Konsulenthaust

Það er komið haust á Konsulentvägen! Dásamlegt haust uppfullt af litskrúðugum laufum, dásamlegum börnum og ömmuheimsóknum!

Þetta verður væntanlega eina októberalbúmið á þessari daufu heimasíðu! Ristjórn síðunnar lofar, lofar, lofar bót og betrun í nóvembermánuði þegar önnum við greinaskrif og ritrýni er lokið! Njótið vel!

 

Eitt kvöldið þegar við Einar gengum til náða komum við að Huga steinsofandi í þessari stöðu! Mikið Tinnaæði hefur gengið yfir heimilið og pilturinn nýtir hverja lausa stund til að blaða í Tinnabókunum sínum ... augljóslega líka þegar hann er svo þreyttur að hann er alveg að lognast út af!

Ég hélt að það væri bara í teiknimyndum og lélegum grínmyndum sem fólk sofnaði með bækur yfir andlitinu!

Um daginn var Hugi dálítið slappur og með ljótan barkahósta og fékk því að vera heima í nokkra daga. Hér er hann að borða vínber með frjálsri aðferð í þessu veikindaleyfi.

„Hey, ég sé mig í litla glugganum á myndavélinni!!!“

Ég skrifaði litla ritrýni um þessa skemmtilegu bók, Ég vil fisk eftir Áslaugu Jónsdóttur, fyrir skemmstu. Hún er líka afar vinsæl hjá Konsulentsystkininum, María les upphátt fyrir bróður sinn og svo hlæja þau og skemmta sér yfir sögunni.

Ekkert eðlilega fyndin bók!!!

Við erum aftur farin að kveikja upp í kamínunni okkar á síðkvöldum. Einar fjárfesti í heilum þremur rúmmetrum af brakandi þurru og ilmandi birki fyrir veturinn þannig að við ættum að eiga nóg að bíta og brenna í vetur ... alla vega brenna!

Mér hefur ekki enn tekist að finna mér kór hér í Uppsölum en María er hins vegar komin barnakór hér í Vänge! Þetta er kannski klassískt dæmi um það þegar móðir yfirfærir eigin langar yfir á dótturina því ég hvatti hana mjög til að taka þátt! En hvað sem mínum löngunum líður er stúlkan ákaflega ánægð í kórnum enda hefur henni alltaf þótt gaman að syngja. Um miðjan október voru svo fyrstu tónleikar kórsins þegar sungið var við messu og skírn í Vänge kyrka. Hér er kórinn búinn að stilla sér upp og koma sér í þægilega söngstöðu fyrir giggið!

Vänge kyrka er afskaplega lítil og sæt kirkja og ekki spilltu öll þessi litlu og sætu börn fyrir!

Okkur fjölskyldu Maríu þótti þó verra þegar ein kórstúlkan mætti of seint og var stillt upp beint fyrir framan litla hjartagullið okkar! Kannski eins gott því annars hefðu myndirnar frá konsertinum án efa orðið 200 ... og allar eins!

Amma Imba var í heimsókn hjá okkur þessa helgi og beint eftir messuna í kirkjunni héldum við til Stokkhólms þrjár kynslóðir kvenna. Förinni var heitið í Göta Lejon leikhúsið á Södermalm til að sjá Sound of Music. Okkur brá reyndar dálítið í brún þegar við komum upp úr bílagöngunum á eyjunni og sáum ekkert nema löggur og löggubíla, vegtálma og glundroða við leikhúsið. Þar sem við vorum nokkuð tímanlega á ferðinni röltum við á næsta kaffihús og á leiðinni sáum við að lögregluþyrla sveimaði einnig yfir höfðum okkar. Við ákváðum því að biðja Einar um að kanna hvað væri eiginlega í gangi á netinu og meðan við sátum grunlausar á kaffihúsinu að borða sætabrauð og drekka kaffi komst hann að því að framið hafði verið vopnað rán bara nokkrum húsum frá leikhúsinu! Tveir grímuklæddir menn vopnaðir skammbyssum höfðu ráðist að peningaflutningamönnum sem voru að hlaða hraðbanka í götunni, komst burt með ránsfenginn og hafa, að því er ég best veit, ekki fundist síðan!

