Kolmården 2008

Í blálok sumarfrísins skruppum við í dýragarðinn Kolmården sem er svolítið sunnan við Stokkhólm. Þar sem garðurinn er í nokkurri fjarlægð gistum við á fjölskylduhóteli eina nótt og áttum tvo góða daga í garðinum - enda veitir ekki af, hann er riiiisastór!

Við lögðum af stað eldsnemma á fimmtudagsmorgni og keyrðum sem leið lá á hótelið. Hótelið liggur alveg við dýragarðinn og bara steinsnar frá aðalinngangi þess er hægt að stíga um borð í kláf sem rúllar síðan í risastóran hring í kringum allan garðinn með nokkrum stoppistöðvum á leiðinni. Fyrst var ég nú hrædd um að börnin yrðu hrædd að vera í svona lausu lofti hátt yfir öllu en ég hef greinilega bara verið að yfirfæra minn eigin ótta á þau því þeim fannst þetta það skemmtilegasta sem við gerðum í dýragarðinum (og neyddumst við því til að fara allnokkrar ferðir í það heila!). Hér eru feðginin um borð, glöð í bragði. Þar sem spáð var hellirigningu báða dagana komum við vel búin í pollagöllum og gúmmístígvélum. Sem betur fer kom hins vegar ekki deigur dropi úr lofti allan tímann og við sluppum því að mestu við allan þennan gríðarlega útbúnað!

Hugi um borð í linbana!

Við ákváðum að fara úr kláfnum við nýjasta svæðið í garðinum, Marine World. Við héldum beint í Brådjupet en þar búa selir, sæbirnir og mörgæsir. Hér eru systkinin að vonast til að sjá nokkra félaga synda undir yfirborðinu.

Ekki varð þeim þó kápan úr því klæðinu þar sem íbúarnir lágu allir í mestu makindum á klöppum og klettum og tóku sér siestu.

Það er örugglega bara ágætt að vera selur í Brådjupet, svæðið er svo fallegt og svo fær maður nóg af alls kyns fiski!

Næst á dagskrá var að fá sér hádegismat. Við fengum sjúklega vonda hamborgara og í ofan á lag ofsóttu okkur geitungar. Það er einmitt vegna þeirra sem Hugi grætur svo sárt á myndinni. Ekki þó vegna þess að honum hafi þótt þeir of ágengir, nei nei - hann grætur svona voðalega mikið af því að honum þótti við María svo reiðar við geitungana!

Eftir vondu hamborgarana hýrnaði þó heldur betur yfir okkur því við skelltum okkur á höfrungasýningu! Hún var alveg frábær!!! Ég hef nú alltaf verið mjög veik fyrir svona sýningum en þessi var án efa sú skemmtilegasta sem ég hef séð! Ég fór næstum að grenja þegar höfrungarnir stukku upp í fyrsta sinn! Þeir eru líka bara svo ótrúlega miklar dúllur og einhvern veginn alltaf á svipinn eins og þeir séu svo rosalega spenntir fyrir því sem eigi að gerast næst, eins og þeir bara geti ekki beðið eftir að fá að gera fleiri skemmtilega hluti! Myndirnar sem við tókum eru auðvitað hörmulegar að gæðum, hreyfðar og dimmar, en þar sem við skemmtum okkur svo vel get ég ekki stillt mig um að birta nokkrar ... ég vona að þið umberið það!

Höfrungaknús! Sambandið milli þjálfaranna og höfrunganna var svo ótrúlega kærleiksríkt og fallegt, þær (þetta voru allt konur) brostu svo fallega til þeirra þegar þeir stóðu sig vel og milli atriða þegar myrkt var í salnum sá ég hvernig höfrungarnir lögðust á bakið í vatninu og létu þær strjúka sér á kviðnum.

Hér er mesta áhættuatriði sýningarinnar, sörfað á háhyrningsbaki!

Þessi mynd er voðalega dökk en þarna er einn háhyrningurinn að grípa rauðan bolta!

Sparkað í bolta!

Eftir svona skemmtilega höfrungasýningu er ekki annað hægt en að fá sér ís ...

... eða kaffi!

