Lúsía, aðventa og allt það

Við hefjum þessa jólalegu myndasyrpu á aldeilis jólalegum og glænýjum skóm húsmóðurinnar! Gull og glæsileiki!!!

Það er alltaf jafndásamlegt þegar börnin sofna í undarlegum stellingum! Hér hefur meistara-gítar-sláttumúsin sjálf sofnað út frá eigin spili!

  

Við skelltum okkur í smá Stokkhólmsferð annan sunnudaginn í aðventu. Við byrjuðum ferðina á Vetekatten, eins og svo oft áður. Hér sýnir María bæði sparibrosið og skarðið eftir nýjasta tannmissinn.

Hugi tók prinsessuterturnar í sátt fyrir skemmstu. Hann vill reyndar ekki græna „hýðið“ en elskar rjómann og vanillukremið. Prinsessutertuátið minnir því einna helst á flókna skurðaðgerð hjá piltinum.

Samlokurnar með roastbeef og kartöflusalati eru í uppáhaldi hjá mér á Vetekatten! Nýlega komst ég þó að því að kjúklingasalatið slær þeim næstum við!!!

Eftir Vetekatten héldum við á Skansen þar sem ætlunin var að rölta um á jólamarkaði. Við byrjuðum þó á að fá okkur glögg og ýmiss konar sænskt góðgæti með. María vald sér kleinu og var alveg himinsæl ... hún hefur mikið talað um það að undanförnu hvað hún hlakki til að fá sér kleinur þegar hún kemur til Íslands. Slíkt góðgæti er ekki á hverju strái hér í Svíþjóð!

Það er jólalegt að horfa inn um litlu glugga húsanna á Skansen um þessar mundir.

Þarna eru bókbindararnir að störfum fyrir innan ...

... og hér er dekkað jólaborð í stofu bókbindarafjölskyldunnar. Ég spurði starfsstúlku í húsinu hvort það mætti taka myndir og hún svaraði að það væri alveg sjálfsagt nema ég mætti ekki nota flass. Ég hélt nú að það væri lítið mál (enda mikið á móti ofnotkun flassa!), sneri mér við og smellti af ... með flassi!!! Dálítið vandræðalegt ... ég hef greinilega eitthvað ýtt á vitlausa takka á vélinni!

Það tókst þó betur til þegar ég myndaði jólatré bókbindarafjölskyldunnar. Eins og kannski sést er ansi jólalegt á Skansinum í desember, litlir jólabásar út um allt sem selja bæði mat- og gjafavöru og í ýmsum húsanna er mikið lagt upp úr því að sýna hvernig jólin voru haldin áður fyrr. Allt saman afskaplega skemmtilegt!!!

María fylgdist dáleidd með þessum litla sönghóp sem söng jólalög fyrir gesti og gangandi.

Ég var hins vega of hrædd um að fara að grenja yfir kórsöngnum og jólalögunum þannig að ég forðaði mér í snarhasti inn í kjörbúð frá fyrri hluta síðustu aldar!

Það dimmir ansi hratt hjá okkur núna og upp úr þrjú var komið kolniðamyrkur. Þar sem Skansen er eðli málsins samkvæmt illa upplýstur var ansi dimmt þar. Við treystum okkur því ekki til að heilsa upp á dýrin eða skoða sveitahluta svæðisins. Við skelltum okkur hins vegar á jólaball á aðaltorginu. Þar lék hljómsveit fyrir dansi með söngkonuna Ælu í fararbroddi. Hún heitir reyndar Ayla ... en okkur þykir miklu fyndnara að kalla hana Ælu. Jólaballið var samt ákaflega skemmtilegt og við María erum enn að söngla jólalög sem við heyrðum þar!

Þann 13. nóvember var Lúsíuhátíðin haldin hátíðleg að sænskum sið. Á leikskólanum hans Huga voru foreldrar, systkini og aðrir aðstandendur boðaðir í garðinn við skólann klukkan 15 til að fylgjast með Lúsíulest barnanna. Í garðinum stilltu allir sér spenntir upp og skömmu síðar opnuðust dyrnar og út streymdu syngjandi börnin. Á leikskólanum eru engar leiðinlegar reglur um að aðeins skuli vera ein Lúsía ... nei á leikskólanum mega þeir sem vilja vera Lúsía setja upp kertakrónuna og hvíta serkinn en svo er líka í boði að vera þerna, stärngosse, jólasveinn eða piparkaka. Á myndinni má sjá fylkinguna ganga inn á „sviðið“ og fremst í flokki er Britt fóstra sem sér til þess að allt fari vel fram!

Og þarna kemur okkar maður, íklæddur glæsilegum jólasveinabúningi!!! Sjáið stoltið og gleðina sem skín úr andlitinu!!! Það þarf auðvitað ekki að taka það fram að mamman fékk tár í augun! Fyrir framan Huga eru Maja og Nora, við hlið hans er Ludvig (Huga þykir hann mikill töffari), og fyrir aftan leiðir Neil Azam fóstru.

Þessi eru af litlu deildinni, óskaplega miklar krúsídúllur. Ég þarf að halda að mér höndum á hverjum einasta morgni til að grípa ekki litla jólasveininn þarna fyrir aftan og knúsa og kyssa þessar dásamlegu kinnar!!! Það er Ann-Britt fóstra á Huga deild sem sér til þess að litli stjärngossen og litla þernan fari rétta leið.

