunni (hann átti nefnilega bara að sjá um að pakka einum hlut fyrir ferðina, jakka eða yfirhöfn fyrir sjálfan sig, og gleymdi því að sjálfsögðu!) og ég berfætt í ballerínuskóm. Sem betur fer hættum við við að hætta við því annars hefðum við misst af einu skemmtilegasta og eftirminnilegasta kvöldi ferðarinnar! Við byrjuðum á að leita uppi stað að borða á og römbuðum af tilviljun inn á tælenskan veitingastað. Þetta var ekkert sérstaklega flottur staður og á matseðlinum var eitt og annað í bland við það tælenska, María og Hugi fengu sér til dæmis hamborgara!

En við Einar fengum þann albesta tælenska mat sem ég hef smakkað! Ban-Thai meðtalið og allt! Jesús minn góður hvað þetta var gott! Ég veit eiginlega ekki enn hvort ég á að gráta eða fagna því að besti tælenski staður sem ég hef farið á sé í fimm klukkustunda akstursfjarlægð frá heimili mínu! Maturinn var svo góður að ég var farin að spá í hvort við værum kannski að missa vitið þarna, komin með algjörlega skakkt sjónarhorn á allt svona rennblaut í fæturna og köld með myglulykt fasta í nefinu. En svo heyrði ég manninn á næsta borði kalla á eigandann til að tilkynna honum að þetta væri besti tælenski matur sem hann hefði smakkað og þá sannfærðist ég um að þetta væri engin ímyndun. Sem sagt, ef einhver skyldi eiga leið um Borås þá mælum við með veitingastaðnum The Wok!

Baldur Tumi var líka ánægður með The Wok og pulsurnar sem hann fékk.

Hrifnastur var hann þó af þessum fílum upp um alla veggi sem virtust vera nýbúnir að taka stúdentinn!

Södd og sæl stilltum við okkur upp á torginu og biðum eftir Veronicu. Hún lét reynar ekki bíða lengi eftir sér heldur birtist á slaginu klukkan 21 og opnaði með „Välkommen in“ af nýju plötunni. María hefur nú ekki farið á háhest í mörg herrans ár en fékk eina hringferð á öxlum pabba til að sjá betur. Mér sýnist hún þó ekki alveg örugg!

Baldur Tumi sá auðvitað ekkert nema rassana á fólkinu en skemmti sér samt hið besta.

Það var alveg troðið á torginu og regnhlífar á lofti.

Það var auðvitað ekkert auðvelt að ná myndum af stjörnunni en hér glittir alla vega í sætu og skemmtilegu Veronicu!

Hugi skemmti sér konunglega þótt hann sé kannski ekki æstasti Veronicu Maggio aðdáandinn í fjölskyldunni!

María er hins vegar með mér í aðdáendaklúbbnum og henni fannst auðvitað alveg æðislegt. Ég held að við mæðgur séum sammála um að þetta kvöld sé það eftirminnilegasta úr ferðinni og ég fæ næstum tár í augun þegar ég hugsa um hvað þetta var allt saman ótrúlega skemmtilegt.

Daginn eftir vann Einar fullan vinnudag meðan við hin pökkuðum (einu sinni enn!) og þrifum íbúðina. Svo var það bara sex tíma bílferð heim! Við endum albúmið því eins og það byrjaði, með Huga og Maríu í aftursætinu á þeysireið gegnum Svíþjóð þvera og endilanga.