Loksins vor!

Það kom á endanum, vorið, og gladdi fullorðna og börn ... og alls konar húsdýr!

         

Baldur Tumi fylgist með Maríunni sinni sem er úti á palli að leika. Hún getur ekki almennilega slitið sig frá þessum sæta litla bróður, þótt hún fari út!

María matar litla. Hann er alltaf svangur þessi ungi maður, opnar munninn upp á gátt (eins og sjá má) og hagar sér alltaf eins og það séu margir dagar frá síðustu máltíð enda þótt það séu bara tveir tímar.

Ánægður með þetta!

    

Einn fyrir stóru systur ...

Hér er Baldur Tumi að lesa uppáhalds bókina sína, Ebbas bageri. Þetta er bakstursbók fyrir börn og engin leið að skilja hvers vegna hann hefur tekið svona miklu ástfóstri við hana umfram bæði aðrar matreiðslubækur og sínar eigin. Ein kenningin er að þessi litríki skrautsykur á fyrstu opnunni (sem sést á myndinni) höfði til hans, önnur sú að myndin af Ebbu á forsíðunni minni hann á Maríu stóru systur en svo er auðvitað þriðji möguleikinn, að hann sé bara búinn að finna einhverja spennandi uppskrift þarna sem hann langar að prófa!

         

Sjáðu alla þessa steina hérna pabbi. Ég ætla að stinga þeim beint upp í munninn!

Baldri Tuma finnst malarstígurinn skemmtilegasti staðurinn í öllum garðinum. Ekkert er eins spennandi og að láta steinana renna milli fingranna og lauma kannski einum og einum upp í sig!

Að borða steina eða ekki, það er spurningin.

Hva, má maður ekki lífga upp á hversdaginn með smá leikrænum tilþrifum?

Það var ófermdarástand á bænum í byrjun maí. Baldur Tumi varð ægilega veikur með háan hita og á sama tíma réðst runni á Einar og gerði sár á hornhimnuna á honum. Við upplifðum algjört „einstæðingar í útlöndum móment“ þegar Einar þurfti að komast á sjúkrahúsið en gat ekki keyrt sjálfur (fyrir kvölum og blindu) og ég gat ekki skutlað honum þar sem ég var föst heima með barn með yfir 40° hita. Sem betur fer mundi ég skyndilega eftir fyrirbærinu leigubílar sem ég hafði annars alveg gleymt! Einar fékk krem í augað og þeir feðgarnir jöfnuðu sig báðir næstu daga þökk sé mikilli hvíld og kúri!

Meðan feðgarnir lágu í veikindum skruppum við hin á sveitabæinn Jälla til að fygljast með þegar kusunum var sleppt úr fjósinu í fyrsta sinn þetta vorið. Við höfðum náttúrulega ætlað að fara öll fimm en svo fór sem fór. Við lentum reyndar í smá hremmingum á leiðinni þar sem María fékk fossandi blóðnasir í miðri umferðarteppu. Ég komst ekki til að sækja pappír í skottið og ekki gátum við brunað á áfangastað og reynt að kippa málunum í liðinn þar því bíllinn rétt silaðist áfram. María reyndi árangusrlaust að þurrka sér með vísakvittun en var fljótlega orðin alblóðug í andliti og á höndum og hafði mestar áhyggjurnar af því að hringt yrði á lögregluna þegar við værum komin í sveitina og hún ásökuð um morð! Það rættist sem betur fer ekki en þar sem við vorum orðin allt of sein gafst ekki tími til að reyna að hreinsa hana svo hún hélt Tork skömmustulega fyrir andlitinu allan tímann!

  

Við gleymdum þó öllum áhyggjum af blóði og morðásökunum þegar bóndinn lauk upp fjósdyrunum og kátar kusur tóku að streyma út!

Jibbí!!!!!!!!!!!!!!!!

Stundum skapaðist ruðningur í allri gleðinni!

Við María og Hugi vorum sammála um að það væri bara ekki annað hægt en að hlæja af gleði! María fékkst meira að segja til að gægjast upp úr Torkinu og þá kom í ljós að hún hafði nuddað verstu verksummerkin burt.

