London calling

Dagana 21. - 24. ágúst fengum við frábæra gesti þegar fjölskyldan Gunnar/Gunnarsdóttir komu í heimsókn til okkar allra leið frá London. Hér eru nokkrar myndir frá dásamlegum dögum í góðra vina hópi, sameiginlegum skemmtiferðum, máltíðum, brjóstagjöfum og bleiuskiptum!

Embla Gunnarsdóttir og Baldur Tumi Einarsson voru auðvitað stjörnurnar þessa daga okkar saman! Einn mánuður og einn dagur aðskilur þau í aldri en sentimetrarnir og grömmin eru eitthvað fleiri!

Embla horfir aðdáunaraugum á Baldur Tuma sem virðist ekki enn hafa tekið eftir því að hann sé með leikfélaga á teppinu.

Besta núðlusúpa í heimi í hádegisverð á laugardeginum og allir samankomnir við borðið nema Embla sem situr í stólnum á gólfinu ...

... og Baldur Tumi sem svaf sjaldgæfum blundi í vöggunni.

Eftir núðlusúpuna sýndum við gestunum borgina okkar. Uppsalir eru kannski ekki alveg jafn fjölbreytt og spennandi og Lundúnir en svona næstum! Það er alla vega hægt að kaupa sæmilega góðan ís þar og því þótti okkur tilvalið að bjóða upp á slíkt góðgæti. Hér eru Hugi, María og Freyja nýbúin að sporðrenna sínum skömmtum.

Það náðist ekki að mynda ísátið fyrr en allir voru búnir að borða nema Eva. Hún stendur því ein fyrir þessa huggulegu stund.

Baldur Tumi kom foreldrum sínum í opna skjöldu með því að sofa í vagninum í marga klukkutíma. Til hafði staðið að leyfa Emblu að nota með honum en drengurinn er greinilega svo bráðþroska að hann er strax kominn á „ég á þetta“ skeiðið!

Það er auðvitað ekki hægt að fara með gesti í skoðunarferð án þess að koma við í stærstu dómkirkju Norðurlanda.

Uppsalahringnum lauk niðri við Fyrisån. Þar skottuðust stóru börnin meðan þau litlu fengu sér sopa til að hafa örugglega nægilegt þrek fyrir bílferðina heim.

Þetta var því miður ekki alveg nægilega góður dagur til að sýna bestu hliðir borgarinnar þar sem hún var full af gömlum amerískum köggum (ég skil ekki enn alveg af hverju en einhver félagsskapur í kringum slíka gripi var greinilega með „fund“ í Uppsölum). Og kaggarnir voru fullir af fremur undarlegu fólki sem alla jafna sést ekki í bænum. Og út um bílgluggana hljómaði rokk og hljómurinn af bjórdósum sem voru kramdar! Bílatöffararnir áttu þó ekkert í töffaragengið sem hér sést!

„Ég á hana!“

Meðan við Eva sátum á bekk og gáfum ungunum að drekka birtist þessi hersing á gömlu járnbrúnni, brúðarhjón og lúðrasveit. Mér leið eins og ég væri mitt í franskri bíómynd!

Krílin tilbúin í ferðalag á sunnudeginum.

Ferðinni var heitið í krúttbæinn Sigtuna og hér erum við kengúrumömmurnar með ungana okkar í aðalgötunni.

Allir fyrir framan litla ráðhúsið, frá vinstri Gunni, Hugi, Eva, Embla, Guðrún, Baldur Tumi, María og Freyja (og Einar sem tekur myndina) ... heil hersing!

Í Sigtuna er nóg að skoða fyrir tvær litlar blómarósir.

Og hér erum við aftur með litlu pokadýrin. Mikið væri nú ótrúlega skemmtilegt ef við byggjum í sama landi, helst bara bakgarð í bakgarð, og gætum farið í svona gönguferðir daglega!

Hjónin á gangi eftir litlu sætu göngugötunni. Ég held mér sé óhætt að fullyrða að Evu og Gunna hafi þótt Sigtuna alveg jafn krúttlegur bær og okkur.

Það tilheyrir að koma við á kaffihúsinu Tant Brun í svona ferðum og fá sér köku og kaffi. Veðrið var milt og gott svo við sátum úti enda verður maður fljótt hálf sjóveikur inni í þessu gamla og skakka húsi!

Mæðgurnar sætu!

Og ein af Emblu sætu með silkihúfuna og -vettlingana sem ég prjónaði handa henni.

Baldur bangsi lét sér vistin á kaffihúsinu vel líka.

Eftir kökuát og kaffiþamb héldum við niður að smábátahöfninni í Sigtuna. Það færi Evu og Gunna bara vel að vera fjögurra barna foreldrar!

Freyja vildi ómögulega láta taka myndir af sér síðari hluta ferðarinnar og forðaðist alla paparazza eins og heitan eldinn!

Ég náði þó með klækjum einni mynd af henni að leika með Maríu og Huga niðri við vatnið.

Síðasta kvöldið prófaði Eva hvernig það væri að vera tvíburamamma. Ekki verður annað sagt en að henni farist það vel úr hendi! Embla virðist þó hissa og jafnvel dálítið móðguð að sitja ekki ein að mömmu sinni. Baldur Tumi lætur sér hins vegar fátt um finnast og nagar hendurnar á sér sem endranær.

Takk fyrir komuna elsku vinir, næst er það rósagarður hennar hátígnar!