Úr Marine World héldum við í Tiger World (ég skil ekki alveg af hverju þetta heitir allt enskum nöfnum?!). Þegar okkur bar að garðu lágu tígrisdýrin á víð og dreif um svæðið og sváfu. Þessi á myndinni reyndi að vísu í smá stund að fá hin í einhvern leik en þegar það gekk ekki lagðist hann líka niður og sofnaði.

Eftir að hafa horft á tígrisdýrin sofa í góða stund vorum við að hugsa um að snúa við og halda á næsta stað en þegar við áttuðum okkur á að það styttist mjög í að dýrahirðir mætti á staðinn og segði lítillega frá tígrisdýrunum og svaraði spurningum ákváðum við að dvelja aðeins lengur.

Tígrisdýrasvæðið er ótrúlega flott uppsett. Þetta er eins og yfirgefin borg einhvers staðar í austri sem dýrin hafa tekið yfir og kannski bara étið alla íbúana! Það er svo hægt að horfa yfir svæðið úr ýmsum áttum og komast mjög nálægt dýrunum þar sem ekkert skilur á milli nema öryggisglerið.

Sem betur fer höfðum við ákveðið að hinkra aðeins því allt í einu, rétt áður en fyrirlesturinn átti að hefjast, vöknuðu tígrisdýrin öll með tölu og tóku að hreyfa sig um svæðið. Við höfum grun um að þau séu kannski vön að fá fæðu á þessum tíma en reyndar var föstudagur hjá þeim þennan dag, þau fá víst bara að borða á þriggja daga fresti til að viðhalda einhverjum svona náttúrulegum rytma.

ROOOOOOAAAR ... eða reyndar var hann nú bara að geispa greyið!

Eitt tígrisdýrið gerði sér lítið fyrir og stökk upp á bílinn sem stendur hálfur inni á tígrisdýrasvæðinu og hálfur inni á áhorfendasvæðinu. Fólkið tróð sér upp að glerinu og myndaði í gríð og erg!

Sem mikill kisuaðdáandi þykja mér tígrisdýr óskaplega sæt, finnst ég þekkja svo vel allar hreyfingar og stemmninguna í þeim, bara á aðeins minni stærðargráðu!

ROOOOOOOAAAR ... nei, djók, hann var aftur bara að geispa! Þarna erum við komin niður og þessi mynd er tekin í gegnum öryggisglerið, hinar voru allar teknar uppi á svölunum sem sjást þarna handan við tígrisdýrin.

Hefði glerið ekki skilið okkur að hefði ég getað klórað honum bak við eyrun ... eða hann étið mig!

 

Þessir tveir voru búnir að koma sér makindalega fyrir upp á fallna líkneskinu. Við vorum alveg ótrúlega ánægð með þessa skemmtilegu stund með fjörugum tígrisdýrum og hefðum alveg viljað skoða þau endalaust en Kolmården er stór og eins gott að halda vel á spöðunum ef maður ætlar að komast yfir allt!

Aparnir voru næstur á dagskrá. Ef vel er gáð má sjá simpansa á víð og dreif um þessa mynd.

Simpansarnir voru mjög fjörugir og léku listir sínar fyrir áhorfendur en górillurnar voru allar inni. Það var einmitt górilluunginn Enzo sem var aðalstjarna Kolmården árið sem við fluttum hingað til Svíþjóðar enda nýfæddur þá. Það voru myndir af honum um allt og varla hægt að hreyfa sig í Stokkhólmi án þess að lítill Enzo með bleiu brosti á móti manni. En nú hefur sem sagt farið fyrir Enzo eins og öðrum barnastjörnum, hann er flestum gleymdur og nennti ekki einu sinni að koma út að sýna sig enda sjálfasagt bara kominn í dópið!

Börnin voru orðin þreytt og fengu að kúra sig aðeins hjá pabba. Ég sat hins vegar og naut þess að fylgjast með því hvað við mannfólkið erum lík öpunum: þarna kúldruðust María og Hugi á Einari meðan litlu simpansaungarnir kúldruðust hjá sínum foreldrum, aparnir nörtuðu í lauf meðan mannfólkið naslaði á flögum og í báðum hópunum mátti finna aðila í þungum þönkum. Þessi samanburður tók þó skjótan endi og hætti alveg að vera sniðugur þegar ég fylgdist með einum apanum pissa í lófann á sér og drekka svo, aftur og aftur og aftur!!!

