Júnídagbók 2007  

 

Forsíða

Um okkur

Mín síða

Myndirnar okkar

Hafðu samband

Gestabókin okkar

 

29. júní 2007

Póstkort frá Íslandi

Bakkastöðum, 29. júní 2007

Elsku vinir.

Við sendum ykkur okkar bestu kveðjur héðan frá Reykjavík, borg hinna óteljandi möguleika! Hér er hægt að gera allt það sem hugurinn girnist. Á þessum tæpu tveimur vikum frá því við komum hef ég meðal annars gert eftirfarandi: Drukkið mikið af langþráðu Kaffitárskaffi, keypt ný dönsk glanstímarit, dáðst að fallegum skóm, bæði í búðum og á fótum reykvískra meyja og fengið valkvíða yfir því hvaða skópar ég ætti nú að kaupa mér áður en ég fer af landi brott. Ég er búin að byrgja mig upp af bókum og tónlist á íslensku. Ég hef hlustað á söng spóans, lóunnar og hrossagauksins, baðað mig í geislum sólarinnar ... og klætt mig í peysuna þegar næsta vindhviða kemur. Ég er líka búin að mæla mér mót við vini í sólinni og fá símhringingar og sms frá enn fleirum. Ég er meira að segja búin að hitta fólk sem er mér kært af hreinni tilviljun á götum borgarinnar. Og ég er búin að tala á íslensku ... mikið!

Þetta getur bara gerst í hinni stórkostlegu borg Reykjavík, borg tækifæranna, borginni þar sem allt getur gerst! Fyrir utan borgardvölina erum við líka búin að dvelja í tvo daga í íslenskri sveit (myndir af því má sjá með því að smella á framhlið póstkortsins hér fyrir ofan). Þar stungum við okkur ofan í heitan pott, fléttuðum blómakransa úr fjalldalafíflum, smjörgrasi, blágresi og sóleyjum, dáðumst að Heklu og sofnuðum við lækjarnið.

Enn eigum við þó eftir að gera eitt og annað, fá útrás fyrir ýmsar þrár sem hafa smám saman magnast upp með okkur síðastliðið ár. Til þess höfum við tvær vikur í viðbót!

Bestu kveðjur frá hinu stórkostlega landi elds og ísa, ykkar vinir Guðrún Lára, Einar Þór, María og Hugi.

 

16. júní 2007

Brandarakeppni Konsulentsins

Okkar síða kynnir með stolti Brandarakeppni Konsulentsins. Þátttakendur eru fjórir, María, Hugi, bíllinn okkar og veðrið. Hafa allir þessir grínistar keppst við að vera fyndnir undanfarna viku og hefur ritstjórn því ákveðið að láta lesendur síðunnar velja besta brandarann.

María - Okkur foreldrunum þykir hin undarlega árátta Maríu að skilgreina allt eftir litum alltaf jafnfyndin. Fyrir nokkrum dögum sátum við hjónaleysin við eldhúsborðið og ræddum fjármálin. Sú stutta kom aðvífandi, tók sér stöðu við borðbrúnina og fylgdist þögul með umræðunum í dálitla stund. Eftir að hún hafði hlýtt á tal okkar í nokkrar mínútur stundi hún upp úr eins manns hljóði : „O-ó, þetta stefnir í blágrátt samtal!“, sneirst svo á hæli og strunsaði burt!!!

Hugi - Á leiðinni á leikskólann einn morguninn: „Mamma, þegar ég eignast lítinn bróð þá ætla ég að gefa honum kanilbulla og mjólk. Og þegar ég á að passa hann ætla ég að lesa fyrir hann sögu og hjálpa honum að byggja eitthvað dót. Og svo ætla ég alltaf að leiða hann með mér. Og ég er búin að segja Liam að hann megi alls ekki lemja hann.“ Já, það er betra að vera með þetta allt niðurneglt þótt enginn „bróð“ sé væntanlegur ... hvað þá „syst“!!!

