Konsulentar í kirsuberjadal

 

Síðasta helgin í apríl var einstaklega ljúf hjá okkur fjölskyldunni og einkenndist öðru fremur af bleikum og blómstrandi trjám eins og sjá má á eftirfarandi myndum!

Á laugardeginum héldum við til Stokkhólms í þeim tilgangi helstum að skoða kirsuberjatrén í Kungsträdgården sem ég vissi að hefðu verið í háblóma í vikunni á undan. Áður en við héldum í garðinn litum við aðeins við í NK og keyptum bæði dót og efni (til að sauma úr sem sagt). Þegar við höfðum lokið okkur af þar og ætluðum að drífa okkur í kirsuberjadýrðina hinum meginn við götuna var hins vegar farið að hellirigna! Þar sem allir voru svangir ákváðum við að stinga okkur inn á næsta Max og vonast til þess að það stytti upp meðan við borðuðum hamborgara og franskar. Það sést því miður ekki á þessari mynd af Maríu hvað það rigndi hrikalega mikið fyrir utan gluggann!

Hugi var spenntur yfir Lego-inu sem hann hafði fengið að kaupa sér í dótabúðinni í NK.

Það rigndi og rigndi og til að tefja tímann á Max borðuðum við hamborgarana okkar mjög hægt og bættum svo kaffi og ís aftan við máltíðina! Þegar við vorum um það bil að fara að gefast upp og farin að hugsa um að ösla bara pollana beint niður á lestarstöð og halda heim á leið stytti loksins upp! Reyndar kom í ljós að fínu kirsuberjatrén í Kungsan voru komin aðeins yfir hápunkt sinn en þau voru engu að síður falleg! Takið sérstaklega eftir öllum fíngerðu og bleiku krónublöðunum sem hafa sáldrast yfir stéttina!

Það var auðvitað ekki að spyrja að því að um leið og rigningunni slotaði fór himininn að ryðja af sér og sólin gægðist fram! María og Hugi heilsuðu upp á andapar sem synti í mestu makindum á tjörninni (sem er stundum tjörn og stundum eitthvað allt annað!). Takið sérstaklega eftir St. Jacobs kirkjunni þarna í baksýn, mér finnst hún svooo falleg!

Meðan börnin sulluðu í vatninu og spjölluðu við endur tók ég myndir af kirsuberjagreinum! Inn á milli voru nokkur tré sem ekki voru farin að missa blómin að ráði og undir þeim stillti ég mér upp með myndavélina! Og himininn fyrir ofan orðinn heiðblár!

Blóm og regndropar.

Ótrúleg fegurð!

Horft yfir að Kungstädgårdsgatan undan kirsuberjatrjánum.

Hefðbundin uppstilling með óhefðbundnum bakgrunn!

Systkinin í sykursætu umhverfi!

  

Mikið er ég heppin að eiga svona sæt og skemmtileg börn og búa á stað þar sem ég get tekið myndir af þeim í svona dásamlegu umhverfi!

Þegar loksins tókst að slíta mig frá kirsuberjatrjánum héldum við göngunni eftir garðinum áfram og rákumst á þetta vígalega ljón.

Einnig varð á vegi okkar slefandi svanur.

Dimmalimm!

Kirkja heilags Jakobs og biblíulegur himinn!

Enn og aftur laumar St. Jacobs kirkjan sér inn á myndirnar mínar! Húsið lengst til hægri er Konunglega Óperan en þar sem hún er óheyrilega ljót um þessar mundir með stillönsum og bláum gámum allt í kring kemst hún ekki lengra inn á myndina en þetta!

Og hér er kirkja heilagrar Klöru ... mætti halda að ég væri sérstök áhugamanneskja um kirkjubyggingar en ég held nú að ég teljist ansi mikill grænjaxl í þeim efnum! En ég elska turna, hef alltaf verið algjörlega heilluð af þeim!

María stóð fyrir smá innsetningu á leiðinni í lestina, sæl og glöð eftir góðan dag í stórborginni!

Daginn eftir lögðum við enn og aftur af stað í leit að fallegum kirsuberjatrjám! Við byrjuðum við Sýslumannsgötuna hér í Uppsölum þar sem öll tré stóðu í háblóma!

