Júnídagbók 2008 

 

 

Forsíða

Um okkur

Mín síða

Myndirnar okkar

Hafðu samband

Gestabókin okkar

 

28. júní 2008

Klukkan er fimmtán mínútur í fimm. Eldingum lýstur niður úr þykkum, öskurgráum skýjabólstrum og þrumur drynja í fjarska. Skuggar eplatrjánna sveiflast í vindinum. Í garðinum röltir einmana kráka en annars sjást engin merki um líf.

Ef ég væri persóna í skáldsögu væru voveiflegir atburðir nokkuð örugglega í uppsiglingu.

 

23. júní 2008

Klöguhornið

Ég var búin að skrifa hér langan pistil þar sem ég kvartaði yfir ömurlegri netþjónustu bankans míns þegar ég fattaði að þrátt fyrir gremju mína langar mig ekki að umbreyta þessari síðu í klöguhorn. Mig langar ekki heldur að segja ykkur hvað ég er óendanlega pirruð yfir því að þessi sami banki hafi þar að auki útvegað okkur nýjan þjónustufulltra. Þjónustufulltrúa sem er staddur í 40 mínútna akstursfjarlægð frá okkur í krummaskuði í annarri kommúnu sem við höfum aldrei komið til! Ég ætla ekki heldur að segja ykkur frá uppnámi mínu yfir því að öll tré hafi verið felld á lóðamörkum okkar og næsta húss þar sem stendur til að byggja nýja eign og þess vegna horfum við nú af nýju, fínu stéttinni okkar beint yfir malarhauga, einangrunardúka og skólprör. Og ég þegi alveg yfir því hvað ég er ömurlega svekkt út í frístundaheimili Vänge skola sem þykir ekkert eðlilegra en að stía börnunum mínum í sundur og virðist þar að auki hafa tekist að telja fólki trú um að það sé eiginlega bara betra að börnin þeirra eigi alveg aðskilið líf innan veggja sömu stofnunar! &%#"/%&$#/&!"#!$

Nei, mig langar bara að sýna ykkur nýjar myndir:

Sumarvindar

P.s. Eru ekki einhver laun í boði á himnum fyrir að kvarta ekki undan smámunum ... eða eitthvað svoleiðis?!

 

16. júní 2008

Amma mín

Amma mín er besta amma í heimi og stór hluti æskuminninga minna er tengdur henni og Sóleyjargötunni. Þegar við frændsystkinin vorum agnarsmá ruggaði hún okkur í vagni í bakgarðinum og út um eldhúsgluggann fylgdist hún svo með því hvort það rigndi nokkuð inn á okkur og lagði jafnvel kápuna sína yfir vagnskerminn ef svo bar undir. Hún gaf okkur fiskibollur eða mjúkan fisk í raspi í hádeginu og heimabakað vínarbrauð eða steiktar kleinur með kaffinu. Hún prjónaði á okkur peysur og húfur og saumaði handa okkur alls kyns ævintýraleg leikföng sem enginn annar átti. Og hún var óþreytandi að deila með okkur sinni dýrmætustu visku: endalausri þekkingu á hannyrðum og handavinnu. Hún kenndi okkur að hekla boltanet, prjóna dúkkuföt og sauma krosssaumspúða og hún leyfði okkur að hamast á gömlu saumavélinni hennar langömmu í rauða herberginu. Hún leiðbeindi okkur, ráðlagði, hvatti, bjargaði föllnum lykkjum og þræddi óteljandi nálar.

Milli alls þessa sat hún sjálf og saumaði út. Frá því ég man eftir mér hefur amma setið með gleraugun á nefbroddinum á slitnum stól undir suðurglugganum í stofunni á Sóló í björtu skini frá gráum járnlampa og bróderað. Þessi sýn skipaði svo fastan sess í tilveru minni að ég hugsaði lengi framan af ekkert út í það hvað hún væri alltaf að sauma. Smám saman vætlaði þó inn meðvitund um að þetta væru veggteppi enda gat það svo sem ekki farið fram hjá manni hvernig ný og ný teppi voru hengd upp á litríka veggi Sóleyjargötunnar. Það hefur hins vegar ekki verið fyrr en nú á síðustu árum að ég hef áttað mig almennilega á því hversu stórkostleg listaverk urðu til þarna fyrir augunum á mér í skini gráa lampans. Því teppin hennar ömmu eru engin venjuleg útsaumsstykki. Fyrir það fyrsta styðst hún aldrei við forskrift. Hún hannar teppin sjálf og við gerð þeirra steypir hún saman mótífum héðan og þaðan: úr myndskreytingum fornra handrita, úr listaverkum víðsvegar að úr heiminum, af ljósmyndum, frá atburðum í lífi sínu, úr náttúrunni sem er henni svo kær og jafnvel texta úr ljóðum. Úrvinnsla hennar á menningararfinum er sú merkilegasta sem ég hef nokkru sinni komist í tæri við og væri í sjálfu sér verðugt rannsóknarefni. Í ofan á lag hefur hún ótrúlega næmt auga fyrir formi og litum og verkin hennar eru uppfull af einstakri hlýju og dýpsta kærleika en stundum í bland við nístandi sorg og söknuð.