     

Krakkarnir fengu sér ís úr apabikar, Einar fékk sér ís í vöfflu en ég fékk mér bara kaffi.

Apahjónin Guðrún og Einar.

Apabörn að knúsast! Þeir eru nú voðalega krúttlegir, þrátt fyrir þetta með pissið og það allt!

Næst varð gresjan á vegi okkar. Þarna eru zebrahestar, antílópur og nashyrningar svo eitthvað sé nefnt. Þegar ég skoða þessa mynd núna um tveimur vikum eftir að ferðin var farin sé ég að miðað við hana lítur þetta nú bara svipað út og Húsdýragarðurinn. Þið verðið bara að trúa því þegar ég segi ykkur að svæðið er alveg risastórt og það var ótrúlega mikil upplifun að vera þarna!

Hugi var búinn að hlakka mest af öllu til að sjá nashyrningana! Og í Kolmården komst ég að því að hornin þeirra eru í raun samvaxin hár ... það hafði ég ekki hugmynd um! Reyndar voru bæði Einar og María með þetta á hreinu svo sennilega er það bara ég sem er svona illa upplýst.

Næst á dagskrá var hús sem sennilega er byggt tveimur ólíkustu dýrategundunum í garðinum, annars vegar fílum og hins vegar lemúrum (eða æ, þetta eru kannski ekki lemúrar en ég veit ekki hvað þetta dýr sem heitir surikat á sænsku heitir á íslensku). Hér er lemúramamma að gefa ungunum sínum að drekka. Ungarnir voru svo ótrúlega sætir og fjörugir að það hrúgaðist fólk að svæðinu þeirra til að dást að þeim.

Hinum meginn við ganginn var hins vegar fíll, greinilega ósáttur við að enginn skyldi sýna honum athygli því hann setti á svið ýmis skemmtiatriði. Meðal þess sem hann hélt greinilega að myndi alveg slá í gegn var þetta rana-atriði sem hann endurtók aftur og aftur. Ég vorkenndi honum dálítið þannig að ég fylgdist aðeins með sjóinu í smá stund ...

... en þá voru litlu lemúraungarnir komnir alveg upp að mér svo ég mátti bara til með að dást aðeins að þessum litlu hnoðrum!

Ætli maður gæti ekki alveg átt einn svona sem húsdýr?!

Hinum meginn við ganginn var fíllinn kominn með nýtt atriði í gang. Það fólst í því að hann krosslagði afturfæturnar á víxl og sveiflaði rananum fram og til baka. Æ, það kramdist alveg í mér hjartað að sjá hann svona einan eitthvað að reyna að gera flott þannig að ég endaði auðvitað á því að taka milljón myndir af honum svona til að hann fengi smá athygli! Já og það er best að ég taki það fram að þetta litla búr er ekki nema brot af svæði fílanna, þeir eiga stórt rými úti (bæði þar sem fólkið getur fylgst með þeim og svo þar sem þeir geta verið alveg í skjóli) og svo fleiri herbergi innanhúss fjarri augum áhorfenda!

Í eyðimörkinni fyrir utan fílahúsið stilltu úlfaldarnir sér upp fyrir bekkjarmyndatöku og sögðu síííííís! Þegar þarna var komið sögu styttist í að garðurinn lokaði þannig að við drifum okkur heim á hótel með kláfinum vinsæla.

Frá hótelherberginu vorum við með útsýni yfir skerjagarðinn. Hótelið er afskaplega fjölskylduvænt hótel með afrísku þema. Þarna eru leikherbergi fyrir börnin á öllum hæðum og standandi dagskrá fyrir þau frá morgni til kvölds. Fyrir þreyttar mömmur er hins vegar spa og þar átti ég einmitt pantaðan tíma hjá henni Veronicu eldsnemma morguninn eftir í meðferð sem kallast „Afríski demanturinn“!

