Júníhelgi hjá fjölskyldunni á Bárugötu pimpíopöjur

Nýliðna helgi fengu María og Hugi svona hoppibolta að gjöf frá foreldrum sínum. Þar sem Maríu var boðið í afmæli sama dag var það Hugi einn sem prufukeyrði boltann í garðinum við Bárugötu pimpíopöjur. Það er einmitt hann sem á heiðurinn að þessu skemmtilega heiti á húsinu ... á sennilega að þýða „fimmtíu og fjögur“ ... en það er reyndar ekki einu sinni rétt húsnúmer!!!

Það tók hann nú smá tíma að fatta hvernig boltinn virkaði og fyrst hoppaði hann bara um með boltann milli hnjánna. Þetta kom þó allt á skömmum tíma!

Það var einstaklega fallegt veður úti þennan laugardag þó enn sé dálítið svalt í lofti. En ef maður er að hamast á hoppibolta er mesti óþarfi að vera í jakka utan yfir sig!

Hvað skyldi vera þarna uppi sem Hugi er svo spenntur fyrir?

Jú, þar sat Bjartur í glugganum og vældi ... þóttist sennilega langa út í sumarblíðuna líka. Hann verður þó alveg skíthræddur þá sjaldan við ákveðum að leyfa honum að fara út og hleypur eins og vindurinn beint inn aftur!

Það er ekki síður skemmtilegt að detta af hoppiboltanum ... eiginlega bara skemmtilegast!!!

Sætur að hanga á grindverkinu að fylgjast með mannlífinu í Bárugötu!

Og eins og glöggir menn taka eftir er loksins búið að klippa drenginn ... raunar þau systkinin bæði!

Feðgar í síðdegissólinni!

Daginn eftir hoppiboltaævintýrið var haldið í Húsdýragarðinn. Hér er fjölskyldan við hina vinsælu selalaug.

Þar var alveg ótrúlega lítill sætur kópur sem hérna horfir svo ástúðlega á mömmu sína. Myndin heitir „Móðurást“!

Huga og Maríu finnst svakalega gaman að komast í svona krakkahús og erfitt getur reynst að ná þeim út aftur!

Fjölskyldumynd af kindunum! Takið sérstaklega eftir þessari krúttlegu lengst til hægri sem er að klóra sér í eyranu með afturfætinum!

Sóleyjar í túni og hryssa með folald á spena ... það gerist ekki mikið fegurra. Myndin heitir „Móðurást“!

Þar sem við röltum þarna í rólegheitunum eftir stígum garðsins rak okkur skyndilega í rogastans. Úti á miðjum gangstíg mættum við litlum krúttlegum kiðlingi sem var þarna að spássera einn síns liðs! Hinar geiturnar voru í girðingu skammt frá og virtist þetta litla kið hafa sloppið þaðan og ákveðið að kanna heiminn!

Okkur leist hins vegar ekkert á að það færi að vappa þarna mikið um enda ýmsar hættur í Húsdýragarðinum! Bóndasonurinn lét sig því ekki muna um að fanga kiðlinginn og koma honum á réttan stað aftur. Við létum svo umsjónarmenn garðsins vita að öryggi geitanna væri nokkuð ábótavant! Í ljós kom að geiturnar áttu alls ekki að vera í þessari girðingu ... það hafði hins vegar einhver gleymt að loka hliði og þær sáu að grasið var að sjálfsögðu mun grænna hinum megin!!! Þar hafði enginn verið á beit í lengri tíma og grasið því safaríkt og ferskt! Strollan var því öll komin á kolrangan stað og þessi litla meira að segja sloppin þaðan líka! Sannarlega mikill ævintýradagur hjá geitunum!

Gæsir eru krútt ... alltaf eins og þær brosi í kampinn!

Hæna í runna ...

... og kærastinn á vappi!

Þótt ótrúlegt megi virðast á þessi líka kærustu ... að minnsta kosti var einhver kalkúnakella þarna líka!!!

Hér sitja systkinin á hlöðnum vegg og skemmta sér. Pabbinn var að gera eitthvað grín bak við mömmuna sem myndaði í gríð og erg!

Og það var hlegið og hlegið og hlegið!!!

Mamman (með úfið hár) og krúttin! María spurði mikið út í þennan litla garð fyrir aftan okkur og velti fyrir sér hvers vegna engar skepnur væru hafðar þar. Komst hún að þeirri skynsamlegu niðurstöðu að sennilega væri þetta skammarkrókur fyrir dýrin! Skrýtið að enginn skuli hafa sett geiturnar þangað!!!

Börnin að stríða mömmu sinni ... sem kann því bara vel!. Myndin heitir „Móðurást“!!!

Þessar verða svo að fá að fylgja með þó þær hafi verið teknar í maí! Ég fékk nefninlega flunkunýtt hjól í lok síðasta mánaðar! Einar splæsti á mig þessu glæsilega hjóli enda er ég búin að væla um það í mörg ár að ekki sé hægt að kaupa bara venjuleg svört hjól á Íslandi ... allt útvaðandi í þessum fjallahjólum!

Ég hafði ekki hjólað frá því ég var nýorðin ólétt að Maríu og ég var alveg búin að steingleyma hvað það er erfitt að hjóla ... minnti einhvern veginn að það væri svo auðvelt!!! Kannski það hafi haft sitt að segja að fyrstu hjólreiðaferðirnar voru farnar með tölvuna á bakinu og kannski svona fjórar bækur og svo aðrar sex bækur í körfunni að framan! Það fylgir því ægilegur farangur að skrifa ritgerðir ... ég vigtaði þetta einn daginn og var þá með 20 kg aukreitis á hjólinu! Nú eru hins vegar allar bækur komnar upp í hillu og talvan fær að vera í friði í vinnuherberginu næstu vikurnar ... og ég er komin í sumarfrí! Kannski við fjölskyldan förum þá að fara í hjólreiðatúra ... það er alla vega eftirlætissport Maríu og Huga!

Vonandi njótið þið komandi viku, kæru vinir!