Þessar voru að reyna að gera bylgju!

  

Og þessi ákvað að kíkja aðeins á gestina áður en hún sentist af stað aftur!

Eftir að þeim síðustu hafði verið sleppt út kíktum við aðeins á þær í haganum sem væntanlega verður heimkynni þeirra næstu mánuði. Á endanum sagði Hugi þó að ef hann sæi eina kusu enn pissa eða kúka þá myndi hann gubba og þá sáum við okkur þann kost vænstan að halda heim - enda voða erfitt að biðja kusur að halda í sér.

Baldur Tumi hressist sem betur fer á nokkrum dögum og var í fullu fjöri þegar þessi græna blaðra fylgdi stóru systkinum hans inn á heimilið eftir eitthvert barnaafmælið.

Hér lítur hann út eins og mesta rósemdarbarn að velta fyrir sér lífinu og tilverunni ...

... en hér kemur hans rétta sjálf í ljós!

Ha ha!

Svo má líka prófa að bíta í þetta!

Ég er komin í smá missjón að gera húsið mitt aðeins meira eins og í dönsku blöðunum. Ég fattaði allt í einu að það væri eins gott að reyna að kaup mér einhver fín gömul húsgögn meðan við erum búsett hér í Svíþjóð þar sem það er nánast ómögulegt að komast yfir svoleiðis á Íslandi, alla vega ekki á sæmilegu verði. Þannig að þegar við Einar rákumst á þennan fína eldhússkáp létum við slag standa. Svo nú loksins hef ég pláss fyrir fína stellið sem við keyptum hræbillegt fyrir jólin! Skápurinn er mikil listasmíð og ég sé alltaf fyrir mér að einhver stöndugur bóndi hafi fyrir 100 árum eða svo skellt sér í kaupstaðaferð og pantað skápinn hjá snikkara bæjarins. Það er frekar sjaldgæft að finna svona stóra skápa í þessum stíl svo þetta hefur væntanlega verið heilmikil fjárfesting. Við fengum hann hins vegar á góðu verði.

Miður maí og fyrsta máltíðin borðuðu úti á palli. Loksins!

Við skelltum okkur í göngutúr í sveitina einn fallegan maídag, þó ekki sömu sveit og ég birti myndir af hér um daginn. Þarna voru samt líka kindur með glæný lömb. Við Einar höfðum verið þarna á ferli daginn áður og þá var eitt svo nýfætt að það stóð varla í fæturnar og átti í mesta basli með að finna spenann. Ég var næstum farin að gráta af áhyggjum en bóndasonurinn sannfærði mig um að þetta myndi allt blessast. Daginn eftir sáum við líka ekki betur en að allir væru vel haldnir.

Þarna í bakgrunni eru tvö lítil lömb að príla á mömmu sinni. Alveg þekkti ég sjálfa mig í þessum sporum!

Við á sveitavegi.

Hugi prílar í trjám á leiðinni heim.

Og María bregður á leik ...

... og sýnir nýju skóna sem hún hafði fengið í Stokkhólmsferð daginn áður (myndir af því seinna).

Heima á Konsulentvägen var hins vegar einhver svona „og þyrnigerðið hóf sig hátt-stemmning“!

Einar var nefnilega að klippa hekkið en það hafði verið trassað í mörg ár og lá undir skemmdum. Þið sjáið sirka þarna hvað við græddum stóran flöt til viðbótar við garðinn eftir þessar aðgerðir. Já og það var einmitt við þessa vinnu sem Einar varð fyrir augnslysinu.

María og Hugi notuðu greinahlassið sem trampólín þangað til það var flutt í viðeigandi sorphirðu.

Ég sá í fréttunum að þetta er nýjasti landneminn á Íslandi, rauðhumla.

Þessi mynd er vissulega úr fókus en mér finnst samt svo krúttlegt að sjá hvernig fæturnir á henni dingla niður meðan hún er á flugi!