Litli ljúfi og stóru sniðugu

Nokkrar nýjar myndir af stórum sem smáum íbúm á Konsulentvägen 2B!

Við fjárfestum loksins í ömmustól fyrir litla manninn. Vorum búin að fara ótal ferðir í barnabúðir borgarinnar í leit að rétta stólnum en fundum aldrei neitt sem við vorum sátt við þangað til við sáum þennan krúttlega bangsastól. Þegar við vorum búin að setja hann saman vorum við auðvitað svo spennt að láta litla prófa að við smelltum honum sofandi í sætið!

Hann vaknaði þó fljótlega og fór að skoða dótið af miklum áhuga eins og honum einum er lagið!

Á þessari mynd lítur hann nú út hálfpartinn fyrir að vera brosa þótt sú sé ekki raunin. Brosið er hins vegar mál málanna hér á heimilinu þessa dagana! Litli maðurinn er farinn að brosa en er enn frekar spar á slíkar kúnstir. Við sitjum þó iðulega öll fjögur yfir honum og geiflum okkur og gefum frá okkur hin ýmsu hljóð í von um eitt lítið að launum! Lilla líst sjálfsagt ekkert á þetta lið sem hann býr með!

         

Rósa, Fjölnir og Flóki komu og heimsóttu litla kútinn og þau heiðurshjón fengu auðvitað að máta hann. Var það mál manna að þeir Fjölnir færu hvor öðrum ákaflega vel enda báðir svolítið „strawberry blonde“. Prjónaáhugafólki er svo bent á að Rósa er sú sem gerði handa mér peysuna dásamlegu!

Aðdáun!

Er maður ekki friðsæll að lúlla í vöggunni?

María svæfði litla bróður sinn alveg sjálf einn daginn og var ekki lítið stolt af afrekinu.

Það er greinilega gott að eiga stóra systur sem strýkur manni blíðlega um ennið þar til maður dettur út af.

Á meðan var stóri bróðirinn upptekinn við að teikna og skrifa. Eins og lesendur muna eflaust hefur hann gegnum tíðina tekið að sér ýmis metnaðarfull verkefni. Það voru uppskriftirnar, Shrek bækurnar, Batmansögurnar og nú eru það Andrésar Andar bækur sem eiga hug hans allan. Hann er varla vaknaður á morgnana þegar hann er byrjaður að vinna og er enn að teikna og skrifa meðan kvöldsagan er lesin! Ef mér skjátlast ekki er hann búinn með þrjár bækur nú í sumar og inniheldur hver þeirra 9-10 sögur sem allar eru margar blaðsíður!

Það er annars ekkert smá sem maður hefur mannast við að verða stóri bróðir! Hugi hefur sagt okkur að nú þýði ekki lengur að haga sér eins og átta ára heldur þurfi hann bara að vera eins og fullorðinn! Hann er því meðal annars orðinn mjög einbeittur í því að þakka fyrir sig, biðja fólk að gjöra svo vel og nota aðra kurteisisfrasa. Alveg upp á eigið einsdæmi hefur hann líka gert heilmikið átak í að hætta að vera feiminn eða að minnsta kosti að láta feimnina ekki stoppa sig. Um leið og við höfum svolitlar áhyggjur af allri þessari ábyrgð sem hann tekur á sig erum við auðvitað voða stolt að eiga svona stóran og duglegan strák.

Einar hefur séð okkur fyrir heimabökuðu bakkelsi með reglulegu millibili frá því litli bróðir fæddist. Hér er risa sólskinsbulla með hindberjum.  Þetta er sem sagt hefðbundið snúðadeig með vanillukremi ofan á og hindberjum. Eftir bakstur er glassúr sullað yfir herlegheitin. Mjög afar gott!

Eitt kvöldið dreif Einar sig út í mýflugnasverminn og klippti blómin af fläderrunnanum okkar til matvælaframleiðslu.

Hér er saftgerð að hefjast.

Við drekktum blómunum í sjóðandi vatni, sítrónusafa og sykri og svo var bara að bíða í nokkra daga.

Lilli æfir handahreyfingarnar í suður amerískum dönsum!

Nokkrum dögum síðar var saftin síuð og henni hellt á flöskur. Afraksturinn er alveg hreint ágætur.

Aðdáun II!

Eins og áður hefur komið fram höfum við lítið getað verið utandyra vegna myggárása. Þá er um að gera að finna upp á einhverju sniðugu inni ... eins og til dæmis að gera súkkulaðikúlur.