Um kvöldið borðuðum við hlaðborð á veitingastað hótelsins. Krakkarnir máttu borða eins og þau gátu í sig látið af hamborgurum, pylsum, kartöflumús og pönnukökum. Þetta leist Maríu og Huga afar vel á. Við Einar borðuðum afrískt hlaðborð og fylgdumst skelfingu lostin með fjölskyldunni á næsta borði sem voru með einn nýfæddan grenjandi í vagni, einn tveggja ára grenjandi í mömmufangi og eina hágrenjandi unglingsstúlku sem pabbinn vissi greinilega ekkert hvernig hann ætti að hugga! Almennt fannst mér annars eftirtektarvert hversu margar konur virtust hafa komið við í Kolmården annars vegar á leiðinni á fæðingardeildina og hins vegar á leiðinni heim af fæðingardeildinni. Einhvern veginn hefði ég nú ekki treyst mér til að þramma um riiiisastóran dýragarð komin níu og hálfan mánuð á leið eða með tveggja klukkustunda gamalt barn! Reyndar held ég að Svíar séu fastir í einhverri svona sumarfríspressu. Það bara VERÐUR að gera eitthvað rosalega skemmtilegt á sumrin, ég tala nú ekki um þegar maður er kominn með börn. Þannig að þótt mamma sé kasólétt eða nýbúin að fæða er bara ekki hægt að svíkja hin börnin um dýragarðsferð eða annað fjör, það er jú ekki þeim að kenna að þau eignuðust systkini ... eller hur?

Eftir kvöldmat skelltu systkinin sér aðeins í leikherbergin. Þau byrjuðu á að prófa klifurvegg og skemmtu sér mjög vel.

Næst rákumst við inn á barnadiskó og það lifnaði heldur betur yfir Huga sem dreif sig beint út á dansgólfið og byrjaði að snúa sér í hringi með handleggina teygða út í loftið. Æ, hann var svo ótrúlega frjáls og fallegur eitthvað, ég vildi að þið hefðuð getað séð hann! Eftir nokkur augnablik áttaði hann sig hins vegar á því að María var ekki að dansa og þegar hann í þokkabót komst að því að henni þótti þetta smábarnalegt og kjánalegt settist hann líka niður og var alveg ófáanlegur út á gólfið aftur. Það er því enginn Hugi á þessari mynd en þið sjáið alla vega hversu ógnarmikið stuð var!

Í einu leikherberginu var gólfið þakið risastórum tuskudýrum og þar var bæði hægt að hoppa og kúra. Hér eru systkinin aðeins að hvíla sig hjá apapabba.

Hugi reyndi líka að leika eftir ýmis atriði úr höfrungasýningunni. Eftir leik, fjör og föndur var þó kominn tími til að fara að sofa enda allir þreyttir eftir laaaangan dag. Við sváfum öll vel og ég átti svo dásamlegan morgun í höndum Veronicu sem gaf mér bak- og hnakkanudd og andlitsmeðferð! Ég get því heilshugar mælt með Afríska demantinum við þá sem hyggjast eiga nótt á Vildmarkshotellet!

Dagskráin seinni daginn byrjaði á safariinu. Hlut af Kolmården er sem sagt safarigarður sem maður keyrir í gegnum á sínum eigin bíl. Það var nú nógu saklaust fyrst meðan við keyrðum í gegnum skandinavíu hlutann þar sem við sáum meðal annars þennan ótrúlega glæsilega krónhjört.

Næst tók gresjan við og þar hittum við til dæmis gíraffa ...

... og þessa sætu sem ég veit ekki hvað heita!

Næst tóku við ýmsi háfjalladýr eins og lama og geitur. Takið sérstaklega eftir steingeitinni þarna uppi á þaki!

Áður en við keyrðum inn á næsta svæði þurftum við að fara í gegnum tvöfalt öryggishlið! Þar tók hópur af úlfum á móti okkur, hnusuðu af bílnum og stríddu þess á milli birninum sem líka rölti í hægðum sínum yfir veginn. Við vorum alveg dolfallin yfir návíginu við dýrin sérstaklega þar sem við höfum margoft rýnt yfir úlfagryfjuna á Skansen án þess að sjá nokkuð meira en par af eyrum stingast upp fyrir stein. Úlfarnir eru alltaf sofandi þegar við komum þangað þannig að það var ótrúleg upplifun að sjá þá svona rosalega fjöruga. Það skiptir víst höfuðmáli hvenær dagsins maður hittir á dýrin, við vorum á ferðinni snemma að morgni og þá eru þau víst einna líflegust.