Við mæðgurnar komumst þó allar klakklaust fram hjá löggunni og inn í leikhúsið og skemmtum okkur ákaflega vel næstu klukkutímana á sýningunni Sound of Music eða Sång från Berget með stórstjörnunum Tommy Nilsson og Pernillu Wahlgren í aðalhlutverkum!

Við gerðum ýmislegt fleira skemmtilegt í heimsókn ömmu og hér sitjum við á Landingskaffihúsinu góða og gæðum okkur á prinsessutertum og kaffisopa.

Bakkastaðaamman er nýbúin að eignast ægilega flotta myndavél sem hún notaði óspart í ferðinni enda hvergi betri fyrirsætur að finna en einmitt á Konsulentvägen!

     

Hugi með leikræna tilburði!

Eftir að prinsessutertunum hafði verið sporðrennt röltum við yfir í Stadsträdgården þar sem við hittum þennan sæta íkorna. Hann lét sig því miður hverfa upp í laufskrúðið áður en náðist að taka betri myndir af honum!

Klassík! (Finnst ykkur rauði vetrarjakkinn minn ekki fínn?!)

Amman í óða önn við að festa besta myndefnið á filmu ... uhh ég meina minniskubb.

        

Hangikjötið María og Hugi!

María var gríðarlega stolt af sér í þessari ferð á leikvöllinn því nú gat hún í fyrsta skipti lesið sig yfir alla rimlana af eigin afli! Ekki vantar hana þó nema nokkra sentimetra upp á að geta bara flutt hendurnar áreynslulaust á milli meðan hún röltir þennan smáspotta eftir stéttinni!

Apaköttur, apaspil!

Engillinn María með viðeigandi geislabaug!

Up side down, boy you turn me, inside out, and round and round ...

Ég hef einhvern tímann sagt frá því hér á síðunni hvað ég varð fyrir miklum vonbrigðum með haustlitina hér í Uppsölum í fyrra. Laufin urðu einhvern veginn bara dökkgræn, svo brúngræn og svo duttu þau af. Ég hef grun um að það hafi aðallega verið tíðarfari um að kenna, það var fáránlega hlýtt hjá okkur allt haustið, stuttermabolaveður út september og það var ekki fyrr en um miðjan október að við þurftum að fara að huga að skjólfatnaði. Haustið í ár hefur hins vegar verið nokkuð svalara og ég get mér þess til að einmitt þess vegna höfum við fengið að upplifa dásamlega litadýrð hér síðustu vikur. Sum trén hafa bókstaflega logað! Reyndar eru engin af þeim á akkúrat þessari mynd en þetta er falleg haustmynd engu að síður!

Fimleikamaðurinn og áhættuleikarinn Hugi Einarsson! Ég hef reyndar lengi reynt að fá hann til að fara í ballett ... kannski það sé líka dæmi um það þegar móðir yfirfærir eigin langanir yfir á börnin?! Skiptir svo sem ekki öllu þar sem drengurinn harðneitar ... enn sem komið er!

Dreyminn prílari.

        

Ég er loksins búin að ljúka við þessa kósípeysu á Maríu. Einmitt þarna vorum við að reyna að ákveða hvaða borða við ættum að nota í mittið á henni en enduðum þó á að velja hvorugan þeirra sem sjást á myndunum. Peysan mun án efa koma að góðum notum á köldum frostdögum í vetur því hún er prjónuð úr tvöföldu garni með blöndu af merinoull og kasmírull. Þetta var í fyrsta sinn sem ég stækkaði sjálf uppskrift og mér sýnist það hafa tekist bærilega ... hún á sko að vera svona síð og með svona víðu hálsmáli, það er ekki mér að kenna!!!

Smáfuglarnir eru óðum að tínast til byggða úr skóginum eftir sumarið. Í haust hef ég í fyrsta sinn séð domherra í garðinum mínum og um daginn tókst mér að festa heilan hóp af þeim á filmu. Karlfuglinn er þessi með rauða brjóstið til hægri en hinir tveir eru kvenfuglar (ef ég skil litlu fuglabókina mína rétt!).

Ég vona heitt og innilega að domherrarnir verði fastagestir í litla fuglahúsinu mínu í vetur ásamt gömlum kunningjum frá því í fyrra, blåmesum og talgoxum!

Sjáumst í nóvember!!!