Júnídagbók 2010  

 

Forsíða

Um okkur

Mín síða

Myndirnar okkar

Hafðu samband

Gestabókin okkar

 

30. júní 2010

Tvö ný albúm ...

... og nú er ég bara mánuði á eftir með myndirnar. Það liggur við að ég voni að það rigni allan júlí og ekkert markvert gerist svo ég taki nú örugglega fáar myndir og geti náð í skottið á mér! Eða nei annars, djók!

Sólskinsdagar

Fyrsti afmælisdagurinn

Næst verða það myndir úr sumarfríinu á Gotlandi!!!

 

27. júní 2010

Sígunaflokkurinn

Það er heilmikill munur að vera orðin fimm í fjölskyldunni í staðinn fyrir fjögur áður. Það var einhvern veginn allt svo viðráðanlegt þegar það voru bara við Einar með tvö stór, þæg og dugleg börn með okkur. Þótt Baldur Tumi sé agnarsmár er hann stundum á við tíu manns og svo er eins og við hin verðum allt í einu líka margföld í félagsskap við hann. Þetta verður sérstaklega áberandi þá sjaldan við bregðum okkur af bæ.

Um daginn skelltum við okkur til dæmis til Stokkhólms. Þar röltum við um, sinntum erindum og höfðum það almennt gott. Síðla dags var Baldur Tumi orðinn frekar stúrinn í kerrunni sinni og við reiknuðum það út að sennilega væri hann orðinn svangur. Við ákváðum því að tylla okkur inn á kaffihús, gefa honum að borða og næra okkur hin kannski eitthvað í leiðinni. Þegar við fórum að svipast um eftir ákjósanlegum stað áttuðum við okkur hins vegar á því að við værum sennilega í aðeins of fínu hverfi til að þar væru nokkur kaffihús sem tækju á móti fimm manna fjölskyldu frá Vänge. Einar gægðist inn á sæta franska creperiu en dæmdi það sem svo að þar væri hvorki pláss fyrir vagninn né stemmning fyrir pirruðu smábarni. Sem við stöndum þarna fyrir utan og ráðum ráðum okkar kemur þjónninn af creperiunni æðandi út og vill endilega fá okkur inn, segir að það sé nóg pláss fyrir vagninn og þetta verði ekkert mál. Við vorum enn full efasemda en þar sem það voru engir aðrir ákjósanlegri kostir í stöðunni ákváðum við að láta slag standa