Allir búnir að stilla sér upp og enn er sungið „Santa Lucia“!

Hugi stóð sig ótrúlega vel og söng með í öllum lögum, hann er þarna fyrir aftan litlu þernuna.

Það var auðvitað ekki bara Hugi sem stóð sig vel, öll börnin voru ótrúlega prúð og stillt og dugleg! Það var sérstaklega aðdáunarvert að fylgjast með þeim allra minnstu en hingað til hefur yngri deildin verið með sína eigin Lúsíulest. Okkur skilst að hún hafi nú oftar en ekki viljað leysast upp ansi hratt þar sem börnin röltu bara beint í fang foreldra sinna!

Að söngnum loknum var stjarnan auðvitað knúsuð í bak og fyrir. María okkar missti því miður af því að taka þátt í Lúsíu með þessum hætti því í skólanum hennar er það bara 2. bekkur sem stendur fyrir hátíðahöldunum, hinir horfa bara á. María hafði þó haft mjög gaman af því og sagði að Lúsíulestin í skólanum hennar hefði verið svo falleg að hún hefði orðið „blaut í augunum“!

Jólasveinn í skammdeginu.

Eftir sönginn úti var haldið inn í smá „fika“, lussebuller, piparkökur, glögg og saft. Hér er Hugi dálítið fyndinn!

Systkinin sæt saman, Hugi með myndavéla„brosið“.

Hugi er ástfanginn!!! Viðfang ástars hans er Ellen sem hér sést japla á piparköku. Um daginn þegar við vorum í lestinni á leiðinni til Stokkhólms spurði ég Huga: „Hver er sætastur?“ (að sjálfsögðu átt við hann sjálfan!). Hann svaraði dreyminn á svip: „Ellen“!!!

Börnin gáfu fóstrunum sínum jólagjafir og röðuðu sér spennt í hálfhring í kringum þær þegar gjafirnar voru teknar upp! Það er kannski stranglega bannað að eiga sér uppáhaldsbörn á leikskólum barna sinna (svona fyrir utan manns eigin auðvitað) en þær Maja og Signe sem eru hér fyrstar frá vinstri bræða mig á hverjum einasta degi!!!

Britt, Ann-Britt og Azam voru ánægðar með fínu handklæðin sín. Því miður var Elisabeth, uppáhalds fóstran hans Huga, farin heim þar kom að hátíðahöldunum og því er ekki til nein mynd af henni. Ég hef sjálfsagt sagt það oft á þessari síðu en fóstrurnar á leikskólanum eru alveg hreint frábærar!!! Þær standa fyrir frábæru og metnaðarfullu starfi en svo langar mig líka oft til að faðma þær að mér fyrir hvað þær eru ótrúlega duglegar að spjalla við mig og hlusta á skrýtnu sænskuna mína ... allt án þess að setja upp þennan hundleiðinlega „Ó nei hvað er hún eiginlega að segja, ætli hún skilji nokkuð sænsku“-svip sem mér finnst ég sjá allt of mikið af!!!

Stúfur sækir sér enn eina lussebulla!

María var inspíreruð þegar við komum heim af leikskólanum og föndraði sér sinn eigin Lúsíubúning ... hún er aldrei af baki dottin þessi stúlka!

Heimagerðu kertakórónuna bjó hún til úr pappír alveg sjálf! Verst að hún verður stundum aðeins of metnaðarfull í föndrinu ... um daginn vildi hún til dæmis búa sér til sitt eigið púsl!!! Það urðu svo dálítil vonbrigði þegar í ljós kom að verkefnið reyndist illviðráðanlegt!

Að kvöldi lúsíunnar bökuðum við örfáar piparkökur. Hér var ekki um hinar margumræddu og jaðarskreyttu piparkökur stórfjölskyldunnar að ræða, þær verða bakaðar á Bakkastöðum hjá ömmu fyrir jólin! Nei, þessar piparkökur áttu aðeins að vera til skrauts á heimilinu. María og Hugi voru áhugasamir bakarar.

Deigið reyndist hins vegar illviðráðanlegt, molnaði allt þegar reynt var að fletja það út og ef náðist að skera út með formunum var í það minnsta víst að listaverkið datt í sundur þegar það var flutt yfir á bökunarplötu. Fyrir vikið reyndist þetta ekki alveg eins barnvæn stund og til hafði staðið.

Skyldi þetta passa?!

Að lokum var heimilisfaðirinn einn látinn sjá um baksturinn enda virtist hann hafa hvað besta stjórn á deiginu undarlega. Eins gott að þetta var ekki eini piparkökubaksturinn okkar í ár ... við hlökkum mikið til bökunardags á Bakkastöðum.

Amma gaf mér tvo amaryllislauka þegar hún var hjá okkur hér í haust. Þeir standa einmitt í fullum blóma núna ... alveg hárrétt tímasetning!

Lúsía talar í símann við ömmu að kvöldi dags.

Við höfum verið að dunda okkur við að pakka inn gjöfum á kvöldin eftir að börnin eru sofnuð (Allt í lagi, ÉG hef verið að pakka inn gjöfum ... Einar fær hvergi að koma nærri!!!). Hver skyldi eiga að fá þennan fína pakka og hvað leynist undir borðum og pappír?!

Verkstæði jólasveinsins.

Glögg aðventuljós og piparkökur ... uppskrift að góðu kvöldi!