Júnídagbók 2009    

 

 

Forsíða

Um okkur

Mín síða

Myndirnar okkar

Hafðu samband

Gestabókin okkar

 

22. júní 2009

Gamlar syndir og nýjar myndir

Maímánuður fór svolítið fyrir ofan garð og neðan hjá mér. Helming hans lá ég á sjúkrahúsi og gat um lítið annað hugsað en veikindi og væntanlega fæðingu ... já og svo Lilla eftir að hann var kominn. Það var því ýmislegt sem fórst fyrir hér á Okkar síðu þann mánuðinn. Til að vefurinn haldi heimildagildi sínu ákvað ég að bæta fyrir þessar gömlu syndir þótt seint væri og setja inn allt það efni sem misfórst í maí.

Hér er maímyndin! Þetta er ein af örfáum myndum í bókinni þar sem systkinin þrjú eru ekki í aðalhlutverki. Hér eru það villtu vorblómin sem dansa á engjunum, blåsippor og vitsippor, gullvivor, liljekonvalje og fjólur. Og yfir öllu saman vakir frú Björk.

Og fyrst ég er á annað borð farin að birta mánaðarmyndir er eins gott að ljúka bara júní af líka!

Ekkert einkennir sænska sumarið jafnmikið og að baða! Hér hefur mamman róið með systkinin í einhverja fallega vík þar sem þau geta buslað og synt daglangt. Dásamlegt!

Svo átti ég alltaf eftir að setja inn síðustu maímyndirnar áður en við urðum fimm manna fjölskylda:

Nokkrar maímyndir

Og þar sem að ég veit að flestir lesendur vilja heldur sjá nýjar myndir af Lilla en gamlar myndir af okkur hinum er hér heilt albúm tileinkað honum!

Fimm á Konsulentvägen

Púff, mikið er gott að vera búin að ljúka þessu af!

 

14. júní 2009

Í dag

er áætlaður fæðingardagur litla míns. Í dag þykir mér tilhugsunin að ég væri hér með risakúlu að bíða spennt eftir fyrstu verkjunum alveg út í hött. Að ég hefði ekki enn nokkra einustu hugmynd um hvernig litla barnið mitt liti út, vissi ekki enn hver hann væri ... nei, hugurinn nær ekki einu sinni utan um það.

Í dag veit ég að ég fékk heimsins besta Lilla! Hann er bæði nákvæmlega eins og ég hélt að hann væri meðan ég gekk með hann og líka allt öðruvísi. Ég var allan tímann sannfærð um að þetta yrði rólegt og yfirvegað barn, að hann yrði lítill en sterkur. Það hefur staðið heima. En hann lítur eiginlega allt öðruvísi út en ég ímyndaði mér, er svo bjartur yfirlitum og svo fíngerður. Þótt það megi alveg þekkja drög héðan og þaðan finnst okkur Einari báðum að hann sé alveg ný útgáfa, svo mikið hann sjálfur bara.

Í staðinn fyrir að fæðast notaði Lilli tímann í dag í að lesa leiðara og drekka morgunkaffi með pabba sínum:

Fleiri myndir væntanlegar!

 

5. júní 2009

Loksins, loksins!

Hér er það, fyrsta myndaalbúmið með Lilla Einarssyni í aðalhlutverki:

Fæðing og fyrstu dagar Lilla

Við hérna á Okkar síðu vonum að lesendur taki þessa töf ekki óstinnt upp og viljum taka það fram að seinkunin er ekki tilkomin vegna skorts á kærleika okkar í þeirra garð heldur vegna skorts ákveðins ungs manns á ásættanlegum svefnstöðum þar sem brjóst er ekki í um það bil 10 cm radíus!

Takk fyrir allar fallegu kveðjurnar elsku fólk, okkur þykir svo ótrúlega vænt um þær! Mikið vildum við óska að við ættum von á ykkur öllum í heimsókn til að skoða ungherrann eða í versta falli að við mættum eiga von á að rekast óvænt á ykkur í bæjarferðum með vagninn á næstu vikum. Ef það er eitthvað sem ég hef lært á dvöl í öðru landi er það að því dásamlegri sem hlutirnir eru þeim mun sterkari er löngunin að fá að deila þeim með öllum sem manni þykir vænst um. Og núna vildi ég óska þess svo heitt að ég gæti deilt með ykkur mjúkum táslum, agnarsmáum fingrum, litlum eyrum og þeim undursamlegustu augum sem ég hef litið. Augum sem bera það svo sannarlega ekki með sér að hafa bara skoðað heiminn í rúma viku heldur virðast þvert á móti fela í sér alla heimsins visku og þekkja öll leyndarmál lífsins. Í bili verða þó regluleg myndaalbúm og nokkur fátækleg orð að duga til að miðla þessu öllu til ykkar.

Núna verð ég hins vegar að stökkva til að kíkja hvort hann er ekki örugglega jafnsætur og áður en ég fór í tölvuna!

 

Forsíða      Um okkur      Mín síða      Myndirnar okkar      Hafðu samband      Gestabókin okkar