Ég hef reynt svo oft að lýsa þessum verkum fyrir fólki að ég get auðveldlega fullyrt að þau eru í raun ólýsanleg! Einhvern veginn er alveg sama hvað maður segir, hugmyndir fólks eru ævinlega bundnar gamalli konu að bródera og fólk virðist ekki geta séð fyrir sér að slíkt geti verið merkilegt. En veggteppin hennar ömmu eru ekkert annað en listaverk (þótt hún gangist reyndar alls ekki við því sjálf!). Þau eru sköpuð af sama tilfinningahita, þrá og fegurðarnæmi og öll önnur list. Eini munurinn er sá að í stað málningar er garn, í stað pensils saumnál.

Á laugardaginn var opnuð sýning á veggteppunum hennar ömmu á æskustöðvum hennar í Garðinum. Á laugardaginn var ég í senn stolt, sorgmædd og þakklát. Stolt af að eiga svona undursamlega og hæfileikaríka ömmu, sorgmædd yfir að geta ekki tekið þátt í deginum með henni en svo óendanlega þakklát fyrir að hafa þó fengið að hafa öll þessi listaverk fyrir augunum undanfarin ár og áratugi, þekkja þau út og inn og hafa hvenær sem er tækifæri til að dást að þeim. Og þakklát fyrir að loksins fái einhverjir aðrir að bera þennan fjársjóð augum en við fjölskyldan! Ég hvet því alla til að leggja leið sína í Gerðaskóla í Garði sem er í afskaplega mátulegri sunnudagsbíltúrafjarlægð frá Reykjavík (keyrt eins og leið liggur í átt að Keflavíkurflugvelli en beygt á viðeigandi stað út úr hringtorgi skömmu áður en komið er að flugstöðinni). Sýningin er opin á morgun (á sjálfan þjóðhátíðardaginn), næstu helgi (21. og 22. júní) og að öllum líkindum þarnæstu helgi líka (28. og 29. júní), alltaf frá klukkan 14-17.

Á myndinni hér að ofan sem mamma var svo góð að senda mér sést amma mín, Guðrún Guðmundsdóttir, við opnun sýningarinnar á laugardaginn og hér að neðan er ein mynd frá sýningunni sjálfri.

Myndin gerir verkunum auðvitað ekki nándar nærri góð skil en uppáhaldsteppið mitt, María Magdalena við kross Krists, sést þó ágætlega þarna lengst til vinstri.

Nú þegar hafa nokkur hundruð manns séð sýningina og mér skilst að hver sé öðrum heillaðri og að jafnvel kröfuharðir myndlistamenn fullyrði að þetta sé besta listasýning sem þeir hafi séð til margra ára. Ég er auðvitað ekkert hissa. Ég er hins vegar alveg viss um að þið, kæru vinir, yrðuð hissa að sjá með berum augum hvað ein lítil og gömul kona getur gert með eina litla saumnál.

 

9. júní 2008

María skrifar:

Fjör í garðinum.

Ég og Hugi erum búin að vera mjög mikið í sundlögini og í sólbaði til skiftis þessa helgi vegnaþess að það hevur verið svog heitt undanfærna daga. Og pabbi er ní búin að leggja stéttina semað á að vera undir garðhúsgögnin okkar. En!akkúrad núna þegar ég sit hér og skrifa þá er komin lítill og sætur boddgöltur í garðin  OKKAR!!! og han kom meira að sega að fá sér að drekka.

Það eru komnar níar mindir á heimasíðuna.

I denna ljuva sommartid

 

 

Forsíða      Um okkur      Mín síða      Myndirnar okkar      Hafðu samband      Gestabókin okkar