Bíllinn -  Bíllinn okkar hefur tvisvar sinnum bilað þannig að hann hafi verið í algjörlega óökuhæfu ástandi. Í fyrra skiptið vorum við að sækja mömmu á Arlandaflugvöll þegar bíllinn fór ekki í gang og ekki var um annað að ræða en að kalla á bílaflutningamann sem kom honum á verkstæði í Märsta sem er í góðri hálftíma lestarfjarlægð frá heimabæ okkar Uppsölum. Eins og það sé ekki nógu pirrandi að bíllinn bili þá er fullkomlega óþolandi að það gerist þegar maður er staddur einhvers staðar lengst í burtu, nánar tiltekið á stað þar sem ekki er gert ráð fyrir að bílum sé lagt lengur en í hálftíma, að það þurfi að hífa hann um borð í bílaflutningabíl og koma honum á verkstæði svo langt í burtu að það tekur okkur hálfan vinnudag, tvo strætóa og eina lest að sækja hann þangað.

Í síðustu viku bilaði bíllinn aftur, eitthvað hjól tengt rafgeyminum brotnaði og sargaði í ofan á lag sundur viftureimina. Og hvar vorum við stödd þegar þetta gerðist? Hvar nema á Arlandaflugvelli!!! Og hvert var bíllinn fluttur? Jú, á fjandans verkstæðið í Märsta!!!

Veðrið - Í síðustu viku lék veðrið við okkur, hitinn var í kringum 30° dag eftir dag, ekki ský á himni og blankalogn. Á fimmtudaginn var hins vegar skýjað og rigning og í eftirmiðdaginn gerði svo mikið rok að sólhlífin á pallinum okkar tókst á loft, sveif upp úr steypufætinum sem á að halda henni kyrri og tók borðið okkar með sér á leið sinni yfir handriðið og út í garð! Það kom sprunga eftir endilöngu borðinu, þrjár sperrur á sólhlífinni brotnuðu og tjaldið sjálft rifnaði. Um kvöldmatarleytið kom svo haglél!!!

Og nú spyrjum við: Hver þessa fjögurra uppistandara á besta grínið?! Vinsamlegast leggið atkvæði ykkar í kommentakerfið!

P.s. Ég er búin að setja inn gommu af nýjum myndum:

     
Sumarhátíð og útskrift                  Sumar á Konsulentvägen                         Dömudagar        

 

4. júní 2007

Í dag er ég glöð af því að ...

... þegar ég vaknaði í morgun var húsið skínandi hreint, engin brauðmylsna eða sandur á gólfunum, bara gljáfægt parket og ajaxilmur í lofti. Víðsvegar í húsinu eru litlir blómavendir úr garðinum, angandi sírenur í ýmsum litum, sem taka vel á móti manni þegar gengið er milli herbergja.

... þegar ég var búin að skila börnunum af mér í morgun settist ég út í lundinn og svolgraði í mig ískalt sódavatn og bókmenntafræðilega visku í sólinni.

... ég keypti mér tvo sæta sumarkjóla í bænum í dag, á helmingsafslætti! Einn grænn, gylltur og hvítur kjóll, einn hvítur, svartur og rauður kjóll á tæpar 3000 íslenskar krónur samtals!!!

... eftir bara fjóra daga fæ ég loksins að hitta litlu frænku mína hana Svanhildi Margréti og litlu vinkonu mína hana Freyju aftur eftir langan aðskilnað! Þetta eru sko æðislegar stelpur get ég sagt ykkur og ekki eru mömmur þeirra, þær Þórunn og Eva sem fylgja munu ungfrúnum hingað, neitt síðri! Ferfalt húrra fyrir þessum fjórum dömum!!!

... ég er sólbrún á nefinu og með stuttermabolafar eftir að hafa slegið garðinn síðustu helgi!

... það er fátt dásamlegra en að fylgjast með börnunum sínum leika sér kát og glöð í sólinni. Nei, ég held hreinlega að ekkert jafnist á við það ... ekki einu sinni kjólar á niðursettu verði! Sjáiði bara hvað þau eru yndisleg:

Sullumbull

Í dag er svo ógnarskemmtilegt að vera ég!

 

Forsíða      Um okkur      Mín síða     Myndirnar okkar       Hafðu samband      Gestabókin okkar