Systkinin undir blómahafi. Mér finnst þetta svo ótrúlega krúttaraleg mynd, held að það sé aðallega út af þessum stuttu fótleggjum sem dingla þarna fyrir ofan gangstéttina!

Krúsídúllur og kirsuberjablóm.

Já, já, enn ein af þessum myndum, hugsið þið sjálfsagt núna! En bíðið við! Þessi er nefnilega annað og meira en bara hefðbundin kærustuparamynd af okkur Einari, hún er nefnilega dulbúinn brandari líka! Sko, ímyndið ykkur að kirsuberjatréð þarna fyrir aftan myndi bleikt afróhár á hausnum á Einari ... nú eruð þið alla vega farin að brosa út í annað, ég sé það alveg!!!

Við Sýslumannsgötuna er líka eitt lítið, hvítt magnolíutré.

  

Tvær af milljón myndum sem ég tók þarna!

Hugi æfði sig í að standa á höndum og þessi kappklæddi maður þarna fyrir aftan fylgdist einbeittur með!

Feðginin sætu tylltu sér hins vegar á vegginn, nutu blómanna og ræddu um lífið og tilveruna.

Frá Uppsölum lá leiðin til Enköping. Þegar Einar var að vinna þar um áramótin var honum sagt að bærinn þætti sérstaklega fallegur á vorin vegna óteljandi blómstrandi trjáa og síðan þá hef ég verið harðákveðin í aprílferð þangað! Miðja vegu milli Uppsala og Enköping er að finna skemmtilegustu „búð“ í heimi! Á föstudögum, laugardögum og sunnudögum stillir eldri maður bílnum sínum upp við stór gatnamót og selur kókosbollur, hafrabollur og piparkökur úr skottinu! Kókosbollurnar eru nýbakaðar (reyndar eru þær ekkert bakaðar en þið skiljið hvað ég meina!) og alveg hrikalega góðar. Hafrakúlurnar venjast líka vel (mér hafa sko alltaf þótt svona hafra-kókoskúlur rosalega vondar) og einmitt núna er ég til dæmis með netta magapínu eftir að hafa gúffað nokkrum í mig í hádeginu!

Einar snýr vel byrgur til baka í bílinn!

Eftir að við komum til Enköping vorum við ekki lengi að staðfesta að orðrómurinn um blómskrúða á vorin var á rökum reistur! Þessi mynd er tekin á aðaltorginu en þar stóð akkúrat yfir markaður þegar við komum. Þar sá ég skrýtnustu flík sem ég hef á ævi minni augum litið og sé enn eftir að hafa ekki tekið mynd af henni! Í grófum dráttum var þetta hnésíð samfella sem væntanlega hefur átt að veita mjúkum fellingum aðhald innanundir spariklæðnaði. Í klofinu var hins vegar stórt gat, væntanlega gert til þess að ekki þyrfti að klæða sig úr allri múnderingunni (og trúið mér það virtist ekki létt verk að klæða sig úr þessari græju) ef maður skyldi þurfa að skreppa á salernið á miðri árshátíð! Á bakinu var svo eins og risastórt ílangt hnappagat sem ég er enn að brjóta höfuðið um hvaða tilgangi hafi þjónað! En æ, nú er ég kannski komin dálítið langt frá efninu og yfir í töluvert ósmekklegri hluti en blómstrandi tré!

Á torginu í Enköping voru líka magnolíutré í blóma.

Það var mikið um að vera í Enköping þennan dag því á rölti okkar um miðbæinn rákumst við óvænt á farandtívolí! Ég vildi óska að ég ætti mynd af Huga sem ljómaði eins og sólin þegar hann bar þessa dýrð fyrst augum! Að sjálfsögðu vildu þau fá að prófa einhver tæki og treystu sér til að fara alein í þennan krúttlega grasmaðksrússíbana!

Þarna glittir í þau himinsæl á fljúgandi ferð!

Þetta litla parísarhjól er nú áreiðanlega krúttlegasta tívolítæki sem ég hef séð! Vagnarnir eins og lítil blóm og yfir þeim sveima fiðrildi! Hugi og María eru þarna efst uppi og eins og sjá má átti Hugi ansi erfitt með að standast freistinguna að standa aðeins upp þrátt fyrir að foreldrarnir æptu skammir neðan af jörðinni!!!