Þegar við komum inn á creperiuna sjáum við að þar eru fimm gestir fyrir. Við eitt borð sitja þrjár miðaldra konur saman í fínum dröktum og skála í hvítvíni, við annað borð situr eldri kona með döpur augu og les í bók um sorgarferli og úti við gluggann er tággrönn, svartklædd kona á óræðum aldri með svartan hnífjafnan þvertopp og rauðan varalit. Að mér læðist sú tilfinning að þetta geti ekki farið vel. Þjónninn kemur með matseðlana og við byrjum að gefa Baldri Tuma að borða. Hann ormast um í fanginu á Maríu sem situr undir honum og ég finn augu annarra gesta brenna í hnakkanum á mér. Ég reyni að skemmta Baldri Tuma eins hljóðlega og hægt er til að halda honum góðum meðan hann borðar en honum virðist ekki finnast ég neitt skemmtileg og ormast nú um af öllu meiri krafti en áður. Svitinn tekur að renna niður bakið á mér í litlum lækjum. Baldur Tumi klárar matinn en skapið hefur ekkert skánað. Við Einar horfum örvæntingarfull hvort á annað og ákveðum að skipta á honum í von um að það bjargi einhverju. Feðgarnir hverfa inn á klósett og ég reyni að einbeita mér að matseðlinum og setja upp svip eins og allt sé í stakasta lagi. Skyndilega heyrist öskur innan af litla klósettinu. Ekkert venjulegut öskur heldur svona öskur þar sem röddin klofnar og hljómar með bæði undir- og yfirtóni. Hvítvínskonurnar stirðna í miðju skáli, sú dapra lítur sorgmædd upp úr bókinni og ég get svo svarið það að ég sé gneista úr augum þeirrar svartklæddu. Augljóslega ganga bleiuskiptingarnar ekki alveg nógu vel. Svitalæknirnir í leysingum. Ég skáskýt augunum í átt að vagninum og virði hann fyrir mér þar sem hann fyllir upp í ganginn, hlaðinn pokum og pinglum eftir innkaup dagsins. Pokar í körfunni, pokar hangandi á stýrinu og jafnvel ofan í vagninum sjálfum. Og upp úr pokunum gægist alls kyns dótarí, róla, lampaskermur, diskur og bolli. Ég sé að það lítur pínulítið út eins og við eigum hvergi heima og ökum glaðbeitt um götur borgarinnar með allar eigur okkar í þessum litla barnavagni. Eins og við séum lítill sígunaflokkur á ferð í gegnum borgina. Baldur Tumi öskrar enn inni á klósetti og við María og Hugi keppumst við að láta sem ekkert sé. Eftir að því er virðist heila eilífð koma feðgarnir út aftur, svitinn bogar af rjóðum Einari og tárin trilla niður kinnarnar á sárum Baldri Tuma. En hann er loksins hættur að öskra. Í eitt augnablik ímynda ég mér að nú sé þetta allt að fara að snúast til betri vegar. En nei. Við borðið vill Baldur Tumi bara leika með hnífa. Bara. Ekkert annað en að setja hnífa í munninn er ásættanlegt og þegar ég reyni að forða barninu frá bráðum bana og fjarlægja öll eggvopn byrjar hann að öskra aftur. Hefði ég átt eina ósk í lífinu á þessari stundu hefði ég notaða hana í að láta okkur hverfa! Við Einar horfum á hvort annað í uppgjöf og ákveðum að það sé best að skipta liði, hann fari með piltinn út og keyri hann um í vagninum í von um að hann sofni og þegar ég sé búin að borða skiptum við um hlutverk. Ég sé skelfingarsvipinn í augum þeirrar svartklæddu þegar Einar stendur upp og sýnist hún óttast að hann muni hvað úr hverju þrífa rauðar rósir upp úr einum pokanum og fara að bjóða henni til sölu. Jafnvel draga harmonikku innan úr skerminum og fara að spila fyrir klink. En Einar treður auðvitað bara vagninum og öskurapanum út við illan leik og creperian í heild sinni andar léttar. Allir nema ég. Ég sé mér þann kost vænstan í stöðunni að borða eins hratt og ég get til að leysa Einar af sem fyrst til að þjáningin taki enda hið snarasta. Meðan ég treð pönnukökunni upp í mig sé ég að sú dapra horfir á mig vorkunnaraugum og virðist telja að þetta sé fyrsta máltíðin sem ég hafi borðað í háa herrans öld. En mér er sama, á þessum tímapunkti er mér sama um allt annað en að komast burt. Svo ég gleypi í mig matinn meðan ég fyrirskipa Maríu og Huga að borða nógu hægt til að þau geti gert pabba sínum selskap þegar ég verð búin. Milli bitanna sé ég Einar bruna framhjá glugganum og vagninn eins og rauð elding á undan honum. Um leið og ég renni síðasta bitanum niður kemur hann inn og hefur þá svæft brjálæðinginn. En skaðinn er skeður. Mér líður eins og við séum hver og eitt okkar eigin litla eins manns hljómsveit. Með bassatrommu á bakinu, symbala milli hnjána, tambúrínur um úlnliði og ökkla, munnhörpu við varirnar. Að hver minnsta litla hreyfing eða hvísl framkalli óumræðilegan hávaða og hóti því að velta borðum og stólum um koll. Einar borðar sína pönnuköku næstum jafnhratt og ég og loksins, loksins, getum við troðist aftur út milli borðanna. Búmm búmm búmm. Tissj tissj tissj. Kling kling kling.

Á leiðinni heim í lestinni kemst aðeins ein hugsun að hjá mér: Aldrei aftur! En þá gellur við í Maríu og Huga: Þetta var skemmtilegasta kaffihús sem við höfum komið á. Þangað verðum við að fara í öllum Stokkhólmsferðum héðan í frá! Ó boj!

Nokkrar myndir úr einmitt þessari ferð má annars finna hér:

Dagur í Stokkhólmi

Búmm búmm tissj!

 

6. júní 2010

Einmitt núna

Sólin skín, sírenurnar standa í blóma, bæði úti á runnum og inni í öllum vösum, könnum og glösum sem hægt var að draga fram.

Í stofunni dansa María og Baldur Tumi við undirleik Einars sem spilar „Ég langömmu á“ á harmonikkuna.

Hugi er í afmæli, öðru af tveimur sem hann er boðinn í í dag. Það átti að taka sundskýlu með.

Ég  var að enda við að setja inn enn meiri myndir:

Loksins vor

Allt er gott.

 

Forsíða      Um okkur      Mín síða      Myndirnar okkar      Hafðu samband      Gestabókin okkar