Krakkakrútt í febrúar

María og Hugi hafa haft nóg fyrir stafni í febrúar ... hér kemur brot af því besta!

Hugi varð heldur fúll við pabba sinn um daginn þegar komið var heim af leikskóla og úr búðarferð. Ekki fékkst pilturinn til að fara lengra inn í íbúðina en sem nam þriðju tröppu í stiganum! Þar sat hann sem fastast ... í tæpan klukkutíma!

Að sjálfsögðu féll þó allt í ljúfa löð þegar mamma kom heim ... enda er mamma jú best eins og allir vita!

Hugi hefur verið mjög upptekinn af hvers kyns hlutverkaleik að undanförnu. Klæðir hann sig þá upp á í einhver ákveðin föt sem tákna tiltekna persónu. Þegar hann fer í múnderinguna sem sést hér að ofan breytist hann til að mynda umsvifalaust í Harry Potter! Það sést reyndar ekki nógu vel á myndinni en það allra krúttlegasta við þennan búning eru ofnhanskarnir sem hann klæðir sig í eins og sokka!!! Við foreldrarnir höllumst að því að þeir eigi að tákna sundfitin sem Harry Potter ber í einu atriði fjórðu bókar! Drekahúfan fylgir búningnum einfaldlega vegna þess að það eru stundum drekar í bókunum um galdrastrákinn. Það tekur greinilega á að vera Harry Potter ... svo mikið að maður lognast hreinlega út af eftir smá leik!

Brúðkaup á Bárugötu! Já, Hugi hefur verið afar upptekinn af hvers konar giftingum að undanförnu. Nú er hann alveg búinn að gleyma ungfrú Borg en hyggst giftast annað hvort mömmu sinni eða Maríu. Vinsæll leikur þessa dagana er því að vera prins og prinsessa að gifta sig! Hér má sjá krúttin við eina slíka athöfn!

Hugi er nokkurn veginn alveg með það á hreinu hvernig svona giftingar fara fram. Fyrst á að dansa, svo á að kyssast og þá er maður giftur!

Dansinn dunar (takið sérstaklega eftir prinsaskónum sem teljast ómissandi partur af búningnum ... þó hann sé í krumma!)!

Ég lýsi ykkur hér með hjón!

Annað gervi sem vinsælt er að bregða sér í er Íþróttaálfurinn. Sá búningur samanstendur af þessum stígvélum og þesari húfu! Hver segir að það þurfi að kaupa einhverja rándýra grímubúninga til að börn geti leikið þekktar persónur!!!

Þrátt fyrir að vera Íþróttaálfurinn lætur Hugi það ekkert aftra sér frá því að fá sér snúð með súkkulaðiglassúr, ó, nei!

Íþróttaálfurinn fallinn!!!

Krakkarnir skutluðu sér í Heiðmörk með pabba sínum fyrir skemmstu hvar þau höfðu mælt sér mót við Svein föðurbróður og hans fjölskyldu. Bárugötumamman varð að boða forföll vegna gífurlegs verkefnaálags. Hér eru Bárugötusystkinin sæl og glöð að príla og Sveinn frændi tekur myndir í baksýn.

Sveinn frændi enn að mynda ... og Einar augljóslega líka!

Systurnar Sveinsdætur á gangi í Heiðmörk. Hér sést Ester ...

... og þetta er Bríet!

Nú fer senn að líða að því að orkuátaki ljúki. Munum við Bárugötuforeldrarnir gleðjast mjög enda orðið dulítið þreytandi að þurfa að telja fram banana og gulrætur á hverju einasta kvöldi. Við verðum alveg búin á því þegar kemur loks að því að vinna skattskýrsluna! María hefur þó staðið sig einstaklega vel og mun ljúka átakinu með góðum vitnisburði. Hugi fékk bók líka en hefur heldur lítinn áhuga haft á henni þar til hann tók sig til fyrir skemmstu og límdi miða í hvern einasta reit ... að sjálfsögðu algjörlega óháð neyslu þann daginn!!!

María getur dundað sér tímunum saman við að kubba ... hér hefur hún búið til hásæti og drottningu!

Allt í drasli! (Ekki samt hringja í þáttinn og biðja um aðstoð fyrir okkur!)