Brúnbirnirnir voru líka í fullu fjöri, röltu um svæðið ...

... og létu sig ekkert muna um að stoppa umferðina!

Á þessu augnabliki var ég næstum því orðin pínu skelkuð! Það er dálítið magnað að sjá skógarbirni strjúkast utan í bílinn hjá manni og ég óttaðist mest að hann myndi kannski bara stökkva upp á húddið!

Ljónin voru síðust á dagskrá en þau voru öll sofandi þannig að þar fengum við bara þetta hefðbunda „eyrnasjónarhorn“! Ég var reyndar pínulítið fegin!

  

Eftir safariið fórum við aftur inn í sjálfan dýragarðinn og við Einar og Hugi fengum okkur hádegismat hjá tígrisdýrunum. Eftir vondu hamborgarana daginn áður gerði ég mér ekki miklar vonir en núðlurnar sem ég fékk voru hins vegar svo góðar að mér þykir verst að þurfa að keyra í næstum þrjá tíma og borga morð og milljón inn í garðinn ef ég vil fá mér svoleiðis aftur! Hugi fékk sér hins vegar lax (ég er svoooo glöð að hann hafi ekki erft fiskifýluna frá mér!) og æfði sig að borða með prjónum!

María vildi ekki austurlenskan en skellti sér á pasta í Marine World í staðinn.

 Eftir að allir voru orðnir mettir og sumir búnir að fá ís fórum við svo aftur á höfrungasýninguna! Sú sýning var reyndar klukkutíma síðar en sú sem við höfðum farið á daginn áður og maður fann að höfrungarnir voru aðeins farnir að þreytast í seinna skiptið og farnir að reyna að sleppa dálítið billega! Einhverjir stálust til að sleppa bara úr sumum atriðunum í von um að fiskinn frítt en þjálfararnir höfðu augu í hnakkanum og gáfu ekki þumlung eftir í þeim efnum! Þrátt fyrir þessa óþekkt var seinni sýningin ekkert síðri, eiginlega bara skemmtilegra að fá að upplifa hin ýmsu persónueinkenni höfrunganna!

Við tókum svo ákvörðun um að sleppa alveg þeim hluta Kolmården þar sem norrænu dýrin eru enda höfum við séð þau svo oft á Skanse. Í staðinn enduðum við ferðina á sama stað og við byrjuðum hana, í Brådjupet. Þar eru selirnir og sæbirnirnir nefnilega með sýningu einu sinni á dag og höfrungaþjálfararnir sem höfðu skipt úr blautbúningunum voru mættir til að aðstoða þá. Hér er verið að dansa línudans!

Og hér er gengið á höndum! Sæbirnirnir voru svolítið öðruvísi skemmtikraftar en höfrungarnir, ekki alveg eins einbeittir en þeim mun áhugasamari. Þeir vour sífellt að klappa eða vinka eða bara að gera einhverjar kúnstir í von um að fá fisk að launum, jafnvel þótt það væri á alveg kolvitlausum stað í prógramminu!!!

Eftir að sýnignunni lauk tæmdist svæðið af gestum en við litla fjölskyldan sátum ein eftir og nutum kyrrðarinnar við Brådjupet. Það var svo mikil ró yfir selunum og sæbjörnunum og notalegt að heyra gjálfrið í vatsborðinu að við hefðum alveg verið til í að sitja þar fram á kvöld!

Við sáum strax að þessi hafði verið í Afríska demantinum, svo mikil var slökunin!!!

Mörgæsirnar (fyrir miðri mynd) virtust þó í nokkru uppnámi ...

... enda sennilega að leit að þessum tveimur strokuföngum sem komnir voru lengst í burtu og földu sig alveg í útjaðri svæðisins!

Ég held að það sé upplagt að ljúka albúminu með annarri mynd af þessum afslappaða sæbirni og ósk um að þið, lesendur góðir, upplifið sömu ró í sál og líkama. (Og ef ekki þá bendi ég á Veronicu og Afríska demantinn!)