Það þótti mjög fyndið og skemmtilegt að vera svona skítugur og klístraður á höndunum!

Notaleg stund í stofunni á Konsulentvägen. Hugi og María lita, Einar les og litli nýtur lífsins í stólnum sínum, skoðar dótið og hlustar á tónlistina sem þar er í boði.

Glaðlegur!

Bræður að sýsla sitt.

     

Ykkur finnst þetta kannski þrjár alveg eins myndir en mömmunni finnst þær sýna ýmis ólík en undurfalleg svipbrigði og vera vel þess virði að birta þær allar!

Systkinin svolítið þreytuleg. Mætti halda að það væri María sem vaknaði á tveggja til þriggja tíma fresti alla nóttina til að sinna ákveðnum ungum manni en ekki foreldrarnir!

Ég keypti sólhatt á litla manninn um daginn sem við mátuðum einn morguninn. Hann er nú svolítið of stór og svolítið of fyndinn!

Góðan daginn og velkomin á hrísgrjónaakurinn minn!

  

Þetta trúaða fiðrildi heimsótti okkur á dögunum! Samkvæmt fínu fiðrildabókinni sem Svanhildur vinkona mín gaf mér um daginn heittir þessi tegund Small Tortoiseshell á ensku og er eitt algengasta fiðrildið í Evrópu. Það hefur hins vegar valdið okkur þó nokkrum heilabrotum hvernig það komst inn í húsið þar sem hér er flugnanet fyrir öllum opnum gluggum og útidyrahurðin ekki opin nema rétt meðan maður hleypur út og ólíklegt að svona stórt fiðrildi færi fram hjá manni á leið inn eða út. Svo greinilega er einhvers staðar brostinn hlekkur í flugnavörnum heimilisins!

Einn heitan sólskinsdaginn skelltum við okkur í bæjarferð með vagninn. Það er nefnilega ekki hægt að fá sér göngutúr hér í Vänge vegna flugnanna en í miðbænum er ástandið þolanlegt svo vagninn hefur bara verið í skottinu síðan þetta ástand byrjaði. Litli maðurinn var þó með silkihúfuna sína fínu til öryggis svo engin fluga gæti stungið hann í kollinn. Hér erum við um það bil að fara að leggja í hann en urðum að fresta för um nokkrar mínútur til að taka myndir af þessum ótrúlega sæta litla strák sem við eigum.

Ég veit ekki alveg hvort þetta sæta bros var alvörunni bros eða ekki þar sem ég var í þónokkurri fjarlægð frá honum og með myndavélina á milli og hann var því tæplega að brosa við mér. En krúttlegur er hann hvort heldur sem er!

Og ótrúlega hress og kátur!

Ljúfur Einarsson. (Vissuð þið að það er hægt að nefna barn Ljúfur? Hér á Konsulentvägen er ein helsta skemmtunin þessa dagana að búa til sniðugar nafnasamsetningar. Ljúfur Loðmundur er í uppáhaldi og líka Smári Smiður!)

  

Hér var hins vegar óumdeilt bros fest á filmu!

Feðgarnir á rölti eftir Járnbrúnni ...

... meðan mamman tekur myndir af ánni og dómkirkjunni.

Þessi tvö! Ég held þó að þetta verði síðasta myndin sem ég birti af sjálfri mér þangað til ég verð búin að komast í almennilega klippingu! Hárið á mér er vonlaust undir venjulegum kringumstæðum en á meðgöngunni hefur það vaxið um svona 2 cm á mánuði og tvöfaldast að þykkt. Eftirminnilegt er þegar ég ætlaði að setja teygju í hárið í fæðingunni og hún sprakk undan álaginu! Það er því í senn tilhlökkunar- og kvíðaefni þegar eftir-fæðingar-hárlosið byrjar á næstu vikum!

Mig langar alltaf svolítið að búa bak við þennan glugga!

Það er voða gott að fá að sprikla bleiulaus í mömmu og pabba rúmi eeeeeldsnemma á morgnana!

         

Orgelkennarinn Frú Unnur Margrét Árnadóttir kom við hér á Konsulentvägen og uppfræddi okkur hin ströng á svip! Eða bara: María fann gleraugu ömmu sinnar sem gleymst höfðu hér og datt í hug að fara í dulargervi!

Henni dettur annars ýmislegt í hug þessari stelpu og hér er hún við eina af sínum eftirlætisiðjum, að steikja sérréttinn sinn Skrímslapönnukökur Hagrids.

Verið velkomin í pönnukökur á Konsulentvägen hvenær sem er, kæru lesendur!