Ljúfa líf

Júní á Konsulentvägen

Fyrsta uppskeran úr matjurtagarðinum okkar voru radísur, rauðar og bústnar. Einar var í skýjunum!

Við vorum svo heppin að hafa Gittu í sinni árlegu heimsókn hjá okkur svo Einar gat boðið fleirum upp á góðgætið.

Gitta borðar radísu og Baldur Tumi horfir á hana aðdáunaraugum enda ekkert smá ánægður með þessa nýju ömmu!

Það skemmtilegasta við að fá gesti er að fylgjast með því hvað Baldur Tumi tekur öllum opnum örmum og þykir gaman að hitta nýtt fólk. Hér er hann (óvanalega rauðhærður!) að skoða nýju dýrabókina sem hann fékk frá Gittu ömmu. Öfugt við stóru systkini sín elskar hann allt svona dót með hljóðum, ljósum og tökkum!

Það voru fastir liðir eins og venjulega meðan Gitta var hjá okkur. María og Hugi fóru með hana í stóru rennibrautina og svo var að sjálfsögðu litað í litabækur!

Þeir eru ófáir ísarnir sem við á Konsulentvägen höfum sporðrennt það sem af er sumri!

         

Fátt er nú krúttlegra en litlar skítugar iljar og táslur svona yfir hásumarið!

Stéttin í sumarskrúða. Nú er undursamlega fagra flagglínan sem ég fékk frá henni Ingu vinkonu minni síðasta sumar loksins komin upp. Ég tímdi ekki að hengja hana upp úti þá þar sem nokkuð var liðið á sumarið þegar hún barst mér og ég var hrædd um að hún yrði strax blettótt og óhrein utandyra og mér fannst að ég þyrfti þá að minnsta kosti að hafa notið hennar heilt sumar ef hún færi illa. Þannig að ég hengdi hana í staðinn upp í eldhúsglugganum og þar hefur hún glatt okkur í allan vetur. En nú er hún sem sagt komin upp úti og nýtur sín betur en ég þorði að vona! Og það besta af öllu er að eftir að hafa staðið úti í um mánuð er hún enn eins og ný svo ég sé fram á að geta dáðst að henni í mörg sumur í viðbót!

Snækórónan var líka í háblóma og setti sumarlegan svip á stéttina.

Einar klippti og snyrti rósarunnana undir eldhúsglugganum en þeir hafa litið sífellt verr út með hverju árinu síðan við fluttum í húsið. Við höfum margoft ákveðið að moka þá bara upp og búa til blómabeð í staðinn. En svo klippum við þá til svo þeir líta strax betur út og svo blómstra þeir svo fallega að við höfum aldrei tímt að útrýma þeim þegar til kastanna hefur komið. Sjáum til hvað gerist að ári!

Rauðhumlurnar voru æstar yfir bóndarósinni!

Eftir að María og Hugi byrjuðu í sumarfríi vantaði þau verkefni og María hefur því verið ákaflega dugleg að baka og traktera okkur hin á alls kyns góðgæti.

Hér var boðið upp á jarðaberjakökur sem upphaflega áttu að vera rúlluterta en vegna smávægilegra mistaka breyttust í svona tertusamlokur - og voru auðvitað bara betri fyrir vikið!

Þið munið vonandi eftir bleika hákarlinum sem Baldur Tumi fékk í afmælisgjöf. Hann varð nefnilega fljótt eins og sjötti fjölskyldumeðlimurinn, ja eða að minnsta kosti eins og gæludýrið okkar. Við bjuggum til langar sögur um bleika hákarlinn sem flestar gengu út á að hann væri ákafur aðdáandi sænska leikarans Ola Rapace. Okkur til óvæntrar ánægju var Ola Rapace einmitt í aðalhlutverkum í hverri bíómyndinni og sjónvarpsþættinum á fætur öðrum einmitt þær vikur sem bleiki hákarlinn dvaldi hjá okkur svo hann átti virkilega góðar stundir hér á Konsulentvägen. Um miðjan júní var hann hins vegar orðinn einstaklega framlágr og lyftist varla nokkuð frá gólfi. Ljóst var að komið væri að kveðjustund.

         

Börin knúsuðu bleika hákarlinn bless döpur á svip (samt aðallega fyrir myndavélina). Myndin fyrir aftan Huga heitir annars „Good bye“ og á því ákaflega vel við á þessari stundu. Myndirnar er ég búin að eiga í 2-3 ár en hef aldrei alveg verið viss um hvað ég vildi gera við þær svo þær hafa ekki enn náð upp á vegg. Þarna var ég hins vegar að máta þær fyrir ofan sófan og get glöð tilkynnt að þær hafa nú verið hengdar upp þar og taka sig stórvel út!

Baldur Tumi er á máta-skó-tímabilinu! Þessi mynd er úr fókus en svo hrikalega krúttleg að hún verður að fá að fljóta hér með.

Ég er búin að reyta hár mitt yfir ljótu og óaðgengilegu dótakössunum hans Baldurs Tuma í allan vetur. Þar sem hann á ekkert herbergi fær hann að hafa dótið sitt í einu horni sónvarpsherbergisins og þar hefur það sem sagt verið í tveimur dótakössum. Ofan á kössunum hefur svo verið einhver bangsahrúga og allt hefur þetta orðið til þess að hann sækir ekkert í þessa kassa. Og svo var þetta eitthvað svo ljótt - voða lítið eins og í dönsku blöðunum alla vega! Ég hafði í smá stund verið að gæla við að fá litla hillu í hornið og setja dótið í hana og einn daginn þegar ég var eitthvað að púffa yfir ástandinu rifjaðist skyndilega upp fyrir mér að ég átti eina hvíta Billy hillu úti í bílskúr! Hún var reyndar í herfilegu ástandi en tuska og ajax dugðu til að koma henni í toppform. Síðan tíndi ég saman bastkörfur héðan og þaðan úr húsinu og úr varð þessi fína dótahilla.

Þarna þar sem Baldur Tumi liggur eiga reyndar að vera tveir stórir bastkassar fullir af legokubbum en það er líka mjög fyndið að troða sér þangað inn! Mér til mikillar gleði lítur þetta ekki bara betur út heldur hefur drengurinn ver mun duglegri að sækja kubbana eða opna til dæmis fínu töskurnar og leika með dótið sem er geymt þar.

Dótahillan var hluti af mjög umfangsmikilli tiltekt sem sett var í gang þar sem við áttum von á góðum gestum, nefnilega ömmu Imbu og ömmu á Sóló. Á sama tíma fór líka í gang mikið bakstursbrjálæði þar sem ég vildi geta trakterað ömmurnar á einhverju góðgæti meðan þær væru hér. Meðal þess sem ég gerði voru þessir rabarbaradraumar.

Rabarbaradraumarnir voru sannkallaðir draumar! Og mér fannst ég ógurlega dugleg að búa þá til þar sem þetta var svolítið flókinn bakstur þar sem meðal annars þurfti að búa til rabarbarakompott! Mér fannst það hljóma mjög erfitt!

En kompottgerðin gekk vel og var alls ekki eins mikið mál og ég hélt og úr urðu þessar fallegu og ótrúlega góðu kökur! Ömmurnar virtust að minnsta kosti nokkuð ánægðar með þær. Allt um ömmuheimsóknina getið þið annars lesið í næsta albúmi!