Hugi virtist einhvern veginn telja að ferðir í tívolítækjum gengju út á að veifa því hann vinkaði til okkar allan tímann voðalega borginmannlegur!

Kát að komast einn hring í viðbót!

Eftir parísarhjólið fengu systkinin á spreyta sig á tombólu og græddu litla bangsa sem mér þykja algjört drasl en þeim þykja hinar mestu gersemar! Minnir mig á þegar Elli bróðir vann dúkku í tívolíinu í Hveragerði! Hann var náttúrulega ekkert sérstaklega ánægður með svona stelpudót en samt var þetta vinningur og merkilegur sem slíkur þannig að hann gat ekki alveg gefið skít í hann. Féllu þá þessi fleygu orð: „Guðrún, ef ég verð fullorðinn á undan þér þá mátt þú alveg eiga þessa dúkku!“

Eftir að allir voru búnir að fá nóg af tívolíinu (og öll veski orðin tóm!) héldum við göngu okkar um Enköping áfram þar til við rákumst á lítinn garð þar sem allir fundu eitthvað við sitt hæfi! Þar var nefnilega magnolíutré fyrir mig að mynda og rólur fyrir börnin!

Það er nú ekki amalegt að róla undir svona tré!

María í hæstu hæðum og með sólskinskrans í hári!

Feðgarnir brosa hvor til annars!

  

Börn í lausu lofti!

Hlátrasköllin í Huga hafa áreiðanlega heyrst um allan bæinn!!!

Enn ein svona ... og áður en þið spyrjið, já, ég er alltaf í þessari peysu!!!

Það myndi nú aldeilis passa vel við þessa mynd að ég skrifaði eitthvað um það hvað ég elska Einar mikið og þykir hann bestur í heimi en æ, það verður bara allt of væmið og kjánlegt þannig að ég sleppi því!!!

Magnolía, ein af milljón myndum sem ég á af akkúrat þessu blómi!

Rithöfundur og kirsuberjatré.

Á leiðinni í bílinn rákumst við á þennan litla en ofursæta garð! Almennt finnst mér Enköping dálítið svona dópistalegur bær en svo eru svona unaðsreitir inn á milli!

Hugi horfir rannsakandi á litla gosbrunninn en þorir ekki að fara of nálægt!

         

Gosbrunnurinn, ef gosbrunn skyldi kalla, virtist vera ágætis fuglabað og þangað flykktust þessar vængjuðu vinir mínir. Hér er dúfa að fá sér sopa.

María sýnir dýrgripina úr tívolíinu!

Maríuerlur eru uppáhaldsfuglarnir mínir ... alla vega með uppáhaldsfuglunum mínum! Þessi litla dúlla fékk sér smá vatnssopa og þarna fyrir aftan sést önnur maríuerla spígspora um. Mér þykir svo ótrúlega sætt þegar fuglar ganga í staðinn fyrir að fljúga og maríuerlur eru voðalega miklir trítlarar!

Vorboðinn ljúfi.

Okkur tókst mjög fljótlega að hrekja mæðgur nokkrar sem fyrir voru í garðinum á brott og áttum staðinn út af fyrir okkur sjálf eftir það.

María les í Alfinni Álfakóngi sem er hin formlega ferðalagabók hennar! Einar og Hugi njóta lífsins og síðdegissólarinnar.

Þarna var svo notalegt að sitja að mig langaði mest að fara ekki heim fyrr en orðið væri kalt og komið myrkur! Börnin höfðu hins vegar ekki alveg þolinmæði í það og svo þurfti ég líka að pissa!

En áður en við yfirgáfum garðinn tók María þessa fínu mynd af okkur foreldrunum. Aldeilis efnilegur ljósmyndari.

Hún tók líka þessa fínu mynd af gosbrunninum.

Og Hugi tók þessa af litlum bláum blómum í beði.

Ég hlakka nú þegar óstjórnlega til að heimsækja þennan fallega garð eftir nokkrar vikur og sjá hann í sumarskrúða!

Og héðan undan kirsuberjatrénu kveðjum við ykkur í bili lesendur góðir!